Dómarabókin
11 Jefta+ Gíleaðíti var mikill hermaður. Hann var sonur vændiskonu og faðir hans hét Gíleað. 2 En eiginkona Gíleaðs fæddi honum líka syni. Þegar þeir uxu úr grasi ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: „Þú færð engan arf eftir föður okkar því að þú ert sonur annarrar konu.“ 3 Jefta flúði þá burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þar söfnuðust iðjulausir menn til hans og fylgdu honum.
4 Nokkru síðar réðust Ammónítar á Ísrael.+ 5 Þegar Ammónítar gerðu það fóru öldungarnir í Gíleað tafarlaust til landsins Tób til að sækja Jefta. 6 Þeir sögðu við hann: „Komdu og vertu foringi okkar svo að við getum barist við Ammóníta.“ 7 En Jefta sagði við öldungana frá Gíleað: „Voruð það ekki þið sem hötuðuð mig svo mikið að þið hröktuð mig burt frá fjölskyldu föður míns?+ Af hverju komið þið til mín núna þegar þið eruð í vanda staddir?“ 8 Öldungarnir frá Gíleað svöruðu: „Það er einmitt þess vegna sem við komum. Ef þú kemur með okkur og berst við Ammóníta verður þú leiðtogi okkar allra sem búum í Gíleað.“+ 9 Jefta sagði þá við öldungana frá Gíleað: „Ef ég kem með ykkur til að berjast við Ammóníta og Jehóva veitir mér sigur, þá skal ég verða leiðtogi ykkar.“ 10 Öldungar Gíleaðs svöruðu: „Jehóva sé vottur að* orðum okkar ef við gerum ekki eins og þú segir.“ 11 Jefta fór þá með öldungunum frá Gíleað og fólkið gerði hann að leiðtoga sínum og foringja. Og Jefta endurtók allt sem sagt hafði verið frammi fyrir Jehóva í Mispa.+
12 Jefta sendi síðan menn með þessi boð til konungs Ammóníta:+ „Hvað hefurðu á móti mér fyrst þú ert kominn til að ráðast á land mitt?“ 13 Konungur Ammóníta svaraði sendiboðum Jefta: „Ísraelsmenn tóku land mitt þegar þeir komu frá Egyptalandi,+ frá Arnon+ til Jabbok og alla leið að Jórdan.+ Skilaðu því nú aftur án átaka.“ 14 En Jefta sendi menn aftur til konungs Ammóníta 15 og lét segja honum:
„Jefta segir: ‚Ísraelsmenn tóku ekki land Móabíta+ né land Ammóníta+ 16 því að þegar þeir komu frá Egyptalandi fóru þeir um óbyggðirnar allt að Rauðahafi+ og komu til Kades.+ 17 Þá sendi Ísrael menn til konungsins í Edóm+ og sagði: „Viltu leyfa okkur að fara um land þitt,“ en konungur Edóms gaf því ekki gaum. Þeir sendu einnig boð til konungsins í Móab+ en hann féllst ekki á beiðni þeirra. Ísraelsmenn héldu þá kyrru fyrir í Kades.+ 18 Þegar þeir héldu áfram ferð sinni um óbyggðirnar fóru þeir fram hjá Edómslandi+ og Móabslandi. Þeir fóru austur fyrir Móabsland+ og settu búðir sínar í grennd við Arnon. Þeir fóru ekki inn fyrir landamæri Móabs+ en þau lágu um Arnon.
19 Eftir það sendi Ísrael menn til Síhons Amorítakonungs, sem ríkti í Hesbon, og lét segja honum: „Viltu leyfa okkur að fara um land þitt svo að við komumst á leiðarenda.“+ 20 En Síhon treysti ekki Ísraelsmönnum og leyfði þeim ekki að fara um landsvæði sitt heldur safnaði saman öllum mönnum sínum, setti upp herbúðir í Jahas og réðst gegn Ísrael.+ 21 Jehóva Guð Ísraels gaf þá Síhon og alla menn hans í hendur Ísraelsmanna. Ísraelsmenn sigruðu þá og tóku til eignar allt landið þar sem Amorítarnir bjuggu.+ 22 Þannig tóku þeir til eignar allt landsvæði Amoríta frá Arnon að Jabbok og frá óbyggðunum að Jórdan.+
23 Það var Jehóva Guð Ísraels sem hrakti Amoríta burt undan þjóð sinni Ísrael+ og nú viljið þið hrekja hana burt! 24 Átt þú ekki allt sem Kamos+ guð þinn gefur þér? Við hrekjum líka burt alla sem Jehóva Guð okkar hefur hrakið burt undan okkur.+ 25 Ert þú eitthvað betri en Balak+ Sippórsson konungur Móabs? Deildi hann nokkurn tíma við Ísraelsmenn eða fór í stríð gegn þeim? 26 Í 300 ár hafa Ísraelsmenn búið í Hesbon og bæjunum sem tilheyra henni,*+ í Aróer og bæjunum sem tilheyra henni og í öllum borgunum sem liggja meðfram Arnon. Af hverju hafið þið ekki reynt að ná þeim aftur allan þennan tíma?+ 27 Ég hef ekki syndgað gegn þér. Það ert þú sem gerir rangt með því að ráðast á mig. Í dag skal Jehóva, dómarinn,+ dæma milli Ísraelsmanna og Ammóníta.‘“
28 En konungur Ammóníta hlustaði ekki á boðin sem Jefta sendi honum.
29 Andi Jehóva kom yfir Jefta+ og hann fór um Gíleað og Manasse til Mispe í Gíleað+ og frá Mispe í Gíleað hélt hann gegn Ammónítum.
30 Þá vann Jefta Jehóva heit+ og sagði: „Ef þú gefur Ammóníta mér á vald 31 skal sá sem gengur út um dyr húss míns á móti mér þegar ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum tilheyra Jehóva+ og ég mun fórna honum sem brennifórn.“+
32 Jefta fór síðan og barðist við Ammóníta og Jehóva gaf þá honum á vald. 33 Hann gersigraði þá og lagði undir sig landið frá Aróer allt til Minnít, 20 borgir, og til Abel Keramím. Þannig lutu Ammónítar í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.
34 Þegar Jefta kom heim að húsi sínu í Mispa+ kom dóttir hans út á móti honum og dansaði og lék á tambúrínu. Hún var einkabarn hans. Hann átti engan son eða dóttur nema hana. 35 Þegar hann sá hana reif hann föt sín og sagði: „Æ, dóttir mín! Þú veldur mér mikilli sorg* því að nú þarf ég að senda þig frá mér. Ég hef gefið Jehóva loforð og get ekki dregið það til baka.“+
36 En hún sagði við hann: „Faðir minn, ef þú hefur gefið Jehóva loforð gerðu þá við mig eins og þú hefur lofað+ fyrst Jehóva hefur látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum.“ 37 Síðan sagði hún við föður sinn: „Gerðu eitt fyrir mig: Gefðu mér tvo mánuði og leyfðu mér að fara upp í fjöllin og gráta með vinkonum mínum yfir því að fá aldrei að giftast.“*
38 „Gerðu það,“ svaraði hann, og lét hana fara burt í tvo mánuði. Hún fór þá upp í fjöllin með vinkonum sínum og grét yfir því að fá aldrei að giftast. 39 Að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns og þá efndi hann heitið sem hann hafði unnið varðandi hana.+ Hún hafði aldrei kynmök við mann. Það varð siður í Ísrael 40 að ungu konurnar færu til að hrósa dóttur Jefta Gíleaðíta fjóra daga á ári.