Hinar stóru spurningar lífsins
Hvers vegna erum við hér? Hvert förum við? Hefur líf okkar einhvern tilgang? Hvernig urðum við til?
JÖRÐIN iðar af lífi. Allt frá dýpstu álum hafsins upp á hæstu fjallstinda er líf að finna. Allt frá sífrera heimskautanna til heitra og rakra hitabeltisskóganna úir og grúir af lifandi verum. Ekki má milli sjá hvort er fjölbreyttara líf í hafinu eða á mörkinni. Til eru lífverur sem lifa af í vatni hundruðum gráða yfir suðumarki og í næstum hundrað stiga frosti. Lífverur þrífast í þunnu andrúmsloftinu í margra kílómetra hæð yfir jörð og í hinum 11 kílómetra djúpa Maríanál í Kyrrahafi þar sem flatfiskur syndir undir þrýstingi sem nemur tæpu tonni á fersentimetra.
Lífið er að finna í öllum stærðum, allt frá ósýnilegum gerlum upp í steypireiður sem er 30 metra löng og vegur 130 tonn — aðeins tunga hvalsins vegur á við heilan fíl! En það sem gerlana skortir í stærð vinna þeir upp í fjölda. Í einni teskeið af frjórri gróðurmold geta verið fimm milljarðar gerla. Það eru gerlar í milljarðatali í meltingarvegi termíta, nautgripa og sauðfjár sem gera að verkum að þessar lífverur geta melt trénið í grasi og tré.
Ætlað er að fleiri örverur lifi í og á einum manni en sem nemur tölu jarðarbúa. „Heildarmassi örvera á jörðinni hefur nýlega verið áætlaður ríflega tuttugu sinnum meiri en massi allra dýra jarðarinnar,“ segir vísindamaður. Já, slíkur er fjöldi lífvera á jörðinni að tölu verður ekki á komið.
En hvorki gerlarnir, hvalirnir né hinir óteljandi milljarðar lífvera þar á milli spyrja hinna stóru spurninga lífsins: Hvers vegna erum við hérna? Hvert förum við? Hefur líf okkar tilgang? Hvernig urðum við til?
Þó er ein sköpunarvera sem krefst svara við þessum spurningum — maðurinn. Í aldanna rás hefur hann spurt þeirra aftur og aftur: Hvers vegna? Vegna þess að maðurinn er ólíkur öðrum lífverum. Þarfir hans eru frábrugðnar og hyldjúp gjá skilur á milli hans og annarra lífvera jarðarinnar. Sú staðreynd að maðurinn einn spyr spurninga ber vitni um það. Peter Medawar segir í bók sinni The Limits of Science að vísindin hafi sín takmörk og það sjáist greinilega „á vanhæfni þeirra til að svara barnslegum grundvallarspurningum varðandi hið fyrsta og síðasta — spurningum svo sem: ‚Hvert var upphaf alls?‘ ‚Til hvers erum við hérna?‘ ‚Hver er tilgangurinn með lífinu?‘“
Þessar stóru spurningar brjótast fram aftur og aftur og láta ekki þagga sig niður. Okkur hungrar í svör. Það er okkur meðfætt. Vísindin reyna að veita þau, en hafa þau fundið svarið við fyrstu spurningu Peters Medawars: Hvert var upphaf alls?