Dómarabókin
10 Eftir að Abímelek dó kom Tóla Púason fram til að frelsa Ísrael+ en hann var sonarsonur Dódós af ættkvísl Íssakars. Hann bjó í Samír í fjalllendi Efraíms. 2 Hann var dómari í Ísrael í 23 ár. Síðan dó hann og var grafinn í Samír.
3 Eftir hann kom Jaír Gíleaðíti fram og hann var dómari í Ísrael í 22 ár. 4 Hann átti 30 syni sem riðu 30 ösnum og áttu 30 borgir. Þær eru í Gíleaðlandi og eru enn þann dag í dag kallaðar Havót Jaír.+ 5 Jaír dó og var grafinn í Kamón.
6 Ísraelsmenn gerðu enn á ný það sem var illt í augum Jehóva.+ Þeir fóru að tilbiðja Baalana,+ Astörtulíkneskin, guði Arams,* guði Sídonar, guði Móabs,+ guði Ammóníta+ og guði Filistea.+ Þeir yfirgáfu Jehóva og þjónuðu honum ekki. 7 Þá blossaði reiði Jehóva upp gegn Ísraelsmönnum og hann gaf þá á vald Filistea og Ammóníta.+ 8 Þeir þjökuðu og kúguðu Ísraelsmenn með hörku það ár. Í 18 ár kúguðu þeir alla Ísraelsmenn sem bjuggu í Gíleað, landinu hinum megin Jórdanar sem hafði tilheyrt Amorítum. 9 Ammónítar fóru líka yfir Jórdan til að herja á ættkvíslir Júda, Benjamíns og Efraíms svo að Ísraelsmenn lentu í mikilli neyð. 10 Þá kölluðu Ísraelsmenn til Jehóva á hjálp:+ „Við höfum syndgað gegn þér, Guði okkar, því að við höfum yfirgefið þig og tilbeðið Baalana.“+
11 En Jehóva sagði við Ísraelsmenn: „Frelsaði ég ykkur ekki frá Egyptalandi+ og úr höndum Amoríta,+ Ammóníta, Filistea,+ 12 Sídoninga, Amalekíta og Midíaníta þegar þeir kúguðu ykkur? Ég frelsaði ykkur úr höndum þeirra þegar þið hrópuðuð til mín. 13 En þið yfirgáfuð mig og þjónuðuð öðrum guðum.+ Þess vegna ætla ég ekki að frelsa ykkur aftur.+ 14 Farið til guðanna sem þið hafið valið ykkur og kallið á hjálp.+ Látið þá frelsa ykkur þegar þið eruð nauðstödd.“+ 15 En Ísraelsmenn svöruðu Jehóva: „Við höfum syndgað. Gerðu það sem þér sýnist við okkur. Viltu bara bjarga okkur í dag?“ 16 Og þeir losuðu sig við útlendu guðina og þjónuðu Jehóva.+ Þá þoldi hann ekki lengur að horfa upp á þjáningar þeirra.+
17 Áður en langt um leið voru Ammónítar+ kallaðir saman og þeir settu herbúðir sínar í Gíleað. Ísraelsmenn söfnuðust þá líka saman og settu herbúðir sínar í Mispa. 18 Íbúar og höfðingjar Gíleaðs sögðu hver við annan: „Hver ætlar að taka forystuna þegar við berjumst við Ammóníta?+ Hann skal vera höfðingi yfir öllum íbúum Gíleaðs.“