SAGA 95
Ekkert gat stoppað þá
Í Jerúsalem var maður sem gat ekki gengið. Hann sat á hverjum degi við musterishlið og betlaði. Einn dag sá hann Pétur og Jóhannes fara inn í musterið. Hann sagði við þá: ‚Viljið þið gefa mér eitthvað?‘ Pétur sagði: ‚Ég á svolítið til að gefa þér sem er betra en peningar. Ég segi þér í nafni Jesú: Stattu upp og labbaðu.‘ Svo reisti Pétur hann á fætur og hann fór að labba! Fólkið var svo ánægt að sjá þetta kraftaverk að margir fóru að trúa.
En prestarnir og saddúkearnir urðu reiðir. Þeir tóku postulana, fóru með þá til æðstaráðsins og spurðu: ‚Hver gaf ykkur kraft til að lækna þennan mann?‘ Pétur sagði: ‚Við fengum kraft frá Jesú Kristi, sem þið drápuð.‘ Trúarleiðtogarnir öskruðu: ‚Hættið að tala um Jesú!‘ En postularnir sögðu: ‚Við verðum að tala um hann. Við ætlum ekki að hætta.‘
Pétur og Jóhannes fóru um leið og þeim var sleppt til hinna lærisveinanna og sögðu þeim hvað hafði gerst. Þeir báðu saman til Jehóva og sögðu: ‚Hjálpaðu okkur að vera hugrakkir svo að við getum haldið áfram að vinna verkefnið sem þú gafst okkur.‘ Jehóva gaf þeim heilagan anda og þeir héldu áfram að boða trúna og lækna fólk. Fleira og fleira fólk fór að trúa. Saddúkearnir voru svo öfundsjúkir að þeir handtóku postulana og hentu þeim í fangelsi. En um nóttina sendi Jehóva engil sem opnaði fangelsið og sagði við postulana: ‚Farið aftur í musterið að kenna.‘
Daginn eftir fékk Æðstaráðið þessi skilaboð: ‚Fangelsið er enn þá læst en mennirnir sem þið handtókuð eru farnir. Þeir eru í musterinu að kenna!‘ Postularnir voru handteknir aftur og það var farið með þá til Æðstaráðsins. Æðstipresturinn sagði: ‚Við bönnuðum ykkur að tala um Jesú!‘ En Pétur svaraði: „Okkur ber að hlýða Guði frekar en mönnum.“
Trúarleiðtogarnir voru svo reiðir að þeir vildu drepa postulana. En farísei sem hét Gamalíel stóð upp og sagði: ‚Passið ykkur. Kannski er Guð með þessum mönnum. Viljið þið í alvörunni berjast við Guð?‘ Þeir hlustuðu á hann. En áður en þeir leyfðu postulunum að fara börðu þeir þá samt með prikum og bönnuðu þeim aftur að boða trúna. En það stoppaði ekki postulana. Þeir voru hugrakkir og héldu áfram að boða fagnaðarboðskapinn bæði í musterinu og hús úr húsi.
„Okkur ber að hlýða Guði frekar en mönnum.“ – Postulasagan 5:29.