SAGA 57
Jehóva velur Jeremía sem spámann
Jehóva valdi Jeremía til að vera spámaður í Júda. Hann sagði honum að vara fólkið við og segja því að það þyrfti að hætta að gera það sem er rangt. Jeremía sagði: ‚En Jehóva, ég er svo ungur. Ég veit ekki hvernig ég á að tala við fólkið.‘ Jehóva sagði við hann: ‚Ekki vera hræddur. Ég læt þig vita hvað þú átt að segja. Ég skal hjálpa þér.‘
Jehóva sagði Jeremía að safna saman öldungunum, brjóta leirkrukku fyrir framan þá og segja: ‚Jerúsalem verður brotin alveg eins og þessi krukka.‘ Jeremía gerði eins og Jehóva sagði honum og öldungarnir urðu mjög reiðir. Prestur sem hét Pashúr sló Jeremía og festi hendurnar og fæturna hans í gapastokk. Jeremía gat ekki hreyft sig alla nóttina. Pashúr sleppti honum um morguninn. Jeremía sagði: ‚Ég get þetta ekki lengur. Ég ætla að hætta að tala um Jehóva.‘ En gafst hann í alvörunni upp? Nei. Þegar Jeremía hugsaði aðeins meira um málið sagði hann: ‚Boðskapur Jehóva er eins og eldur innan í mér. Ég get ekki hætt.‘ Jeremía hélt áfram að vara fólkið við.
Eftir nokkur ár kom nýr konungur í Júda. Prestarnir og falsspámennirnir hötuðu boðskap Jeremía. Þeir sögðu við höfðingjana: ‚Þessi maður á skilið að deyja.‘ Jeremía sagði: ‚Ef þið drepið mig drepið þið saklausan mann. Ég segi bara það sem Jehóva segir mér.‘ Þá sögðu höfðingjarnir: ‚Þessi maður á ekki skilið að deyja.‘
Jeremía hélt áfram að boða og höfðingjarnir urðu mjög reiðir. Þeir báðu konunginn um að láta drepa Jeremía. Konungurinn sagði að þeir mættu gera hvað sem þeir vildu við hann. Þeir hentu Jeremía ofan í djúpan brunn sem var fullur af drullu og vonuðu að hann myndi deyja þar. Jeremía byrjaði að sökkva ofan í drulluna.
Þá sagði hirðmaður sem hét Ebed Melek við konunginn: ‚Höfðingjarnir eru búnir að kasta Jeremía ofan í brunn! Hann á eftir að deyja ef við skiljum hann eftir þarna.‘ Konungurinn sagði Ebed Melek að taka með sér 30 menn og draga Jeremía upp úr brunninum. Ættum við ekki að vera eins og Jeremía og láta ekkert stoppa okkur í að boða trúna?
„Allir munu hata ykkur vegna nafns míns en sá sem er þolgóður allt til enda bjargast.“ – Matteus 10:22.