Fyrri Samúelsbók
13 Sál var … ára* þegar hann varð konungur+ og hann ríkti yfir Ísrael í tvö ár. 2 Sál valdi sér 3.000 menn af Ísrael. Þar af voru 2.000 hjá Sál í Mikmas og í fjalllendinu við Betel en 1.000 voru hjá Jónatan+ í Gíbeu+ í Benjamín. Alla hina sendi hann heim til tjalda sinna. 3 Jónatan vann sigur á setuliði Filistea+ í Geba+ og Filistear fréttu það. Þá lét Sál blása í horn+ um allt landið og tilkynna: „Hebrear þurfa að heyra þetta!“ 4 Allur Ísrael heyrði fréttirnar: „Sál hefur lagt að velli setulið Filistea og nú hafa Filistear óbeit á Ísrael.“ Þá var mönnum stefnt saman til að ganga til liðs við Sál í Gilgal.+
5 Á sama tíma söfnuðust Filistear saman til bardaga við Ísrael. Þeir voru með 30.000 stríðsvagna, 6.000 riddara og fjölmennan her sem var eins og sandur á sjávarströnd.+ Þeir lögðu af stað og settu upp búðir sínar í Mikmas fyrir austan Betaven.+ 6 Þegar Ísraelsmenn sáu að þeir voru í vanda staddir þar sem Filistear þrengdu að þeim földu þeir sig í hellum,+ gjótum, klettaskorum, jarðholum og gryfjum. 7 Sumir Hebreanna fóru jafnvel yfir Jórdan í land Gaðs og Gíleaðs.+ Sál var um kyrrt í Gilgal en allir sem fylgdu honum skulfu af hræðslu. 8 Hann beið í sjö daga, þann tíma sem Samúel hafði nefnt við hann. En Samúel kom ekki til Gilgal svo að menn Sáls fóru að yfirgefa hann og tvístrast. 9 Þá sagði Sál: „Náið í brennifórnina og samneytisfórnirnar.“ Síðan færði hann brennifórnina.+
10 Hann hafði rétt lokið við að færa brennifórnina þegar Samúel birtist. Sál gekk þá út til móts við hann til að heilsa honum.* 11 „Hvað hefurðu gert?“ spurði Samúel. Sál svaraði: „Ég sá að mennirnir voru farnir að yfirgefa mig+ og þú komst ekki á réttum tíma og Filistear söfnuðust saman í Mikmas.+ 12 Þá hugsaði ég með mér: ‚Filistear koma nú og ráðast á mig í Gilgal og ég hef ekki beðið Jehóva um stuðning.‘* Þess vegna fannst mér ég ekki eiga annarra kosta völ en að færa brennifórnina.“
13 Þá sagði Samúel við Sál: „Þú hefur farið heimskulega að ráði þínu. Þú óhlýðnaðist fyrirmælunum sem Jehóva Guð þinn gaf þér.+ Ef þú hefðir hlýtt þeim hefði Jehóva látið þig og afkomendur þína ríkja yfir Ísrael að eilífu. 14 En nú mun konungdómur þinn ekki standa.+ Jehóva mun finna mann eftir sínu hjarta.+ Jehóva ætlar að gera hann að leiðtoga yfir þjóð sinni+ því að þú hlýddir ekki fyrirmælum Jehóva.“+
15 Síðan lagði Samúel af stað og fór frá Gilgal til Gíbeu í Benjamín. Sál taldi liðið sem var eftir hjá honum, um 600 manns.+ 16 Sál, Jónatan sonur hans og þeir sem voru enn með þeim höfðust við í Geba+ í Benjamín en Filistear höfðu slegið upp búðum í Mikmas.+ 17 Þrír ránsflokkar héldu út úr herbúðum Filistea. Einn flokkurinn fór eftir veginum til Ofra, til Sjúallands, 18 annar í átt til Bet Hóron+ og sá þriðji í átt að landamörkunum þar sem sést yfir Sebóímdal, í átt að óbyggðunum.
19 Hvergi var málmsmið að finna í Ísraelslandi því að Filistear höfðu sagt: „Hebrear mega ekki smíða sverð eða spjót.“ 20 Ísraelsmenn þurftu því að fara til Filisteanna til að láta brýna plógjárn sín, haka, axir og sigðir. 21 Það kostaði eitt pim* að láta brýna plógjárn, haka, þrífork eða öxi og sömuleiðis að setja brodd á broddstaf. 22 Daginn sem kom til bardaga höfðu hermennirnir í liði Sáls og Jónatans því hvorki sverð né spjót í hendi.+ Sál og Jónatan voru þeir einu sem höfðu vopn.