SAGA 94
Lærisveinarnir fá heilagan anda
Tíu dögum eftir að Jesús fór aftur til himna fengu lærisveinar hans heilagan anda. Það var hvítasunnudagur árið 33 og fólk frá mörgum stöðum hafði komið til Jerúsalem til að halda upp á hvítasunnuna. Um 120 lærisveinar Jesú voru saman á efri hæð í húsi. Allt í einu gerðist dálítið mjög sérstakt. Mikill hávaði varð inni í húsinu, eins og það væri stormur. Eitthvað sem leit út eins og litlir eldslogar birtust yfir höfðinu á lærisveinunum og þeir byrjuðu allir að tala mismunandi tungumál.
Gestir sem höfðu komið til Jerúsalem frá öðrum löndum heyrðu hljóðið og hlupu að húsinu til að sjá hvað var að gerast. Þeir voru steinhissa þegar þeir heyrðu lærisveinana tala þessi tungumál. Þeir sögðu: ‚Þetta fólk er frá Galíleu. Hvernig getur það talað tungumálin okkar?‘
Þá stilltu Pétur og hinir postularnir sér upp fyrir framan hópinn. Pétur sagði fólkinu hvernig Jesús hafði verið drepinn og að Jehóva hafði reist hann upp frá dauðum. Pétur sagði: ‚Núna er Jesús á himnum og situr hægra megin við Guð. Og hann hefur gefið okkur heilaga andann sem hann var búinn að lofa. Þess vegna eru þessi kraftaverk, sem þið heyrið og sjáið, að gerast.‘
Það sem Pétur sagði hafði mikil áhrif á fólkið og það spurði: „Hvað eigum við að gera?“ Hann svaraði: ‚Þið þurfið að sjá eftir að hafa syndgað og láta skírast í nafni Jesú. Þá fáið þið líka heilagan anda að gjöf.‘ Það létu um 3.000 skírast á þessum degi. Eftir þetta fóru lærisveinarnir í Jerúsalem mjög hratt að verða fleiri og fleiri. Heilagur andi hjálpaði postulunum að gera fleiri söfnuði svo að þeir gætu kennt lærisveinunum allt sem Jesús sagði þeim að þeir ættu að kenna þeim.
„Ef þú lýsir yfir með munni þínum að Jesús sé Drottinn og trúir í hjarta þínu að Guð hafi reist hann upp frá dauðum bjargast þú.“ – Rómverjabréfið 10:9.