PRÉDIKARINN
1 Orð fræðarans,*+ sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.+
3 Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann stritar við undir sólinni?+
6 Vindurinn blæs til suðurs og snýst svo til norðurs.
Hann snýst og snýst í sífellu og heldur áfram að hringsóla.
7 Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki.+
Þaðan sem árnar renna, þangað snúa þær aftur til að renna á ný.+
8 Allt er lýjandi,
enginn megnar að lýsa því.
Augað sér en fær aldrei nóg,
eyrað heyrir en seðst aldrei.
9 Það sem hefur verið verður áfram
og það sem hefur gerst gerist aftur.
Ekkert er nýtt undir sólinni.+
10 Er nokkuð til sem sagt verður um: „Sjáið, þetta er nýtt“?
Það varð til fyrir löngu,
það var til fyrir okkar daga.
11 Enginn man eftir fólki frá fyrri tíð
né mun nokkur minnast þeirra sem eiga eftir að koma.
Síðari kynslóðir gleyma þeim líka.+
12 Ég, fræðarinn, hef verið konungur yfir Ísrael í Jerúsalem.+ 13 Ég ákvað að beita visku minni+ til að rannsaka allt sem hefur verið gert undir himninum+ – þau dapurlegu viðfangsefni sem Guð hefur fengið mönnunum og þeir eru uppteknir af.
14 Ég sá öll þau verk sem unnin eru undir sólinni og hugsaði:
Allt er tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.+
15 Það sem er bogið getur ekki orðið beint
og það sem vantar verður ekki talið.
16 Ég sagði við sjálfan mig: „Ég hef aflað mér mikillar visku, meiri en allir sem voru á undan mér í Jerúsalem,+ og hjarta mitt hefur öðlast mikla visku og þekkingu.“+ 17 Ég ákvað að kynnast viskunni og kynnast vitfirringu og heimsku+ en það var líka eftirsókn eftir vindi.
2 Ég sagði við sjálfan mig: „Ég ætla að njóta lífsins* og sjá hvað það veitir mér.“ En það reyndist líka tilgangslaust.
2 Ég sagði um hláturinn: „Hann er brjálæði!“
og um lífsnautnir:* „Til hvers?“
3 Ég ákvað að gæða mér á víni+ en varðveita þó viskuna. Ég lét jafnvel reyna á heimskuna til að kanna hvað væri mönnunum fyrir bestu þann stutta tíma sem þeir lifa undir himninum. 4 Ég réðst í stór verkefni.+ Ég reisti mér hús+ og plantaði víngarða.+ 5 Ég gerði mér garða, stóra og smáa, og gróðursetti í þeim alls konar aldintré. 6 Ég bjó til tjarnir til að vökva frjósaman skóg.* 7 Ég eignaðist þjóna og þjónustustúlkur+ og þjónar fæddust á heimili mínu. Ég eignaðist líka hjarðir af nautgripum og sauðfé+ – stærri en nokkur forveri minn í Jerúsalem. 8 Ég safnaði mér silfri og gulli,+ fjársjóðum sem hæfa konungum og löndum.+ Ég fékk mér söngvara og söngkonur og það sem karlmenn hafa mest yndi af – konu, já, margar konur. 9 Ég varð mikill og fremri öllum sem voru á undan mér í Jerúsalem.+ Og ég varðveitti viskuna allan tímann.
10 Ég lét eftir mér allt sem mig langaði í.*+ Ég neitaði mér ekki um neitt sem veitti mér ánægju því að ég gladdist yfir öllu sem ég áorkaði og það var umbun erfiðis míns.*+ 11 En þegar ég hugsaði um allt sem ég hafði unnið með höndum mínum og allt sem ég hafði áorkað með erfiði mínu+ sá ég að allt var tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.+ Ekkert undir sólinni hafði raunverulegt gildi.+
12 Þá beindi ég athyglinni að viskunni og að brjálsemi og heimsku.+ (En hvað getur sá maður gert sem kemur á eftir konunginum? Ekki annað en það sem þegar hefur verið gert.) 13 Ég komst að raun um að viskan ber af heimskunni,+ rétt eins og ljósið ber af myrkrinu.
14 Vitur maður hefur augun hjá sér*+ en heimskinginn gengur í myrkri.+ En ég hef líka áttað mig á að sömu endalok bíða allra.+ 15 Ég sagði við sjálfan mig: „Eins og fer fyrir heimskingjanum þannig fer líka fyrir mér.“+ Hvaða gagn hafði ég þá af því að verða svona frábærlega vitur? Ég hugsaði með mér: „Þetta er líka tilgangslaust.“ 16 Menn minnast hvorki hins vitra né hins heimska að eilífu.+ Allir gleymast þegar fram líða stundir. Og hvernig deyr hinn vitri? Á sama hátt og heimskinginn.+
17 Ég fékk óbeit á lífinu+ því að allt sem gerist undir sólinni veldur mér vonbrigðum. Allt er tilgangslaust,+ eftirsókn eftir vindi.+ 18 Ég fékk óbeit á öllu sem ég hafði stritað fyrir undir sólinni+ því að ég þarf að eftirláta það þeim sem kemur á eftir mér.+ 19 Og hver veit hvort hann verður vitur eða heimskur?+ Hvort heldur er þá fær hann að ráða yfir öllu sem ég hef aflað með visku minni og erfiði undir sólinni. Það er líka tilgangslaust. 20 Ég fór að örvænta yfir öllu striti mínu og erfiði undir sólinni 21 því að maður vinnur hörðum höndum af visku, þekkingu og dugnaði en þarf svo að eftirláta allt manni sem hefur ekki unnið fyrir því.+ Einnig það er tilgangslaust og dapurlegt.*
22 Hvað ávinnur maður með öllu erfiði sínu og metnaði sem knýr hann til að vinna hörðum höndum undir sólinni?+ 23 Það sem hann tekur sér fyrir hendur veldur honum sársauka og vonbrigðum+ alla ævidaga hans og jafnvel um nætur fær hann ekki hvíld.+ Þetta er líka tilgangslaust.
24 Ekkert er betra fyrir manninn en að borða og drekka og njóta erfiðis síns.+ Ég hef áttað mig á að það kemur úr hendi hins sanna Guðs,+ 25 og hver nýtur betri matar og drykkjar en ég?+
26 Hinn sanni Guð gefur þeim sem hann hefur velþóknun á visku, þekkingu og gleði+ en syndarinn fær að safna og sanka að sér eigum til þess eins að gefa þeim sem Guð hefur velþóknun á.+ Þetta er líka tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.
3 Öllu er afmörkuð stund.
Allt sem gerist undir himninum hefur sinn tíma:
2 Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að uppræta hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3 að drepa hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4 að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að syrgja hefur sinn tíma og að dansa* hefur sinn tíma,
5 að kasta steinum hefur sinn tíma og að safna saman steinum hefur sinn tíma,
að faðma hefur sinn tíma og að forðast faðmlög hefur sinn tíma,
6 að leita hefur sinn tíma og að hætta að leita hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að henda hefur sinn tíma,
7 að rífa sundur+ hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja+ hefur sinn tíma og að tala+ hefur sinn tíma,
8 að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,+
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9 Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?+ 10 Ég hef séð þau störf sem Guð hefur gefið mönnunum til að halda þeim uppteknum. 11 Hann hefur skapað allt fagurt* á réttum tíma.+ Hann hefur jafnvel lagt eilífðina í hjörtu mannanna en samt munu þeir aldrei skilja verk hins sanna Guðs frá upphafi til enda.
12 Ég hef komist að raun um að ekkert er betra fyrir þá en að gleðjast og gera gott meðan þeir lifa.+ 13 Að borða, drekka og njóta erfiðis síns, það er gjöf Guðs.+
14 Ég hef komist að því að allt sem hinn sanni Guð gerir stendur að eilífu. Við það er engu að bæta og af því verður ekkert tekið. Hinn sanni Guð hefur gert það þannig til að fólk beri lotningu fyrir honum.+
15 Það sem gerist hefur gerst áður og það sem verður er þegar orðið+ en hinn sanni Guð kemur því til leiðar* sem menn hafa sóst eftir.*
16 Ég hef líka séð þetta undir sólinni: Þar sem átti að vera réttvísi var illska og þar sem átti að vera réttlæti var illska.+ 17 Ég sagði við sjálfan mig: „Hinn sanni Guð dæmir bæði réttláta og illa+ því að öll verk og allt sem gerist hefur sinn tíma.“
18 Ég hugsaði líka með mér að hinn sanni Guð reyni mennina og sýni þeim að þeir séu eins og dýrin 19 því að það fer eins fyrir mönnunum og dýrunum, endirinn er sá sami hjá þeim öllum.+ Eins og dýrið deyr, þannig deyr maðurinn og allt hefur sama andann.+ Maðurinn hefur enga yfirburði yfir dýrin því að allt er tilgangslaust. 20 Allt fer sömu leiðina.+ Allt er gert úr mold+ og allt snýr aftur til moldarinnar.+ 21 Hver veit hvort andi mannanna fer upp og hvort andi dýranna fer niður til jarðarinnar?+ 22 Ég sá að ekkert er betra fyrir manninn en að njóta vinnu sinnar.+ Það eru laun* hans því að hver getur gert honum kleift að sjá það sem gerist eftir að hann er dáinn?+
4 Ég beindi athygli minni aftur að allri þeirri kúgun sem viðgengst undir sólinni. Ég sá tár hinna kúguðu en enginn huggaði þá.+ Kúgarar þeirra fóru með völdin og það var enginn sem huggaði þá. 2 Ég taldi hina dánu lánsama af því að þeir sem eru fallnir frá eru betur settir en hinir lifandi.+ 3 Hinn ófæddi er þó enn betur settur+ því að hann hefur ekki horft upp á allt hið illa sem gert er undir sólinni.+
4 Ég hef séð hve oft kappsemi* og dugnaður í starfi sprettur af samkeppni.+ Það er líka tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.
5 Heimskinginn krossleggur hendurnar og hold hans tærist upp.+
6 Betri er hnefafylli af hvíld en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.+
7 Ég tók eftir enn einu undir sólinni sem er tilgangslaust: 8 Maður stendur einn, enginn er með honum og hann á hvorki son né bróður. Samt er enginn endir á öllu striti hans og augu hans seðjast aldrei af auðæfum.+ En spyr hann sjálfan sig: ‚Fyrir hvern er ég að strita og neita mér um lífsins gæði‘?+ Það er líka tilgangslaust og ömurlegt hlutskipti.+
9 Betri eru tveir en einn+ því að þeir fá góð laun fyrir strit sitt.* 10 Ef annar þeirra dettur getur hinn reist félaga sinn á fætur. En hvernig fer fyrir þeim sem dettur en hefur engan til að hjálpa sér á fætur?
11 Og ef tveir liggja hlið við hlið er þeim hlýtt en hvernig getur sá sem er einn haldið á sér hita? 12 Hægt er að yfirbuga þann sem er einn en tveir geta haldið velli. Og þrefaldan þráð er ekki auðvelt að slíta.
13 Betri er fátækur og vitur unglingur en gamall og heimskur konungur+ sem hefur ekki lengur vit á að hlusta á viðvaranir.+ 14 Hann* kom út úr fangelsi og varð konungur+ þó að hann fæddist fátækur+ meðan hinn var við völd. 15 Ég virti fyrir mér alla lifandi menn sem ganga um undir sólinni og sá hvernig gekk hjá unga konunginum sem tók við af hinum. 16 Þótt stuðningsmenn hans hafi verið óteljandi verða þeir sem síðar koma óánægðir með hann.+ Þetta er líka tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.
5 Hugsaðu þig um áður en þú gengur í hús hins sanna Guðs.+ Það er betra að fara þangað til að hlusta+ en til að færa fórn eins og heimskingjar gera.+ Þeir vita ekki að það sem þeir gera er rangt.
2 Vertu ekki hvatvís í tali og segðu ekkert í fljótfærni frammi fyrir hinum sanna Guði+ því að hinn sanni Guð er á himnum en þú ert á jörð. Þess vegna ættirðu að vera fáorður.+ 3 Draumar koma hjá þeim sem hafa í of mörgu að snúast*+ og heimskulegt blaður kemur af miklum orðaflaumi.+ 4 Þegar þú vinnur Guði heit skaltu ekki draga að efna það+ því að honum líkar ekki við heimskingja.+ Efndu það sem þú heitir.+ 5 Betra er að heita engu en að heita og efna það ekki.+ 6 Láttu ekki munninn koma þér til að syndga+ og segðu ekki frammi fyrir englinum* að þú hafir gert mistök.+ Viltu að hinn sanni Guð reiðist yfir orðum þínum svo að hann þurfi að eyða því sem þú hefur unnið með höndum þínum?+ 7 Draumar koma þegar menn hafa í of mörgu að snúast+ og orðaflaumur er innantómur. En þú skalt óttast hinn sanna Guð.+
8 Ef þú sérð valdamann kúga hinn fátæka og halla rétti og réttlæti í landi þínu skaltu ekki vera hissa.+ Hann lýtur valdi annars sér æðri og aðrir eru enn hærra settir.
9 Afurðir landsins skiptast milli þeirra allra og jafnvel konungurinn lifir á því sem jörðin gefur af sér.+
10 Sá sem elskar silfur fær aldrei nóg af silfri og sá sem elskar auðinn hefur aldrei nægar tekjur.+ Það er líka tilgangslaust.+
11 Þegar auðæfin vaxa fjölgar þeim sem eyða þeim.+ Hvaða gagn hefur eigandinn af þeim annað en að horfa á þau?+
12 Þjónninn fær góðan nætursvefn hvort sem hann borðar mikið eða lítið en ofgnótt hins ríka veitir honum ekki svefnfrið.
13 Eitt hef ég séð undir sólinni sem er mjög dapurlegt:* auðæfi sem maður safnar sjálfum sér til tjóns. 14 Auðæfin glatast vegna slæmrar fjárfestingar og þegar maðurinn eignast son á hann ekkert eftir.+
15 Nakinn kemur maður úr móðurkviði og eins fer hann nakinn burt.+ Hann tekur ekkert með sér sem hann hefur stritað fyrir.+
16 Þetta er líka mjög dapurlegt:* Eins og maðurinn kemur, þannig fer hann burt. Og hvaða gagn hefur hann af því að strita út í veður og vind?+ 17 Alla daga borðar hann í myrkri, vonsvikinn, sjúkur og reiður.+
18 Ég hef séð að það er gott og rétt að maðurinn borði og drekki og njóti erfiðis síns+ sem hann stritar við undir sólinni þá fáu ævidaga sem hinn sanni Guð hefur gefið honum því að það eru laun* hans.+ 19 Já, þegar hinn sanni Guð gefur manninum auðæfi og eignir+ og gerir hann færan um að njóta þeirra ætti hann að þiggja laun sín* og gleðjast yfir striti sínu. Það er gjöf Guðs.+ 20 Hann tekur* varla eftir hvernig ævidagarnir fljúga hjá því að hinn sanni Guð heldur honum uppteknum af því sem gleður hjarta hans.+
6 Ég hef séð annað undir sólinni sem er dapurlegt* og það er algengt meðal manna: 2 Hinn sanni Guð gefur manni auðæfi, eigur og heiður svo að hann skortir ekkert sem hann langar í. En hinn sanni Guð gerir honum ekki kleift að njóta þess heldur leyfir ókunnugum manni að njóta þess. Það er tilgangslaust og mikið böl. 3 Þótt maður eignist hundrað börn, lifi mörg ár og nái hárri elli verð ég að segja að andvana fætt barn er betur sett en hann+ ef hann nýtur ekki gæða lífsins áður en hann fer í gröfina.* 4 Það kom í heiminn til einskis og fór burt í myrkri og nafn þess er hulið myrkri. 5 Þótt það hafi aldrei séð sólina né vitað neitt er það samt betur sett* en slíkur maður.+ 6 Hvaða gagn er að því að lifa þúsund ár tvisvar en njóta ekki gæða lífsins? Fara ekki allir sömu leiðina?+
7 Maðurinn stritar til að fylla magann+ en samt verður hann aldrei saddur. 8 Hvaða yfirburði hefur vitur maður yfir heimskan+ eða hvaða gagn hefur fátækur maður af því að kunna að takast á við lífið?* 9 Það er betra að njóta þess sem maður sér en að eltast við langanir sínar. Það er líka tilgangslaust og eftirsókn eftir vindi.
10 Það sem til er orðið hefur þegar fengið nafn og eðli mannsins er þekkt. Maðurinn getur ekki deilt við sér voldugri mann.* 11 Því fleiri orð, þeim mun minna merkja þau. Og hvaða gagn hefur maðurinn af þeim? 12 Hver veit hvernig best er að maður lifi sína stuttu og tilgangslausu ævi sem er eins og hverfull skuggi?+ Hver getur sagt manninum hvað gerist undir sólinni eftir að hann er farinn?
7 Gott mannorð* er betra en góð olía+ og dauðadagur er betri en fæðingardagur. 2 Það er betra að fara í sorgarhús en veisluhús+ því að dauðinn er endir hvers manns og þeir sem lifa ættu að leiða hugann að því. 3 Sorg er betri en hlátur+ því að dapurt andlit bætir hjartað.+ 4 Hjörtu hinna vitru eru í sorgarhúsinu en hjörtu heimskingjanna í húsi gleðinnar.*+
5 Það er betra að hlusta á ávítur viturs manns+ en á lofsöng* heimskingja. 6 Hlátur heimskingjans+ er eins og snarkið í þyrnum sem brenna undir pottinum, og það er líka tilgangslaust. 7 Kúgun getur rænt vitran mann vitinu og mútur spilla hjartanu.+
8 Betri er endir máls en upphaf þess. Það er betra að vera þolinmóður en stoltur.+ 9 Vertu ekki fljótur til að móðgast+ því að gremja býr í brjósti* heimskingja.+
10 Segðu ekki: „Hvers vegna var allt betra áður?“ því að það er ekki skynsamlegt að spyrja þannig.+
11 Viska samfara arfi er góð og gagnast þeim sem sjá dagsljósið.* 12 Viska veitir vernd+ eins og peningar veita vernd+ en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir að samfara visku heldur hún manni á lífi.+
13 Hugleiddu verk hins sanna Guðs. Hver getur rétt úr því sem hann hefur gert bogið?+ 14 Á góðum degi skaltu gera það sem er gott+ en á erfiðum degi* skaltu muna að Guð gerði bæði þennan dag og hinn.+ Mennirnir geta því ekki vitað með vissu* hvað gerist í framtíðinni.+
15 Ég hef séð allt á minni hverfulu* ævi+ – hinn réttláta sem ferst þó að hann sé réttlátur+ og hinn illa sem lifir lengi þrátt fyrir illsku sína.+
16 Vertu ekki of réttlátur+ og flíkaðu ekki visku þinni.+ Hvers vegna ættirðu að skemma fyrir sjálfum þér?+ 17 Vertu ekki of vondur og vertu ekki heimskur.+ Af hverju ættirðu að deyja fyrir tímann?+ 18 Best er að taka til sín báðar þessar áminningar og hafna hvorugri+ því að sá sem óttast Guð fer eftir þeim báðum.
19 Viska gerir vitran mann máttugri en tíu volduga menn í borginni.+ 20 Það er enginn réttlátur maður á jörðinni sem gerir alltaf gott og syndgar aldrei.+
21 Taktu ekki allt sem fólk segir nærri þér+ svo að þú þurfir ekki að heyra þjón þinn tala illa um þig* 22 því að þú veist vel að þú hefur oft sjálfur talað illa um aðra.+
23 Ég hef lagt mat á allt þetta með visku minni og ég sagði: „Ég ætla að verða vitur.“ En það var mér utan seilingar. 24 Það sem er orðið til er ofar okkar skilningi og gríðarlega djúpt. Hver getur skilið það?+ 25 Ég einsetti mér að skilja, rannsaka og leita viskunnar og ástæðunnar fyrir öllu, og einnig að skilja illskuna í óskynseminni og heimskuna í brjálæðinu.+ 26 Þá áttaði ég mig á þessu: Kona sem er eins og net veiðimannsins er bitrari en dauðinn. Hjarta hennar er eins og dragnet og hendur hennar eins og fjötrar. Sá sem þóknast hinum sanna Guði kemst undan henni+ en syndarann tekur hún til fanga.+
27 „Að þessu hef ég komist,“ segir fræðarinn.+ „Ég hef rannsakað eitt á fætur öðru til að komast að niðurstöðu 28 en ég hef ekki fundið það sem ég hef leitað að allan tímann. Í þúsund manna hópi fann ég einn réttlátan mann en enga réttláta konu. 29 Ég hef komist að þessu einu: Hinn sanni Guð skapaði mennina réttláta+ en þeir hafa fylgt sínum eigin áformum.“+
8 Hver jafnast á við hinn vitra? Hver kann að leysa vandamál?* Viska manns endurspeglast í andliti hans og mildar hörkulegan svipinn.
2 Ég segi: „Hlýddu skipunum konungs+ vegna eiðsins sem þú sórst Guði.+ 3 Flýttu þér ekki burt frá honum.+ Taktu ekki afstöðu með því sem er illt+ því að hann getur gert allt sem hann vill. 4 Orð konungs eru lög.+ Hver getur spurt hann: ‚Hvað ertu að gera?‘“
5 Ekkert illt hendir þann sem hlýðir fyrirmælunum,+ og vitur maður veit hvenær og hvernig á að taka á málum.*+ 6 Mennirnir glíma við mörg vandamál en hvert mál hefur sinn tíma og sína aðferð.*+ 7 Enginn veit hvað mun gerast. Hver getur þá sagt hvernig það gerist?
8 Enginn hefur vald yfir lífsandanum* né getur haldið í hann þannig að enginn ræður dánardeginum.+ Enginn er sendur heim í miðju stríði og eins leyfir illskan hinum illu ekki að komast undan.*
9 Allt þetta hef ég séð og ég velti fyrir mér öllu sem gert er undir sólinni. Alla tíð hefur einn maður drottnað yfir öðrum honum til tjóns.+ 10 Ég sá illa menn jarðaða, menn sem voru vanir að koma á hinn heilaga stað, en þeir gleymdust fljótt í borginni þar sem þeir höfðu aðhafst hið illa.+ Þetta er líka tilgangslaust.
11 Ef mönnum er ekki refsað fljótt fyrir vond verk sín+ vex þeim kjarkur til að gera það sem er illt.+ 12 Þó að syndari geri það sem er illt hundrað sinnum og lifi samt lengi veit ég að þeim sem óttast hinn sanna Guð vegnar vel af því að þeir óttast hann.+ 13 En hinum illa vegnar ekki vel+ né getur hann lengt líf sitt sem er eins og hverfull skuggi+ þar sem hann óttast ekki Guð.
14 Eitt gerist á jörðinni sem er ergilegt:* Stundum er farið með réttláta eins og þeir hafi gert eitthvað illt+ og stundum er komið fram við illmenni eins og þau hafi gert það sem er gott.+ Ég segi að þetta sé líka tilgangslaust.
15 Ég lofaði gleðina+ því að ekkert er betra fyrir manninn undir sólinni en að borða og drekka og vera glaður. Það ætti að fylgja honum meðan hann stritar alla ævidaga sína+ sem hinn sanni Guð gefur honum undir sólinni.
16 Ég einsetti mér að afla mér visku og fylgjast með öllu sem menn taka sér fyrir hendur á jörðinni+ og ég svaf hvorki nótt né dag.* 17 Ég hugsaði um allt sem hinn sanni Guð gerir og áttaði mig á að mennirnir geta ekki skilið það sem gerist undir sólinni.+ Hvað sem þeir reyna ná þeir ekki að skilja það. Jafnvel þótt þeir segist vera nógu vitrir til þess skilja þeir það ekki til fulls.+
9 Ég leiddi hugann að öllu þessu og komst að þeirri niðurstöðu að hinir réttlátu og hinir vitru og það sem þeir gera er í höndum hins sanna Guðs.+ Menn vita ekki af kærleikanum og hatrinu sem var fyrir þeirra dag. 2 Hið sama bíður allra manna,+ réttlátra og illra,+ góðra manna, hreinna og óhreinna, þeirra sem fórna og þeirra sem fórna ekki. Eins fer fyrir góðum manni og syndara, þeim sem sver eið og þeim sem fer varlega í að sverja. 3 Þetta er eitt af því dapurlega sem gerist undir sólinni: Þar sem hið sama bíður allra+ eru hjörtu mannanna full af illsku. Brjálæði býr í hjörtum þeirra alla ævi og síðan deyja þeir!*
4 Meðan menn lifa er von. Lifandi hundur er betur settur en dautt ljón.+ 5 Þeir sem lifa vita að þeir munu deyja+ en hinir dánu vita ekki neitt+ og fá engin laun framar því að enginn man lengur eftir þeim.+ 6 Ást þeirra, hatur og öfund er horfin og þeir eiga ekki lengur neinn þátt í því sem gerist undir sólinni.+
7 Borðaðu mat þinn með ánægju og drekktu vín með glöðu hjarta+ því að hinn sanni Guð er ánægður með það sem þú gerir.+ 8 Gakktu alltaf í hvítum fötum* og sparaðu ekki olíuna á höfuðið.+ 9 Njóttu lífsins með konu þinni, sem þú elskar,+ alla þína hverfulu* ævi sem Guð hefur gefið þér undir sólinni, alla þína innantómu daga, því að það er hlutskipti þitt í lífinu og launin fyrir strit þitt og erfiði undir sólinni.+ 10 Allt sem þú getur gert skaltu gera af öllu afli því að í gröfinni,* þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi, áform, þekking né viska.+
11 Ég hef séð annað undir sólinni, að hinir fljótu sigra ekki alltaf í hlaupinu né kapparnir í stríðinu,+ né eiga hinir vitru alltaf mat eða hinir gáfuðu auðinn,+ og menntamennirnir njóta ekki alltaf velgengni+ því að tími og tilviljun mætir* þeim öllum. 12 Maðurinn veit ekki hvenær tími hans er á enda.+ Eins og fiskurinn festist í hættulegu netinu og fuglar í gildru, þannig festast mennirnir í snöru á ógæfutíma þegar hann kemur skyndilega yfir þá.
13 Ég sá einnig undir sólinni dæmi um visku, og mér fannst það merkilegt: 14 Í lítilli borg bjuggu fáeinir menn. Voldugur konungur réðst á borgina, umkringdi hana og reisti mikil árásarvirki. 15 Í borginni bjó fátækur en vitur maður og hann bjargaði henni með visku sinni. En enginn mundi eftir þessum fátæka manni.+ 16 Ég hugsaði með mér: „Viska er betri en afl+ en viska fátæks manns er samt fyrirlitin og enginn gefur gaum að orðum hans.“+
17 Betra er að hlusta á hæglát orð hins vitra en hróp manns sem ríkir meðal heimskingja.
18 Viska er betri en vopn en einn syndari getur valdið miklu tjóni.+
10 Dauðar flugur valda óþef og gerjun í ilmolíunni, og eins getur smá heimska varpað skugga á visku og heiður.+
2 Hjarta viturs manns vísar honum rétta leið* en hjarta hins óskynsama leiðir hann á ranga braut.*+ 3 Sama hvaða leið heimskinginn fer skortir hann alla dómgreind+ og hann gerir öllum ljóst að hann sé heimskur.+
4 Ef reiði* valdhafans blossar upp gegn þér skaltu ekki yfirgefa staðinn+ því að rósemi afstýrir miklum syndum.+
5 Til er ógæfa sem ég hef séð undir sólinni, mistök sem valdamönnum verða á:+ 6 Heimskan er sett í háu stöðurnar en hinir hæfu* skipa lágu stöðurnar.
7 Ég hef séð þjóna ríða hestum en höfðingja fótgangandi eins og þjóna.+
8 Sá sem grefur gryfju getur fallið í hana+ og þann sem rífur niður steinvegg getur höggormur bitið.
9 Sá sem vinnur grjót úr námu getur slasað sig og sá sem klýfur við stofnar sér í hættu.*
10 Ef öxin er sljó og maðurinn brýnir ekki eggina þarf hann að beita meira afli. En viska skilar árangri.
11 Ef slangan bítur áður en hún er tamin er gagnslaust að vera fær slöngutemjari.
12 Orð af munni viturs manns veita blessun+ en varir heimskingjans verða honum að falli.+ 13 Fyrstu orðin af munni hans eru heimska+ og síðustu orðin algert brjálæði. 14 En heimskinginn lætur samt dæluna ganga.+
Maðurinn veit ekki hvað mun gerast. Hver getur sagt honum hvað verður eftir hans dag?+
15 Heimskinginn verður úrvinda af striti sínu, hann ratar ekki einu sinni inn í borgina.
16 Það er mikið ólán fyrir land þegar konungurinn er bara drengur+ og höfðingjarnir hefja veisluhöld að morgni dags. 17 Það er landi til gæfu þegar konungurinn er af göfugum ættum og höfðingjarnir borða og drekka á réttum tíma til að næra sig en ekki til að verða ölvaðir.+
18 Þegar letin er mikil síga þakbjálkarnir og vegna iðjulausra handa lekur húsið.+
19 Brauð* veitir gleði og vín gerir lífið ánægjulegt+ en peningar fullnægja öllum þörfum.+
20 Bölvaðu* ekki konunginum,+ jafnvel ekki í huganum,* og bölvaðu ekki auðmanni í svefnherberginu því að fugl gæti borið óminn* með sér eða vængjað dýr haft orðin eftir.
11 Kastaðu brauði þínu út á vatnið+ því að mörgum dögum síðar muntu finna það aftur.+ 2 Gefðu sjö manns, jafnvel átta, af því sem þú átt+ því að þú veist ekki hvaða hörmungar verða á jörðinni.
3 Ef skýin eru full af vatni hella þau regni yfir jörðina og ef tré fellur til suðurs eða norðurs liggur það þar sem það féll.
4 Sá sem fylgist með vindinum sáir ekki og sá sem horfir á skýin uppsker ekki.+
5 Þú skilur ekki hvernig lífsandinn* verkar á bein barns í kviði móður sinnar*+ og eins skilurðu ekki verk hins sanna Guðs sem gerir allt.+
6 Sáðu korni þínu að morgni og láttu ekki hendur þínar hvílast fyrr en að kvöldi+ því að þú veist ekki hvað mun heppnast, þetta eða hitt. Kannski verður hvort tveggja jafn gott.
7 Ljósið er indælt og það er gott fyrir augun að sjá sólina. 8 Ef maður lifir mörg ár á hann að njóta þeirra allra.+ En hann ætti að muna að dagar myrkursins geta orðið margir. Allt sem er ókomið er tilgangslaust.+
9 Þið unglingar, njótið unglingsáranna og gleðjist á æskuárunum. Fylgið hjartanu og farið þangað sem augun leiða ykkur en munið að hinn sanni Guð leiðir ykkur fyrir dóm fyrir allt sem þið gerið.*+ 10 Losaðu hjartað við áhyggjur og líkamann við það sem er skaðlegt því að æskan og þróttur unglingsáranna varir stutt.*+
12 Mundu eftir þínum mikla skapara á unglingsárunum,+ áður en erfiðu dagarnir* koma+ og árin sem þú segir um: „Ég hef enga ánægju af þeim,“ 2 áður en sólin og ljósið, tunglið og stjörnurnar myrkvast+ og skýin snúa aftur eftir úrhellið,* 3 áður en húsverðirnir fara að skjálfa og sterku mennirnir verða hoknir, stúlkurnar hætta að mala því að þær eru orðnar fáar og konunum sem líta út um gluggann finnst vera orðið dimmt,+ 4 þegar dyrunum út að götunni hefur verið lokað, þegar hljóðið í kvörninni dofnar, þegar maður vaknar við fuglskvak og söngur allra dætranna deyr út.+ 5 Maður verður hræddur við hæðir og óttast hættur á götunni. Möndlutréð stendur í blóma,+ engispretturnar dragast áfram og kapersber hafa engin áhrif því að maðurinn gengur til síns varanlega húss+ og syrgjendurnir ganga um götuna.+ 6 Já, mundu eftir skapara þínum áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar, áður en krukkan við lindina mölvast og hjólið við brunninn gefur sig. 7 Þá snýr moldin aftur til jarðarinnar+ þar sem hún var og andinn* til hins sanna Guðs sem gaf hann.+
8 „Algerlega tilgangslaust!“* segir fræðarinn.+ „Allt er tilgangslaust.“+
9 Fræðarinn hafði ekki aðeins öðlast visku sjálfur heldur miðlaði líka öðrum af þekkingu sinni.+ Hann íhugaði málin og rannsakaði vandlega til að taka* saman fjölda orðskviða.+ 10 Fræðarinn leitaðist við að finna falleg orð+ og skrá niður sannleiksorð.
11 Orð hinna vitru eru eins og broddstafir+ og valin orð þeirra eins og fastreknir naglar. Þau koma frá einum og sama hirðinum. 12 Að öðru leyti, sonur minn, skaltu vara þig á þessu: Á bókaskrifum er enginn endir og mikið bókagrúsk er lýjandi.+
13 Eftir að hafa hlustað á allt er niðurstaðan þessi: Berðu djúpa virðingu fyrir hinum sanna Guði*+ og haltu boðorð hans+ því að það er allt og sumt sem til er ætlast af manninum.+ 14 Hinn sanni Guð dæmir öll verk mannanna, einnig þau sem eru unnin í leynum, til að úrskurða hvort þau séu góð eða ill.+
Orðrétt „þess sem safnar (kallar) saman“. Eða „prédikarans“.
Eða „Alger hégómi!“
Eða „snýr hún aftur másandi“.
Eða „gleðinnar“.
Eða „gleðina“.
Eða „trjálund“.
Orðrétt „augu mín báðu um“.
Eða „hlutdeild mín af öllu erfiði mínu“.
Eða „opin“.
Eða „mikil ógæfa“.
Orðrétt „hoppa; hlaupa um“.
Eða „skapað allt þannig að það er vel skipulagt; skapað allt hentuglega“.
Eða „leitar þess“.
Eða hugsanl. „hinn sanni Guð leitar þess sem er horfið“.
Eða „er hlutdeild“.
Eða „strit“.
Eða „hafa meira gagn af striti sínu“.
Hugsanlega er átt við vitra unglinginn.
Eða „hafa miklar áhyggjur“.
Eða „sendiboðanum“.
Eða „mikil ógæfa“.
Eða „mikil ógæfa“.
Eða „er hlutskipti“.
Eða „hlutskipti sitt“.
Eða „man“.
Eða „ógæfa“.
Eða „og fær ekki einu sinni greftrun“.
Orðrétt „fær það meiri hvíld“.
Orðrétt „ganga frammi fyrir þeim sem lifa“.
Eða „sótt mál gegn sér voldugri manni“.
Orðrétt „Nafn“.
Eða „skemmtunarinnar“.
Orðrétt „söng“.
Eða hugsanl. „er einkenni“.
Það er, þeim sem lifa.
Eða „ógæfudeginum“.
Eða „komist að því“.
Eða „tilgangslausu“.
Orðrétt „bölva þér“.
Eða „getur útskýrt mál“.
Eða „þekkir bæði tíma og dóm“.
Eða „sinn dóm“.
Eða „andardrættinum; vindinum“.
Eða hugsanl. „getur illskan ekki bjargað hinum illu“.
Eða „tilgangslaust“.
Eða hugsanl. „og veldur því að þeir sofa hvorki nótt né dag“.
Orðrétt „síðan liggur leiðin til hinna dánu“.
Það er, ekki í sorgarbúningi heldur ljósum fötum sem vitna um gleði.
Eða „tilgangslausu“.
Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Eða „óvæntir atburðir mæta“.
Orðrétt „er honum á hægri hönd“.
Orðrétt „er honum á vinstri hönd“.
Orðrétt „andi; andardráttur“.
Orðrétt „hinir ríku“.
Eða hugsanl. „þarf að fara varlega“.
Eða „Matur“.
Eða „Formæltu“.
Eða hugsanl. „í rúminu“.
Eða „boðskapinn“.
Orðrétt „andinn“.
Orðrétt „beinin í kviði þungaðrar konu“.
Eða „lætur ykkur standa reikningsskap gerða ykkar“.
Eða „er tilgangslaus“.
Eða „ógæfudagarnir“.
Eða hugsanl. „með úrhellinu“.
Eða „lífskrafturinn“.
Eða „Alger hégómi!“
Eða „raða“.
Eða „Óttastu hinn sanna Guð“.