Hvað verður um trúarbrögðin? – Hvað segir Biblían?
Hafa trúarbrögðin valdið þér vonbrigðum eða hefurðu jafnvel óbeit á þeim? Þótt trúarbrögð hafi haft jákvæð áhrif á sum samfélög og einstaklinga hafa þau líka valdið miklum skaða. „Sum af verstu stríðum mannkynssögunnar hafa verið háð vegna ólíkra trúarskoðana,“ segir alfræðiritið Encyclopedia of Religion and War. Trúarleiðtogar hafa oft notað trúarbrögð til að koma pólitískum hugmyndum á framfæri í stað þess að tilbiðja Guð. Aðrir trúarleiðtogar hafa hylmt yfir með kynferðisofbeldi eða peningaþvætti.
Ef þú ert óánægður með trúarbrögðin veltirðu kannski fyrir þér hvað Guði finnst um þau. Í Biblíunni kemur fram að Guð fordæmi flest trúarbrögð vegna þess sem þau hafa aðhafst. Hún hefur líka að geyma spádóma sem lýsa því hvað Guð mun gera. Með því að nota myndmál lýsir Biblían hvernig Guð mun brátt grípa til fordæmalausra aðgerða gegn trúarbrögðum um allan heim.
Hvað segir Biblían um framtíð trúarbragðanna?
Spádómur: Í Opinberunarbókinni er fjallað um vændiskonu sem er kölluð Babýlon hin mikla. Þessi vændiskona situr á skarlatsrauðu villidýri. Þetta dýr ræðst síðan gegn henni og drepur hana. – Opinberunarbókin 17:3, 5, 16.
Hvað merkir þetta? Vændiskonan, Babýlon hin mikla, táknar öll fölsk trúarbrögð, það er að segja trúarbrögð sem Guð hafnar.a Skarlatsrauða dýrið táknar Sameinuðu þjóðirnar.b Það að vændiskonan skuli sitja á skarlatsrauða dýrinu sýnir að fölsk trúarbrögð hafa reynt að hafa áhrif á og jafnvel stýra Sameinuðu þjóðunum. Það að villidýrið drepur vændiskonuna sýnir að Sameinuðu þjóðirnar og bandalagsþjóðir þeirra snúast gegn öllum fölskum trúarbrögðum heimsins og eyða þeim. Þetta verður söguleg eyðing!
Hvernig verður falstrúarbrögðunum eytt?
Spádómur: „Hornin tíu sem þú sást og villidýrið munu hata vændiskonuna, ræna hana öllu og … brenna hana í eldi því að Guð hefur lagt þeim [leiðtogum heimsins] í brjóst að gera það sem hann hefur áformað, já, að láta þau ná sameiginlegu markmiði sínu með því að gefa villidýrinu ríki sitt … Þess vegna koma plágur hennar á einum degi – dauði, sorg og hungur – og hún mun brenna upp í eldi því að Jehóvac Guð, sem dæmdi hana, er máttugur.“ – Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:8.
Hvað merkir þetta? Guð mun leggja þjóðum heimsins í brjóst að gera „það sem hann hefur áformað“. Hann mun haga málum þannig að þjóðirnar finni sig knúnar til að gefa Sameinuðu þjóðunum „ríki sitt“, það er að segja pólitísk völd sín. Sameinuðu þjóðirnar, með nýfengin völd sín frá þjóðunum, munu síðan eyða fölskum trúarbrögðum um allan heim. Þessi ótrúlegi atburður mun gerast snögglega og óvænt eins og „á einum degi“ og koma mörgum að óvörum. – Opinberunarbókin 18:21.
Hvers vegna verður falstrúarbrögðunum eytt?
Spádómur: „Syndir hennar hlóðust upp allt til himins og Guð minntist ranglátra verka hennar.“ – Opinberunarbókin 18:5.
Hvað merkir þetta? Babýlon hin mikla, falstrúarbrögðin, hefur aðhafst margt illt í gegnum aldirnar. Hér á eftir verða tíundaðar sumar af ‚syndum hennar‘ sem Guð lætur hana gjalda fyrir:
Þátttaka í stjórnmálum. Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum að blanda sér ekki í pólitísk mál heldur setja von sína á ríki Guðs, himneska stjórn sem myndi leysa mannlegar stjórnir af hólmi.d (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10; Jóhannes 6:15; 18:36) Falstrúarbrögðin hafa gert hið gagnstæða. Babýlon hin mikla skiptir sér af pólitík og svíkur þannig Guð. Spádómurinn í Opinberunarbókinni segir að hún sé sek um „kynferðislegt siðleysi“ og því er rökrétt að hún sé kölluð ‚vændiskonan mikla‘. – Opinberunarbókin 17:1, 2; Jakobsbréfið 4:4.
Ofbeldi. Í Opinberunarbókinni segir að falstrúarbrögðin beri ábyrgð á dauða „allra sem hafa verið drepnir á jörðinni“. (Opinberunarbókin 18:24) Mörg trúarbrögð hafa ekki kennt safnaðarmönnum sínum að vera friðsamir og jafnvel gengið svo langt að ýta undir stríð og hryðjuverk.
Græðgi. Falstrúarbrögð skrýðast „taumlausum munaði“. (Opinberunarbókin 17:4; 18:7) Mörg trúarbrögð hafa notfært sér áhrif sín og sambönd til að sanka að sér gríðarlegum auði. Slík græðgi misbýður Guði. – Títusarbréfið 1:7.
Lygar. Falstrúarbrögð ýta undir kenningar og verk sem stangast á við sannleika Biblíunnar.e Margar kenningar og siðir sem afvegaleiða fólk og vanvirða Guð eiga rætur að rekja til falstrúarbragðanna. Þess vegna kallar spádómurinn þau ‚móður viðbjóðs á jörðinni.‘ – Opinberunarbókin 17:5; 18:23.
Verður öllum trúarbrögðum eytt?
Nei. Í Opinberunarbókinni er talað um mikinn múg manna af mörgum þjóðum. (Opinberunarbókin 7:9) Fólkið í þessum mikla múg er „klætt hvítum skikkjum“. Það merkir að þessi hópur er Guði trúr og tilbiður hann í samræmi við mælikvarða hans. Þessi múgur lifir af ‚þrenginguna miklu‘ en hún er það tímabil þegar fölskum trúarbrögðum og öllum öðrum óvinum Guðs verður eytt. (Opinberunarbókin 7:13, 14; 19:11, 19–21) Múgurinn mikli tilheyrir hinni sönnu trú sem mun aldrei líða undir lok.f
Mikill múgur sannra tilbiðjenda Guðs lifir af eyðingu falstrúarbragðanna.
Hvaða þýðingu hefur eyðing falstrúarbragðanna fyrir þig?
Þér gæti fundist hughreystandi að vita að Guð leggur ekki blessun sína yfir það hræðilega sem gert er í nafni trúarbragða. Þú getur horft vongóður til framtíðar vitandi að brátt verðum við laus við hvers kyns trúarbrögð sem vanvirða Guð og valda fólki þjáningum.
Þú mátt líka vera viss um að það er hægt að tilbiðja Guð á þann hátt sem hann er ánægður með. Biblían segir að „hinir sönnu tilbiðjendur tilbiðja föðurinn í anda og sannleika því að faðirinn leitar þeirra sem tilbiðja hann þannig.“ (Jóhannes 4:23) Hann segir þeim: „Farið út úr henni [Babýlon hinni miklu], fólk mitt, svo að þið verðið ekki meðsek í syndum hennar og verðið ekki fyrir sömu plágum og hún.“ (Opinberunarbókin 18:4, 5) Já, Guð býður fólki að tilbiðja sig í samræmi við sannleika Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Og hann lofar þeim sem þiggja boðið eilífu lífi. – 1. Jóhannesarbréf 2:17.
a Lestu greinina „Hvað er Babýlon hin mikla?“ til að sjá hvaða fjögur lykilatriði hjálpa þér að bera kennsl á Babýlon hina miklu.
b Lestu greinina „Hvað táknar skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar?“ til að koma auga á sex lykilatriði til að bera kennsl á þetta dýr.
c Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?“
d Horfðu á myndbandið Hvað er ríki Guðs? til að læra meira.
e Þú getur séð dæmi um þetta í rammagreininni „Eru einhver kristin trúarbrögð hluti af Babýlon hinni miklu?“
f Lestu greinina „Hvernig get ég fundið hina sönnu trú?“ til að sjá hvernig Biblían getur hjálpað þér að bera kennsl á sanna trú.