Sálmur
Uppgönguljóð.
129 „Menn hafa ráðist á mig síðan ég var ungur“+
– Ísrael segi nú –
2 „menn hafa ráðist á mig síðan ég var ungur+
en þeir hafa ekki yfirbugað mig.+
3 Plógmenn hafa plægt yfir bak mitt,+
þeir hafa gert plógförin löng.“
4 En Jehóva er réttlátur.+
Hann hefur skorið á bönd hinna illu.+
5 Allir sem hata Síon
verða auðmýktir og hörfa með skömm.+
6 Þeir verða eins og gras á húsþaki
sem visnar áður en það er reytt
7 og fyllir ekki hönd sláttumanns
né fang þess sem bindur í knippi.
8 Þeir sem fara hjá segja ekki:
„Jehóva blessi ykkur.
Við blessum ykkur í nafni Jehóva.“