SAGA 96
Jesús velur Sál
Sál var rómverskur ríkisborgari sem fæddist í Tarsus. Hann var farísei og sérfræðingur í lögum Gyðinga. Hann hataði kristna menn. Hann dró kristna menn og konur út úr húsunum þeirra og henti þeim í fangelsi. Hann stóð meira að segja og fylgdist með þegar hópur af reiðu fólki grýtti steinum í lærisveininn Stefán þangað til hann dó.
En Sál fannst ekki nóg að handtaka bara kristna menn í Jerúsalem. Hann bað æðstaprestinn að senda sig til borgarinnar Damaskus svo að hann gæti leitað að kristnum mönnum þar. Þegar hann var að verða kominn til borgarinnar blossaði allt í einu skært ljós allt í kringum hann og hann datt. Hann heyrði rödd sem sagði: ‚Sál, af hverju ertu að ofsækja mig?‘ Sál spurði: „Hver ertu?“ Röddin svaraði: ‚Ég er Jesús. Farðu til Damaskus og þá færðu að vita hvað þú þarft að gera.‘ Sál var allt í einu orðinn blindur og það þurfti að leiða hann inn í borgina.
Í Damaskus var trúfastur kristinn maður sem hét Ananías. Jesús birtist honum í sýn og sagði: ‚Farðu heim til Júdasar í götuna sem er kölluð Hin beina og leitaðu að Sál.‘ Ananías sagði: ‚Drottinn, ég veit hvaða maður þetta er. Hann er að henda lærisveinum þínum í fangelsi!‘ En Jesús sagði: ‚Farðu til hans. Ég er búinn að velja Sál til að boða fólki frá mörgum löndum fagnaðarboðskapinn.‘
Ananías fann þá Sál og sagði við hann: ‚Sál, bróðir minn. Jesús sendi mig til að opna augun þín.‘ Þá gat Sál allt í einu séð aftur. Hann lærði um Jesú og fór að fylgja honum. Hann lét skírast og fór að boða trúna í samkunduhúsunum með öðrum kristnum mönnum. Hugsaðu þér hvað Gyðingarnir hafa verið hissa að sjá Sál segja fólki frá Jesú! Þeir sögðu: ‚Er þetta ekki maðurinn sem elti lærisveina Jesú til að henda þeim í fangelsi?‘
Sál boðaði trúna í Damaskus í þrjú ár. Gyðingarnir hötuðu Sál og ákváðu að drepa hann. En bræðurnir fréttu af því og hjálpuðu honum að flýja. Þeir settu hann í körfu og létu hann síga niður í gegnum gat á borgarmúrnum.
Þegar Sál kom til Jerúsalem vildi hann hitta trúsystkinin þar. En þau voru hrædd við hann. En góður lærisveinn, sem hét Barnabas, fór með Sál til postulanna og hjálpaði þeim að skilja að Sál hafði í alvörunni breyst. Sál fór að boða fagnaðarboðskapinn með söfnuðinum í Jerúsalem og var mjög duglegur. Seinna var hann kallaður Páll.
„Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa syndara. Ég er þeirra verstur.“ – 1. Tímóteusarbréf 1:15.