SAGA 101
Páll er sendur til Rómar
Þriðja boðunarferð Páls endaði í Jerúsalem. Þar var hann handtekinn og honum hent í fangelsi. Jesús sagði við hann í sýn um nóttina: ‚Þú átt eftir að fara til Rómar og boða trúna þar.‘ Farið var með Pál frá Jerúsalem til Sesareu og þar var hann í fangelsi í tvö ár. Páll sagði þegar Festus landstjóri ætlaði að dæma hann: ‚Ég vil að keisarinn í Róm dæmi mig.‘ Festus sagði: „Þú hefur skotið máli þínu til keisarans og til keisarans skaltu fara.“ Farið var með Pál á skip sem var á leiðinni til Rómar og tveir trúbræður hans, Lúkas og Aristarkus, fóru með honum.
Þeir lentu í ofsaveðri á sjónum og það hélt áfram í marga daga. Það héldu allir að þeir myndu deyja. En Páll sagði: ‚Menn, engill sagði mér í draumi: „Ekki vera hræddur, Páll. Þú ferð til Rómar og allir á skipinu með þér bjargast.“ Verið hugrakkir. Við munum ekki deyja.‘
Það var ofsaveður í 14 daga. Loksins sáu þeir í land. Það var eyja sem heitir Malta. Skipið strandaði og brotnaði í sundur. En allir 276 sem voru á skipinu komust öruggir í land. Sumir syntu og aðrir héldu sér í planka af skipinu og flutu í land. Fólkið á Möltu tók á móti þeim og kveikti eld til að hlýja þeim.
Þrem mánuðum seinna fóru hermennirnir með Pál á öðru skipti til Rómar. Trúsystkinin tóku á móti honum þegar hann kom þangað. Það var uppörvandi fyrir Pál að sjá þau og hann þakkaði Jehóva. Þó að Páll væri fangi mátti hann búa í húsi sem hann leigði og vörður passaði hann. Hann var þar í tvö ár. Fólk kom að heimsækja hann og hann talaði við það um Guðsríki og sagði því frá Jesú. Páll skrifaði líka bréf til safnaðanna í Litlu-Asíu og Júdeu. Það er alveg ljóst að Jehóva notaði Pál til að boða fagnaðarboðskapinn í mörgum löndum.
„Við sýnum á allan hátt að við erum þjónar Guðs með miklu þolgæði, í raunum, í skorti, í erfiðleikum.“ – 2. Korintubréf 6:4.