Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Rutarbók 1:1-4:22
  • Rutarbók

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rutarbók
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Rutarbók

RUTARBÓK

1 Á þeim tímum þegar dómararnir+ stjórnuðu* varð hungursneyð í landinu. Maður nokkur fór þá frá Betlehem+ í Júda til að búa sem útlendingur í Móabslandi*+ ásamt konu sinni og tveim sonum. 2 Maðurinn hét Elímelek,* kona hans Naomí* og synir hans tveir Mahlón* og Kiljón.* Þau voru Efratar frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og settust þar að.

3 Að nokkrum tíma liðnum dó Elímelek eiginmaður Naomí og hún var ein eftir ásamt sonum sínum tveim. 4 Seinna giftust þeir móabískum konum. Önnur þeirra hét Orpa en hin Rut.+ Þau bjuggu þar í hér um bil tíu ár. 5 Þá dóu líka Mahlón og Kiljón, synirnir tveir, og nú átti Naomí hvorki eiginmann né börn. 6 Hún ákvað því að yfirgefa Móabsland ásamt tengdadætrum sínum og snúa aftur til heimalands síns en hún hafði frétt í Móab að Jehóva hefði sýnt þjóð sinni velvild og séð henni fyrir mat.*

7 Hún lagði þá af stað þaðan sem hún hafði búið og hélt heim til Júda ásamt tengdadætrum sínum tveim. Þegar þær gengu eftir veginum 8 sagði Naomí við tengdadætur sínar: „Snúið við og farið heim til mæðra ykkar. Megi Jehóva sýna ykkur tryggan kærleika+ eins og þið hafið sýnt mér og eiginmönnum ykkar sem nú eru dánir. 9 Megi Jehóva gefa ykkur báðum eiginmann og öruggt heimili.“*+ Síðan kyssti hún þær og þær hágrétu. 10 Þær sögðu aftur og aftur við hana: „Nei, við ætlum að fara með þér til fólks þíns.“ 11 En Naomí svaraði: „Snúið við, dætur mínar. Hvers vegna ættuð þið að koma með mér? Get ég enn fætt syni sem þið gætuð gifst?+ 12 Snúið við, dætur mínar. Farið. Ég er orðin of gömul til að giftast. Og jafnvel þótt ég gerði mér vonir um að finna eiginmann strax í kvöld og eignast syni 13 mynduð þið þá bíða þar til þeir yrðu fullorðnir? Mynduð þið þeirra vegna sleppa því að gifta ykkur? Nei, dætur mínar. Hönd Jehóva hefur snúist gegn mér+ og mér þykir sárt* að það skuli bitna á ykkur.“

14 Aftur fóru þær að hágráta. Síðan kvaddi Orpa tengdamóður sína með kossi og fór. En Rut var ákveðin í að vera áfram hjá henni. 15 Þá sagði Naomí: „Sjáðu! Svilkona þín er farin heim til fólks síns og guða sinna. Farðu með henni.“

16 En Rut svaraði: „Biddu mig ekki um að yfirgefa þig, að snúa við og hætta að fylgja þér, því að hvert sem þú ferð þangað fer ég og hvar sem þú býrð þar vil ég búa. Þitt fólk er mitt fólk og þinn Guð er minn Guð.+ 17 Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar verð ég grafin. Jehóva refsi mér harðlega ef nokkuð annað en dauðinn aðskilur okkur.“

18 Þegar Naomí sá að Rut var staðráðin í að fara með henni hætti hún að reyna að telja hana af því. 19 Síðan héldu þær báðar áfram til Betlehem.+ Þegar þær komu þangað komst öll borgin í uppnám vegna þeirra og konurnar sögðu: „Er þetta Naomí?“ 20 „Kallið mig ekki Naomí,“* sagði hún. „Kallið mig Möru* því að Hinn almáttugi hefur gert mér lífið erfitt.*+ 21 Ég var rík þegar ég fór héðan en Jehóva lét mig snúa tómhenta til baka. Hvers vegna ættuð þið að kalla mig Naomí þegar Jehóva hefur snúist gegn mér og Hinn almáttugi steypt mér í ógæfu?“+

22 Þannig sneri Naomí heim aftur frá Móabslandi+ ásamt Rut, móabískri tengdadóttur sinni. Þær komu til Betlehem í byrjun bygguppskerunnar.+

2 Nú átti Elímelek eiginmaður Naomí skyldmenni sem hét Bóas.+ Hann var mjög auðugur.

2 Rut hin móabíska sagði við Naomí: „Leyfðu mér að fara út á akurinn og tína upp kornöx+ á eftir einhverjum kornskurðarmanni sem sýnir mér velvild.“ Naomí svaraði: „Gerðu það, dóttir mín.“ 3 Hún fór þá út á akurinn og byrjaði að tína upp kornöx á eftir kornskurðarmönnunum. Það vildi svo til að hún kom á spildu sem var í eigu Bóasar+ frænda Elímeleks.+ 4 Einmitt þá kom Bóas frá Betlehem og sagði við kornskurðarmennina: „Jehóva sé með ykkur.“ Þeir svöruðu: „Jehóva blessi þig.“

5 Þá spurði Bóas þjóninn sem var yfir kornskurðarmönnunum: „Hverra manna er þessi stúlka?“ 6 Þjónninn svaraði: „Þetta er móabísk stúlka+ sem kom með Naomí frá Móabslandi.+ 7 Hún spurði hvort hún mætti tína upp afskorin kornöx*+ sem kornskurðarmennirnir hefðu skilið eftir. Hún hefur verið að síðan í morgun og var fyrst núna að setjast niður í skýlinu til að hvíla sig í smástund.“

8 Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú vel eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig nálægt stúlkunum mínum.+ 9 Fylgstu með hvar kornskurðarmennirnir skera upp og farðu með stúlkunum. Ég hef beðið mennina að láta þig í friði.* Þegar þú ert þyrst skaltu fara og drekka úr vatnskerunum sem þeir hafa fyllt.“

10 Hún féll þá á kné, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna ertu svona góður við mig og hvers vegna hefurðu veitt mér athygli þótt ég sé útlendingur?“+ 11 Bóas svaraði: „Ég hef heyrt um allt sem þú hefur gert fyrir tengdamóður þína eftir að maðurinn þinn dó og að þú yfirgafst föður þinn og móður og heimaland þitt og fórst til þjóðar sem þú þekktir ekki.+ 12 Megi Jehóva launa þér það sem þú hefur gert+ og megirðu fá fullkomin laun frá Jehóva Guði Ísraels þar sem þú ert komin til að leita skjóls undir vængjum hans.“+ 13 Þá sagði hún: „Herra minn, ég vona að ég fái að njóta velvildar þinnar áfram þar sem þú hefur huggað mig og hughreyst þótt ég sé ekki einu sinni ein af þjónustustúlkum þínum.“

14 Þegar kominn var matartími sagði Bóas við hana: „Komdu hingað, fáðu þér af brauðinu og dýfðu bitanum í vínedikið.“ Hún settist þá hjá kornskurðarmönnunum og hann rétti henni ristað korn. Hún borðaði sig sadda og átti þó eitthvað afgangs. 15 Þegar hún stóð upp til að halda áfram að tína+ sagði Bóas við þjóna sína: „Leyfið henni að tína upp afskorin kornöx* og gerið henni ekki mein.+ 16 Dragið líka öx úr knippunum fyrir hana og látið þau liggja eftir svo að hún geti tínt þau upp. Segið ekkert til að hún hætti að tína.“

17 Hún tíndi á akrinum til kvölds.+ Síðan barði hún kornöxin sem hún hafði safnað og eftir stóð um efa* af byggi. 18 Hún tók það, fór inn í borgina og sýndi tengdamóður sinni það sem hún hafði tínt. Hún tók líka fram matinn sem var afgangs+ eftir að hún hafði borðað nægju sína og gaf henni.

19 Tengdamóðir hennar spurði hana: „Hvar tíndirðu í dag? Hvar varstu að vinna? Guð blessi þann sem sýndi þér velvild.“+ Hún sagði tengdamóður sinni hjá hverjum hún hefði unnið. „Maðurinn sem ég vann hjá í dag heitir Bóas,“ sagði hún. 20 Þá sagði Naomí við tengdadóttur sína: „Megi hann njóta blessunar Jehóva sem hefur ekki hætt að sýna bæði lifandi og látnum tryggan kærleika.“+ Og hún bætti við: „Maðurinn er nákominn okkur.+ Hann er einn af lausnarmönnum okkar.“*+ 21 Þá sagði Rut hin móabíska: „Hann sagði líka við mig: ‚Haltu þig nálægt vinnufólkinu mínu þar til það hefur lokið allri uppskerunni hjá mér.‘“+ 22 Naomí sagði þá við Rut tengdadóttur sína: „Það er gott, dóttir mín, að þú farir út með stúlkunum hans svo að þú verðir ekki fyrir aðkasti á öðrum akri.“

23 Rut hélt sig því nálægt stúlkum Bóasar og tíndi þangað til bygg- og hveitiuppskerunni var lokið.+ Hún bjó áfram hjá tengdamóður sinni.+

3 Naomí tengdamóðir hennar sagði nú við hana: „Dóttir mín, á ég ekki að finna heimili* handa þér+ svo að þér vegni vel? 2 Þú varst með stúlkunum hans Bóasar og hann er tengdur okkur fjölskylduböndum.+ Í kvöld kastar hann bygginu á þreskivellinum.* 3 Þvoðu þér nú og berðu á þig ilmolíu. Klæddu þig síðan í fín föt* og farðu niður á þreskivöllinn. Láttu hann ekki verða varan við þig fyrr en hann hefur borðað og drukkið. 4 Þegar hann fer að sofa skaltu taka eftir hvar hann leggst niður. Farðu síðan og lyftu ábreiðunni af fótum hans og leggstu þar. Hann mun segja þér hvað þú átt að gera.“

5 Rut svaraði: „Ég geri allt sem þú segir mér.“ 6 Síðan fór hún niður á þreskivöllinn og gerði allt eins og tengdamóðir hennar hafði sagt henni. 7 Þegar Bóas var búinn að borða og drekka lá vel á honum og hann fór og lagðist við kornbinginn. Þá læddist hún þangað, lyfti ábreiðunni af fótum hans og lagðist niður. 8 Um miðnætti fór maðurinn að skjálfa. Hann settist upp og sá konu liggja við fætur sér. 9 Hann spurði: „Hver ert þú?“ „Þetta er Rut, þjónn þinn,“ svaraði hún. „Breiddu klæði þín yfir þjón þinn* því að þú ert lausnarmaður.“+ 10 Þá sagði hann: „Jehóva blessi þig, dóttir mín. Með þessu hefurðu sýnt enn meiri kærleika* en í fyrra skiptið+ því að þú hefur ekki hlaupið á eftir ungu mönnunum, hvorki ríkum né fátækum. 11 Vertu nú ekki hrædd, dóttir mín. Ég geri fyrir þig allt sem þú segir+ því að allir í borginni* vita hversu góð kona þú ert. 12 Það er rétt að ég er lausnarmaður+ en það er annar lausnarmaður sem er náskyldari en ég.+ 13 Vertu hér í nótt. Ef hann vill kaupa þig lausa í fyrramálið, gott og vel, leyfðu honum það.+ En ef hann vill ekki kaupa þig lausa þá mun ég gera það sjálfur, svo sannarlega sem Jehóva lifir. Liggðu nú hér til morguns.“

14 Hún lá til fóta honum til morguns en fór á fætur meðan enn var nógu dimmt til að enginn kannaðist við hana. „Enginn má vita að kona hafi komið á þreskivöllinn,“ sagði Bóas. 15 Hann sagði líka: „Taktu skikkjuna sem þú ert í og haltu henni út.“ Hún hélt henni út og hann lét sex mæla* af byggi í hana. Hann lagði síðan skikkjuna á hana og fór inn í borgina.

16 Rut fór aftur heim til tengdamóður sinnar sem spurði: „Hvernig gekk,* dóttir mín?“ Hún sagði henni frá öllu sem maðurinn hafði gert fyrir hana 17 og bætti við: „Hann gaf mér þessa sex mæla af byggi og sagði: ‚Þú mátt ekki fara tómhent heim til tengdamóður þinnar.‘“ 18 Þá sagði Naomí: „Dóttir mín, bíddu nú hér þar til þú færð að vita hvernig málinu lyktar því að Bóas mun gera allt sem hann getur til að útkljá það í dag.“

4 Bóas fór nú upp til borgarhliðsins+ og settist þar. Þá vildi svo til að lausnarmaðurinn sem Bóas hafði minnst á+ átti leið hjá. Bóas sagði: „Þú þarna,* komdu hingað og fáðu þér sæti.“ Hann kom þangað og settist. 2 Síðan kallaði Bóas saman tíu af öldungum borgarinnar+ og sagði: „Setjist hér.“ Og þeir settust.

3 Bóas sagði síðan við lausnarmanninn:+ „Naomí hefur snúið heim frá Móabslandi+ og neyðist til að selja akurinn sem Elímelek frændi okkar átti.+ 4 Mér fannst réttast að láta þig vita og segja þér að kaupa hann í viðurvist þeirra sem búa hér og öldunga fólks míns.+ Ef þú vilt kaupa* hann skaltu gera það því að þú átt réttinn á því. En ef þú vilt ekki kaupa hann skaltu segja mér það því að ég er næstur í röðinni.“ Hann svaraði: „Ég vil kaupa hann.“+ 5 Þá sagði Bóas: „Hafðu í huga að daginn sem þú kaupir akurinn af Naomí kaupirðu hann líka af Rut hinni móabísku, ekkju hins látna, til að erfðalandið haldist í ætt hins látna.“+ 6 Þá svaraði lausnarmaðurinn: „Ég get ekki keypt hann því að það gæti spillt arfinum mínum. Þú skalt sjálfur kaupa hann. Ég afsala mér réttinum því að ég get ekki keypt hann.“

7 Frá fornu fari var það venja í Ísrael að staðfesta réttinn til endurkaupa og öll skipti á þeim rétti með eftirfarandi hætti: Viðkomandi þurfti að taka af sér sandalann+ og rétta hinum. Þannig voru samningar staðfestir* í Ísrael. 8 Lausnarmaðurinn tók því af sér sandalann og sagði við Bóas: „Þú skalt kaupa hann.“ 9 Þá sagði Bóas við öldungana og allt fólkið: „Í dag eruð þið vottar þess+ að ég kaupi af Naomí allt sem Elímelek átti og allt sem Kiljón og Mahlón áttu. 10 Ég kaupi líka Rut hina móabísku, ekkju Mahlóns, mér að eiginkonu til að erfðaland hins látna haldist í ætt hans+ og nafn hans gleymist ekki meðal bræðra hans og fólksins í borginni. Í dag eruð þið vottar þess.“+

11 Þá sögðu öldungarnir og allt fólkið í borgarhliðinu: „Við erum vottar þess! Megi Jehóva gera eiginkonu þína* eins og Rakel og Leu sem urðu báðar ættmæður Ísraelsþjóðarinnar.+ Við óskum þér alls hins besta í Efrata+ og vonum að þú getir þér gott orð* í Betlehem.+ 12 Megi afkomendur þínir, sem Jehóva gefur þér með þessari ungu konu,+ verða eins og ætt Peresar+ sem Júda eignaðist með Tamar.“

13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut. Hann lagðist með henni og hún varð barnshafandi með blessun Jehóva og fæddi son. 14 Þá sögðu konurnar við Naomí: „Lofaður sé Jehóva sem hefur gefið þér lausnarmann í dag. Megi nafn drengsins verða lofað í Ísrael. 15 Hann* hefur gefið þér nýjan kraft og mun annast þig í ellinni því að tengdadóttir þín fæddi hann, hún sem elskar þig+ og hefur reynst þér betur en sjö synir.“ 16 Naomí tók drenginn í fangið og annaðist hann.* 17 Nágrannakonurnar gáfu honum nafn og sögðu: „Naomí hefur eignast son.“ Þær nefndu hann Óbeð.+ Hann er faðir Ísaí+ föður Davíðs.

18 Þetta er ættartala* Peresar:+ Peres eignaðist Hesrón,+ 19 Hesrón eignaðist Ram, Ram eignaðist Ammínadab,+ 20 Ammínadab+ eignaðist Nakson, Nakson eignaðist Salmón, 21 Salmón eignaðist Bóas, Bóas eignaðist Óbeð, 22 Óbeð eignaðist Ísaí+ og Ísaí eignaðist Davíð.+

Orðrétt „dæmdu“.

Eða „á Móabssléttu“.

Sem þýðir ‚Guð minn er konungur‘.

Sem þýðir ‚yndið mitt‘.

Hugsanlega dregið af hebresku orði sem þýðir ‚verða veikburða; veikjast‘.

Sem þýðir ‚sá sem bregst; sá sem líður undir lok‘.

Orðrétt „brauði“.

Orðrétt „hvíldarstað“.

Eða „ég harma beisklega“.

Sem þýðir ‚yndið mitt‘.

Mara þýðir ‚beisk‘.

Orðrétt „beiskt“.

Eða hugsanl. „tína öx innan um kornknippin“.

Orðrétt „snerta þig ekki“.

Eða hugsanl. „tína öx innan um kornknippin“.

Um 22 l. Sjá viðauka B14.

Eða „ættingjum okkar sem á rétt á að endurleysa okkur“.

Orðrétt „hvíldarstað“.

Korninu var kastað upp í loftið til að hreinsa burt hismið.

Eða „í yfirhöfn“.

Eða „Veittu þjóni þínum vernd“.

Eða „sýnt tryggan kærleika í enn ríkari mæli“.

Orðrétt „hliði fólks míns“.

Hugsanlega sex seur, það er, um 44 l. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „Hver ert þú“.

Biblíuritarinn sleppir vísvitandi að nafngreina manninn.

Eða „endurleysa“.

Eða „Þannig var vottfesting“.

Orðrétt „eiginkonuna sem kemur inn í hús þitt“.

Orðrétt „kunngerir nafn“.

Það er, barnabarn Naomí.

Eða „varð fóstra hans“.

Orðrétt „eru kynslóðir“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila