SAGA 52
Eldher Jehóva
Benhadad konungur Sýrlands var alltaf að ráðast á Ísrael. En Ísraelskonungurinn slapp í hvert skipti af því að Elísa spámaður varaði hann við. Benhadad ákvað þess vegna að ræna Elísa. Hann komst að því að Elísa var í borginni Dótan og sendi sýrlenska herinn þangað til að handtaka hann.
Það var nótt þegar Sýrlendingarnir komu til Dótan. Um morguninn fór þjónn Elísa út og þá sá hann að það var stór her hringinn í kringum borgina. Hann varð dauðhræddur og kallaði: ‚Elísa! Hvað eigum við að gera?‘ Elísa sagði við hann: ‚Það eru fleiri með okkur en með þeim.‘ Þá lét Jehóva þjón Elísa sjá fullt af eldhestum og eldvögnum í fjöllunum í kringum borgina.
Þegar sýrlensku hermennirnir reyndu að grípa Elísa bað hann: ‚Jehóva, gerðu þá blinda.‘ Hermennirnir gátu enn þá séð en allt í einu vissu þeir ekkert hvar þeir voru. Elísa sagði við hermennina: ‚Þið eruð ekki í réttri borg. Komið með mér. Ég skal fara með ykkur til mannsins sem þið eruð að leita að.‘ Þeir fóru með Elísa alla leið til Samaríu, þangað sem konungurinn í Ísrael bjó.
Sýrlendingarnir föttuðu allt of seint hvar þeir voru. Konungurinn í Ísrael spurði Elísa: „Á ég að drepa þá?“ Notaði Elísa tækifærið til að hefna sín á þessum mönnum sem ætluðu að fara illa með hann? Nei. Elísa sagði: ‚Ekki drepa þá. Gefðu þeim að borða og sendu þá svo aftur heim.‘ Konungurinn gaf þeim mikinn veislumat og sendi þá síðan heim til sín.
„Við berum það traust til Guðs að hann heyri okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:14.