Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es22 bls. 77-87
  • Ágúst

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ágúst
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Mánudagur 1. ágúst
  • Þriðjudagur 2. ágúst
  • Miðvikudagur 3. ágúst
  • Fimmtudagur 4. ágúst
  • Föstudagur 5. ágúst
  • Laugardagur 6. ágúst
  • Sunnudagur 7. ágúst
  • Mánudagur 8. ágúst
  • Þriðjudagur 9. ágúst
  • Miðvikudagur 10. ágúst
  • Fimmtudagur 11. ágúst
  • Föstudagur 12. ágúst
  • Laugardagur 13. ágúst
  • Sunnudagur 14. ágúst
  • Mánudagur 15. ágúst
  • Þriðjudagur 16. ágúst
  • Miðvikudagur 17. ágúst
  • Fimmtudagur 18. ágúst
  • Föstudagur 19. ágúst
  • Laugardagur 20. ágúst
  • Sunnudagur 21. ágúst
  • Mánudagur 22. ágúst
  • Þriðjudagur 23. ágúst
  • Miðvikudagur 24. ágúst
  • Fimmtudagur 25. ágúst
  • Föstudagur 26. ágúst
  • Laugardagur 27. ágúst
  • Sunnudagur 28. ágúst
  • Mánudagur 29. ágúst
  • Þriðjudagur 30. ágúst
  • Miðvikudagur 31. ágúst
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
es22 bls. 77-87

Ágúst

Mánudagur 1. ágúst

„Án mín getið þið ekkert gert.“ – Jóh. 15:5.

Aðeins nánir vinir Jesú njóta gagns af lausnarfórn hans. Jesús sagði að hann myndi ,leggja lífið í sölurnar fyrir vini sína‘. (Jóh. 15:13) Trúfast fólk sem var uppi áður en Jesús kom til jarðar á eftir að þurfa að kynnast honum og læra að elska hann. Það verður reist upp til lífs á ný, en jafnvel þessir trúföstu þjónar Jehóva þurfa að tengjast Jesú vináttuböndum til að öðlast eilíft líf. (Jóh. 17:3; Post. 24:15; Hebr. 11:8–12, 24–26, 31) Við erum þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna með Jesú við að boða og kenna fagnaðarboðskapinn um ríkið. Hann var kennari þegar hann var á jörðinni. Og hann hefur haldið áfram að stýra boðunar- og kennslustarfinu sem höfuð safnaðarins eftir að hann sneri aftur til himna. Hann tekur eftir og kann að meta viðleitni þína til að hjálpa eins mörgum og þú getur til að kynnast honum og föður hans. Við getum reyndar ekki unnið þetta verk nema með hjálp Jehóva og Jesú. – Jóh. 15:4. w20.04 22 gr. 7, 8

Þriðjudagur 2. ágúst

Báðir konungarnir munu snæða saman en ræðast þó við af fláttskap. – Dan. 11:27.

Titlarnir „konungur norðursins“ og „konungur suðursins“ áttu upphaflega við um stjórnmálaöfl sem voru fyrir norðan og sunnan Ísraelsland. (Dan. 10:14) Ísraelsmenn voru þjóð Guðs fram á hvítasunnu árið 33. Þaðan í frá gaf Jehóva hins vegar skýrt til kynna að hann leit á trúfasta lærisveina Jesú sem þjóð sína. Þess vegna á stór hluti spádómsins í 11. kafla Daníelsbókar við um fylgjendur Krists en ekki Ísraelsþjóðina. (Post. 2:1–4; Rómv. 9:6–8; Gal. 6:15, 16) Mismunandi stjórnendur hafa gengt hlutverki konunganna tveggja í gegnum tíðina. En þeir eiga allir ýmislegt sameiginlegt. Í fyrsta lagi höfðu konungarnir afgerandi áhrif á þjóna Guðs. Í öðru lagi sýndu þeir með framkomu sinni við þjóna Guðs að þeir hötuðu Jehóva, hinn sanna Guð. Og í þriðja lagi börðust konungarnir tveir um völd. w20.05 3 gr. 3, 4

Miðvikudagur 3. ágúst

„Ég verð það sem ég kýs að verða.“ – 2. Mós. 3:14, NW.

Jehóva hrindir vilja sínum í framkvæmd með því að verða hvaðeina sem til þarf. Hann getur líka látið ófullkomna þjóna sína á jörð verða það sem þarf til að þjóna honum og koma vilja hans til leiðar. (Jes. 64:7) Jehóva lætur fyrirætlun sína ná fram að ganga með þessum hætti. Ekkert getur komið í veg fyrir að hann láti vilja sinn verða. (Jes. 46:10, 11) Við getum fengið enn meiri mætur á himneskum föður okkar með því að hugleiða það sem hann hefur afrekað og það sem hann hefur gert okkur fær um að gera. Við fyllumst lotningu þegar við virðum fyrir okkur undur sköpunarverksins, allt það sem Jehóva hefur skapað og búið til. (Sálm. 8:4, 5) Og við fyllumst djúpri virðingu fyrir Jehóva þegar við ígrundum það sem hann hefur gert okkur fær um til að vilji hans nái fram að ganga. Nafnið Jehóva er magnþrungið! Það felur í sér allt sem faðir okkar er, allt sem hann hefur gert og allt sem hann ætlar að gera. – Sálm. 89:8, 9. w20.06 9–10 gr. 6, 7

Fimmtudagur 4. ágúst

Guð gefur öllum líf og andardrátt og alla hluti. – Post. 17:24, 25.

Súrefni er lífsnauðsynleg gastegund sem sumar lífverur nýta, þar á meðal við mennirnir. Áætlað hefur verið að lifandi verur andi að sér hundrað milljörðum tonna af súrefni á hverju ári. Þær anda síðan frá sér úrgangsefni sem kallast koldíoxíð. En andrúmsloftið verður aldrei snautt af súrefni og mettað koldíoxíði. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva skapaði plöntur – allt frá stórum trjám niður í örsmáa þörunga – sem taka til sín koldíoxíð og breyta því í súrefni. Guð gefur þannig „öllum líf og andardrátt“ með mjög bókstaflegum hætti eins og fram kemur í versi dagsins. Hvernig getum við orðið enn þakklátari fyrir hina undraverðu plánetu okkar og náttúruauðlindir hennar? (Sálm. 115:16) Við getum til dæmis hugleitt það sem Jehóva hefur skapað. Það knýr okkur til að þakka Jehóva daglega fyrir allt hið góða sem hann gefur okkur. Við sýnum líka þakklæti okkar með því að leggja okkar af mörkum til að halda umhverfi okkar hreinu. w20.05 22 gr. 5, 7

Föstudagur 5. ágúst

„Ég mun helga mitt mikla nafn sem hefur verið vanhelgað á meðal þjóðanna.“ – Esek. 36:23.

Jehóva brást við árásum Satans með visku, þolinmæði og réttlæti. Hann hefur einnig sýnt á ótal vegu að hann er almáttugur. Síðast en ekki síst endurspeglast kærleikur hans í öllu sem hann gerir. (1. Jóh. 4:8) Jehóva hefur unnið þrotlaust að því að helga nafn sitt. Satan heldur áfram að kasta rýrð á nafn Jehóva. Hann fær fólk til að efast um að Jehóva sé máttugur, réttlátur, vitur og kærleiksríkur. Hann reynir til dæmis að telja fólki trú um að Jehóva sé ekki skapari alheims. Ef fólk trúir á annað borð að Guð sé til reynir Satan að telja því trú um að lífsreglur hans séu strangar og ósanngjarnar. Hann kennir fólki jafnvel að Jehóva sé harðbrjósta og grimmur Guð sem kvelji fólk í logum helvítis. Ef fólk trúir þessum rógi aukast líkurnar á að það stígi næsta skref – að hafna réttlátri stjórn hans. Satan hættir ekki fyrr en hann er gersigraður. Hann reynir líka að vinna þig á sitt band. Tekst honum það? w20.06 5 gr. 13–15

Laugardagur 6. ágúst

„Þá skiptir engu máli hvort maður er Grikki eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýþi, þræll eða frjáls því að Kristur er allt og í öllum.“ – Kól. 3:11.

Í mörgum söfnuðum eru bræður og systur sem glíma við að læra nýtt tungumál. Þeim gæti fundist erfitt að tjá hugsanir sínar í orðum. En ef við horfum fram hjá því hvernig þau tala sjáum við að þau elska Jehóva og vilja þjóna honum. Ef við gefum gaum að fallegum eiginleikum þeirra munum við virða þessi trúsystkini og meta þau mikils. Þá hugsum við ekki: „Ég þarf ekki á ykkur að halda,“ einfaldlega út af því að þau hafa ekki náð góðum tökum á málinu. (1. Kor. 12:21) Jehóva hefur veitt okkur þann mikla heiður að hafa hlutverki að gegna í söfnuði hans. Við erum öll dýrmæt í augum hans og í augum hvert annars, hvort sem við erum karlar eða konur, einhleyp eða gift, ung eða gömul eða hvort sem við tölum málið vel eða höfum mjög takmarkaða kunnáttu í því. (Rómv. 12:4, 5; Kól. 3:10) Við skulum alltaf meta hlutverk okkar og hlutverk annarra í söfnuði Jehóva. w20.08 31 gr. 20–22

Sunnudagur 7. ágúst

„Nokkrir fylgdu honum og tóku trú.“ – Post. 17:34.

Páll postuli boðaði Aþeningum trúna þó að þeir dýrkuðu skurðgoð, stunduðu kynferðislegt siðleysi og aðhylltust heimspeki heiðingja. Hann lét ekki heldur móðganir þeirra sem hann boðaði trúna draga úr sér kjarkinn. Páll hafði sjálfur gerst kristinn þótt hann hefði áður verið „guðlastari, ósvífinn og ofsótt fólk Guðs“. (1. Tím. 1:13) Páll trúði því að Aþeningar gætu orðið lærisveinar rétt eins og Jesús trúði því að Páll gæti það. Og Aþeningar brugðust ekki vonum. (Post. 9:13–15) Fólk sem gerðist lærisveinar Jesú á fyrstu öld var með ólíkan bakgrunn. Þegar Páll skrifaði kristnum mönnum í grísku borginni Korintu sagði hann að sumir í söfnuðinum hefðu eitt sinn verið glæpamenn eða lifað mjög siðlausu lífi. Síðan bætti hann við: „En þið hafið hreinsast.“ (1. Kor. 6:9–11) Hefðir þú séð fyrir þér að þetta fólk myndi breytast og gerast lærisveinar? w20.04 12 gr. 15, 16

Mánudagur 8. ágúst

Mál er nú að þú takir líf mitt. – 1. Kon. 19:4.

Öldungar ættu ekki að vera fljótir að dæma þá sem fara að efast um gagnið af því að þjóna Jehóva. Í stað þess að sakfella þá þurfa þeir að reyna að skilja hvers vegna þeir tala og hegða sér eins og raun ber vitni. Þá geta þeir notað Biblíuna til að uppörva þá og hvetja. Elía spámaður flúði undan Jesebel drottningu. (1. Kon. 19:1–3) Honum fannst vinna sín vera til einskis og hann langaði að deyja. (1. Kon. 19:10) Í stað þess að sakfella Elía fullvissaði Jehóva hann um að hann væri ekki einn. Elía var líka fullvissaður um að hann gæti treyst á mátt Jehóva og að það væri enn mikið verk fyrir hann að vinna. Jehóva hlustaði vingjarnlega á Elía segja frá áhyggjum sínum og gaf honum ný verkefni. (1. Kon. 19:11–16, 18) Hvað getum við lært af þessu? Við ættum öll, sérstaklega öldungarnir, að koma vingjarnlega fram við þjóna Guðs. Hvort sem einhver tjáir reiði sína eða honum finnst að Jehóva geti aldrei fyrirgefið sér ættu öldungarnir að hlusta á hann þegar hann úthellir hjarta sínu. Síðan reyna þeir að fullvissa hinn óvirka um að Jehóva elski hann. w20.06 21–22 gr. 13, 14

Þriðjudagur 9. ágúst

„Vinur lætur aldrei af vináttu sinni.“ – Orðskv. 17:17.

Jehóva vill að við eigum ánægjulegar stundir með fjölskyldu og vinum. (Sálm. 133:1) Jesús átti góða vini. (Jóh. 15:15) Biblían lýsir því hve gott er að eiga sanna vini. (Orðskv. 18:24) Og hún segir að það sé ekki gott að einangra sig. (Orðskv. 18:1, NW) Mörgum finnst samfélagsmiðlar góð leið til að eignast marga vini og til að verða ekki einmana. En við verðum þó að vera varkár þegar við notum þessa samskiptaleið. Rannsóknir sýna að þeir sem nota mikinn tíma í að skoða færslur á samfélagsmiðlum geta orðið einmana og þunglyndir. Hvers vegna? Ein ástæðan gæti verið að fólk setur oft myndir af sérstökum viðburðum inn á samfélagsmiðla. Það sýnir valdar myndir af sjálfu sér, vinum sínum og spennandi stöðum sem það hefur heimsótt. Þeim sem skoðar þessar myndir gæti fundist líf sitt frekar venjulegt, jafnvel leiðinlegt í samanburði við myndirnar. w20.07 5–6 gr. 12, 13

Miðvikudagur 10. ágúst

Postularnir og öldungarnir komu saman til að líta á þetta mál. – Post. 15:6.

Í Varðturninum 1. október 1988 segir: „Öldungarnir munu gera sér ljóst að Kristur getur beitt heilögum anda til að leiðbeina huga hvaða öldungs sem er í öldungaráðinu til að benda á þá meginreglu Biblíunnar sem þarf til að mæta sérhverjum aðstæðum eða til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. (Post. 15:7–15) Enginn einn öldungur innan ráðsins hefur einkarétt á anda Guðs.“ Öldungur sem ber virðingu fyrir samöldungum sínum reynir ekki alltaf að vera sá fyrsti til að tjá sig á öldungafundum. Hann yfirgnæfir ekki aðra í umræðum og honum finnst sín skoðun ekki alltaf sú rétta. Aftur á móti tjáir hann hug sinn af auðmýkt. Hann hlustar vandlega þegar aðrir tjá sig. Og það sem meira máli skiptir er að honum er mikið í mun að ræða meginreglur Biblíunnar og fylgja leiðbeiningum ,hins trúa og skynsama þjóns‘. (Matt. 24:45–47) Ef öldungar sýna hver öðrum kærleika og virðingu þegar þeir ræða málin verður heilagur andi Guðs til staðar og hjálpar þeim að taka réttar ákvarðanir. – Jak. 3:17, 18. w20.08 27 gr. 5, 6

Fimmtudagur 11. ágúst

„Sigraðu alltaf illt með góðu.“ – Rómv. 12:21.

Óvinir Páls postula voru miklu sterkari en hann. Þeir létu oft berja hann og fangelsa. Og svokallaðir vinir Páls komu líka illa fram við hann. Sumir í kristna söfnuðinum snerust meira að segja gegn honum. (2. Kor. 12:11; Fil. 3:18) En Páll lét ekkert af þessu buga sig. Hvernig fór hann að því? Hann hélt áfram að boða trúna þrátt fyrir andstöðu. Hann sýndi bræðrum sínum og systrum hollustu, líka þegar þau ollu honum vonbrigðum. Og umfram allt var hann trúfastur Guði allt til dauða. (2. Tím. 4:8) Hann gat ekki tekist á við allt þetta vegna þess að hann var líkamlega sterkur heldur vegna þess að hann treysti á Jehóva. Þarft þú að þola smán eða andstöðu? Markmið okkar er að láta orð Guðs snerta huga og hjarta þeirra sem eru móttækilegir fyrir því. Þú getur það með því að nota Biblíuna til að svara spurningum fólks, sýna þeim virðingu og góðvild sem koma illa fram við þig og gera öllum gott, líka óvinum þínum. – Matt. 5:44; 1. Pét. 3:15–17. w20.07 18 gr. 14, 15

Föstudagur 12. ágúst

„Lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ – 2. Sam. 22:36, Biblían 1981.

Er Jehóva virkilega auðmjúkur? Já, hann er það. Davíð staðfesti það í versi dagsins. (Sálm. 18:36) Þegar Davíð skrifaði þetta hugsaði hann kannski til dagsins þegar Samúel spámaður kom heim til föður hans til að smyrja næsta konung Ísraels. Davíð var yngstur af átta bræðrum en var samt sá sem Jehóva valdi til að verða konungur í stað Sáls. (1. Sam. 16:1, 10–13) Davíð myndi örugglega taka undir með sálmaritaranum sem sagði um Jehóva: „[Hann] horfir djúpt. Hver er sem hann á himni og á jörðu? Hann reisir lítilmagnann úr duftinu ... og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum.“ (Sálm. 113:5–8) Jehóva sýnir auðmýkt í samskiptum sínum við ófullkomna menn. Hann hefur ekki aðeins velþóknun á tilbeiðslu okkar heldur lítur hann líka á okkur sem vini sína. (Orðskv. 3:32) Jehóva tók frumkvæðið og fórnaði syni sínum til að við gætum eignast vináttusamband við sig. Hvílík miskunn og hvílík samúð sem hann hefur sýnt okkur! w20.08 8 gr. 1–3

Laugardagur 13. ágúst

Jehóva vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast. – 2. Pét. 3:9.

Jehóva hefur ákveðið daginn og stundina sem hann ætlar að binda enda á þennan illa heim. (Matt. 24:36) Hann verður ekki óþolinmóður og tekur ekki í taumana fyrir þann tíma. Hann þráir að reisa upp þá sem eru dánir, en hann er þolinmóður. (Job. 14:14, 15) Hann bíður eftir réttu stundinni til að gefa þeim líf á ný. (Jóh. 5:28) Við höfum ærna ástæðu til að vera þakklát fyrir þolinmæði Jehóva. Hugleiddu eftirfarandi: Þar sem Jehóva er þolinmóður hafa margir, þar á meðal við, haft tíma til að iðrast. Jehóva vill að sem flestir fái tækifæri til að öðlast eilíft líf. Við skulum því sýna að við erum þakklát fyrir þolinmæði hans. Hvernig? Með því að leggja okkur einlæglega fram um að finna þá sem ,hafa það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘ og kenna þeim að elska Jehóva og þjóna honum. (Post. 13:48) Þá njóta þeir góðs af þolinmæði hans rétt eins og við höfum gert. w20.08 18 gr. 17

Sunnudagur 14. ágúst

„Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.“ – Sálm. 25:4.

Það sem nemandi lærir á biblíunámskeiði ætti ekki aðeins að höfða til huga hans heldur líka hjartans. Hvers vegna? Hjarta okkar – sem nær yfir langanir okkar og tilfinningar – knýr okkur til verka. Kennsla Jesú var rökrétt og fólk kunni að meta hana. En fólk fylgdi honum vegna þess að hann snart einnig hjörtu þess. (Lúk. 24:15, 27, 32) Jehóva þarf að vera raunverulegur í augum nemanda þíns, sá sem nemandinn getur tengst vináttuböndum og litið á sem föður sinn, Guð og vin. (Sálm. 25:5) Beindu athygli nemandans að aðlaðandi eiginleikum Guðs meðan á kennslunni stendur. (2. Mós. 34:5, 6; 1. Pét. 5:6, 7) Sama hvert umræðuefnið er skaltu beina athygli nemandans að því hvers konar persóna Jehóva er. Hjálpaðu honum að vera þakklátur fyrir yndislega eiginleika Jehóva – kærleika hans, góðvild og umhyggju. Jesús sagði að „mesta og æðsta boðorðið“ væri að „elska Jehóva Guð“. (Matt. 22:37, 38) Reyndu að glæða einlægan kærleika nemandans til Jehóva. w20.10 10 gr. 12

Mánudagur 15. ágúst

„Jesús elskaði Mörtu og systur hennar og Lasarus.“ – Jóh. 11:5.

Jesús sýndi öllum konum virðingu. (Jóh. 4:27) Jesús bar hins vegar sérstaka virðingu fyrir konum sem gerðu vilja föður hans. Það er eftirtektarvert að hann skyldi nefna bæði karla og konur þegar hann sagði hverja hann áleit hluta af andlegu fjölskyldu sinni. (Matt. 12:50) Jesús var líka sannur vinur þeirra. Tökum sem dæmi vináttu hans við Maríu og Mörtu, en svo virðist sem þær hafi báðar verið einhleypar. (Lúk. 10:38–42) Þeim leið augljóslega vel í návist Jesú vegna þess hvernig hann talaði og kom fram við þær. Maríu fannst ekki óþægilegt að sitja við fætur hans eins og lærisveinn. Og Marta var ófeimin við að segja Jesú hvað henni lá á hjarta þegar systir hennar hjálpaði ekki til við matargerðina. Við þessar óformlegu aðstæður kenndi Jesús þeim báðum mikilvæg sannindi. Og hann sýndi að sér þótti vænt um þessar konur og bróður þeirra Lasarus með því að heimsækja þau líka við önnur tækifæri. (Jóh. 12:1–3) Það kemur því ekki á óvart að María og Marta skyldu leita til Jesú til að fá hjálp þegar Lasarus veiktist alvarlega. – Jóh. 11:3. w20.09 20 gr. 3; 21 gr. 6

Þriðjudagur 16. ágúst

„Þeir héldu að ríki Guðs myndi birtast þegar í stað.“ – Lúk. 19:11.

Lærisveinar Jesú vonuðust til að ríki Guðs myndi „birtast þegar í stað“ og frelsa þá undan kúgun Rómverja. Við þráum að sjá þann dag þegar ríki Guðs afmáir illsku og kemur á nýjum og réttlátum heimi. (2. Pét. 3:13) En við verðum að vera þolinmóð og bíða eftir tilsettum tíma Jehóva. Jehóva gaf Nóa nægan tíma til að byggja örkina og þjóna sem ,boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5; 1. Pét. 3:20) Jehóva hlustaði á Abraham þegar hann spurði hann aftur og aftur út í ákvörðun hans um að eyða spilltum íbúum borganna Sódómu og Gómorru. (1. Mós. 18:20–33) Hann sýndi ótrúrri Ísraelsþjóðinni ótrúlega mikla þolinmæði í margar aldir. (Neh. 9:30, 31) Við sjáum þolinmæði Jehóva nú á dögum þar sem hann gefur öllum sem hann dregur til sín „tækifæri til að iðrast“. (2. Pét. 3:9; Jóh. 6:44; 1. Tím. 2:3, 4) Fordæmi Jehóva gefur okkur góða ástæðu til að sýna þolinmæði þegar við boðum trúna og kennum fólki. w20.09 10 gr. 8, 9

Miðvikudagur 17. ágúst

Guð mun reisa upp bæði réttláta og rangláta. – Post. 24:15.

Fólk sem Jehóva reisir upp mun hafa sömu minningar og persónuleika og það hafði áður. Hugleiðum hvað það felur í sér. Jehóva elskar þig svo mikið að hann tekur eftir og man allt sem þú hugsar, segir og gerir og hvernig þér líður. Ef hann þyrfti að reisa þig upp frá dauðum myndi hann auðveldlega geta endurskapað þig nákvæmlega eins og þú varst. Davíð konungur vissi vel hversu mikinn áhuga Jehóva hefur á hverju og einu okkar. (Sálm. 139:1–4) Hvaða áhrif getur það haft á okkur að skilja hversu vel Jehóva þekkir okkur? Það ætti ekki að valda okkur áhyggjum að hugleiða hversu vel hann þekkir okkur. Hvers vegna? Munum að Jehóva er innilega annt um okkur. Hann kann að meta þau persónueinkenni sem gera okkur sérstök. Hann tekur eftir öllu sem hefur mótað okkur á lífsleiðinni. Það er mjög hughreystandi! Okkur ætti aldrei að finnast við vera ein. Jehóva er við hlið okkar allar stundir alla daga og tilbúinn að hjálpa okkur. – 2. Kron. 16:9. w20.08 17 gr. 13, 14

Fimmtudagur 18. ágúst

„Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ – Sálm. 32:8.

Jehóva hefur mikla ánægju af að kenna þjónum sínum. Hann vill að þeir þekki hann, elski hann og lifi að eilífu sem elskuð börn hans. Ekkert af því væri hægt án kennslunnar sem hann gefur okkur. (Jóh. 17:3) Jehóva notaði frumkristna söfnuðinn til að kenna þjónum sínum. (Kól. 1:9, 10) Heilagur andi – „hjálparinn“ sem Jesús lofaði – gegndi lykilhlutverki í því. (Jóh. 14:16) Hann hjálpaði lærisveinunum að skilja orð Guðs og minnti þá á allt það sem Jesús sagði og gerði, en það var seinna skrifað í guðspjöllin. Þessi þekking styrkti trú kristinna manna á fyrstu öld og jók kærleika þeirra til Guðs, til sonar hans og hver til annars. Jehóva sagði fyrir að „á hinum síðustu dögum“ (Biblían 1981) myndi fólk af öllum þjóðum safnast saman á táknrænu fjalli hans til að fá kennslu um vegu hans. (Jes. 2:2, 3) Við sjáum þennan spádóm rætast núna. w20.10 24 gr. 14, 15

Föstudagur 19. ágúst

„Hinn hyggni þiggur hollráð.“ – Orðskv. 1:5.

Hvað gæti orðið til þess að einhver hafnaði góðum ráðum frá kærleiksríkum vini? Stolt. Þeir sem eru stoltir vilja „heyra það sem kitlar eyrun“. Þeir ,hætta að hlusta á sannleikann‘. (2. Tím. 4:3, 4) Þeir líta of stórt á sjálfa sig og eigin skoðanir. Páll postuli skrifaði: „Sá sem heldur sig vera eitthvað en er þó ekkert blekkir sjálfan sig.“ (Gal. 6:3) Salómon konungur lýsti þessu vel: „Betri er fátækur unglingur og vitur en gamall konungur, sé hann heimskur og taki ekki fortölum.“ (Préd. 4:13) Taktu eftir hvernig Pétur brást við þegar Páll leiðrétti hann fyrir framan aðra. (Gal. 2:11–14) Pétur hefði getað tekið því illa sem Páll sagði og einblínt á hvernig hann sagði það og hvar hann valdi að segja það. En Pétur var skynsamur. Hann tók við leiðréttingunni og varð ekki gramur út í Pál heldur talaði síðar um hann sem ,elskaðan bróður‘. – 2. Pét. 3:15. w20.11 21 gr. 9, 11, 12

Laugardagur 20. ágúst

Gerið fólk að lærisveinum og kennið því. – Matt. 28:19, 20.

Hvað er biblíunemendum mikil hjálp til að taka framförum í trúnni? Að koma á safnaðarsamkomur. Það sem þeir heyra á samkomum eykur þekkingu þeirra, styrkir trú þeirra og hjálpar þeim að vaxa í kærleika til Guðs. (Post. 15:30–32) Boðberi gæti auk þess sagt biblíunemandanum frá því hvernig kærleikur hans til Jehóva óx og knúði hann til að hlýða boðum hans. (2. Kor. 7:1; Fil. 4:13) Og þegar biblíunemendur kynnast trúföstum boðberum sem búa við mismunandi aðstæður læra þeir af fordæmi þeirra hvað það merkir að hlýða boði Krists um að elska Guð og náungann. (Jóh. 13:35; 1. Tím. 4:12) Þeir sjá að boðberar takast á við svipaða erfiðleika og þá sem þeir eru að glíma við og komast að því að það er á þeirra færi að gera nauðsynlegar breytingar til að verða lærisveinar Krists. (5. Mós. 30:11) Hver og einn í söfnuðinum getur á ýmsa vegu átt þátt í að hjálpa biblíunemendum að styrkja sambandið við Jehóva. – Matt. 5:16. w20.11 5 gr. 10–12

Sunnudagur 21. ágúst

Ég hef barist við villidýr í Efesus. – 1. Kor. 15:32.

Páll postuli gæti hafa verið að vísa til þess að hafa barist við dýr á leikvangi í Efesus. (2. Kor. 1:8; 4:10; 11:23) Hann gæti einnig hafa verið að vísa til andstöðu frá Gyðingum og öðrum sem voru eins og „villidýr“. (Post. 19:26–34; 1. Kor. 16:9) Páll var í bráðri hættu hvort heldur var. En hann leit framtíðina samt björtum augum. (1. Kor. 15:30, 31; 2. Kor. 4:16–18) Við lifum á hættulegum tímum. Sum trúsystkini okkar hafa orðið fórnarlömb glæpa. Önnur búa við stöðugt óöryggi á stríðshrjáðum svæðum. Og enn önnur hætta lífi sínu eða frelsi við að þjóna Jehóva í löndum þar sem boðun okkar sætir hömlum eða er bönnuð. En öll þessi trúsystkini okkar halda ótrauð áfram að tilbiðja Jehóva og eru okkur þannig góðar fyrirmyndir. Þau óttast ekki vegna þess að þau vita að Jehóva hefur eitthvað mun betra í vændum fyrir þau, jafnvel þó að þau láti lífið. w20.12 9 gr. 3, 4

Mánudagur 22. ágúst

„Við erum samverkamenn Guðs og þið eruð akur Guðs sem hann ræktar, hús sem hann byggir.“ – 1. Kor. 3:9.

Hefur þér fundist letjandi þegar fólk á starfssvæðinu virðist ekki hafa áhuga á boðskapnum eða þegar fáir eru heima? Hvað getum við þá gert til að viðhalda gleðinni eða auka hana? Það er mikilvægt að hafa rétt viðhorf til boðunarinnar. Hvað felur það í sér? Munum að meginástæðan fyrir boðun okkar er að kunngera nafn Guðs og segja fólki frá ríki hans. Jesús gaf skýrt til kynna að fáir myndu finna veginn til lífsins. (Matt. 7:13, 14) Þegar við boðum trúna njótum við þess heiðurs að vinna með Jehóva, Jesú og englunum. (Matt. 28:19, 20; Opinb. 14:6, 7) Jehóva leitar að fólki sem vill þjóna honum. (Jóh. 6:44) Sá sem vill ekki hlusta á boðskap okkar núna gæti verið tilbúinn til þess næst þegar við bönkum upp á hjá honum. „Depurð getur verið öflugt vopn í höndum Satans,“ segir systir að nafni Debóra. En Jehóva Guð er langtum öflugri en Satan og öll hans vopn. w20.12 26–27 gr. 18, 19, 21

Þriðjudagur 23. ágúst

„Höldum áfram að elska hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði.“ – 1. Jóh. 4:7.

Margir trúfastir þjónar Guðs þurfa að vinna fulla vinnu til að sjá fyrir sér og sínum. En þeir styðja söfnuð Guðs á hvern þann hátt sem þeir geta. Sumir geta hjálpað til við neyðaraðstoð, aðrir taka þátt í byggingarstarfi og allir geta stutt alþjóðastarfið með fjárframlögum. Þeir gera þetta vegna þess að þeir elska Guð og náungann. Í hverri viku sýnum við bræðrum okkar og systrum að við elskum þau með því að sækja samkomur og taka þátt í þeim. Við mætum á þessar samkomur þótt við séum þreytt. Við tökum þátt í umræðunum þótt við séum taugaóstyrk. Og við hvetjum aðra fyrir og eftir samkomur þótt við höfum okkar eigin vandamál. (Hebr. 10:24, 25) Við erum sannarlega þakklát fyrir allt sem bræður okkar og systur leggja á sig! w21.01 10 gr. 11

Miðvikudagur 24. ágúst

„Lítum ekki of stórt á sjálf okkur.“ – Gal. 5:26.

Þeir sem eru stoltir eiga erfitt með að hrósa öðrum og vilja helst sjálfir fá lof. Þeir eru líklegri til að bera sig saman við aðra og reyna að skara fram úr öðrum. Í stað þess að þjálfa aðra og fela þeim ábyrgð eru meiri líkur á að þeir segi: „Ef maður vill að hlutirnir séu rétt gerðir“ – það er að segja eftir þeirra höfði – „þá verður maður að gera þá sjálfur.“ Þeir sem eru stoltir eru oft metnaðargjarnir og öfunda aðra. Ef við finnum að stolt gerir vart við sig hjá okkur ættum við að biðja Jehóva einlæglega um hjálp til að „endurnýja hugarfarið“ svo að þessi slæmi eiginleiki festi ekki rætur í okkur. (Rómv. 12:2) Erum við ekki innilega þakklát að Jehóva skuli setja okkur svona gott fordæmi? (Sálm. 18:36) Við sjáum auðmýkt hans birtast í samskiptum hans við þjóna sína og við viljum líkja eftir honum. Við viljum sömuleiðis líkja eftir þeim sem hafa þjónað Jehóva í hógværð. Megum við alltaf gefa Jehóva þann heiður og dýrð sem hann á skilið. – Opinb. 4:11. w20.08 13 gr. 19, 20

Fimmtudagur 25. ágúst

„Þeir sem giftast verða fyrir erfiðleikum í lífinu.“ – 1. Kor. 7:28.

Hjónaband er fullkomin gjöf frá Guði en fólk er ófullkomið. (1. Jóh. 1:8) Þess vegna varar orð Guðs hjón við vandamálum og segir að þau verði fyrir „erfiðleikum í lífinu“. Jehóva væntir þess að kristnir eiginmenn sjái fyrir andlegum, tilfinningalegum og efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar. (1. Tím. 5:8) Giftar systur verða engu að síður að taka sér tíma í annríki lífsins til að lesa daglega í orði Guðs og hugleiða það ásamt því að biðja í einlægni til Jehóva. Það getur verið áskorun. Eiginkonur hafa mikið að gera en það er mikilvægt að þær taki sér tíma til þess. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva vill að við eigum öll persónulegt samband við sig og leggjum rækt við það. (Post. 17:27) Eiginkona þarf kannski að hafa mikið fyrir því að vera undirgefin ófullkomnum eiginmanni sínum. En það er auðveldara fyrir hana að gegna því hlutverki sem Jehóva hefur ætlað henni ef hún skilur og viðurkennir biblíulegar ástæður fyrir því að virða eiginmann sinn og vera honum undirgefin. w21.02 9 gr. 3, 6, 7

Föstudagur 26. ágúst

„Þegar trú ykkar stenst prófraunir verðið þið þolgóð.“ – Jak. 1:3.

Prófraunum má líkja við eld sem er notaður við að móta sverð úr stáli. Þegar sverðsblaðið er hitað og kælt á víxl herðir það stálið. Trú okkar styrkist á sama hátt þegar við þolum prófraunir. Þess vegna skrifaði Jakob: „Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu svo að þið verðið heil og heilbrigð að öllu leyti.“ (Jak. 1:4) Þegar við finnum að prófraunirnar styrkja trú okkar getum við þolað þær með gleði. Í bréfi sínu nefnir Jakob einnig sumt af því sem gæti orðið til þess að við misstum gleðina. Eitt sem getur rænt okkur gleðinni er að vita ekki hvað við eigum að gera. Þegar við verðum fyrir prófraunum viljum við leita til Jehóva og fá hjálp hans til að taka ákvarðanir sem gleðja hann, eru bræðrum okkar og systrum til góðs og hjálpa okkur að vera Jehóva trú. (Jer. 10:23) Við þurfum visku til að vita hvaða stefnu við eigum að taka og hvernig við eigum að svara þeim sem rísa gegn okkur. Við getum orðið niðurdregin og fljótlega misst gleðina ef við vitum ekki hvað við eigum að gera. w21.02 28 gr. 7–9

Laugardagur 27. ágúst

„Elskið hvert annað af öllu hjarta.“ – 1. Pét. 1:22.

Jehóva er fyrirmynd okkar. Kærleikur hans er svo sterkur að ekkert getur fengið hann til að hætta að elska okkur svo framarlega sem við erum honum trú. (Rómv. 8:38, 39) Orðin „af öllu“ lýsa einhverjum sem leggur mikið á sig til að sýna kærleika. Stundum reynir á að sýna trúsystkini ástúð. Þegar einhver kemur okkur í uppnám þurfum við að halda áfram að ,umbera hvert annað í kærleika og gera okkar ýtrasta til að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘. (Ef. 4:1–3) Við einblínum ekki á mistök trúsystkina okkar og reynum okkar besta til að líta þau sömu augum og Jehóva. (1. Sam. 16:7; Sálm. 130:3) Það er ekki alltaf auðvelt að sýna trúsystkinum okkar ástúð, sérstaklega þegar við erum meðvituð um galla þeirra. Þetta reyndist sumum frumkristnum mönnum erfitt, eins og Evodíu og Sýntýke. Páll hvatti þær „til að vera samlyndar í þjónustu Drottins“. – Fil. 4:2, 3. w21.01 22–23 gr. 10, 11

Sunnudagur 28. ágúst

„Ég skrifa ykkur, ungu menn, því að þið eruð sterkir, orð Guðs er stöðugt í ykkur og þið hafið sigrað hinn vonda.“ – 1. Jóh. 2:14.

Þeir sem eldri eru meta mikils ykkur ungu mennina sem þjónið Jehóva þeim við hlið. (Sef. 3:9, NW) Þeir kunna að meta kappsemina sem þið sýnið þegar þið sinnið verkefnunum sem ykkur eru falin. Þeir eru ánægðir með ykkur. Þið ungu bræður, gleymið aldrei að Jehóva elskar ykkur og treystir. Hann sagði fyrir að á síðustu dögum myndi her ungra manna bjóða sig fúslega fram. (Sálm. 110:1–3) Hann veit að þú elskar hann og vilt þjóna honum eftir bestu getu. Vertu þess vegna þolinmóður, bæði við aðra og sjálfan þig. Þiggðu leiðbeiningar og aga þegar þú gerir mistök og líttu á það eins og það komi frá Jehóva. (Hebr. 12:6) Sinntu vel öllum verkefnum sem þú færð. Og umfram allt, gerðu himneskan föður þinn stoltan af þér í öllu sem þú gerir. – Orðskv. 27:11. w21.03 7 gr. 17, 18

Mánudagur 29. ágúst

„Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ – Orðskv. 24:10.

Það er margt sem getur gert okkur niðurdregin – það sem við glímum við innra með okkur og ytri áhrif. Ástæðurnar gætu verið ófullkomleiki okkar, veikleikar eða slæm heilsa. Við gætum einnig orðið niðurdregin af því að við höfum ekki fengið verkefni í þjónustu Jehóva sem okkur langar til að fá eða af því að fólk á starfssvæði okkar virðist ekki sýna áhuga á boðskapnum. Það er auðvelt að sjá ófullkomleika okkar og veikleika í röngu ljósi. Okkur gæti þess vegna fundist veikleikar okkar koma í veg fyrir að Jehóva vilji hafa okkur í nýjum heimi sínum. Það getur verið mjög varasamt að hugsa þannig. Í Biblíunni segir að allir menn, nema Jesús Kristur, ,hafi syndgað‘. (Rómv. 3:23) En höfundur Biblíunnar einblínir ekki á mistök okkar eða væntir fullkomleika af okkur. Staðreyndin er sú að hann er elskuríkur faðir sem vill hjálpa okkur og hann er líka þolinmóður. Hann sér allt sem við leggjum á okkur til að glíma við veikleika og lágt sjálfsmat, og hann er tilbúinn að hjálpa okkur. – Rómv. 7:18, 19. w20.12 22 gr. 1–3

Þriðjudagur 30. ágúst

„Að lokum, bræður og systur, verið alltaf glöð, gerið nauðsynlegar breytingar.“ – 2. Kor. 13:11.

Við erum öll á ferðalagi. Áfangastaðurinn, eða markmiðið, er nýi heimurinn undir kærleiksríkri stjórn Jehóva. Við reynum að fylgja veginum sem leiðir til lífsins á hverjum degi. En eins og Jesús sagði þá er vegurinn mjór og stundum er erfitt að fylgja honum. (Matt. 7:13, 14) Við erum ófullkomin og þess vegna er auðvelt að villast af þessum vegi. (Gal. 6:1) Við þurfum að vera fús til að gera breytingar á hugarfari okkar og hegðun til að halda okkur á mjóa veginum til lífsins. Páll postuli hvetur okkur til að ,gera nauðsynlegar breytingar‘. Það er ekki auðvelt að rannsaka eigin hugsanir og tilfinningar. Hjartað er svikult og það getur verið erfitt að vita hvað það reynir að fá okkur til að gera. (Jer. 17:9) Við eigum auðvelt með að blekkja sjálf okkur með „villandi rökum“. (Jak. 1:22) Við verðum því að nota orð Guðs til að rannsaka okkur. Orð Guðs sýnir okkur hvernig við erum hið innra, innstu „hugsanir og áform hjartans“. – Hebr. 4:12, 13. w20.11 18 gr. 1–3

Miðvikudagur 31. ágúst

„Eigið frumkvæðið að því að sýna hvert öðru virðingu.“ – Rómv. 12:10.

Sá sem er auðmjúkur og hógvær er líklegri til að vera glaður. Hvers vegna? Þegar við gerum okkur grein fyrir takmörkum okkar erum við þakklát og ánægð með alla þá hjálp sem við fáum. Tökum sem dæmi það sem gerðist þegar Jesús læknaði tíu holdsveika menn. Aðeins einn þeirra sneri aftur til að þakka Jesú fyrir að lækna sig af þessum hræðilega sjúkdómi – eitthvað sem maðurinn hefði aldrei getað gert sjálfur. Þessi auðmjúki og hógværi maður var þakklátur fyrir hjálpina sem hann fékk og lofaði Guð. (Lúk. 17:11–19) Þeim sem eru auðmjúkir og hógværir kemur yfirleitt vel saman við aðra og þeir eru líklegri en stolt fólk til að eiga nána vini. Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst sjálfsagt að viðurkenna að aðrir hafi góða eiginleika og þeir bera traust til þeirra. Þeir sem eru auðmjúkir og hógværir eru ánægðir þegar öðrum gengur vel í verkefnum sínum og þeir hika ekki við að hrósa þeim og sýna þeim virðingu. w20.08 12 gr. 17, 18

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila