SAGA 60
Ríki sem verður alltaf til
Eina nótt dreymdi Nebúkadnesar konung skrýtinn draum. Hann hugsaði svo mikið um drauminn að hann gat ekki sofið. Hann kallaði á galdramennina sína og sagði við þá: ‚Útskýrið fyrir mér drauminn minn.‘ Þeir sögðu: ‚Segðu okkur hvað þig dreymdi, konungur.‘ En Nebúkadnesar svaraði: ‚Nei! Segið þið mér hvað mig dreymdi, annars drep ég ykkur.‘ Þeir sögðu aftur: ‚Segðu okkur hvað þig dreymdi og þá skulum við segja þér hvað draumurinn þýðir.‘ Hann sagði: ‚Þið eruð allir að reyna að plata mig. Segið mér hvað mig dreymdi!‘ Þeir sögðu við konunginn: ‚Það er ekki hægt. Enginn maður getur gert það sem þú ert að biðja um.‘
Nebúkadnesar var svo reiður að hann skipaði að það ætti að drepa alla galdramennina og vitringana í landinu, en þar á meðal voru Daníel, Sadrak, Mesak og Abed Negó. Daníel spurði konunginn hvort hann mætti fá smá tíma til að komast að því um hvað draumurinn var. Síðan báðu hann og vinir hans Jehóva um að hjálpa sér. Hvað gerði Jehóva?
Jehóva lét Daníel sjá draum Nebúkadnesars í sýn og sagði honum hvað draumurinn þýddi. Daginn eftir fór Daníel og sagði við þjón konungsins: ‚Ekki drepa neinn af vitringunum. Ég get útskýrt drauminn.‘ Þjónninn fór með Daníel til Nebúkadnesars. Daníel sagði við konunginn: ‚Guð hefur sýnt þér hvað gerist í framtíðinni. Þetta er það sem þig dreymdi: Þú sást risastóra styttu. Hausinn var úr gulli, bringan og hendurnar úr silfri, maginn og lærin úr kopar, fótleggirnir úr járni og fæturnir úr járni og leir sem var blandað saman. Síðan losnaði steinn úr fjallinu og lenti á fótunum á styttunni. Styttan molaðist í duft og fauk út í veður og vind. Steinninn varð að stóru fjalli sem náði um alla jörðina.‘
Daníel hélt áfram og sagði: ‚Þetta er það sem draumurinn þýðir: Ríkið þitt er hausinn úr gulli. Silfrið er ríkið sem kemur á eftir þér. Síðan kemur ríki sem verður eins og kopar og það mun ríkja um alla jörðina. Næsta ríki þar á eftir verður sterkt eins og járn. Að lokum kemur ríki sem verður tvískipt og verður að sumu leiti sterkt eins og járn og að sumu leiti veikt eins og leir. Steinninn sem verður að fjalli er ríki Guðs. Það mun mola öll þessi ríki en verða sjálft til að eilífu.‘
Nebúkadnesar beygði sig fyrir Daníel og sagði: ‚Guðinn þinn sýndi þér þennan draum. Það er enginn guð eins og hann.‘ Í staðin fyrir að drepa Daníel gerði Nebúkadnesar hann að yfirmanni yfir öllum vitringunum og stjórnanda í Babýlon. Tókstu eftir hvernig Jehóva svaraði bæn Daníels?
„Þær söfnuðu þeim saman á staðinn sem á hebresku kallast Harmagedón.“ – Opinberunarbókin 16:16.