Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 2. Samúelsbók 1:1-24:25
  • 2. Samúelsbók

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 2. Samúelsbók
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
2. Samúelsbók

SÍÐARI SAMÚELSBÓK

1 Eftir að Sál var dáinn og Davíð hafði sigrað Amalekíta sneri hann aftur heim og var í Siklag+ í tvo daga. 2 Á þriðja degi kom maður frá herbúðum Sáls. Hann var í rifnum fötum og með mold á höfðinu. Þegar hann kom til Davíðs féll hann til jarðar og laut honum.

3 Davíð spurði hann: „Hvaðan kemur þú?“ „Ég komst undan úr herbúðum Ísraels,“ svaraði maðurinn. 4 „Hvað gerðist?“ spurði Davíð. „Segðu mér það.“ Hann svaraði: „Menn flúðu úr bardaganum og margir eru fallnir. Sál og Jónatan sonur hans eru líka dánir.“+ 5 Davíð spurði þá unga manninn sem færði honum fréttirnar: „Hvernig veistu að Sál og Jónatan sonur hans eru dánir?“ 6 Ungi maðurinn svaraði: „Það vildi svo til að ég var staddur á Gilbóafjalli.+ Þar sá ég Sál styðjast við spjót sitt og hervagnar og riddarar voru á hælunum á honum.+ 7 Þegar hann sneri sér við og kom auga á mig kallaði hann á mig og ég svaraði: ‚Hér er ég!‘ 8 ‚Hver ert þú?‘ spurði hann. ‚Ég er Amalekíti,‘+ svaraði ég. 9 Þá sagði hann: ‚Komdu hingað til mín og dreptu mig. Ég er enn á lífi en er sárkvalinn.‘ 10 Ég gekk þá til hans og banaði honum+ því að ég vissi að hann myndi ekki lifa af eins illa særður og hann var. Síðan tók ég kórónuna af höfði hans og armbandið af handlegg hans til að færa þér, herra minn.“

11 Þá þreif Davíð í föt sín og reif þau og allir mennirnir sem voru með honum gerðu það sama. 12 Þeir syrgðu og grétu og föstuðu+ til kvölds vegna þess að Sál, Jónatan sonur hans og svo margir af þjóð Jehóva, svo margir Ísraelsmenn,+ höfðu fallið fyrir sverði.

13 Davíð spurði unga manninn sem færði honum fréttirnar: „Hvaðan ertu?“ „Ég er sonur útlendings, Amalekíta sem býr hér,“ svaraði hann. 14 Davíð sagði þá: „Hvernig dirfðistu að lyfta hendi til að drepa smurðan konung Jehóva?“+ 15 Síðan kallaði Davíð á einn af ungu mönnunum og sagði: „Komdu hingað og dreptu hann.“ Og hann hjó hann til bana.+ 16 „Dauði þinn er sjálfum þér að kenna,“* sagði Davíð, „því að þú vitnaðir gegn þér þegar þú sagðir: ‚Ég drap smurðan konung Jehóva.‘“+

17 Síðan flutti Davíð sorgarkvæði um Sál og Jónatan son hans+ 18 og sagði að Júdamenn skyldu læra það. Kvæðið heitir „Boginn“ og er skráð í Jasarsbók:*+

19 „Prýði þín, Ísrael, liggur vegin á hæðum þínum.+

Kapparnir eru fallnir!

20 Segið ekki frá því í Gat,+

tilkynnið það ekki á götum Askalon

svo að dætur Filistea fagni ekki

og dætur óumskorinna gleðjist ekki.

21 Þið Gilbóafjöll,+

á ykkur skal hvorki falla dögg né regn

né heldur heilagar fórnir spretta af ökrum ykkar+

því að þar var skjöldur kappanna vanhelgaður,

skjöldur Sáls verður ekki framar smurður olíu.

22 Bogi Jónatans+ sneri aldrei heim

án blóðs hinna vegnu og án fitu kappanna,

og sverð Sáls sneri alltaf sigrandi úr stríði.+

23 Sál og Jónatan,+ elskaðir og dáðir* meðan þeir lifðu,

voru ekki skildir að í dauðanum.+

Þeir voru skjótari en ernir,+

sterkari en ljón.+

24 Dætur Ísraels, grátið yfir Sál,

honum sem klæddi ykkur í skarlat og skrautklæði

og festi gullskart á klæðnað ykkar.

25 Kapparnir eru fallnir í bardaganum!

Jónatan liggur veginn á hæðum þínum!+

26 Ég er harmi sleginn, Jónatan bróðir minn.

Þú varst mér mjög kær.+

Ást þín var mér mætari en ástir kvenna.+

27 Kapparnir eru fallnir

og stríðsvopnin glötuð.“

2 Nokkru seinna spurði Davíð Jehóva:+ „Á ég að flytja til einhverrar af borgunum í Júda?“ „Já, gerðu það,“ svaraði Jehóva. „Hvert á ég að fara?“ spurði þá Davíð. „Til Hebron,“+ svaraði hann. 2 Davíð lagði þá af stað ásamt báðum eiginkonum sínum, þeim Akínóam+ frá Jesreel og Abígail,+ ekkju Nabals frá Karmel. 3 Davíð tók líka með sér mennina sem fylgdu honum+ og fjölskyldur þeirra, og þeir settust að í borgunum í kringum Hebron. 4 Síðan komu Júdamenn til Davíðs og smurðu hann til konungs yfir ættkvísl Júda.+

Þeir sögðu við Davíð: „Menn frá Jabes í Gíleað jörðuðu Sál.“ 5 Þá sendi Davíð menn til Jabes í Gíleað með þessi boð til mannanna: „Jehóva blessi ykkur fyrir að jarða Sál herra ykkar+ og sýna honum þannig tryggan kærleika. 6 Megi Jehóva sýna ykkur tryggan kærleika og trúfesti. Ég mun líka sýna ykkur vinsemd fyrir það sem þið gerðuð.+ 7 Verið nú sterkir og herðið upp hugann. Sál herra ykkar er að vísu dáinn en Júdaættkvísl hefur smurt mig til konungs.“

8 Abner+ Nersson hershöfðingi Sáls hafði farið með Ísbóset+ son Sáls yfir til Mahanaím+ 9 og gert hann að konungi yfir Gíleað,+ Asúrítum, Jesreel,+ Efraím,+ Benjamín og yfir öllum Ísrael. 10 Ísbóset sonur Sáls var fertugur þegar hann varð konungur yfir Ísrael og hann ríkti í tvö ár. En Júdaættkvísl studdi Davíð.+ 11 Davíð ríkti í Hebron, yfir Júdaættkvísl, í sjö ár og sex mánuði.+

12 Dag einn fór Abner Nersson frá Mahanaím+ til Gíbeon+ ásamt þjónum Ísbósets Sálssonar. 13 Jóab+ Serújuson+ og þjónar Davíðs fóru einnig af stað og mættu þeim við Gíbeontjörn. Hóparnir settust hvor sínum megin við tjörnina. 14 Loks sagði Abner við Jóab: „Við skulum láta ungu mennina standa upp og takast á* frammi fyrir okkur.“ Jóab samþykkti það. 15 Mennirnir stóðu þá upp, voru taldir og gengu fram, 12 af mönnum Ísbósets Sálssonar fyrir ættkvísl Benjamíns og 12 af þjónum Davíðs. 16 Hver og einn þreif í höfuð andstæðings síns og rak sverð sitt í síðu hans svo að báðir féllu. Þess vegna var staðurinn nefndur Helkat Hassúrím,* en hann er í Gíbeon.

17 Þennan dag braust út mjög harður bardagi sem lauk með því að Abner og hermenn Ísraels biðu ósigur fyrir þjónum Davíðs. 18 Allir þrír synir Serúju+ voru þarna, þeir Jóab,+ Abísaí+ og Asael.+ Asael var frár á fæti eins og gasella á víðavangi. 19 Hann hljóp á eftir Abner og elti hann án þess að víkja til hægri eða vinstri. 20 Abner leit við og spurði: „Ert þetta þú, Asael?“ „Já,“ svaraði hann. 21 Þá sagði Abner: „Hættu að elta mig! Gríptu einn af ungu mönnunum og taktu af honum hvað sem þú vilt.“ En Asael vildi ekki hætta að elta hann. 22 Abner sagði þá aftur við hann: „Hættu að elta mig! Hvers vegna ætti ég að drepa þig? Hvernig gæti ég þá litið framan í Jóab bróður þinn?“ 23 En hann lét sér ekki segjast. Þá rak Abner spjótskaftið í kvið hans+ svo að það kom út um bakið og hann féll niður og dó samstundis. Allir sem komu þangað sem Asael hafði fallið niður dauður námu staðar.

24 Jóab og Abísaí eltu nú Abner. Undir sólsetur komu þeir til Ammahæðar, en hún er á móts við Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða. 25 Benjamínítar söfnuðust saman fyrir aftan Abner, mynduðu eina fylkingu og tóku sér stöðu efst uppi á hæð einni. 26 Síðan hrópaði Abner til Jóabs: „Fá sverð okkar aldrei nóg? Veistu ekki að þetta á bara eftir að enda með skelfingu? Hve lengi ætlarðu að bíða með að skipa mönnum þínum að hætta að elta bræður sína?“ 27 Jóab svaraði: „Svo sannarlega sem hinn sanni Guð lifir hefðu menn mínir ekki hætt að elta bræður sína fyrr en í fyrramálið ef þú hefðir ekkert sagt.“ 28 Síðan blés Jóab í hornið og menn hans hættu að elta Ísrael. Þar með linnti átökunum.

29 Abner og menn hans gengu yfir Araba+ alla þá nótt. Þeir fóru yfir Jórdan og gengu síðan eftir dalnum* þar til þeir komu loks til Mahanaím.+ 30 Þegar Jóab hætti að elta Abner kallaði hann menn sína saman. Þá vantaði 19 af þjónum Davíðs auk Asaels. 31 En þjónar Davíðs höfðu sigrað Benjamínítana og menn Abners og fellt 360 úr liði þeirra. 32 Þeir tóku Asael+ og jörðuðu hann í gröf föður hans í Betlehem.+ Jóab og menn hans gengu síðan alla nóttina og komu til Hebron+ í dögun.

3 Stríðið milli ættar Sáls og ættar Davíðs dróst á langinn. Davíð efldist meir og meir+ en ætt Sáls varð sífellt veikari.+

2 Í Hebron eignaðist Davíð þessa syni:+ Frumburður hans var Amnon+ sem hann eignaðist með Akínóam+ frá Jesreel. 3 Annar sonur hans var Kíleab sem hann eignaðist með Abígail,+ ekkju Nabals frá Karmel, og sá þriðji var Absalon,+ sonur Maöku dóttur Talmaí,+ konungs í Gesúr. 4 Sá fjórði var Adónía+ sonur Haggítar og sá fimmti Sefatja sonur Abítalar. 5 Sá sjötti var Jitream sem Davíð eignaðist með Eglu konu sinni. Þessa syni eignaðist Davíð í Hebron.

6 Meðan stríðið stóð milli ættar Sáls og ættar Davíðs styrkti Abner+ völd sín í ætt Sáls. 7 Sál hafði átt hjákonu sem hét Rispa+ og var dóttir Aja. Dag nokkurn sagði Ísbóset+ við Abner: „Hvers vegna svafstu hjá hjákonu föður míns?“+ 8 Abner varð mjög reiður yfir því að Ísbóset skyldi segja þetta og sagði: „Er ég hundshaus frá Júda? Allt fram á þennan dag hef ég sýnt ætt Sáls föður þíns, bræðrum hans og vinum tryggan kærleika, og ég hef ekki svikið þig í hendur Davíðs. En nú sakarðu mig um að hafa brotið af mér með kvenmanni! 9 Guð refsi mér harðlega ef ég breyti ekki í samræmi við það sem Jehóva sór Davíð:+ 10 að svipta ætt Sáls konungdóminum og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba.“+ 11 Ísbóset gat ekki svarað Abner einu orði því að hann var hræddur við hann.+

12 Abner sendi tafarlaust menn til Davíðs með þessi skilaboð: „Hver á landið? Gerðu sáttmála við mig og þá geri ég allt sem í mínu valdi stendur* til að snúa öllum Ísrael til liðs við þig.“+ 13 Davíð svaraði: „Já, ég skal gera sáttmála við þig en með einu skilyrði: Færðu mér Míkal+ dóttur Sáls þegar þú kemur til mín. Annars skaltu ekki reyna að koma.“ 14 Því næst sendi Davíð menn til Ísbósets+ Sálssonar með þessi boð: „Fáðu mér aftur Míkal konu mína sem ég trúlofaðist fyrir forhúðir 100 Filistea.“+ 15 Þá sendi Ísbóset eftir henni og lét taka hana frá eiginmanni hennar, Paltíel+ Laíssyni. 16 En maðurinn hennar gekk með henni og fylgdi henni grátandi alla leið til Bahúrím.+ Þá sagði Abner við hann: „Farðu nú heim!“ Og hann fór heim.

17 Abner hafði sent öldungum Ísraels þessi skilaboð: „Þið hafið lengi viljað fá Davíð sem konung. 18 Látið nú verða af því. Jehóva hefur nefnilega sagt við Davíð: ‚Fyrir milligöngu Davíðs+ þjóns míns mun ég bjarga þjóð minni, Ísrael, úr höndum Filistea og úr höndum allra óvina hennar.‘“ 19 Abner talaði líka við Benjamíníta.+ Síðan fór hann til Hebron til að tala einslega við Davíð og segja honum hvað Ísrael og öll ættkvísl Benjamíns hafði ákveðið.

20 Þegar Abner kom til Davíðs í Hebron ásamt 20 mönnum sló Davíð upp veislu fyrir Abner og menn hans. 21 Abner sagði við Davíð: „Ég skal fara og safna saman öllum Ísrael og stefna honum til þín, herra minn og konungur. Þeir munu gera sáttmála við þig og þú verður konungur yfir öllu sem þú óskar þér.“ Síðan sendi Davíð Abner burt og hann fór í friði.

22 Rétt í því komu menn Davíðs ásamt Jóab heim úr herferð og höfðu mikið herfang með sér. Abner var þá ekki lengur hjá Davíð í Hebron því að hann hafði sent hann burt í friði. 23 Þegar Jóab+ kom og allur herinn sem fylgdi honum var honum sagt: „Abner+ Nersson+ kom til konungsins og hann sendi hann burt í friði.“ 24 Jóab gekk þá inn til konungs og sagði: „Hvað hefurðu gert? Abner kom til þín en þú sendir hann burt! Af hverju leyfðirðu honum að komast undan? 25 Þú veist hvernig Abner Nersson er. Hann kom hingað til að blekkja þig og til að njósna um þig og komast á snoðir um allt sem þú gerir.“

26 Þegar Jóab var farinn frá Davíð sendi hann menn til að sækja Abner. Þeir komu aftur með hann frá Sírabrunni. En Davíð vissi ekki af þessu. 27 Þegar Abner var kominn aftur til Hebron+ tók Jóab hann afsíðis í borgarhliðinu til að tala við hann einslega en stakk hann síðan í kviðinn og banaði honum.+ Þetta gerði hann til að hefna* Asaels bróður síns.+ 28 Seinna frétti Davíð af þessu og sagði: „Ég og ríki mitt erum ævinlega saklaus frammi fyrir Jehóva af blóði Abners Nerssonar.+ 29 Megi það koma yfir Jóab+ og alla ætt föður hans. Alltaf skal einhver maður í ætt Jóabs vera með útferð,+ holdsveiki+ eða þurfa að spinna garn,* falla fyrir sverði eða vera matarþurfi.“+ 30 Jóab og Abísaí+ bróðir hans drápu Abner+ því að hann hafði banað Asael bróður þeirra í orrustunni+ við Gíbeon.

31 Davíð sagði við Jóab og alla sem voru hjá honum: „Rífið föt ykkar, bindið um ykkur hærusekk og syrgið Abner.“ Sjálfur gekk Davíð konungur á eftir líkbörunum. 32 Abner var jarðaður í Hebron. Konungur grét hástöfum við gröf hans og allt fólkið grét líka. 33 Konungurinn flutti þetta sorgarkvæði um Abner:

„Þurfti Abner að deyja með smán?

34 Hendur þínar voru ekki bundnar

og fætur þínir ekki í fjötrum.*

Þú féllst eins og sá sem fellur fyrir hendi þrjóta.“+

Þá grét allt fólkið enn meira yfir honum.

35 Seinna, meðan enn var bjart, komu allir og reyndu að fá Davíð til að borða* en Davíð vann eið og sagði: „Guð refsi mér harðlega ef ég fæ mér brauðbita eða nokkuð annað fyrir sólsetur.“+ 36 Allir tóku eftir þessu og þeim líkaði það vel eins og reyndar allt annað sem konungur gerði. 37 Þann dag vissu allir sem voru þarna og allur Ísrael að konungurinn bar ekki ábyrgð á morðinu á Abner Nerssyni.+ 38 Konungur sagði við þjóna sína: „Vitið þið ekki að í dag féll höfðingi og stórmenni í Ísrael?+ 39 En ég er veikburða í dag þótt ég sé smurður konungur.+ Og þessir menn, Serújusynir,+ eru of miklir hrottar fyrir mig.+ Jehóva gjaldi illvirkjanum eins og hann á skilið fyrir illskuverk sitt.“+

4 Þegar Ísbóset+ sonur Sáls frétti að Abner væri dáinn í Hebron+ féllust honum hendur og allir Ísraelsmenn urðu óttaslegnir. 2 Sonur Sáls hafði hjá sér tvo menn sem fóru fyrir ránsflokkum hans. Annar þeirra hét Baana en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmons frá Beerót af ættkvísl Benjamíns. (En Beerót+ taldist einnig til Benjamíns. 3 Íbúar Beerót flúðu til Gittaím+ og búa þar sem útlendingar enn þann dag í dag.)

4 Jónatan+ sonur Sáls átti son sem var bæklaður* á fótum.+ Hann var fimm ára þegar fréttin um dauða Sáls og Jónatans barst frá Jesreel.+ Fóstra hans tók hann upp og flúði í ofboði en missti hann á flóttanum. Upp frá því var hann bæklaður. Hann hét Mefíbóset.+

5 Einhverju sinni komu Rekab og Baana, synir Rimmons frá Beerót, inn í hús Ísbósets á heitasta tíma dags, en þá hafði Ísbóset fengið sér miðdegisblund. 6 Rekab og Baana+ bróðir hans fóru inn í húsið og þóttust ætla að sækja hveiti en í staðinn stungu þeir Ísbóset í kviðinn og forðuðu sér. 7 Þegar þeir komu inn í húsið lá Ísbóset í rúminu í svefnherbergi sínu. Þeir stungu hann til bana, hjuggu af honum höfuðið og tóku það með sér. Síðan gengu þeir eftir veginum til Araba alla nóttina. 8 Þegar þeir komu til Hebron færðu þeir Davíð höfuð Ísbósets+ og sögðu við konung: „Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls óvinar þíns+ sem sóttist eftir lífi þínu.+ Í dag hefur Jehóva veitt herra mínum og konungi hefnd á Sál og afkomendum hans.“

9 En Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, sonum Rimmons frá Beerót: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur bjargað mér úr öllum erfiðleikum,+ 10 þá lét ég handsama og drepa manninn sem sagði mér í Siklag að Sál væri dáinn+ og hélt að hann færði mér góðar fréttir.+ Það voru sögulaunin sem hann fékk frá mér. 11 Og nú, þegar illmenni hafa drepið réttlátan mann í rúmi hans í eigin húsi, ætti ég þá ekki miklu frekar að krefjast blóðs hans af ykkur+ og afmá ykkur af jörðinni?“ 12 Síðan skipaði Davíð ungu mönnunum að drepa þá.+ Þeir hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp+ við tjörnina í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og lögðu í gröf Abners í Hebron.

5 Að nokkrum tíma liðnum komu allar ættkvíslir Ísraels til Davíðs í Hebron+ og sögðu: „Við erum hold þitt og bein.+ 2 Áður fyrr, þegar Sál var konungur okkar, varst það þú sem fórst fyrir Ísrael í hernaði.+ Jehóva sagði við þig: ‚Þú verður hirðir þjóðar minnar, Ísraels. Þú verður leiðtogi Ísraels.‘“+ 3 Þegar allir öldungar Ísraels voru komnir til konungsins í Hebron gerði Davíð konungur sáttmála við þá+ frammi fyrir Jehóva í Hebron. Síðan smurðu þeir Davíð til konungs yfir Ísrael.+

4 Davíð var þrítugur þegar hann varð konungur og hann ríkti í 40 ár.+ 5 Í Hebron ríkti hann yfir Júda í 7 ár og 6 mánuði og í Jerúsalem+ ríkti hann í 33 ár yfir öllum Ísrael og Júda. 6 Konungurinn og menn hans lögðu nú af stað til Jerúsalem til að berjast við Jebúsíta+ sem bjuggu í landinu. Þeir hæddust að Davíð og sögðu: „Þú kemst aldrei hingað inn! Jafnvel blindir og haltir munu reka þig burt.“ Þeir hugsuðu með sér: „Davíð kemst aldrei hingað inn.“+ 7 En Davíð tók virkið Síon sem er nú kallað Davíðsborg.+ 8 Þann dag sagði Davíð: „Þeir sem ráðast á Jebúsítana skulu fara í gegnum vatnsgöngin og drepa ‚þá höltu og blindu‘ sem ég hata.“* Þess vegna er tekið svo til orða: „Blindir og haltir komast aldrei inn í húsið.“ 9 Davíð settist að í virkinu og það var nefnt* Davíðsborg. Hann hófst handa við að byggja þar umhverfis, frá Milló*+ og inn á við.+ 10 Davíð efldist sífellt meir+ og Jehóva, Guð hersveitanna, var með honum.+

11 Híram,+ konungur í Týrus, sendi menn á fund Davíðs. Hann sendi líka sedrusvið,+ trésmiði og steinsmiði til að reisa veggi, og þeir byggðu hús* handa Davíð.+ 12 Davíð skildi að Jehóva hafði fest hann í sessi sem konung yfir Ísrael+ og upphafið konungdóm hans+ vegna þjóðar sinnar, Ísraels.+

13 Eftir að Davíð fluttist frá Hebron til Jerúsalem tók hann sér fleiri hjákonur+ og eiginkonur og eignaðist fleiri syni og dætur.+ 14 Þetta eru nöfn sona hans sem fæddust í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan,+ Salómon,+ 15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía, 16 Elísama, Eljada og Elífelet.

17 Þegar Filistear fréttu að Davíð hefði verið smurður til konungs yfir Ísrael+ lögðu þeir allir af stað til að leita að honum.+ Þegar Davíð frétti það fór hann niður í fjallavígið.+ 18 Filistear komu nú og dreifðu sér um Refaímdal.*+ 19 Davíð spurði Jehóva:+ „Á ég að fara gegn Filisteum? Ætlarðu að gefa þá í mínar hendur?“ Jehóva svaraði honum: „Farðu gegn þeim því að ég mun vissulega gefa Filistea í þínar hendur.“+ 20 Davíð fór þá til Baal Perasím og sigraði þá þar. Hann sagði: „Jehóva hefur brotist í gegnum fylkingar óvina minna+ frammi fyrir mér eins og vatnsflaumur sem ryður sér leið.“ Þess vegna nefndi hann staðinn Baal Perasím.*+ 21 Filistear skildu skurðgoð sín eftir þar og Davíð og menn hans fjarlægðu þau.

22 Nokkru síðar komu Filistear aftur og dreifðu sér um Refaímdal.*+ 23 Davíð leitaði leiðsagnar Jehóva en hann svaraði: „Farðu ekki beint á móti þeim. Taktu heldur sveig, komdu aftan að þeim og gerðu árás á þá hjá bakarunnunum. 24 Þegar þú heyrir þyt í toppum bakarunnanna eins og í þrammandi hermönnum skaltu bregðast fljótt við því að Jehóva fer þá fyrir þér til að leggja her Filistea að velli.“ 25 Davíð gerði eins og Jehóva sagði honum og felldi Filistea+ frá Geba+ alla leið til Geser.+

6 Davíð safnaði aftur saman öllum bestu hermönnum Ísraels, 30.000 mönnum. 2 Síðan lagði hann af stað ásamt öllu liði sínu til Baala í Júda til að sækja örk hins sanna Guðs.+ Frammi fyrir henni ákalla menn nafn Jehóva hersveitanna+ sem situr í hásæti sínu yfir kerúbunum.*+ 3 En örk hins sanna Guðs var flutt á nýjum vagni+ úr húsi Abínadabs+ á hæðinni. Ússa og Ahjó synir Abínadabs stjórnuðu vagninum.

4 Þeir fluttu örk hins sanna Guðs úr húsi Abínadabs á hæðinni og Ahjó gekk á undan henni. 5 Davíð og allir Ísraelsmenn fögnuðu frammi fyrir Jehóva og léku á alls konar hljóðfæri úr einiviði, á hörpur og önnur strengjahljóðfæri,+ tambúrínur,+ sjálfóma* og málmgjöll.+ 6 En þegar þeir komu á þreskivöll Nakóns lá við að uxarnir veltu vagninum. Þá rétti Ússa út höndina og greip í örk hins sanna Guðs.+ 7 Reiði Jehóva blossaði upp gegn Ússa og hinn sanni Guð greiddi honum banahögg+ fyrir að sýna slíkt virðingarleysi.+ Hann lét þar lífið við hliðina á örk hins sanna Guðs. 8 En Davíð gramdist það* að reiði Jehóva skyldi hafa brotist út gegn Ússa. Staðurinn var nefndur Peres Ússa* og heitir það enn þann dag í dag. 9 Davíð varð hræddur við Jehóva+ þennan dag og sagði: „Hvernig á örk Jehóva að geta komist til mín?“+ 10 Davíð vildi ekki flytja örk Jehóva heim til sín í Davíðsborg.+ Í staðinn lét hann fara með hana heim til Óbeðs Edóms+ í Gat.*

11 Örk Jehóva var í húsi Óbeðs Edóms í Gat í þrjá mánuði og Jehóva blessaði Óbeð Edóm og allt heimilisfólk hans.+ 12 Davíð konungi var sagt: „Jehóva hefur blessað hús Óbeðs Edóms og allt sem hann á vegna arkar hins sanna Guðs.“ Davíð fór þá glaður í bragði heim til Óbeðs Edóms til að sækja örk hins sanna Guðs og flytja hana upp til Davíðsborgar.+ 13 Þegar þeir sem báru+ örk Jehóva höfðu gengið sex skref fórnaði hann nauti og alikálfi.

14 Davíð dansaði af öllum mætti frammi fyrir Jehóva, klæddur* línhökli.+ 15 Davíð og allir Ísraelsmenn fluttu örk+ Jehóva upp eftir með fagnaðarópum+ og hornablæstri.+ 16 En þegar örk Jehóva kom til Davíðsborgar leit Míkal+ dóttir Sáls út um gluggann og sá Davíð konung hoppa og dansa í hringi frammi fyrir Jehóva. Hún fyrirleit hann þá í hjarta sínu.+ 17 Örk Jehóva var nú borin inn og henni komið fyrir á sínum stað í tjaldinu sem Davíð hafði slegið upp fyrir hana.+ Síðan færði Davíð brennifórnir+ og samneytisfórnir+ frammi fyrir Jehóva.+ 18 Eftir að Davíð hafði fært brennifórnirnar og samneytisfórnirnar blessaði hann fólkið í nafni Jehóva hersveitanna. 19 Auk þess gaf hann öllu fólkinu, öllum Ísraelsmönnum, bæði körlum og konum, einn kringlóttan brauðhleif á mann, eina döðluköku og eina rúsínuköku. Síðan fór fólkið heim til sín.

20 Þegar Davíð kom heim til að blessa heimilisfólk sitt gekk Míkal+ dóttir Sáls út á móti honum og sagði: „Mikið var konungur Ísraels virðulegur í dag þegar hann hljóp um hálfnakinn frammi fyrir ambáttum þjóna sinna eins og vitleysingar gera!“+ 21 Davíð svaraði Míkal: „Það var frammi fyrir Jehóva sem ég fagnaði. Jehóva valdi mig fram yfir föður þinn og alla fjölskyldu hans og gerði mig að leiðtoga yfir þjóð sinni, Ísrael.+ Þess vegna vil ég fagna frammi fyrir Jehóva. 22 Ég ætla að lítillækka mig enn frekar og verða smár í eigin augum en ambáttirnar sem þú nefndir munu meta mig mikils.“ 23 En Míkal+ dóttir Sáls var barnlaus til æviloka.

7 Nú hafði konungur komið sér fyrir í húsi sínu*+ og Jehóva gefið honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring. 2 Þá sagði konungur við Natan+ spámann: „Hér bý ég í húsi úr sedrusviði+ en örk hins sanna Guðs býr undir tjalddúkum.“+ 3 Natan svaraði konungi: „Gerðu allt sem þér býr í hjarta því að Jehóva er með þér.“+

4 En sömu nótt kom orð Jehóva til Natans: 5 „Farðu og segðu við Davíð þjón minn: ‚Jehóva segir: „Hvers vegna ættir þú að reisa mér hús til að búa í?+ 6 Frá því að ég leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og allt til þessa hef ég ekki búið í húsi+ heldur hef ég ferðast* um og búið í tjaldi og búðum.+ 7 Ég ferðaðist lengi með öllum Ísraelsmönnum og skipaði ættarhöfðingja Ísraels sem hirða þjóðar minnar. En spurði ég nokkurn tíma einhvern þeirra: ‚Hvers vegna hafið þið ekki reist mér hús úr sedrusviði?‘“‘ 8 Segðu auk þess við Davíð þjón minn: ‚Jehóva hersveitanna segir: „Ég sótti þig í hagann þar sem þú gættir hjarðarinnar+ og gerði þig að leiðtoga yfir þjóð minni, Ísrael.+ 9 Ég verð með þér hvert sem þú ferð+ og eyði öllum óvinum þínum frammi fyrir þér.+ Ég geri nafn þitt eins frægt og nöfn stórmenna jarðarinnar.+ 10 Ég vel stað handa þjóð minni, Ísrael, og gróðurset hana þar svo að hún geti búið þar óáreitt. Illir menn munu ekki kúga hana eins og áður,+ 11 eins og þeir gerðu allt frá því að ég skipaði dómara+ yfir þjóð mína, Ísrael. Og ég gef þér frið fyrir öllum óvinum þínum.+

Jehóva segir þér einnig að Jehóva ætli að stofna handa þér konungsætt.*+ 12 Þegar dagar þínir eru liðnir+ og þú hefur verið lagður til hvíldar hjá forfeðrum þínum geri ég afkomanda þinn, þinn eigin son, að konungi eftir þig og staðfesti konungdóm hans.+ 13 Hann mun reisa hús nafni mínu til heiðurs+ og ég mun staðfesta konunglegt hásæti hans að eilífu.+ 14 Ég verð faðir hans og hann verður sonur minn.+ Þegar hann brýtur af sér aga ég hann með vendi manna og refsa honum með höggum eins og menn* gera.+ 15 Ég tek ekki tryggan kærleika minn frá honum eins og ég tók hann frá Sál+ sem ég lét víkja fyrir þér. 16 Ætt þín og konungdómur mun vara að eilífu frammi fyrir þér og hásæti þitt standa stöðugt um ókomna tíð.“‘“+

17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og alla þessa sýn.+

18 Þá gekk Davíð konungur inn, settist frammi fyrir Jehóva og sagði: „Hver er ég, alvaldur Drottinn Jehóva? Og hver er ætt mín úr því að þú hefur látið mig ná svona langt?+ 19 En ekki nóg með það, alvaldur Drottinn Jehóva, heldur hefurðu líka sagt að ætt þjóns þíns muni vara til fjarlægrar framtíðar. Þessi fyrirmæli* varða allt mannkynið, alvaldur Drottinn Jehóva. 20 Hvað meira getur Davíð þjónn þinn sagt við þig? Þú þekkir mig svo vel,+ alvaldur Drottinn Jehóva. 21 Þú hefur unnið öll þessi stórvirki vegna loforðs þíns og samkvæmt vilja þínum* og opinberað þau þjóni þínum.+ 22 Þess vegna ertu mikill,+ alvaldur Drottinn Jehóva. Enginn er eins og þú+ og enginn er Guð nema þú.+ Allt sem við höfum heyrt með eigin eyrum staðfestir það. 23 Og hvaða þjóð á jörðinni er eins og þjóð þín, Ísrael?+ Guð, þú frelsaðir hana* og gerðir hana að þjóð þinni.+ Þú gerðir nafn þitt frægt+ með því að vinna mikil og stórfengleg verk fyrir hana.+ Þú hraktir burt þjóðir og guði þeirra vegna fólks þíns sem þú leystir handa sjálfum þér úr ánauð í Egyptalandi. 24 Þú hefur gert Ísraelsmenn að þjóð þinni um alla eilífð+ og þú, Jehóva, ert orðinn Guð þeirra.+

25 Jehóva Guð, haltu ævinlega loforðið sem þú hefur gefið þjóni þínum og ætt hans. Gerðu það sem þú hefur lofað.+ 26 Megi nafn þitt vera mikið að eilífu+ svo að fólk segi: ‚Jehóva hersveitanna er Guð Ísraels.‘ Og megi ætt Davíðs þjóns þíns standa stöðug frammi fyrir þér.+ 27 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, þú hefur opinberað þjóni þínum þetta og sagt: ‚Ég ætla að stofna handa þér konungsætt.‘*+ Þess vegna hefur þjónn þinn kjark til að bera þessa bæn fram fyrir þig. 28 Alvaldur Drottinn Jehóva, þú ert hinn sanni Guð og orð þín eru sannleikur.+ Þú hefur lofað þjóni þínum öllum þessum gæðum. 29 Viltu því blessa ætt þjóns þíns og megi hún standa að eilífu frammi fyrir þér.+ Þú, alvaldur Drottinn Jehóva, hefur lofað þessu. Megi ætt þjóns þíns njóta blessunar þinnar að eilífu.“+

8 Nokkru síðar barðist Davíð við Filistea+ og sigraði þá+ og tók Meteg Amma úr höndum þeirra.

2 Hann sigraði líka Móabíta.+ Hann lét þá leggjast á jörðina og mældi þá með snúru. Hann mældi tvær snúrulengdir til lífláts og eina til lífs.+ Síðan urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.+

3 Davíð sigraði Hadadeser Rehóbsson, konung í Sóba,+ en Hadadeser var þá í leiðangri til að endurheimta fyrri völd sín við Efratfljót.+ 4 Davíð tók til fanga 1.700 riddara og 20.000 fótgönguliða. Síðan skar hann í sundur hásinarnar á öllum vagnhestunum+ að 100 undanskildum.

5 Þegar Sýrlendingar frá Damaskus+ komu til að hjálpa Hadadeser, konungi í Sóba, lagði Davíð 22.000 þeirra að velli.+ 6 Síðan kom Davíð setuliðum fyrir í Sýrlandi, sem er kennt við Damaskus, og Sýrlendingar urðu skattskyldir þegnar hans. Jehóva veitti Davíð sigur hvert sem hann fór.+ 7 Davíð tók gullskildina sem menn Hadadesers báru og fór með þá til Jerúsalem.+ 8 Hann tók einnig gríðarlegt magn af kopar í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers.

9 Þegar Tói, konungur í Hamat,+ frétti að Davíð hefði sigrað allan her Hadadesers+ 10 sendi hann Jóram son sinn til Davíðs konungs til að flytja honum kveðju og óska honum til hamingju með sigurinn á Hadadeser, en Tói hafði oft átt í stríði við Hadadeser. Jóram færði honum gripi úr silfri, gulli og kopar. 11 Davíð konungur helgaði gripina Jehóva eins og hann gerði við silfrið og gullið sem hann hafði tekið frá öllum þjóðunum sem hann hafði sigrað:+ 12 frá Sýrlandi og Móab+ og frá Ammónítum, Filisteum+ og Amalekítum.+ Það sama hafði hann gert við herfangið frá Hadadeser+ Rehóbssyni, konungi í Sóba. 13 Davíð vann sér það einnig til frægðar að fella 18.000 Edómíta í Saltdalnum.+ 14 Hann kom fyrir setuliðum í Edóm, í öllu Edómslandi, og allir Edómítar urðu þjónar hans.+ Jehóva veitti Davíð sigur hvert sem hann fór.+

15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael+ og sá til þess að öll þjóðin nyti réttar og réttlætis.+ 16 Jóab+ Serújuson var settur yfir herinn og Jósafat+ Ahílúðsson var ríkisritari.* 17 Sadók+ Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja var ritari. 18 Benaja+ Jójadason var settur yfir Keretana og Peletana+ og synir Davíðs fengu háar stöður við hirðina.*

9 Nú spurði Davíð: „Er einhver eftir af ætt Sáls? Þá vil ég sýna þeim manni tryggan kærleika vegna Jónatans.“+ 2 Maður að nafni Síba+ þjónaði fjölskyldu Sáls. Hann var kallaður fyrir Davíð og konungur spurði hann: „Ert þú Síba?“ „Já, ég er þjónn þinn,“ svaraði hann. 3 Konungur hélt áfram: „Er einhver eftir af ætt Sáls sem ég get sýnt tryggan kærleika Guðs?“ Síba svaraði konungi: „Einn af sonum Jónatans er enn á lífi. Hann er bæklaður* á báðum fótum.“+ 4 „Hvar er hann?“ spurði konungur. „Hann er í húsi Makírs+ Ammíelssonar í Lódebar,“ svaraði Síba.

5 Davíð konungur lét þá tafarlaust sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar. 6 Þegar Mefíbóset, sonur Jónatans Sálssonar, kom til Davíðs féll hann á grúfu og laut honum. Þá sagði Davíð: „Mefíbóset!“ Hann svaraði: „Hér er þjónn þinn.“ 7 Davíð sagði við hann: „Vertu óhræddur því að ég ætla að sýna þér tryggan kærleika+ vegna Jónatans föður þíns. Ég ætla að skila þér öllu landinu sem Sál afi þinn átti og þú skalt alltaf matast* við borð mitt.“+

8 Þá kastaði Mefíbóset sér niður frammi fyrir honum og sagði: „Hver er þjónn þinn fyrst þú lætur þér umhugað um dauðan hund+ eins og mig?“ 9 Konungur sendi nú eftir Síba þjóni Sáls og sagði við hann: „Ég gef sonarsyni herra þíns allt sem Sál og fjölskylda hans átti.+ 10 Þú átt að rækta landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þjónum og safna saman uppskerunni handa fjölskyldu hans svo að hún hafi nóg að borða. En Mefíbóset, sonarsonur herra þíns, skal alltaf matast við borð mitt.“+

Síba átti 15 syni og 20 þjóna.+ 11 Síba svaraði konungi: „Ég, þjónn þinn, mun gera allt sem herra minn, konungurinn, biður mig um.“ Síðan mataðist Mefíbóset við borð Davíðs* eins og hann væri einn af sonum konungs. 12 Mefíbóset átti ungan son sem hét Míka.+ Allir sem bjuggu í húsi Síba urðu þjónar Mefíbósets 13 en Mefíbóset bjó í Jerúsalem því að hann mataðist alltaf við borð konungs.+ Hann var bæklaður á báðum fótum.+

10 Nokkru síðar dó konungur Ammóníta+ og Hanún sonur hans varð konungur eftir hann.+ 2 Þá sagði Davíð: „Ég vil sýna Hanún Nahassyni sömu velvild* og faðir hans sýndi mér.“ Síðan sendi Davíð þjóna sína til að votta honum samúð sína eftir föðurmissinn. En þegar þjónar Davíðs komu inn í land Ammóníta 3 sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún herra sinn: „Ertu viss um að Davíð hafi sent þessa menn til að votta þér samúð sína og heiðra minningu föður þíns? Sendi hann þá ekki frekar til að safna upplýsingum um borgina og njósna um hana til að vinna hana?“ 4 Hanún tók þá þjóna Davíðs, rakaði af þeim hálft skeggið+ og skar af þeim fötin til hálfs, við rasskinnarnar, og sendi þá síðan burt. 5 Þegar Davíð frétti að þjónar sínir hefðu verið svo sárlega niðurlægðir sendi hann tafarlaust menn á móti þeim með þessi skilaboð: „Verið um kyrrt í Jeríkó+ og komið ekki heim fyrr en skegg ykkar er vaxið aftur.“

6 Ammónítum varð nú ljóst að þeir höfðu bakað sér óvild Davíðs. Þeir sendu þá menn til að ráða 20.000 sýrlenska fótgönguliða frá Bet Rehób+ og Sóba+ og einnig til að ráða konunginn í Maaka+ ásamt 1.000 manna liði og 12.000 menn frá Ístób.*+ 7 Þegar Davíð frétti það sendi hann Jóab og allan herinn af stað ásamt fræknustu köppunum.+ 8 Ammónítar fóru út úr borginni og fylktu liði sínu fyrir framan borgarhliðið en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób stóðu einir síns liðs úti á bersvæði ásamt hermönnunum frá Ístób* og Maaka.

9 Þegar Jóab varð ljóst að árásarsveitir sóttu að honum bæði að framan og aftan valdi hann hermenn úr einvalaliði Ísraels og skipaði þeim að fylkja liði gegn Sýrlendingum.+ 10 Hina hermennina lét hann undir stjórn Abísaí+ bróður síns og þeir áttu að fylkja liði gegn Ammónítum.+ 11 Síðan sagði hann: „Ef Sýrlendingar reynast mér ofviða verður þú að koma og hjálpa mér. En ef Ammónítar reynast þér ofviða kem ég og hjálpa þér. 12 Við verðum að vera hugrakkir og sterkir+ fyrir þjóð okkar og borgir Guðs okkar. Jehóva gerir síðan það sem hann telur best.“+

13 Jóab og menn hans réðust nú til atlögu gegn Sýrlendingum og þeir flúðu undan honum.+ 14 Þegar Ammónítar sáu að Sýrlendingar voru flúnir hörfuðu þeir undan Abísaí og leituðu skjóls í borginni. Eftir bardagann við Ammóníta sneri Jóab aftur til Jerúsalem.

15 Þegar Sýrlendingum varð ljóst að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael söfnuðust þeir aftur saman.+ 16 Hadadeser+ sendi eftir þeim Sýrlendingum sem voru á svæðinu við Fljótið*+ og þeir komu til Helam undir forystu Sóbaks hershöfðingja Hadadesers.

17 Um leið og Davíð frétti af þessu safnaði hann saman öllum her Ísraels, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu þá liði sínu gegn Davíð og börðust við hann+ 18 en neyddust til að flýja undan Ísraelsmönnum. Davíð felldi 700 vagnkappa og 40.000 riddara Sýrlendinga og einnig Sóbak hershöfðingja þeirra.+ 19 Þegar öllum undirkonungum Hadadesers varð ljóst að þeir höfðu lotið í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum sömdu þeir frið við þá og gerðust þegnar þeirra.+ Þaðan í frá þorðu Sýrlendingar ekki að hjálpa Ammónítum.

11 Í ársbyrjun,* um það leyti sem konungar fara í hernað, sendi Davíð Jóab af stað með þjóna sína og allan her Ísraels til að gera út af við Ammóníta. Þeir settust um Rabba+ en Davíð var um kyrrt í Jerúsalem.+

2 Kvöld eitt* steig Davíð fram úr rúminu og gekk um á þaki konungshallarinnar. Ofan af þakinu sá hann konu vera að baða sig. Konan var mjög falleg. 3 Davíð sendi mann til að spyrjast fyrir um konuna og honum var sagt: „Þetta er Batseba+ Elíamsdóttir,+ eiginkona Úría+ Hetíta.“+ 4 Davíð sendi þá menn til að sækja hana.+ Hún kom til hans og hann lagðist með henni.+ (En hún hafði verið að hreinsa sig af óhreinleika sínum.*)+ Síðan fór hún aftur heim til sín.

5 Konan varð barnshafandi og sendi Davíð þessi boð: „Ég á von á barni.“ 6 Davíð sendi þá Jóab svohljóðandi boð: „Sendu Úría Hetíta til mín.“ Og Jóab sendi Úría til Davíðs. 7 Þegar Úría kom til hans spurði Davíð hvernig Jóab og hermennirnir hefðu það og hvernig stríðið gengi. 8 Síðan sagði Davíð við Úría: „Farðu heim og taktu það rólega.“* Eftir að Úría var farinn úr höllinni var gjöf* frá konungi send á eftir honum. 9 En Úría fór ekki heim heldur svaf við inngang hallarinnar hjá öllum hinum þjónum herra síns. 10 Davíð var sagt: „Úría fór ekki heim til sín.“ Þá spurði Davíð Úría: „Ertu ekki nýkominn úr ferð? Hvers vegna fórstu ekki heim til þín?“ 11 Úría svaraði: „Örkin,+ Ísrael og Júda búa í fábrotnum híbýlum og Jóab herra minn og menn hans eru í tjöldum úti á víðavangi. Á ég þá að fara heim til að borða og drekka og leggjast með konunni minni?+ Svo sannarlega sem þú lifir og dregur andann ætla ég ekki að gera það.“

12 Davíð sagði við Úría: „Vertu þá hér í dag og á morgun sendi ég þig burt.“ Úría var því um kyrrt í Jerúsalem þennan dag og daginn eftir. 13 Davíð sendi eftir honum og bauð honum að koma og borða og drekka með sér og hann hélt að honum víni þar til hann varð drukkinn. En um kvöldið fór Úría og lagðist til svefns í rúmi sínu hjá þjónum herra síns í stað þess að fara heim til sín. 14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría. 15 Hann sagði í bréfinu: „Setjið Úría í fremstu víglínu þar sem bardaginn er harðastur. Hörfið síðan frá honum svo að hann falli og láti lífið.“+

16 Jóab fylgdist grannt með borginni og sendi Úría þangað sem hann vissi að sterkir hermenn voru. 17 Þegar mennirnir í borginni komu út og börðust við Jóab féllu nokkrir af mönnum Davíðs. Úría Hetíti var meðal þeirra sem létu lífið.+ 18 Jóab sendi nú mann til Davíðs til að upplýsa hann um gang mála í stríðinu. 19 Hann sagði við sendiboðann: „Þegar þú hefur sagt konungi frá öllu sem hefur gerst í stríðinu 20 reiðist hann kannski og segir við þig: ‚Hvers vegna þurftuð þið að berjast svona nálægt borginni? Vissuð þið ekki að þeir myndu skjóta á ykkur ofan af borgarmúrnum? 21 Hver var það sem drap Abímelek+ Jerúbbesetsson?+ Var það ekki kona sem henti efri kvarnarsteini á hann ofan af borgarmúrnum í Tebes svo að hann dó? Hvers vegna þurftuð þið að fara svona nálægt múrnum?‘ Þá skaltu svara: ‚Úría Hetíti, þjónn þinn, lét líka lífið.‘“

22 Sendiboðinn fór til Davíðs og sagði honum allt sem Jóab hafði beðið hann um. 23 „Mennirnir voru okkur yfirsterkari,“ sagði sendiboðinn. „Þeir réðust á okkur úti á vellinum en við hröktum þá aftur að borgarhliðinu. 24 Þá skutu bogaskytturnar á þjóna þína ofan af múrnum og nokkrir af mönnum konungs létu lífið. Úría Hetíti, þjónn þinn, lét líka lífið.“+ 25 Davíð sagði þá við sendiboðann: „Segðu við Jóab: ‚Láttu þetta ekki slá þig út af laginu því að hver sem er getur orðið sverðinu að bráð. Hertu árásina á borgina og sigraðu hana.‘+ Og teldu í hann kjark.“

26 Eiginkona Úría syrgði mann sinn þegar hún frétti að hann væri dáinn. 27 Um leið og sorgartíminn var liðinn lét Davíð sækja hana og koma með hana heim til sín. Hún varð eiginkona hans+ og fæddi honum son. En það sem Davíð hafði gert var illt í augum Jehóva.+

12 Jehóva sendi nú Natan+ til Davíðs. Þegar hann kom til hans+ sagði hann: „Í borg nokkurri bjuggu tveir menn. Annar þeirra var ríkur en hinn fátækur. 2 Ríki maðurinn átti fjöldann allan af sauðum og nautum+ 3 en fátæki maðurinn átti ekki nema eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt.+ Hann annaðist það og það óx upp hjá honum og sonum hans. Lambið át af þeim litla mat sem hann átti, drakk úr krúsinni hans og svaf í fanginu á honum. Það var honum eins og dóttir. 4 Dag einn fékk ríki maðurinn heimsókn en hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matbúa fyrir ferðalanginn sem var kominn til hans. Í staðinn tók hann lamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn.“+

5 Þá varð Davíð ævareiður út í manninn og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir+ á sá sem gerði þetta skilið að deyja! 6 Og hann skal bæta lambið fjórfalt+ fyrir að sýna slíkt miskunnarleysi.“

7 Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael+ og bjargaði þér úr greipum Sáls.+ 8 Ég gaf þér með glöðu geði allt sem herra þinn átti.+ Ég lagði konur herra þíns+ í faðm þinn og setti þig yfir Ísrael og Júda.+ Og ef það hefði ekki verið nóg hefði ég gjarnan gert margt fleira fyrir þig.+ 9 Hvers vegna hefurðu fyrirlitið orð Jehóva með því að gera það sem er illt í augum hans? Þú felldir Úría Hetíta með sverði!+ Þú drapst hann með sverði Ammóníta og tókst síðan eiginkonu hans þér fyrir konu.+ 10 Þar sem þú fyrirleist mig með því að giftast eiginkonu Úría Hetíta mun sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni.‘+ 11 Jehóva segir: ‚Ég læt ógæfu koma yfir þig úr þinni eigin fjölskyldu.+ Ég tek konur þínar frá þér fyrir augum þínum og gef þær öðrum manni,*+ og hann mun leggjast með þeim um hábjartan dag.*+ 12 Þú fórst leynt með það sem þú gerðir+ en það sem ég ætla að gera verður frammi fyrir öllum Ísrael og um hábjartan dag.‘“*

13 Davíð sagði þá við Natan: „Ég hef syndgað gegn Jehóva.“+ Natan svaraði: „Jehóva fyrirgefur þér synd þína.+ Þú munt ekki deyja.+ 14 En af því að þú vanvirtir Jehóva svo gróflega mun nýfæddur sonur þinn deyja.“

15 Síðan fór Natan heim til sín.

Jehóva lét barnið sem Davíð hafði eignast með konu Úría veikjast. 16 Davíð leitaði til hins sanna Guðs og bað innilega fyrir drengnum. Hann lagði á sig stranga föstu og lá um næturnar á gólfinu í herbergi sínu.+ 17 Öldungar hirðarinnar komu til hans og reyndu að fá hann til að standa upp af gólfinu en hann vildi það ekki og fékkst ekki til að borða með þeim. 18 Á sjöunda degi dó barnið. En þjónar Davíðs þorðu ekki að segja honum að barnið væri dáið. Þeir sögðu hver við annan: „Hann vildi ekki hlusta á okkur meðan barnið var lifandi. Hvernig eigum við þá nú að geta sagt honum að barnið sé dáið? Hann gæti gert eitthvað hræðilegt.“

19 Þegar Davíð sá að þjónar hans voru að hvíslast á vissi hann að barnið væri dáið. „Er drengurinn dáinn?“ spurði hann þjóna sína. „Já, hann er dáinn,“ svöruðu þeir. 20 Davíð stóð þá upp af gólfinu. Hann þvoði sér, bar á sig olíu,+ skipti um föt og fór síðan inn í tjald*+ Jehóva og kraup. Eftir það fór hann heim til sín. Hann bað um að sér yrði færður matur og borðaði. 21 „Hvers vegna gerirðu þetta?“ spurðu þjónar hans. „Þú fastaðir og grést meðan barnið var lifandi en um leið og barnið deyr stendurðu upp og færð þér að borða.“ 22 Hann svaraði: „Meðan drengurinn var lifandi fastaði ég+ og grét því að ég hugsaði með mér: ‚Hver veit nema Jehóva sýni mér miskunn og leyfi drengnum að lifa?‘+ 23 En hvers vegna ætti ég að fasta núna fyrst hann er dáinn? Get ég fengið hann aftur?+ Ég fer til hans+ en hann snýr ekki aftur til mín.“+

24 Davíð huggaði Batsebu+ konu sína, gekk inn til hennar og lagðist með henni. Hún fæddi son sem var nefndur Salómon.*+ Jehóva elskaði hann+ 25 og sendi Natan+ spámann með þau skilaboð að hann ætti að heita Jedídjah* vegna Jehóva.

26 Jóab hélt áfram að herja á Rabba,+ borg Ammóníta,+ og vann konungsborgina.+ 27 Síðan sendi hann menn til Davíðs með þessi skilaboð: „Ég hef herjað á Rabba+ og unnið vatnaborgina.* 28 Kallaðu nú saman þá sem eftir eru af liðinu, sestu um borgina og leggðu hana undir þig svo að það verði ekki ég sem vinn hana og fæ allan heiðurinn af því.“*

29 Davíð kallaði þá saman allt liðið, fór til Rabba, herjaði á borgina og vann hana. 30 Síðan tók hann kórónuna af höfði Malkams* en hún var úr gulli sem vó eina talentu* og var skreytt eðalsteinum. Hún var sett á höfuð Davíðs. Hann tók einnig gríðarmikið herfang+ úr borginni.+ 31 Hann flutti íbúana burt og lét þá saga steina, vinna með járnhökum og járnöxum og vinna við múrsteinagerð. Þannig fór hann með allar borgir Ammóníta. Síðan sneri Davíð heim til Jerúsalem ásamt öllu liðinu.

13 Absalon sonur Davíðs átti mjög fallega systur sem hét Tamar.+ Amnon+ sonur Davíðs varð ástfanginn af henni. 2 Amnon varð sjúkur af þrá til Tamar systur sinnar því að hann sá ekki nokkra leið til að koma fram vilja sínum við hana þar sem hún var hrein mey. 3 Amnon átti vin sem hét Jónadab.+ Hann var sonur Símea+ bróður Davíðs. Jónadab var útsmoginn maður. 4 Hann spurði Amnon: „Hvers vegna ertu alltaf svona niðurdreginn, þú sem ert sonur konungs? Segðu mér hvað er að angra þig.“ Amnon svaraði: „Ég er ástfanginn af Tamar, systur+ Absalons bróður míns.“ 5 Jónadab sagði þá við hann: „Leggstu í rúmið og láttu eins og þú sért veikur. Þegar faðir þinn kemur til að líta eftir þér skaltu segja við hann: ‚Viltu biðja Tamar systur mína að koma og gefa mér að borða. Ef hún býr til matinn* meðan ég horfi á og færir mér hann í rúmið skal ég borða.‘“

6 Amnon lagðist þá fyrir og þóttist vera veikur. Þegar konungur kom til að líta eftir honum sagði Amnon við hann: „Viltu biðja Tamar systur mína að koma og baka handa mér tvær hjartalaga kökur meðan ég horfi á og færa mér þær í rúmið.“ 7 Davíð sendi þá mann heim til Tamar með þessi skilaboð: „Farðu heim til Amnons bróður þíns og búðu til mat* handa honum.“ 8 Tamar fór þá heim til Amnons bróður síns þar sem hann lá í rúminu. Hún tók deig, hnoðaði það og gerði úr því kökur meðan hann horfði á. Þegar hún hafði bakað kökurnar 9 tók hún pönnuna og bar þær fram fyrir hann. En Amnon vildi ekki borða. „Látið alla fara út!“ sagði hann. Og allir fóru út.

10 Amnon sagði síðan við Tamar: „Komdu með matinn* inn í svefnherbergið og færðu mér hann í rúmið.“ Tamar tók þá hjartalaga kökurnar sem hún hafði bakað og fór með þær inn í svefnherbergið til Amnons bróður síns. 11 Þegar hún færði honum þær þreif hann í hana og sagði: „Komdu og leggstu með mér, systir mín.“ 12 En hún svaraði: „Nei, bróðir minn, ekki niðurlægja mig því að svona lagað gerir maður ekki í Ísrael.+ Fremdu ekki slíka svívirðu.+ 13 Hvernig gæti ég borið skömm mína? Og þú yrðir talinn með mestu óþokkum í Ísrael. Talaðu frekar við konunginn, hann mun ekki neita þér um mig.“ 14 En hann hlustaði ekki á hana heldur tók hana með valdi og nauðgaði henni. Þannig niðurlægði hann hana. 15 Eftir á fékk Amnon mikla óbeit á henni og hataði hana meira en hann hafði elskað hana. Amnon sagði við hana: „Stattu upp og farðu!“ 16 „Nei, bróðir minn,“ svaraði hún. „Ef þú sendir mig burt núna væri það verra en það sem þú hefur gert mér!“ En hann hlustaði ekki á hana.

17 Hann kallaði á piltinn sem þjónaði honum og sagði: „Komdu þessari konu burt frá mér og læstu dyrunum á eftir henni.“ 18 (Hún var í fallegum* síðkjól eins og dætur konungs voru vanar að klæðast meðan þær voru hreinar meyjar.) Þjónninn fór með hana út og læsti dyrunum á eftir henni. 19 Tamar jós þá ösku yfir höfuðið+ og reif fallega kjólinn sem hún var í. Hún lagði hendurnar á höfuðið og gekk hágrátandi burt.

20 Þá sagði Absalon+ bróðir hennar við hana: „Var Amnon bróðir þinn með þér? Segðu engum frá þessu, systir mín. Hann er bróðir þinn.+ Taktu þetta ekki nærri þér.“* Upp frá því bjó Tamar í húsi Absalons bróður síns, einangruð frá öðrum. 21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta varð hann mjög reiður,+ en hann vildi ekki særa tilfinningar Amnons sonar síns því að hann var frumburður hans og hann elskaði hann. 22 Absalon sagði ekki orð við Amnon, hvorki gott né illt, því að hann hataði+ Amnon fyrir að hafa niðurlægt Tamar systur sína.+

23 Tveim árum síðar lét Absalon rýja sauðfé sitt í Baal Hasór skammt frá Efraím+ og bauð öllum sonum konungs til veislu.+ 24 Absalon gekk fyrir konung og sagði: „Ég, þjónn þinn, læt nú rýja sauðfé mitt. Hvernig litist konungi á að koma með ásamt þjónum sínum?“ 25 En konungur svaraði: „Nei, sonur minn. Það verður bara íþyngjandi fyrir þig ef við komum allir.“ Þótt Absalon legði fast að honum vildi hann ekki fara með en óskaði honum samt góðs gengis.* 26 Þá sagði Absalon: „Leyfðu þá Amnon bróður mínum að fara með okkur fyrst þú kemur ekki.“+ „Af hverju ætti hann að fara með þér?“ spurði konungur. 27 En Absalon lagði fast að honum þar til konungur leyfði loks að Amnon færi með honum ásamt öllum hinum sonum konungs.

28 Absalon gaf þjónum sínum þessi fyrirmæli: „Fylgist vel með þegar Amnon verður hinn kátasti af víndrykkju. Þegar ég segi við ykkur: ‚Drepið Amnon!‘ þá skuluð þið drepa hann. Verið óhræddir því að það er ég sem skipa ykkur að gera þetta. Verið hugrakkir og sterkir.“ 29 Þjónar Absalons fóru með Amnon eins og Absalon hafði fyrirskipað. Þá spruttu allir hinir synir konungs á fætur, stigu á bak múldýrum sínum og lögðu á flótta. 30 En meðan þeir voru á leiðinni bárust Davíð þessar fréttir: „Absalon hefur drepið alla syni konungs. Enginn þeirra komst lífs af.“ 31 Þá stóð konungur upp, reif föt sín og lagðist á gólfið. Og allir þjónar hans stóðu hjá honum í rifnum fötum.

32 En Jónadab,+ sonur Símea+ bróður Davíðs, sagði: „Herra minn, ekki halda að þeir hafi drepið alla þessa ungu konungssyni. Amnon er sá eini sem er dáinn.+ Absalon stendur á bak við það. Hann hefur lagt á ráðin um þetta+ allt frá því að Amnon niðurlægði Tamar systur hans.+ 33 Herra minn og konungur, taktu ekki mark á fréttunum um að allir synir konungs séu dánir. Aðeins Amnon er dáinn.“

34 Meðan þessu fór fram hafði Absalon flúið.+ Nú leit varðmaðurinn um öxl og sá mikinn mannfjölda koma eftir veginum sem lá meðfram fjallinu. 35 Þá sagði Jónadab+ við konung: „Sjáðu, herra, þarna koma synir konungs. Ég sagði þér það.“ 36 Hann hafði varla sleppt orðinu þegar synir konungs komu inn hágrátandi. Konungur og þjónar hans grétu þá líka beisklega. 37 En Absalon flúði til Talmaí+ Ammíhúdssonar, konungs í Gesúr. Davíð syrgði son sinn lengi. 38 Absalon hafði flúið til Gesúr+ og var þar um kyrrt í þrjú ár.

39 Með tímanum sætti Davíð sig við* dauða Amnons og þráði að fara til Absalons.

14 Nú varð Jóab Serújusyni+ ljóst að konungur þráði að sjá Absalon.+ 2 Jóab sendi þá eftir viturri konu í Tekóa+ og sagði við hana: „Láttu eins og þú sért að syrgja, klæddu þig í sorgarklæði og berðu ekki á þig olíu.+ Hagaðu þér eins og kona sem hefur syrgt einhvern í langan tíma. 3 Gakktu síðan fyrir konung og segðu við hann …“ Og Jóab lagði henni orð í munn.

4 Konan frá Tekóa gekk fyrir konung, féll á grúfu og sýndi honum lotningu. „Hjálpaðu mér, konungur!“ sagði hún. 5 „Hvað er að?“ spurði konungur. Hún svaraði: „Ég er ekkja. Þegar maðurinn minn dó 6 átti ég, ambátt þín, tvo syni. Dag einn kastaðist í kekki milli þeirra úti á akri en enginn var þar til að stía þeim sundur. Annar þeirra réðst á hinn og drap hann. 7 Nú hefur öll fjölskyldan snúist gegn mér og segir: ‚Framseldu bróðurmorðingjann svo að við getum tekið hann af lífi og látið hann gjalda þess að hafa drepið bróður sinn.+ Þótt við drepum erfingjann þá verður svo að vera.‘ Þau vilja slökkva síðustu glóðina sem ég á eftir* svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né afkomanda* á jörðinni.“

8 Þá sagði konungur við konuna: „Farðu heim. Ég skal sjá um þetta mál.“ 9 Konan frá Tekóa svaraði: „Herra minn og konungur, sökin hvíli á mér og ætt föður míns. Konungurinn er saklaus og hásæti hans einnig.“ 10 Þá sagði konungur: „Ef einhver segir eitthvað við þig komdu þá með hann til mín. Hann mun aldrei ónáða þig aftur.“ 11 En hún sagði: „Ég bið þig, konungur, að muna eftir Jehóva Guði þínum svo að blóðhefnandinn+ valdi ekki enn meiri skaða og drepi son minn.“ Hann svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir+ mun ekki eitt einasta hár á höfði sonar þíns falla til jarðar.“ 12 Þá spurði konan: „Herra minn og konungur, má ambátt þín segja eitt í viðbót?“ „Talaðu,“ svaraði hann.

13 Konan hélt áfram: „Hvernig gastu gert þjóð Guðs þennan óleik?+ Þú sakfellir sjálfan þig með því sem þú segir, konungur, því að þú gerir ekkert í því að fá þinn eigin son aftur úr útlegð.+ 14 Við deyjum öll og verðum eins og vatn sem hellt er á jörðina og enginn getur náð upp aftur. En Guð tekur ekki líf* neins heldur leitar að ástæðu fyrir því að útlaginn þurfi ekki lengur að vera útskúfaður frá honum. 15 Ég kom til þín, herra minn og konungur, til að segja þér þetta af því að ég varð hrædd við fólkið. Ég hugsaði með mér: ‚Ég ætla að tala við konunginn. Kannski hann verði við beiðni ambáttar sinnar. 16 Ég vona að konungur hlusti og bjargi ambátt sinni úr greipum mannsins sem vill tortíma mér og einkasyni mínum og svipta okkur arfinum sem Guð gaf okkur.‘+ 17 Síðan sagði ég við sjálfa mig: ‚Orð herra míns, konungsins, munu hughreysta mig,‘ enda ert þú, herra minn og konungur, eins og engill hins sanna Guðs og getur greint gott frá illu. Jehóva Guð þinn sé með þér.“

18 Konungur sagði við konuna: „Svaraðu nú spurningu minni og leyndu mig engu.“ „Hvað viltu vita, herra minn og konungur?“ svaraði konan. 19 Þá spurði konungur: „Var það Jóab sem sendi þig hingað til að segja allt þetta?“+ Konan svaraði: „Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn og konungur, hefurðu rétt fyrir þér.* Það var Jóab þjónn þinn sem gaf mér þessi fyrirmæli og lagði ambátt þinni öll þessi orð í munn. 20 Jóab þjónn þinn gerði þetta til að þú sæir málið í öðru ljósi. En herra minn er eins vitur og engill hins sanna Guðs og veit allt sem gerist í landinu.“

21 Þá sagði konungur við Jóab: „Gott og vel, ég skal gera eins og þú vilt.+ Farðu og sæktu drenginn Absalon.“+ 22 Jóab féll þá á grúfu og laut konungi. Hann lofaði hann og sagði: „Nú veit ég, herra minn og konungur, að þú hefur velþóknun á mér því að konungur hefur orðið við beiðni þjóns síns.“ 23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr+ og sneri aftur til Jerúsalem með Absalon. 24 En konungur sagði: „Hann á að fara heim til sín. Hann má ekki hitta mig.“ Absalon fór því heim til sín og fékk ekki að hitta konung.

25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins dáður fyrir útlit sitt og Absalon. Hann var lýtalaus frá hvirfli til ilja. 26 Þegar hann lét skera hár sitt – en það þurfti hann að gera á hverju ári því að það var svo þungt – vó það 200 sikla* miðað við hið konunglega steinlóð.* 27 Absalon eignaðist þrjá syni+ og eina dóttur sem hét Tamar. Hún varð mjög falleg kona.

28 Absalon bjó í Jerúsalem í heil tvö ár án þess að hitta konung.+ 29 Þá boðaði Absalon Jóab á sinn fund því að hann vildi biðja hann að fara til konungs, en Jóab neitaði að koma. Hann sendi þá aftur boð eftir honum en hann neitaði sem fyrr. 30 Að lokum sagði Absalon við þjóna sína: „Akur Jóabs er við hliðina á mínum og þar ræktar hann bygg. Farið og kveikið í honum.“ Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum. 31 Þá fór Jóab heim til Absalons og spurði: „Hvers vegna kveiktu þjónar þínir í akrinum mínum?“ 32 Absalon svaraði: „Ég sendi eftir þér. Ég vildi að þú færir til konungs og spyrðir hann: ‚Til hvers kom ég frá Gesúr?+ Ég hefði verið betur settur þar. Leyfðu mér nú að hitta þig, konungur. Ef ég er sekur þá getur þú drepið mig.‘“

33 Jóab gekk þá fyrir konung og sagði honum þetta. Konungur sendi þá eftir Absalon og hann kom til konungs og féll á grúfu frammi fyrir honum. Og konungur kyssti Absalon.+

15 Nokkru síðar varð Absalon sér úti um vagn og hesta og 50 menn sem hlupu á undan honum.+ 2 Absalon var vanur að fara snemma á fætur og standa við veginn að borgarhliðinu.+ Þegar einhver átti þar leið hjá til að leggja mál sitt fyrir konung+ kallaði Absalon til hans: „Frá hvaða borg ertu?“ og maðurinn sagði honum af hvaða ættkvísl Ísraels hann væri. 3 Absalon sagði þá við hann: „Málstaður þinn er góður og réttur en við konungshirðina er enginn sem mun hlusta á þig.“ 4 Síðan sagði hann: „Bara að ég væri skipaður dómari í landinu. Þá gætu allir sem ættu í deilum eða málaferlum komið til mín og ég léti þá ná rétti sínum.“

5 Og þegar einhver kom og ætlaði að hneigja sig fyrir honum rétti hann út höndina, greip í hann og kyssti hann.+ 6 Absalon gerði þetta við alla Ísraelsmenn sem komu til að leggja mál fyrir konung. Þannig stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.+

7 Að fjórum árum* liðnum kom Absalon að máli við konung og sagði: „Leyfðu mér að fara til Hebron+ til að efna heitið sem ég vann Jehóva. 8 Ég, þjónn þinn, vann svohljóðandi heit+ þegar ég bjó í Gesúr+ í Sýrlandi: ‚Ef Jehóva flytur mig aftur til Jerúsalem ætla ég að færa Jehóva fórn.‘“* 9 Konungur svaraði honum: „Farðu í friði.“ Þá lagði hann af stað og fór til Hebron.

10 Síðan sendi Absalon menn með leynd til allra ættkvísla Ísraels og sagði við þá: „Þegar þið heyrið hljóminn í hornablæstri skuluð þið hrópa: ‚Absalon er orðinn konungur í Hebron!‘“+ 11 Tvö hundruð menn höfðu farið með Absalon frá Jerúsalem. Hann hafði boðið þeim með en þeir vissu ekki hvað lá að baki og þá grunaði ekki neitt. 12 Þegar Absalon færði fórnirnar lét hann sækja Akítófel+ Gílóníta, ráðgjafa Davíðs,+ til Gíló,+ heimaborgar hans. Samsærið færðist í aukana og sífellt fleiri slógust í lið með Absalon.+

13 Nú kom sendiboði til Davíðs og sagði: „Absalon hefur unnið Ísraelsmenn á sitt band.“ 14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína sem voru hjá honum í Jerúsalem: „Komið, við verðum að flýja+ því að annars kemst enginn okkar undan Absalon. Flýtið ykkur svo að hann komi ekki skyndilega og nái okkur, steypi okkur í ógæfu og drepi alla borgarbúa með sverði!“+ 15 Þjónar konungs svöruðu: „Þjónar þínir gera hvað sem herra okkar, konungurinn, ákveður.“+ 16 Konungur lagði þá af stað og allt heimilisfólk hans fylgdi honum. En hann skildi eftir tíu hjákonur+ til að líta eftir húsinu.* 17 Konungur hélt út úr borginni ásamt öllu fylgdarliði sínu og hópurinn nam staðar við Bet Merak.*

18 Allir þjónar konungs sem fóru* með honum og allir Keretarnir og Peletarnir+ og Gatítarnir,+ 600 menn sem höfðu fylgt honum frá Gat,+ gengu fram hjá honum og hann virti þá vandlega fyrir sér.* 19 Konungur sagði við Ittaí+ Gatíta: „Af hverju ættir þú að koma með okkur? Snúðu við og vertu hjá nýja konunginum því að þú ert útlendingur og útlægur úr heimalandi þínu. 20 Þú komst bara í gær. Get ég þá ætlast til þess í dag að þú reikir um með okkur og farir með mér út í óvissuna? Snúðu við og taktu bræður þína með þér. Jehóva sýni þér tryggan kærleika og trúfesti.“+ 21 En Ittaí svaraði konungi: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og svo sannarlega sem herra minn og konungur lifir þá fylgi ég herra mínum, konunginum, hvert sem hann fer, jafnvel þótt það kosti mig lífið!“+ 22 Þá sagði Davíð við Ittaí:+ „Haltu þá áfram.“ Ittaí Gatíti fór þá yfir dalinn ásamt öllum mönnum sínum og fjölskyldum þeirra.

23 Fólkið í landinu grét hástöfum þegar allur mannfjöldinn fór yfir Kedrondal.+ En konungur stóð við dalinn meðan mannfjöldinn hélt út á veginn til óbyggðanna. 24 Sadók+ var þarna líka ásamt öllum Levítunum+ sem báru sáttmálsörk+ hins sanna Guðs.+ Þeir lögðu örk hins sanna Guðs niður og Abjatar+ var þar einnig meðan allt fólkið fór út úr borginni og yfir dalinn. 25 Konungur sagði við Sadók: „Farðu með örk hins sanna Guðs aftur inn í borgina.+ Ef Jehóva hefur velþóknun á mér leiðir hann mig þangað aftur og leyfir mér að sjá örkina og bústað hennar.+ 26 En ef hann segir: ‚Ég hef ekki velþóknun á þér,‘ þá má hann gera við mig hvað sem hann vill.“ 27 Konungur sagði síðan við Sadók prest: „Ertu ekki sjáandi?+ Farið þið Abjatar í friði aftur til borgarinnar ásamt báðum sonum ykkar, Akímaas syni þínum og Jónatan+ syni Abjatars. 28 Ég bíð við vöðin í óbyggðunum þar til þið sendið mér fréttir af gangi mála.“+ 29 Sadók og Abjatar fóru þá með örk hins sanna Guðs aftur til Jerúsalem og voru þar um kyrrt.

30 Davíð gekk grátandi upp Olíufjallið.+ Hann var berfættur og huldi höfuðið. Allt fólkið sem var með honum huldi líka höfuðið og grét á leiðinni upp. 31 Þegar Davíð var sagt að Akítófel væri meðal þeirra sem höfðu gert samsæri+ með Absalon+ sagði hann: „Jehóva, láttu engan taka mark á ráðum Akítófels.“*+

32 Þegar Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að falla fram fyrir Guði, kom Húsaí+ Arkíti+ á móti honum í rifnum kyrtli og með mold á höfðinu. 33 Davíð sagði við hann: „Ef þú kemur með mér verður lítil hjálp í þér. 34 En ef þú snýrð aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ‚Konungur, ég er þjónn þinn. Áður þjónaði ég föður þínum en núna er ég þjónn þinn,‘+ þá geturðu gert ráð Akítófels að engu fyrir mig.+ 35 Prestarnir Sadók og Abjatar verða þarna með þér. Segðu þeim allt sem þú heyrir í húsi konungs.+ 36 Synir þeirra eru líka þarna hjá þeim, þeir Akímaas+ Sadóksson og Jónatan+ Abjatarsson. Þið skuluð senda þá til mín með allar þær fréttir sem þið heyrið.“ 37 Húsaí vinur*+ Davíðs kom til Jerúsalem á sama tíma og Absalon hélt inn í borgina.

16 Þegar Davíð var kominn nokkurn spöl frá fjallstoppnum+ kom Síba+ þjónn Mefíbósets+ á móti honum. Hann var með tvo söðlaða asna sem voru klyfjaðir 200 brauðhleifum, 100 rúsínukökum, 100 sumarávaxtakökum og stórri vínkrukku.+ 2 „Hvers vegna ertu með allt þetta?“ spurði konungur. Síba svaraði: „Asnarnir eru fyrir konungsfjölskylduna til að ferðast á, brauðið og sumarávextirnir eru handa ungu mönnunum og vínið er handa þeim sem þreytast í óbyggðunum.“+ 3 „Og hvar er sonur* húsbónda þíns?“+ spurði konungur. Síba svaraði: „Hann er í Jerúsalem því að hann sagði: ‚Í dag munu Ísraelsmenn gefa mér aftur konungdóm föður míns.‘“+ 4 Þá sagði konungur við Síba: „Nú átt þú allt sem Mefíbóset átti.“+ Síba svaraði: „Ég fell fram fyrir þér. Vonandi hefurðu alltaf velþóknun á mér, herra minn og konungur.“+

5 Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím kom maður nokkur út á móti honum og bölvaði honum í sand og ösku.+ Hann hét Símeí+ Gerason og var skyldur Sál. 6 Hann kastaði grjóti að Davíð konungi og öllum þjónum hans og einnig að öllum hermönnunum og köppunum sem gengu honum til beggja handa. 7 Símeí bölvaði honum og sagði: „Burt með þig, morðingi!* Hypjaðu þig, ónytjungurinn þinn! 8 Jehóva lætur þig gjalda fyrir blóðið sem þú úthelltir í ætt Sáls. Þú hrifsaðir af honum konungdóminn en nú gefur Jehóva hann Absalon syni þínum. Nú er ógæfan komin yfir þig, morðinginn þinn!“+

9 Þá sagði Abísaí Serújuson+ við konung: „Hvers vegna fær þessi dauði hundur+ að bölva herra mínum, konunginum?+ Ég skal fara og höggva af honum höfuðið.“+ 10 En konungur svaraði: „Skiptið ykkur ekki af þessu, Serújusynir.+ Leyfið honum að bölva mér+ því að Jehóva hefur sagt honum að gera það+ og hver getur þá sagt: ‚Hvers vegna gerirðu þetta?‘“ 11 Síðan sagði Davíð við Abísaí og alla þjóna sína: „Minn eigin sonur, hold mitt og blóð, vill drepa mig.+ Get ég þá búist við einhverju öðru af þessum Benjamíníta?+ Látið hann vera og leyfið honum að bölva mér því að Jehóva hefur sagt honum að gera það. 12 Ég vona að Jehóva sjái raunir mínar.+ Kannski lætur Jehóva mig njóta blessunar í stað svívirðinga hans í dag.“+ 13 Síðan héldu Davíð og menn hans áfram eftir veginum en Símeí gekk í fjallshlíðinni samsíða honum, bölvaði honum+ og kastaði grjóti og mold á eftir honum.

14 Konungur og allir sem voru með honum komu loks þangað sem ferðinni var heitið. Fólkið var úrvinda og hvíldi sig þar.

15 Absalon var nú kominn til Jerúsalem ásamt Akítófel+ og öllum Ísraelsmönnum sem fylgdu honum. 16 Þegar Húsaí+ Arkíti,+ vinur* Davíðs, kom til Absalons hrópaði hann: „Lengi lifi konungurinn!+ Lengi lifi konungurinn!“ 17 Absalon spurði þá Húsaí: „Er það svona sem þú sýnir vini þínum tryggð?* Hvers vegna fórstu ekki með vini þínum?“ 18 Húsaí svaraði Absalon: „Ég styð þann sem Jehóva, fólkið hérna og allir Ísraelsmenn hafa valið og hjá honum ætla ég að vera. 19 Hverjum ætti ég annars að þjóna öðrum en syni vinar míns? Ég vil þjóna þér á sama hátt og ég þjónaði föður þínum.“+

20 Þá sagði Absalon við Akítófel: „Hvað eigum við að gera? Hvað leggur þú til?“+ 21 Akítófel svaraði Absalon: „Sofðu hjá hjákonum föður þíns+ sem hann skildi eftir til að líta eftir húsinu.*+ Þá fréttir allur Ísrael að þú hafir bakað þér óvild föður þíns og það eykur kjark stuðningsmanna þinna.“ 22 Síðan var tjaldi handa Absalon slegið upp á þakinu+ og hann svaf hjá hjákonum föður síns+ fyrir augum alls Ísraels.+

23 Á þeim tíma var litið á ráð Akítófels+ sem ráð frá* hinum sanna Guði. Þannig litu bæði Davíð og Absalon á öll ráð Akítófels.

17 Síðan sagði Akítófel við Absalon: „Leyfðu mér að velja 12.000 menn og fara á eftir Davíð í nótt. 2 Ég kem að honum þegar hann er þreyttur og uppgefinn+ og skýt honum skelk í bringu. Þá flýja allir sem eru með honum og ég drep konunginn einan.+ 3 Síðan flyt ég allt fólkið aftur til þín. Ef maðurinn sem þú ert á eftir er dauður snýr allt fólkið aftur til þín og þannig kemst á friður.“ 4 Absalon og öllum öldungum Ísraels leist vel á þessa hugmynd.

5 En Absalon sagði: „Kallið á Húsaí+ Arkíta og heyrum hvað hann hefur að segja.“ 6 Húsaí kom þá til Absalons. Absalon sagði honum hvað Akítófel hafði lagt til og spurði: „Eigum við að gera það sem hann segir? Ef ekki, hvað leggur þú til?“ 7 Húsaí svaraði Absalon: „Ráð Akítófels er ekki gott í þetta skipti.“+

8 Húsaí hélt áfram: „Þú veist vel að faðir þinn og menn hans eru miklir kappar+ og stórhættulegir* eins og birna sem hefur týnt húnum sínum úti á víðavangi.+ Faðir þinn er auk þess mikill stríðsmaður+ og verður ekki hjá fólkinu í nótt. 9 Hann hefur örugglega falið sig í einhverjum helli* eða annars staðar.+ Ef hann verður fyrri til að ráðast á menn þína spyrst það út og fólk segir: ‚Þeir sem fylgja Absalon hafa beðið ósigur.‘ 10 Þá mun jafnvel hugrakkasti maður með ljónshjarta+ skjálfa af hræðslu því að allur Ísrael veit að faðir þinn er hinn mesti kappi+ og að mennirnir með honum eru sterkir og hraustir. 11 Þetta legg ég til: Kallaðu til þín allan Ísrael frá Dan til Beerseba+ svo að fjöldinn verði eins og sandkorn á sjávarströnd,+ og farðu sjálfur fyrir þeim til orrustu. 12 Við munum ráðast á hann hvar sem hann er að finna og falla yfir hann eins og dögg fellur yfir jörðina. Enginn kemst undan, hvorki hann né nokkur af mönnum hans. 13 Ef hann hörfar inn í einhverja borg fer allur Ísrael þangað með reipi og síðan drögum við borgina niður í dalinn þar til ekki ein einasta steinvala stendur eftir.“

14 Þá sögðu Absalon og allir Ísraelsmenn: „Ráð Húsaí Arkíta er betra+ en ráð Akítófels.“ En Jehóva hafði ákveðið að gera hið góða ráð Akítófels að engu.+ Jehóva ætlaði nefnilega að leiða ógæfu yfir Absalon.+

15 Húsaí sagði nú prestunum Sadók og Abjatar+ hvað Akítófel hafði ráðlagt Absalon og öldungum Ísraels og hvað hann sjálfur hafði lagt til. 16 Síðan sagði hann: „Flýtið ykkur nú og látið þessi boð berast til Davíðs: ‚Verðu ekki nóttinni við vöðin* í óbyggðunum. Farðu heldur yfir ána svo að þér, konungur, og öllu þínu liði verði ekki eytt.‘“+

17 Jónatan+ og Akímaas+ héldu til við Rógellind+ því að þeir vildu ekki að neinn sæi þá fara inn í borgina. Þjónustustúlka nokkur fór því til þeirra og færði þeim skilaboðin svo að þeir gætu farið með þau til Davíðs konungs. 18 En unglingur nokkur sá til þeirra og lét Absalon vita. Mennirnir tveir flýttu sér þá burt og komu að húsi manns nokkurs í Bahúrím.+ Í húsagarði hans var brunnur. Þeir fóru ofan í hann 19 og kona mannsins breiddi teppi yfir brunninn og stráði muldu korni yfir. Engan grunaði neitt. 20 Þjónar Absalons komu nú inn í húsið til konunnar og spurðu: „Hvar eru Akímaas og Jónatan?“ „Þeir fóru fram hjá og héldu í átt að ánni,“ svaraði konan.+ Mennirnir leituðu að þeim en fundu þá hvergi og sneru því aftur til Jerúsalem.

21 Þegar mennirnir voru farnir komu tvímenningarnir upp úr brunninum. Þeir fóru síðan og létu Davíð konung vita og sögðu: „Farið af stað og drífið ykkur yfir ána því að Akítófel hefur lagt á ráðin gegn ykkur.“+ 22 Davíð og allir sem voru með honum lögðu þá strax af stað og fóru yfir Jórdan. Þegar birti af degi voru allir sem einn komnir yfir ána.

23 Þegar Akítófel varð ljóst að ráðum hans hafði ekki verið fylgt lagði hann á asna og fór til heimaborgar sinnar.+ Hann kom heim til sín og gerði ráðstafanir fyrir fjölskyldu sína.+ Síðan hengdi hann sig+ og lét þannig lífið. Hann var jarðaður í gröf forfeðra sinna.

24 Davíð var nú kominn til Mahanaím+ og Absalon fór yfir Jórdan ásamt öllum Ísraelsmönnum. 25 Absalon setti Amasa+ yfir herinn í stað Jóabs,+ en Amasa var sonur Ítra frá Ísrael og Abígail+ Nahasdóttur, systur Serúju móður Jóabs. 26 Ísraelsmenn og Absalon settu upp búðir í Gíleað.+

27 Um leið og Davíð kom til Mahanaím komu til hans Sóbí, sonur Nahas frá Rabba,+ borg Ammóníta, Makír+ Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí+ Gíleaðíti frá Rógelím. 28 Þeir höfðu með sér dýnur, skálar, leirker, hveiti, bygg, mjöl, ristað korn, bóndabaunir, linsubaunir, þurrkað korn, 29 hunang, smjör, sauðfé og ost. Þeir komu með allt þetta handa Davíð og þeim sem voru með honum+ því að þeir hugsuðu með sér: „Fólkið hlýtur að vera orðið svangt, þreytt og þyrst í óbyggðunum.“+

18 Davíð taldi nú liðið sem var með honum og skipaði foringja yfir þúsund manna flokka og hundrað manna flokka.+ 2 Síðan skipti hann liðinu í þrennt. Þriðjungur þess var undir forystu* Jóabs,+ þriðjungur undir forystu Abísaí+ Serújusonar+ bróður Jóabs og þriðjungur undir forystu Ittaí+ Gatíta. Því næst sagði konungur við menn sína: „Ég fer með ykkur.“ 3 „Nei,“ svöruðu þeir, „þú skalt ekki koma með.+ Ef við flýjum stendur öllum á sama. Og þótt helmingur okkar falli stendur þeim líka á sama. En þú ert meira virði en 10.000 okkar.+ Það er því betra að þú verðir um kyrrt í borginni og sendir okkur liðsauka þaðan.“ 4 Þá sagði konungur við þá: „Ég geri það sem þið teljið best.“ Konungur tók sér síðan stöðu við borgarhliðið meðan allt liðið hélt af stað í hundrað manna og þúsund manna flokkum. 5 Því næst gaf konungur Jóab, Abísaí og Ittaí þessi fyrirmæli: „Gerið það fyrir mig að fara mjúkum höndum um Absalon son minn.“+ Allt liðið heyrði að konungur gaf foringjunum þessi fyrirmæli um Absalon.

6 Herinn hélt nú út úr borginni til að berjast við Ísraelsmenn og orrustan var háð í Efraímsskógi.+ 7 Þar biðu Ísraelsmenn+ ósigur fyrir mönnum Davíðs.+ Mannfallið varð mikið þann dag, 20.000 menn féllu. 8 Bardaginn barst um allt landsvæðið og þennan dag varð skógurinn fleiri mönnum að bana en sverðið.

9 Nú komu menn Davíðs auga á Absalon sem reið múldýri. Múldýrið hljóp inn undir þéttar greinar á stóru tré og höfuð Absalons festist í trénu en múldýrið hélt áfram án hans. Hann hékk því í lausu lofti.* 10 Maður nokkur sá þetta og sagði Jóab+ frá því. „Ég sá Absalon hanga í stóru tré,“ sagði hann. 11 „Nú, af hverju drapstu hann þá ekki fyrst þú sást hann?“ svaraði Jóab. „Þá hefði ég glaður gefið þér tíu silfursikla og belti.“ 12 En maðurinn sagði: „Þótt mér væru gefnir 1.000 silfursiklar gæti ég ekki lagt hendur á son konungs. Við heyrðum konung gefa þér, Abísaí og Ittaí þessi fyrirmæli: ‚Sjáið til þess að enginn geri Absalon syni mínum mein.‘+ 13 Ef ég hefði hunsað það og drepið hann hefði konungur komist að því og þú hefðir ekki komið mér til varnar.“ 14 Þá sagði Jóab: „Ég vil ekki sóa meiri tíma í þig.“ Síðan tók hann þrjár örvar* og rak þær í gegnum hjarta Absalons sem var enn á lífi og hékk í stóra trénu. 15 Því næst komu tíu skjaldsveinar Jóabs og hjuggu Absalon til bana.+ 16 Jóab blés þá í horn til að stöðva liðið. Hermennirnir hættu þá að elta Ísraelsmenn og sneru til baka. 17 Þeir tóku Absalon og köstuðu honum í stóra gryfju í skóginum, hlóðu grjóti yfir og gerðu þannig stóra steindys.+ En allir Ísraelsmenn flúðu heim til sín.

18 Meðan Absalon var á lífi lét hann reisa handa sér minnisvarða í Kóngsdal+ því að hann sagði: „Ég á engan son til að viðhalda nafni mínu.“+ Hann nefndi minnisvarðann eftir sér og enn í dag kallast hann Minnisvarði Absalons.

19 Akímaas+ Sadóksson sagði: „Ég skal hlaupa til konungs og færa honum fréttirnar því að Jehóva hefur látið réttlætið ná fram að ganga með því að frelsa hann frá óvinum hans.“+ 20 En Jóab sagði við hann: „Þú færir engar fréttir í dag. Einhvern annan dag máttu færa fréttir en ekki í dag því að sonur konungsins er dáinn.“+ 21 Síðan sagði Jóab við Kúsíta+ nokkurn: „Farðu og segðu konungi frá því sem þú hefur séð.“ Þá hneigði Kúsítinn sig fyrir Jóab og hljóp af stað. 22 En Akímaas Sadóksson gaf sig ekki heldur sagði aftur við Jóab: „Mér er sama hvað gerist. Leyfðu mér að hlaupa á eftir Kúsítanum.“ Jóab svaraði: „Til hvers, sonur minn? Þú hefur engar fréttir að færa.“ 23 En Akímaas var fastur fyrir og sagði: „Mér er sama hvað gerist. Leyfðu mér bara að hlaupa.“ „Hlauptu þá,“ svaraði Jóab. Akímaas hljóp þá af stað, fór veginn yfir Jórdansléttuna og tók fram úr Kúsítanum.

24 Davíð sat milli innri og ytri borgarhliðanna.+ Varðmaðurinn+ fór upp á þak hliðsins við múrinn og sá þá mann sem kom hlaupandi einn síns liðs. 25 Varðmaðurinn kallaði til konungs til að láta hann vita og konungur svaraði: „Ef hann er einn á ferðinni hefur hann fréttir að færa.“ Þegar hann nálgaðist 26 kom varðmaðurinn auga á annan mann koma hlaupandi. Hann kallaði þá til hliðvarðarins: „Sjáðu! Þarna kemur annar maður hlaupandi! Hann er líka einn!“ Þá sagði konungur: „Hann hlýtur líka að vera með fréttir.“ 27 Varðmaðurinn sagði: „Mér sýnist fyrri maðurinn hlaupa eins og Akímaas+ Sadóksson.“ Þá sagði konungur: „Hann er góður maður og hlýtur að færa góðar fréttir.“ 28 Akímaas hrópaði til konungs: „Ég hef góðar fréttir að færa!“ Síðan hneigði hann sig fyrir konungi, laut höfði til jarðar og sagði: „Lofaður sé Jehóva Guð þinn því að hann hefur gefið í hendur þínar mennina sem risu* gegn þér, herra minn og konungur.“+

29 En konungur spurði: „Er í lagi með Absalon son minn?“ Akímaas svaraði: „Ég sá að það var mikil ringulreið þegar Jóab sendi þjón þinn og mig af stað en ég veit ekki hvað var um að vera.“+ 30 Þá sagði konungur: „Færðu þig til hliðar og stattu þar.“ Hann færði sig til hliðar og stóð þar.

31 Þá kom Kúsítinn+ og sagði: „Herra minn og konungur, þetta eru fréttirnar sem ég færi þér: Í dag hefur Jehóva látið réttlætið ná fram að ganga. Hann hefur frelsað þig úr höndum allra sem risu gegn þér.“+ 32 En konungur spurði Kúsítann: „Er í lagi með Absalon son minn?“ Kúsítinn svaraði: „Herra minn og konungur, megi fara fyrir öllum óvinum þínum og öllum sem risu gegn þér eins og þeim unga manni.“+

33 Konungi var mjög brugðið. Hann fór upp í þakherbergið yfir borgarhliðinu og grét. Þar gekk hann um gólf og sagði hvað eftir annað: „Sonur minn, Absalon! Sonur minn, sonur minn, Absalon! Bara að ég hefði dáið í stað þín, Absalon, sonur minn, sonur minn!“+

19 Jóab var nú sagt: „Konungur grætur og syrgir Absalon.“+ 2 Sigurgleðin breyttist í sorg þennan dag fyrir allan herinn þegar hann frétti að konungur syrgði son sinn. 3 Herinn laumaðist inn í borgina+ þann dag eins og her sem hefur flúið úr bardaga með skömm. 4 Konungur huldi andlit sitt og kveinaði hástöfum: „Sonur minn, Absalon! Absalon, sonur minn, sonur minn!“+

5 Þá gekk Jóab inn í húsið til konungs og sagði: „Í dag hefurðu smánað alla menn þína sem björguðu lífi þínu í dag og lífi sona þinna+ og dætra,+ eiginkvenna þinna og hjákvenna.+ 6 Þú elskar þá sem hata þig og hatar þá sem elska þig. Í dag hefurðu sýnt að hershöfðingjar þínir og hermenn eru þér einskis virði og ég veit núna að þú myndir frekar vilja að Absalon væri á lífi og við allir dauðir. 7 Stattu nú upp, farðu út og teldu kjark í menn þína því að ég sver við Jehóva að enginn þeirra verður eftir hjá þér í nótt ef þú ferð ekki út. Það yrði verra fyrir þig en nokkuð sem þú hefur þurft að þola frá æskuárum þínum og til þessa.“ 8 Konungur stóð þá upp og settist í borgarhliðið. Þegar fólkinu var sagt að konungurinn sæti í borgarhliðinu gengu allir á fund hans.

Nú voru allir Ísraelsmenn flúnir heim til sín.+ 9 Fólk í öllum ættkvíslum Ísraels fór að þræta og sagði: „Konungurinn bjargaði okkur frá óvinum okkar+ og frelsaði okkur úr greipum Filistea. En nú er hann flúinn úr landi undan Absalon+ 10 og Absalon, sem við smurðum til konungs yfir okkur,+ er fallinn í orrustunni.+ Hvers vegna gerið þið þá ekkert til að fá konunginn aftur heim?“

11 Davíð konungur sendi þessi boð til prestanna Sadóks+ og Abjatars:+ „Segið við öldunga Júda:+ ‚Konungur hefur frétt í húsi sínu hvað allir Ísraelsmenn tala um. Eruð þið vissir um að þið viljið vera síðastir til að flytja konunginn aftur heim til sín? 12 Þið eruð bræður mínir, hold mitt og blóð.* Hvers vegna viljið þið vera síðastir til að sækja konunginn?‘ 13 Og segið við Amasa:+ ‚Ert þú ekki hold mitt og blóð? Guð refsi mér harðlega ef þú verður ekki hershöfðingi minn héðan í frá í stað Jóabs.‘“+

14 Þannig vann* hann hjörtu allra Júdamanna og þeir studdu hann allir sem einn. Þeir sendu konungi þessi boð: „Snúðu aftur, þú og allir þjónar þínir.“

15 Konungur sneri þá heim á leið og kom að Jórdan en Júdamenn komu til Gilgal+ til að fara á móti honum og fylgja honum yfir Jórdan. 16 Símeí+ Gerason Benjamíníti frá Bahúrím flýtti sér niður eftir ásamt Júdamönnum til móts við Davíð konung. 17 Með honum voru 1.000 menn af ættkvísl Benjamíns. Síba,+ sem þjónaði fjölskyldu Sáls, hraðaði sér líka niður að Jórdan ásamt 15 sonum sínum og 20 þjónum til að vera kominn á undan konungi. 18 Hann fór* yfir á vaðinu til að hjálpa fjölskyldu konungs yfir og gera hvað sem konungur bæði um. Þegar konungur var í þann mund að fara yfir Jórdan féll Símeí Gerason fram fyrir honum 19 og sagði „Sakfelldu mig ekki, herra minn. Gleymdu því ranga sem þjónn þinn gerði+ daginn sem þú, herra minn og konungur, fórst frá Jerúsalem. Leiddu það hjá þér, konungur, 20 því að mér er ljóst að ég hef syndgað. Þess vegna er ég sá fyrsti af ætt Jósefs sem kemur hingað niður eftir til móts við herra minn og konung.“

21 Þá sagði Abísaí+ Serújuson:+ „Á Símeí ekki skilið að deyja fyrir að bölva smurðum konungi Jehóva?“+ 22 En Davíð svaraði: „Skiptið ykkur ekki af þessu, Serújusynir.+ Ætlið þið að setja ykkur upp á móti mér í dag? Af hverju ætti nokkur að vera líflátinn í dag í Ísrael? Er það ekki ég sem er konungur yfir Ísrael?“ 23 Síðan sagði konungur við Símeí: „Þú skalt ekki deyja.“ Og konungur vann honum eið að því.+

24 Mefíbóset+ sonarsonur Sáls kom líka niður eftir til að hitta konung. Hann hafði ekki hirt fætur sína, snyrt yfirvaraskegg sitt né þvegið föt sín frá þeim degi sem konungur fór og þangað til hann sneri heim heill á húfi. 25 Þegar hann kom til* Jerúsalem til að hitta konung spurði konungur: „Hvers vegna fórstu ekki með mér, Mefíbóset?“ 26 Hann svaraði: „Herra minn og konungur, þú veist að ég á erfitt með gang.+ Ég sagði við þjón minn:+ ‚Leggðu á ösnu mína svo að ég geti riðið héðan og farið með konungi,‘ en hann sveik mig 27 og rægði mig við þig,+ herra minn og konungur. En þú, herra, ert eins og engill hins sanna Guðs. Gerðu því það sem þú telur rétt. 28 Herra minn og konungur, þú hefðir getað dæmt alla ætt föður míns til dauða. En þrátt fyrir það fékkstu þjóni þínum sæti meðal þeirra sem sitja til borðs með þér.+ Hvaða rétt hef ég þá til að kvarta við konunginn?“

29 En konungur svaraði: „Tölum ekki meira um það. Ég hef ákveðið að þið Síba skuluð skipta landinu á milli ykkar.“+ 30 Þá sagði Mefíbóset við konung: „Hann má eiga það allt fyrst herra minn og konungur er kominn aftur heim heill á húfi.“

31 Barsillaí+ Gíleaðíti hafði komið niður eftir frá Rógelím til að fylgja konungi að Jórdan. 32 Barsillaí var háaldraður, 80 ára, og hafði séð konungi fyrir mat meðan hann var í Mahanaím+ enda var hann stórefnaður. 33 Konungur sagði nú við Barsillaí: „Komdu yfir með mér. Ég skal sjá fyrir þér í Jerúsalem.“+ 34 En Barsillaí svaraði: „Hvers vegna ætti ég að fara með konungi upp til Jerúsalem þar sem ég á ekki mörg ár eftir ólifuð? 35 Ég er orðinn áttræður.+ Get ég greint milli góðs og ills? Getur þjónn þinn fundið bragð af því sem hann borðar og drekkur? Get ég enn heyrt raddir söngvara og söngkvenna?+ Hvers vegna ætti ég að íþyngja herra mínum og konungi? 36 Ég þarf engin laun frá þér, konungur. Mér nægir að hafa fengið að fylgja þér að Jórdan. 37 Leyfðu mér að snúa við svo að ég geti dáið í heimaborg minni þar sem faðir minn og móðir eru grafin.+ En hér er þjónn þinn, Kímham.+ Hann getur farið með þér, herra minn og konungur, og þú getur gert fyrir hann hvað sem þú vilt.“

38 Konungur svaraði: „Kímham kemur með mér og ég geri fyrir hann hvað sem þú vilt. Ég skal gera hvað sem þú biður mig um.“ 39 Allt fólkið lagði nú af stað yfir Jórdan og þegar röðin var komin að konungi kyssti hann Barsillaí+ og blessaði hann. Síðan sneri Barsillaí aftur heim. 40 Konungur hélt áfram til Gilgal+ og Kímham var með honum. Allir Júdamenn fylgdu konungi yfir ána+ og einnig helmingur Ísraelsmanna.

41 Allir hinir Ísraelsmennirnir komu til konungs og spurðu: „Hvers vegna hafa bræður okkar, Júdamenn, rænt þér frá okkur og fylgt þér og fjölskyldu þinni yfir Jórdan ásamt öllum mönnum þínum?“+ 42 Allir Júdamenn svöruðu Ísraelsmönnum: „Það er vegna þess að konungurinn er skyldur okkur.+ Hvers vegna eruð þið reiðir yfir þessu? Höfum við borðað eitthvað á kostnað konungs eða höfum við fengið einhverja gjöf frá honum?“

43 En Ísraelsmenn svöruðu Júdamönnum: „Við eigum tíu hluti í konungi. Við eigum því meira í Davíð en þið. Hvers vegna hafið þið lítilsvirt okkur? Hefðum við ekki átt að fá að flytja konunginn heim?“ En Júdamenn höfðu betur í rökræðunum við Ísraelsmenn.*

20 Þarna var staddur uppreisnarseggur sem hét Seba+ Bíkríson en hann var Benjamíníti. Hann blés í horn+ og sagði: „Davíð kemur okkur ekkert við* og við eigum ekkert sameiginlegt með* syni Ísaí.+ Þið Ísraelsmenn, hver og einn snúi nú til guða* sinna!“+ 2 Þá yfirgáfu allir Ísraelsmenn Davíð og gengu í lið með Seba Bíkrísyni.+ En Júdamenn voru trúir konungi sínum og fylgdu honum frá Jórdan til Jerúsalem.+

3 Þegar Davíð konungur kom í hús sitt* í Jerúsalem+ tók hann hjákonurnar tíu sem hann hafði skilið eftir til að líta eftir húsinu+ og kom þeim fyrir í húsi sem var vaktað. Hann sá fyrir þeim en hafði ekki mök við þær.+ Þær lifðu eins og ekkjur þótt eiginmaður þeirra væri á lífi. Þannig voru þær innilokaðar til dauðadags.

4 Nú sagði konungur við Amasa:+ „Þú hefur þrjá daga til að stefna Júdamönnum hingað, og þú skalt sjálfur vera hér líka.“ 5 Amasa lagði þá af stað til að stefna Júdamönnum saman en hann kom ekki til baka á tilteknum tíma. 6 Þá sagði Davíð við Abísaí:+ „Seba+ Bíkríson á eftir að valda okkur meiri skaða en Absalon.+ Taktu menn mína og farðu á eftir honum svo að hann nái ekki að flýja inn í víggirta borg og sleppa frá okkur.“ 7 Menn Jóabs,+ Keretarnir, Peletarnir+ og allir kapparnir lögðu nú af stað með honum. Þeir fóru út úr Jerúsalem til að elta Seba Bíkríson. 8 Þegar þeir voru komnir að stóra steininum í Gíbeon+ hittu þeir Amasa.+ Jóab var í herklæðum og sverð hans hékk í slíðrum við mjöðmina. Þegar hann steig fram rann sverðið úr slíðrunum.

9 Jóab spurði Amasa: „Líður þér vel, bróðir minn?“ Síðan greip Jóab með hægri hendinni í skegg Amasa eins og hann ætlaði að kyssa hann. 10 Amasa sá ekkert athugavert við að Jóab skyldi halda á sverðinu. Þá stakk Jóab hann með því í kviðinn+ svo að innyflin ultu út. Hann þurfti ekki að leggja til hans aftur því að þetta dugði til að drepa hann. Jóab og Abísaí bróðir hans héldu síðan áfram að elta Seba Bíkríson.

11 Ungur maður í liði Jóabs stóð hjá Amasa og sagði: „Allir sem standa með Jóab og allir sem styðja Davíð skulu fylgja Jóab!“ 12 En Amasa lá í blóði sínu á miðjum veginum. Þegar ungi maðurinn sá að allir hermennirnir sem gengu fram hjá námu staðar dró hann Amasa út fyrir veginn og kastaði flík yfir hann. 13 Eftir að hann hafði fært hann af veginum fóru allir með Jóab til að veita Seba+ Bíkrísyni eftirför.

14 Seba fór um allar ættkvíslir Ísraels og kom til Abel Bet Maaka.+ Bíkrítar söfnuðust saman og fóru inn í borgina á eftir honum.

15 Nú komu Jóab og menn hans* og umkringdu Seba í Abel Bet Maaka. Þeir hlóðu virkisvegg að varnargarðinum sem umlukti borgina og hófust síðan handa við að grafa undan borgarmúrnum til að hann myndi hrynja. 16 Þá kallaði vitur kona úr borginni: „Hlustið á mig, hlustið! Segið Jóab að koma hingað svo að ég geti talað við hann.“ 17 Hann gekk þá til konunnar og hún spurði: „Ert þú Jóab?“ „Já,“ svaraði hann. Þá sagði hún: „Hlustaðu á það sem ambátt þín hefur að segja.“ „Ég hlusta,“ svaraði hann. 18 Hún hélt áfram: „Hér áður fyrr var alltaf sagt: ‚Leitum ráða í Abel,‘ og þá var málið leyst. 19 Ég tala fyrir hönd hinna friðsömu og trúu í Ísrael. Borgin sem þú ætlar að eyða er eins og móðir í Ísrael. Hvers vegna viltu tortíma fólki* Jehóva?“+ 20 „Það hvarflar ekki að mér,“ svaraði Jóab. „Ég ætla hvorki að tortíma né eyða. 21 Það er alls ekki ætlunin. Maður að nafni Seba+ Bíkríson frá Efraímsfjöllum+ hefur gert uppreisn* gegn Davíð konungi. Ef þið framseljið þennan eina mann dreg ég herinn til baka.“ Þá sagði konan við Jóab: „Höfði hans verður kastað til þín yfir borgarmúrinn.“

22 Vitra konan fór þegar í stað og talaði við borgarbúa. Þeir hjuggu höfuðið af Seba Bíkrísyni og köstuðu því til Jóabs. Síðan blés Jóab í hornið og menn hans hurfu frá borginni og fóru heim til sín+ en Jóab sneri aftur til Jerúsalem til konungs.

23 Allur her Ísraels var nú undir stjórn Jóabs.+ Benaja+ Jójadason+ var foringi Keretanna og Peletanna,+ 24 Adóram+ var yfir þeim sem unnu kvaðavinnu og Jósafat+ Ahílúðsson var ríkisritari.* 25 Sefa var ritari, Sadók+ og Abjatar+ voru prestar 26 og Íra Jaíríti fékk háa stöðu við hirð Davíðs.*

21 Á dögum Davíðs var hungursneyð+ í þrjú ár í röð. Davíð leitaði því til Jehóva og Jehóva sagði: „Blóðskuld hvílir á Sál og ætt hans vegna Gíbeonítanna sem hann drap.“+ 2 Konungur kallaði þá Gíbeonítana+ fyrir sig og talaði við þá. (Gíbeonítar voru ekki Ísraelsmenn heldur Amorítar+ sem urðu eftir í landinu. Ísraelsmenn höfðu unnið þeim þann eið að þyrma þeim+ en Sál hafði reynt að útrýma þeim í ákafa sínum til að vernda Ísraelsmenn og Júdamenn.) 3 Davíð spurði Gíbeonítana: „Hvað á ég að gera fyrir ykkur og hvernig get ég bætt fyrir synd okkar svo að þjóð* Jehóva fái blessun ykkar?“ 4 Gíbeonítarnir svöruðu: „Silfur og gull getur ekki bætt fyrir+ það sem Sál og fjölskylda hans gerðu okkur og við megum ekki heldur taka neinn af lífi í Ísrael.“ Davíð sagði þá: „Ég skal gera hvað sem þið farið fram á.“ 5 Þeir sögðu þá við konung: „Varðandi manninn sem ætlaði að útrýma okkur og lagði á ráðin um að tortíma okkur úr öllu landi Ísraels+ 6 þá viljum við að þú gefir okkur sjö af afkomendum hans. Við ætlum að hengja upp lík þeirra*+ frammi fyrir Jehóva í Gíbeu,+ heimaborg Sáls,* mannsins sem Jehóva valdi.“+ Konungur svaraði: „Ég skal framselja ykkur þá.“

7 En konungur hlífði Mefíbóset+ Jónatanssyni sonarsyni Sáls vegna eiðsins sem Davíð og Jónatan sonur Sáls unnu frammi fyrir Jehóva.+ 8 Hann tók báða syni Rispu+ Ajadóttur sem hún eignaðist með Sál, þá Armóní og Mefíbóset, og fimm syni Míkal*+ Sálsdóttur sem hún eignaðist með Adríel+ Barsillaísyni Mehólatíta. 9 Síðan framseldi hann þá Gíbeonítum en þeir hengdu lík þeirra upp á fjallinu frammi fyrir Jehóva.+ Allir sjö voru teknir af lífi saman. Þeir voru líflátnir á fyrstu dögum uppskerunnar, í byrjun bygguppskerunnar. 10 Rispa+ Ajadóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér. Hún var þar frá byrjun uppskerunnar þar til regnið tók að hellast af himni yfir líkin. Hún fældi fuglana burt svo að þeir settust ekki á þau á daginn og villtu dýrin svo að þau kæmu ekki nálægt þeim á nóttinni.

11 Davíð var sagt hvað Rispa Ajadóttir hjákona Sáls hafði gert. 12 Davíð fór þá og sótti bein Sáls og Jónatans sonar hans til leiðtoganna* í Jabes í Gíleað.+ Þeir höfðu rænt þeim á torginu í Bet San þar sem Filistear höfðu hengt þau upp daginn sem þeir felldu Sál á Gilbóa.+ 13 Hann sótti bein Sáls og Jónatans þangað. Bein þeirra sem höfðu verið líflátnir*+ voru líka sótt. 14 Síðan voru bein Sáls og Jónatans grafin í Sela+ í landi Benjamíns, í gröf Kíss+ föður Sáls. Þegar öllum fyrirmælum konungs hafði verið fylgt hlustaði Guð á bænir Ísraelsmanna fyrir landinu.+

15 Enn á ný braust út stríð milli Filistea og Ísraelsmanna.+ Davíð og menn hans fóru þá niður eftir og börðust við Filistea en Davíð varð mjög lúinn. 16 Jisbi Benob, afkomandi Refaíta,+ kom nú vopnaður nýju sverði og koparspjóti sem vó 300 sikla.*+ Hann ætlaði að drepa Davíð 17 en Abísaí+ Serújuson kom honum til hjálpar+ og hjó Filisteann til bana. Þá sóru menn Davíðs þennan eið: „Þú skalt aldrei aftur fara með okkur út í bardaga.+ Þú mátt ekki slökkva á lampa Ísraels.“+

18 Seinna braust aftur út stríð við Filistea+ hjá Gób. Sibbekaí+ Húsatíti felldi þá Saf sem var afkomandi Refaíta.+

19 Enn einu sinni braust út stríð við Filistea+ hjá Gób. Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, felldi þá Gatítann Golíat en skaftið á spjóti hans var eins svert og þverslá í vefstól.+

20 Enn og aftur braust út stríð hjá Gat. Þar var risavaxinn maður með 6 fingur á hvorri hendi og 6 tær á hvorum fæti, alls 24 fingur og tær. Hann var líka kominn af Refaítum.+ 21 Hann hæddist að Ísrael+ en Jónatan, sonur Símeí+ bróður Davíðs, drap hann.

22 Þessir fjórir menn voru afkomendur Refaíta í Gat. Þeir féllu fyrir hendi Davíðs og manna hans.+

22 Davíð söng þetta ljóð+ fyrir Jehóva eftir að Jehóva hafði bjargað honum úr höndum allra óvina hans+ og úr höndum Sáls.+ 2 Hann söng:

„Jehóva er bjarg mitt og vígi,+ bjargvættur minn.+

 3 Guð minn er klettur+ minn þar sem ég leita athvarfs,

skjöldur+ minn og horn* frelsunar minnar,* öruggt athvarf.*+

Þú ert hæli+ mitt og frelsari+ sem bjargar mér frá ofbeldi.

 4 Ég ákalla Jehóva, hann sem á lof skilið,

og ég bjargast frá óvinum mínum.

 5 Brimöldur dauðans umkringdu mig,+

ofsaflóð illmenna skelfdu mig.+

 6 Bönd grafarinnar* umluktu mig,+

snörur dauðans ógnuðu mér.+

 7 Í angist minni ákallaði ég Jehóva,+

ég hrópaði stöðugt til Guðs míns.

Í musteri sínu heyrði hann rödd mína

og hróp mitt á hjálp barst honum til eyrna.+

 8 Þá hristist jörðin og skalf,+

undirstöður himinsins léku á reiðiskjálfi,+

þær nötruðu því að hann var reiður.+

 9 Reyk lagði úr nösum hans,

eyðandi eld úr munni hans+

og glóandi kol þeyttust út frá honum.

10 Þegar hann steig niður sveigði hann himininn+

og svartamyrkur var undir fótum hans.+

11 Hann kom fljúgandi á kerúb+

og birtist á vængjum andaveru.*+

12 Hann gerði myrkrið í kringum sig að skýli,+

regnþykknið og skýsortann.

13 Úr ljómanum umhverfis hann skutust eldneistar.

14 Þá þrumaði Jehóva af himni.+

Hinn hæsti hóf upp rödd sína.+

15 Hann skaut örvum sínum+ og tvístraði óvinunum,*

lét eldingar leiftra svo að þeir skelfdust.+

16 Hafsbotninn kom í ljós,+

undirstöður jarðar sáust þegar Jehóva veitti refsingu

og blés úr nösum sér.+

17 Hann rétti út hönd sína frá hæðum,

greip í mig og dró mig upp úr djúpinu.+

18 Hann bjargaði mér frá öflugum óvini mínum,+

frá þeim sem hötuðu mig og voru mér yfirsterkari.

19 Þeir stóðu gegn mér á ógæfudegi mínum+

en Jehóva studdi mig.

20 Hann leiddi mig í öruggt skjól,*+

bjargaði mér því að hann elskaði mig.+

21 Jehóva launar mér réttlæti mitt,+

umbunar mér fyrir sakleysi mitt*+

22 því að ég hef haldið mig á vegi Jehóva

og ekki snúið baki við Guði mínum.

23 Ég hef alla dóma hans+ fyrir augum mér,

vík ekki frá ákvæðum hans.+

24 Ég vil standa hreinn+ frammi fyrir honum

og varast að syndga.+

25 Jehóva umbuni mér fyrir réttlæti mitt,+

fyrir sakleysi mitt frammi fyrir honum.+

26 Þú ert trúr hinum trúfasta,+

ráðvandur hinum ráðvanda kappa,+

27 falslaus hinum falslausa+

en leikur á hinn svikula.*+

28 Þú frelsar hina auðmjúku+

en lítur með vanþóknun á hina hrokafullu og auðmýkir þá.+

29 Þú ert lampi minn, Jehóva.+

Jehóva lýsir upp myrkur mitt.+

30 Með þinni hjálp get ég ráðist gegn ránsflokki,

með mætti Guðs get ég klifið múra.+

31 Vegur hins sanna Guðs er fullkominn,+

orð Jehóva er hreint.*+

Hann er skjöldur öllum sem leita athvarfs hjá honum.+

32 Hver er Guð nema Jehóva?+

Hver er klettur nema Guð okkar?+

33 Hinn sanni Guð er mitt rammgerða vígi,+

hann gerir veg minn greiðan.+

34 Hann gerir mig fráan á fæti eins og hind,

lætur mig standa á hæðunum.+

35 Hann þjálfar hendur mínar til hernaðar,

handleggi mína til að spenna eirboga.

36 Þú bjargar mér með skildi þínum,

auðmýkt þín gerir mig mikinn.+

37 Þú breikkar stíginn sem ég geng

svo að mér skriki ekki fótur.*+

38 Ég elti óvini mína og tortími þeim,

sný ekki aftur fyrr en ég hef eytt þeim.

39 Ég eyði þeim og krem þá sundur svo að þeir rísa ekki upp aftur,+

ég treð þá undir fótum mínum.

40 Þú gefur mér styrk til bardaga,+

fellir andstæðinga mína frammi fyrir mér.+

41 Þú rekur óvini mína á flótta undan mér,*+

ég geri út af við þá* sem hata mig.+

42 Þeir hrópa á hjálp en enginn kemur þeim til bjargar,

þeir hrópa jafnvel til Jehóva en hann svarar þeim ekki heldur.+

43 Ég myl þá svo að þeir verði sem duft jarðar,

sundurmola þá og traðka á þeim eins og sora á strætum.

44 Þú bjargar mér þegar þjóð mín finnur að öllu sem ég geri,+

þú verndar mig og gerir mig að höfðingja yfir þjóðum.+

Þjóð sem ég þekki ekki mun þjóna mér.+

45 Útlendingar koma skríðandi til mín,+

þeir hlýða mér vegna þess sem þeir heyra um mig.*

46 Útlendingar missa kjarkinn,

koma skjálfandi úr fylgsnum sínum.

47 Jehóva lifir! Lofaður sé klettur minn!+

Guð minn sé upphafinn, kletturinn sem frelsar mig.+

48 Hinn sanni Guð kemur fram hefndum fyrir mig,+

beygir þjóðirnar undir mig.+

49 Hann bjargar mér frá óvinum mínum.

Þú lyftir mér hátt+ yfir þá sem ráðast gegn mér,

frelsar mig frá ofbeldismönnum.+

50 Þess vegna þakka ég þér, Jehóva, meðal þjóðanna+

og lofa nafn þitt í söng.*+

51 Hann vinnur stórvirki til að bjarga konungi sínum,*+

hann sýnir sínum smurða tryggan kærleika,

Davíð og afkomendum hans að eilífu.“+

23 Þetta eru síðustu orð Davíðs:+

„Svo segir Davíð Ísaíson,+

maðurinn sem var hafinn til vegs og virðingar,+

hinn smurði+ Guðs Jakobs,

hann sem söng ljóð+ Ísraels svo fallega:*

 2 Andi Jehóva talaði af munni mínum,+

orð hans var á tungu minni.+

 3 Guð Ísraels talaði,

klettur Ísraels+ sagði við mig:

‚Þegar sá sem ríkir yfir mönnunum er réttlátur+

og ríkir í guðsótta+

 4 er stjórn hans eins og dagsbirtan þegar sólin rennur upp,+

eins og heiðskír morgunn,

eins og glampandi sólskin eftir regnskúr

sem lætur grasið spretta á jörðinni.‘+

 5 Er það ekki þannig sem Guð lítur á ætt mína?

Hann hefur gert við mig eilífan sáttmála,+

greinargóðan og áreiðanlegan.

Þessi sáttmáli frelsar mig að öllu leyti og veitir mér einskæra gleði.

Einmitt þess vegna lætur hann ætt mína dafna.+

 6 En öllum þrjótum er kastað burt+ eins og þyrnirunnum,

enginn getur tekið þá með berum höndum.

 7 Sá sem snertir þá

þarf að vera vopnaður járni og spjótskafti,

og þeir verða brenndir á staðnum.“

8 Þetta eru nöfnin á stríðsköppum Davíðs:+ Jóseb Bassebet Hakmóníti, höfðingi hinna þriggja.+ Einu sinni sveiflaði hann spjóti sínu og drap yfir 800 menn. 9 Næstur honum var Eleasar,+ sonur Dódós+ Ahóhísonar. Hann var einn af stríðsköppunum þrem sem voru með Davíð þegar þeir skoruðu á Filistea, en Filistear höfðu þá safnast saman til bardaga. Þegar Ísraelsmenn hörfuðu 10 stóð hann fastur fyrir og felldi Filisteana þar til hann þreyttist í hendinni og hún krepptist föst um sverðið.+ Jehóva veitti mikinn sigur þennan dag.+ Liðið fór á eftir Eleasar til að taka ránsfeng.

11 Næstur honum var Samma Ageson Hararíti. Eitt sinn söfnuðust Filistear saman við Lekí. Þar var linsubaunaakur. Liðið flúði undan Filisteum 12 en hann tók sér stöðu á miðjum akrinum, varði hann og felldi Filisteana. Þannig veitti Jehóva mikinn sigur.+

13 Einu sinni um uppskerutímann fóru þrír af höfðingjunum 30 niður eftir til Davíðs í Adúllamhelli.+ Flokkur Filistea hafði þá slegið upp búðum í Refaímdal.*+ 14 Davíð var í fjallavíginu+ en Filistear voru með varðsveit í Betlehem. 15 Þá sagði Davíð: „Ég vildi óska að ég gæti fengið vatn að drekka úr brunninum við borgarhliðið í Betlehem.“ 16 Stríðskapparnir þrír brutust þá inn í herbúðir Filistea og sóttu vatn í brunninn við borgarhliðið í Betlehem. Þeir færðu Davíð vatnið en hann vildi ekki drekka það heldur hellti því niður frammi fyrir Jehóva.+ 17 Hann sagði: „Jehóva, það kemur ekki til greina að ég geri þetta. Á ég að drekka blóð+ þessara manna sem hættu lífi sínu með því að fara þangað?“ Þess vegna vildi hann ekki drekka vatnið. Þetta gerðu kapparnir þrír.

18 Abísaí+ Serújuson+ bróðir Jóabs fór fyrir öðru þríeyki. Einu sinni sveiflaði hann spjóti sínu og drap yfir 300 menn. Hann var jafn frægur og þrír bestu stríðskappar Davíðs.+ 19 Hann skaraði fram úr í þríeykinu sem hann fór fyrir en jafnaðist þó ekki á við kappana þrjá.

20 Benaja+ Jójadason var hugrakkur maður* sem vann mörg þrekvirki í Kabseel.+ Hann drap báða syni Aríels frá Móab og eitt sinn þegar snjóaði fór hann ofan í gryfju og drap þar ljón.+ 21 Hann drap líka risavaxinn Egypta. Egyptinn var með spjót í hendi en Benaja fór á móti honum með staf, hrifsaði spjótið úr hendi hans og drap hann með hans eigin spjóti. 22 Þetta gerði Benaja Jójadason. Hann var jafn frægur og þrír bestu stríðskappar Davíðs. 23 Hann skaraði fram úr hinum þrjátíu en jafnaðist þó ekki á við kappana þrjá. Davíð setti hann yfir lífvarðarsveit sína.

24 Asael+ bróðir Jóabs var einn hinna þrjátíu, einnig Elkanan, sonur Dódós frá Betlehem,+ 25 Samma Haródíti, Elíka Haródíti, 26 Heles+ frá Bet Pelet,* Íra,+ sonur Íkkess frá Tekóa, 27 Abíeser+ frá Anatót,+ Mebúnaí Húsatíti, 28 Salmón Ahóhíti, Maharaí+ Netófatíti, 29 Heleb, sonur Baana Netófatíta, Íttaí, sonur Ríbaí frá Gíbeu í Benjamín, 30 Benaja+ Píratoníti, Híddaí frá flóðdölum* Gaas,+ 31 Abi Albon frá Bet Araba, Asmavet frá Bahúrím, 32 Eljahba Saalbóníti, synir Jasens, Jónatan, 33 Samma Hararíti, Ahíam, sonur Sarars Hararíta, 34 Elífelet, sonur Ahasbaí sem var sonur Maakatíta, Elíam, sonur Akítófels+ Gílóníta, 35 Hesró Karmelíti, Paaraí frá Arab, 36 Jígal, sonur Natans frá Sóba, Baní Gaðíti, 37 Selek Ammóníti, Nahraí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar, 38 Íra Jítríti, Gareb Jítríti+ 39 og Úría+ Hetíti. Alls voru þeir 37 talsins.

24 Reiði Jehóva blossaði aftur upp gegn Ísraelsmönnum+ þegar Davíð var æstur upp á móti þeim með þessum orðum: „Farðu og teldu+ Ísraelsmenn og Júdamenn.“+ 2 Konungur sagði þá við Jóab+ hershöfðingja sinn sem var með honum: „Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba+ og teljið fólkið* svo að ég viti hversu margt það er.“ 3 En Jóab svaraði konungi: „Jehóva Guð þinn fjölgi þjóðinni hundraðfalt og megir þú, herra minn og konungur, sjá það með eigin augum. En hvers vegna vill herra minn og konungur gera þetta?“

4 En konungur vildi ekki hlusta á Jóab og hershöfðingjana. Jóab og hershöfðingjarnir lögðu þá af stað frá konungi til að telja Ísraelsmenn.+ 5 Þeir fóru yfir Jórdan og settu upp búðir við Aróer,+ sunnan* við borgina sem er í miðjum dalnum.* Síðan héldu þeir í áttina til lands Gaðíta og komu til Jaser.+ 6 Þeir fóru til Gíleaðs+ og inn í landið Tatím Hodsí og héldu síðan áfram til Dan Jaan. Því næst tóku þeir stefnuna á Sídon.+ 7 Þaðan héldu þeir til virkisborgarinnar Týrusar+ og allra borga Hevíta+ og Kanverja og enduðu ferð sína í Beerseba+ í Negeb+ í Júda. 8 Þeir fóru um allt landið og komu til Jerúsalem eftir níu mánuði og 20 daga. 9 Jóab lét konunginn vita hversu margir höfðu verið taldir: Í Ísrael voru 800.000 vopnfærir menn og 500.000 í Júda.+

10 En samviskan angraði Davíð*+ eftir að hann hafði látið telja fólkið. Hann sagði við Jehóva: „Ég hef syndgað+ gróflega með því sem ég gerði. Jehóva, fyrirgefðu nú þjóni þínum+ því að ég hef hagað mér heimskulega.“+ 11 Þegar Davíð fór á fætur morguninn eftir kom orð Jehóva til Gaðs+ spámanns, sjáanda Davíðs: 12 „Farðu og segðu við Davíð: ‚Þetta segir Jehóva: „Ég set þér þrjá kosti. Veldu hvað ég á að gera þér.“‘“+ 13 Gað gekk þá inn til Davíðs og spurði: „Viltu að hungursneyð gangi yfir land þitt í sjö ár?+ Eða viltu vera á flótta í þrjá mánuði undan óvinum þínum sem ofsækja þig?+ Eða viltu að drepsótt geisi í landinu í þrjá daga?+ Hvað á ég að segja við þann sem sendi mig? Hugsaðu þig nú vel um.“ 14 Davíð svaraði Gað: „Mér líður hræðilega út af þessu. Láttu okkur falla í hendur Jehóva+ því að miskunn hans er mikil.+ En ég vil ekki falla í hendur manna.“+

15 Sama morgun sendi Jehóva drepsótt+ yfir Ísrael sem geisaði í tiltekinn tíma og 70.000 manns dóu, frá Dan til Beerseba.+ 16 Þegar engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til að eyða íbúum hennar iðraðist Jehóva þessarar ógæfu.+ Hann sagði við engilinn sem eyddi fólkinu: „Þetta er nóg! Dragðu að þér höndina.“ En engill Jehóva var þá rétt hjá þreskivelli Aravna+ Jebúsíta.+

17 Þegar Davíð sá engilinn drepa fólkið sagði hann við Jehóva: „Það var ég sem syndgaði og það var ég sem braut af mér en hvað hafa þessir sauðir+ gert af sér? Láttu þetta heldur bitna á mér og ætt föður míns.“+

18 Sama dag kom Gað til Davíðs og sagði: „Farðu upp eftir og reistu altari handa Jehóva á þreskivelli Aravna Jebúsíta.“+ 19 Davíð fór þá upp eftir eins og Gað hafði sagt honum samkvæmt fyrirskipun Jehóva. 20 Þegar Aravna sá konunginn og menn hans koma í áttina til sín flýtti hann sér út á móti þeim, og hann hneigði sig fyrir konungi og laut til jarðar. 21 Aravna spurði: „Hvers vegna ert þú, herra minn og konungur, kominn hingað til þjóns þíns?“ Davíð svaraði: „Til að kaupa af þér þreskivöllinn og reisa altari handa Jehóva svo að plágunni sem herjar á fólkið linni.“+ 22 En Aravna svaraði Davíð: „Þú mátt eiga hann, herra minn og konungur, og fórna því sem þú vilt.* Hér eru naut fyrir brennifórnina og þú getur notað þreskisleðann og ok nautanna sem eldivið. 23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna þér.“ Og hann bætti við: „Jehóva Guð þinn blessi þig.“

24 En konungur svaraði Aravna: „Nei, ég ætla að borga þér fyrir þetta. Ég vil ekki færa Jehóva Guði mínum brennifórnir sem kosta mig ekkert.“ Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir 50 sikla* silfurs.+ 25 Davíð reisti þar altari+ handa Jehóva og færði brennifórnir og samneytisfórnir. Jehóva hlustaði á bænir Davíðs fyrir landinu+ og plágunni sem herjaði á Ísrael linnti.

Orðrétt „Blóð þitt sé yfir þínu eigin höfði“.

Eða „Bók hins réttláta“.

Eða „hugljúfir“.

Eða „etja kappi“.

Sem þýðir ‚tinnuhnífaakur‘.

Eða hugsanl. „um allt Bítrón“.

Orðrétt „og sjá, hönd mín er með þér“.

Orðrétt „fyrir blóð“.

Hugsanlega er átt við bæklaðan mann sem þarf að vinna kvenmannsstarf.

Orðrétt „kopar“.

Eða „til að gefa Davíð huggunarbrauð (sorgarbrauð)“.

Eða „lamaður“.

Eða „sál Davíðs hatar“.

Eða hugsanl. „og nefndi það“.

Sem þýðir ‚jarðfylling‘. Hugsanlega var þetta einhvers konar virki.

Eða „höll“.

Eða „Refaímsléttu“.

Sem þýðir ‚herra gegnumbrotanna‘.

Eða „Refaímsléttu“.

Eða hugsanl. „á milli kerúbanna“.

Fornt slagverkshljóðfæri, eins konar hringla.

Eða „féll það þungt“.

Sem þýðir ‚brýst út gegn Ússa‘.

Ef til vill er átt við borgina Gat Rimmon.

Orðrétt „gyrtur“.

Eða „höll sinni“.

Orðrétt „gengið“.

Orðrétt „reisa þér hús“.

Eða hugsanl. „synir Adams“.

Eða „lög“.

Orðrétt „hjarta þínu“.

Eða „keyptir hana lausa“.

Orðrétt „reisa þér hús“.

Eða „sagnaritari“.

Orðrétt „urðu prestar“.

Eða „lamaður“.

Orðrétt „borða brauð“.

Eða hugsanl. „mitt“.

Eða „sama trygga kærleika“.

Eða „af mönnum Tób“.

Eða „af mönnum Tób“.

Það er, Efrat.

Það er, um vorið.

Eða „Síðla dag nokkurn“.

Hugsanlega var hún óhrein vegna tíðablæðinga.

Orðrétt „þvoðu þér um fæturna“.

Hugsanlega er átt við matarskammt sem gestgjafi sendi heiðursgesti.

Eða „gef þær náunga þínum“.

Orðrétt „fyrir augum sólarinnar“.

Orðrétt „frammi fyrir sólinni“.

Orðrétt „hús“.

Dregið af hebresku orði sem merkir ‚friður‘.

Sem þýðir ‚elskaður af Jah‘.

Vísar hugsanlega til vatnsbirgða borgarinnar.

Orðrétt „og nafn mitt verði nefnt yfir henni“.

Sjá orðaskýringar.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Eða „huggunarbrauð“, það er, mat ætlaðan sjúklingum.

Eða „huggunarbrauð“.

Eða „huggunarbrauðið“.

Eða „skreyttum“.

Eða „Láttu þetta ekki liggja þér þungt á hjarta“.

Orðrétt „blessaði hann“.

Eða „lét Davíð huggast eftir“.

Það er, síðustu vonina um afkomendur.

Eða „eftirlifanda“.

Eða „sál“.

Eða „getur enginn vikið til hægri né vinstri frá því sem þú hefur sagt“.

Um 2,3 kg. Sjá viðauka B14.

Ef til vill er átt við staðlað lóð sem var geymt í konungshöllinni eða „konunglegan“ sikil sem var frábrugðinn venjulegum sikli.

Eða hugsanl. „40 árum“.

Orðrétt „þjóna Jehóva“.

Eða „höllinni“.

Sem þýðir ‚ysta húsið‘.

Eða „gengu yfir dalinn“.

Eða „gengu yfir dalinn í augsýn konungs“.

Eða „snúðu ráðum Akítófels upp í heimsku“.

Eða „trúnaðarvinur“.

Eða „sonarsonur“.

Eða „blóðseki maður“.

Eða „trúnaðarvinur“.

Eða „tryggan kærleika“.

Eða „höllinni“.

Eða „þóttu ráð Akítófels eins góð og gild og leitað væri ráða hjá“.

Eða „skapillir“.

Eða „gryfju; gljúfri“.

Eða hugsanl. „á eyðisléttunum“.

Orðrétt „hendi“.

Orðrétt „milli himins og jarðar“.

Eða hugsanl. „þrjú spjót“. Orðrétt „þrjá stafi“.

Orðrétt „lyftu hendi sinni“.

Orðrétt „bein mitt og hold“.

Orðrétt „beygði“.

Eða hugsanl. „Þeir fóru“.

Eða hugsanl. „frá“.

Eða „svar Júdamanna var harðara en Ísraelsmanna“.

Eða „Við eigum enga hlutdeild í Davíð“.

Eða „engan erfðahlut í“.

Eða hugsanl. „tjalda“.

Eða „höll sína“.

Orðrétt „komu þeir“.

Orðrétt „arfleifð“.

Orðrétt „lyft hendi sinni“.

Eða „sagnaritari“.

Orðrétt „varð prestur hjá Davíð“.

Orðrétt „arfleifð“.

Orðrétt „stilla þeim upp til sýnis“, það er, með brotna handleggi og fætur.

Orðrétt „Gíbeu Sáls“.

Eða hugsanl. „Merab“.

Eða hugsanl. „landeigendanna“.

Orðrétt „til sýnis“.

Um 3,4 kg. Sjá viðauka B14.

Sjá orðaskýringar.

Eða „máttugur frelsari minn“.

Eða „öruggt fjallavígi“.

Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Eða „vindsins“.

Orðrétt „þeim“.

Eða „út á víðlendi“.

Orðrétt „hreinleika handa minna“.

Eða hugsanl. „lætur eins og kjáni gagnvart hinum svikula“.

Hebreska orðið vísar til þess að hreinsa málm í eldi.

Eða „ökklar mínir skriki ekki“.

Eða „lætur mig sjá bakið á óvinum mínum“.

Orðrétt „þagga niður í þeim“.

Orðrétt „þeir hlýða mér þegar eyrað heyrir“.

Eða „með tónlist“.

Eða „Hann veitir konungi sínum mikla sigra“.

Eða „sem sungið var svo fallega um í ljóðum Ísraels“.

Eða „á Refaímsléttu“.

Orðrétt „sonur hreystimennis“.

Eða „Paltíti“.

Sjá orðaskýringar.

Hér virðist átt við vopnfæra menn.

Orðrétt „hægra megin“.

Eða „flóðdalnum“.

Orðrétt „hjarta Davíðs sló hann“.

Eða „sem er gott í þínum augum“.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila