Bréf frá móður ófædds barns
ÉG ER 37 ára, gift og á þrjú falleg börn. Fyrir sextán árum lá ég á eldhúsborði meðan tekið var líf persónu sem enginn fær nokkurn tíma að kynnast.
Þessi persóna hafði aðeins verið til í þrjá og hálfan mánuð. Ég býst við að eini vinurinn, sem hún átti, hafi verið Jehóva Guð. (Sálmur 139:13-16) Svo virtist sem enginn annar vildi að hún væri til.
Ég var háskólanemi þegar þetta gerðist fyrir 16 árum, vann úti hluta úr degi og bjó ein míns liðs í fjölmennri borg á vesturströndinni [í Bandaríkjunum]. Mig dreymdi um að „vera eitthvað“ innan um allt „fallega fólkið.“
Ég ætlaði mér mikið í framtíðinni. Barn kom ekki til greina miðað við þá lífshætti sem ég hafði valið mér. Barnsfaðirinn stakk upp á fóstureyðingu og hvorugt okkar talaði um neina aðra kosti. Ég neitaði að hugsa um hvað við værum að gera — að taka líf lítillar mannveru. Ekki hvarflaði að mér að hugleiða hvaða augum Guð liti þetta. — 2. Mósebók 21:22, 23; Rómverjabréfið 14:12.
Að sjálfsögðu voru fóstureyðingar ekki „lögleyfðar“ á þeim tíma, en barnsfaðir minn frétti af einhverjum lækni sem fékkst við fóstureyðingar í hjáverkum.
Þess vegna var ég stödd í íbúð vinar míns til að láta þennan mann fjarlæga þessi „óþægindi“ sem höfðu komist inn í líf mitt. Ég neitaði að horfast í augu við raunveruleikann og réði því í huga mér ágætlega við ástandið. Líkamlega farnaðist mér ekki eins vel. Það endaði með innvortis sýkingu sem á þrem dögum olli slíkum sótthita að ég var með óráði. Eftir að hafa leitað alvöru læknishjálpar náði ég mér að fullu.
Það hélt ég að minnsta kosti. Hver veit hvaða áhrif það hafði á persónuleika minn að ég skyldi herða hjarta mitt nógu mikið til að fremja þennan hræðilega glæp?
Ég hef ekki sagt eiginmanni mínum frá þessu óhugnanlega atviki fortíðarinnar. (Ég hitti hann ekki fyrr en mörgum árum síðar.) Ég veit ekki hvort það þjónaði nokkrum tilgangi að segja honum frá því núna. Þegar ég kynntist sannleikanum (fyrir meira en tíu árum) leitaði ég fyrirgefningar Jehóva fyrir allar þær syndir sem ég hafði framið, þeirra á meðal að hafa tekið líf hins ófædda barns sem ég bar undir belti. Ég treysti að hann hafi látið miskunn sína vegna fórnar Jesú breiða yfir syndir mínar. Það hreinsaði líf mitt að fara eftir því sem ég lærði frá orði hans, Biblíunni, og ég frem því ekki alvarlegar syndir framar. En kannski get ég aldrei fyrirgefið sjálfri mér. — 1. Jóhannesarbréf 1:7.
Ef ég hefði drepið barnið mitt þegar það var nokkurra mánaða, 6 ára eða tvítugt hefði það að minnsta kosti átt von um upprisu í nýrri skipan Guðs. (Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 20:12, 13) En þetta barn fæddist aldrei, dró aldrei sinn fyrsta andardrátt. Ég stal þessu lífi og sérhverjum möguleika á að það yrði endurvakið. Ekkert fær snúið við því sem ég gerði.
Því eldri sem ég verð, þeim mun oftar sækir þessi minning á mig. Öll þessi ár leyfði ég mér aldrei að hugsa um þetta. Þegar minningin kom upp í huga mér leyfði ég mér einfaldlega ekki að hugsa áfram um hana. Ég „breytti um umræðuefni“ í huga mér þegar í stað. Nú get ég ekki gert það lengur. Það er mikil kvöl að hafa sífellt þessa sektarkennd. Þetta barn fékk aldrei tækifæri til að verða elskað. Kannski getur eitthvert barn einhvers staðar fengið þetta tækifæri.
Þess vegna skrifa ég allt þetta sem ég hef byrgt hið innra með mér svo árum skiptir. Ef einhver, sem er að íhuga fóstureyðingu, skyldi lesa þetta bréf skiptir hún kannski um skoðun og leyfir að þetta líf haldi áfram. Láttu barnið fá tækifæri til að lifa og vera elskað. Þúsundir manna eru reiðubúnar að elska og ættleiða barn. Auk þess munt þú ekki síðar þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að þú hafir myrt þitt eigið barn, þegar það loksins slær hjarta þitt og samvisku. Þú finnur kannski ekki til sektarkenndar núna, en hún kemur einhvern tíma. Og hún hverfur aldrei! — Jesaja 1:18; 55:6, 7.
Með djúpri eftirsjá,
Móðir ófædda barnsins