Spurningar sem áhugasamt fólk ber gjarnan fram
Ef Guð er kærleikur hvers vegna leyfir hann þá illskuna?
GUÐ leyfir vissulega illsku og milljónir jarðarbúa gera það sem illt er og oft af ásettu ráði. Þeir fara með stríð á hendur öðrum, varpa sprengjum á börn, skilja eftir sig sviðna jörð og valda hungursneyðum, svo dæmi séu tekin. Milljónir manna reykja og fá lungnakrabba, halda fram hjá maka sínum og fá kynsjúkdóma, neyta áfengis í óhófi og fá skorpulifur og svo mætti áfram telja. Slíkir menn vilja ekki í einlægni að öll illska sé stöðvuð. Þeir vilja einungis sleppa við hegninguna sem fylgir henni. Þeir uppskera eins og þeir sá en hrópa þá upp fyrir sig: ,Af hverju ég?‘ Þeir ásaka Guð eins og Orðskviðirnir 19:3 segja: „Flónska mannsins steypir fyrirtækjum hans, en hjarta hans illskast við Drottin.“ En ef Guð stöðvaði illskuverk þeirra myndu þeir mótmæla því að vera sviptir frelsi til slíkra verka.
Jehóva leyfir illsku og böl fyrst og fremst til að svara ögrun Satans. Satan djöfullinn sagði að Guð gæti ekki haft menn á jörðinni sem væru skapara sínum trúir í raunum. (Jobsbók 1:6-12; 2:1-10) Til þess að gefa þessum rógbera nægilegt tækifæri til að sanna ögrandi fullyrðingar sínar hefur Jehóva leyft honum að halda lífi. (2. Mósebók 9:16) Satan reynir að sanna sitt mál og heldur enn áfram að leiða ógæfu yfir mennina og snúa þeim gegn Guði. (Opinberunarbókin 12:12) En maðurinn Job hélt fast við ráðvendni sína. Jesús gerði það líka. Sama gildir um sannkristna menn núna. — Jobsbók 27:5; 31:6; Matteus 4:1-11; 1. Pétursbréf 1:6, 7.
Ég vildi gjarnan geta trúað á jarðneska paradís þar sem fólk lifir að eilífu, en er það ekki of gott til að geta orðið að veruleika?
Ekki að sögn Biblíunnar. Fyrirheitið um paradís virðist vera of gott til að geta ræst einfaldlega vegna þess að mannkynið hefur öldum saman búið við illt ástand. Jehóva skapaði jörðina og bauð mannfólkinu að fylla hana réttlátum körlum og konum sem önnuðust jurtirnar og dýrin og varðveittu fegurð hennar í stað þess að eyðileggja hana. (Sjá blaðsíðu 12 og 17.) Hin fyrirheitna paradís er ekki of dásamleg til að geta orðið að veruleika heldur er hið sorglega ástand nú á tímum of ömurlegt til að fá að halda áfram. Það mun hverfa en paradís koma í þess stað.
Hvernig get ég svarað fólki sem gerir gys að Biblíunni og segir að hún sé goðsögn og óvísindaleg?
Það þarf ekki trúgirni til að trúa á þessi fyrirheit. ,Trúin kemur af boðuninni,‘ segir Biblían. Ef menn kynna sér vandlega orð Guðs opnast augu þeirra fyrir viskunni í því og trú þeirra eflist. — Rómverjabréfið 10:17; Hebreabréfið 11:1.
Fornleifafundir í biblíulöndunum hafa að stórum hluta staðfest sögulega nákvæmni Biblíunnar. Vísindin eru samhljóða henni. Eftirfarandi staðreyndir mátti ráða af Biblíunni löngu áður en vísindamenn uppgötvuðu þær: Jörðin gekk í gegnum nokkur stig og í ákveðinni röð þegar hún var að taka á sig núverandi mynd. Jörðin er hnöttótt og svífur í lausu lofti. Sumir fuglar eru farfuglar. — 1. Mósebók, kafli 1; Jesaja 40:22; Jobsbók 26:7; Jeremía 8:7.
Spádómar, sem hafa ræst, sýna að Biblían er innblásin. Daníel spáði að heimsveldi kæmu fram og liðu undir lok, svo og hvenær Messías kæmi og yrði tekinn af lífi. (Daníel, kafli 2, 8; 9:2427) Á okkar dögum eru enn aðrir spádómar að uppfyllast og gefa þeir til kynna að við lifum núna á „síðustu dögum“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus, kafli 24) Það er ekki á færi manna að vita þannig fyrir fram um óorðna atburði. (Jesaja 41:23) Nánari upplýsingar um þetta má finna í bæklingnum Bók fyrir alla menn og bókinni Er til skapari sem er annt um okkur?, gefin út af Vottum Jehóva.
Hvernig get ég lært að finna svör í Biblíunni?
Þú verður að rannsaka Biblíuna og hugleiða orð hennar en biðja jafnframt um anda Guðs þér til leiðsagnar. (Orðskviðirnir 15:28; Lúkas 11:9-13) „Ef einhvern yðar brestur visku,“ segir Biblían, „þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ (Jakobsbréfið 1:5) Auk þess eru til biblíunámsrit sem vert er að nýta sér. Menn þurfa yfirleitt hjálp frá öðrum eins og Eþíópíumaðurinn sem Filippus leiðbeindi. (Postulasagan 8:26-35) Vottar Jehóva bjóða áhugasömu fólki ókeypis biblíunámskeið. Hikaðu ekki við að biðja um þá þjónustu.
Hvers vegna eru margir andvígir vottum Jehóva og segja mér að þiggja ekki biblíufræðslu hjá þeim?
Prédikun Jesú mætti andstöðu og hann sagði að fylgjendum sínum yrði líka andmælt. Sumum þótti mikið til kennslu Jesú koma en þá sögðu trúarlegir andstæðingar hans hvössum rómi: „Létuð þér þá einnig leiðast afvega? Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?“ (Jóhannes 7:46-48; 15:20) Margir sem ráðleggja þér að þiggja ekki hjálp vottanna við biblíunám þekkja annaðhvort lítið til þeirra eða hafa fordóma gegn þeim. Þiggðu aðstoð vottanna og sjáðu hvort biblíuskilningur þinn eykst ekki við það. — Matteus 7:17-20.
Af hverju fara vottar Jehóva til manna sem hafa sína eigin trú?
Á þann hátt fylgja þeir fordæmi Jesú. Hann fór til Gyðinga. Gyðingar höfðu sína eigin trú en á ýmsa vegu var hún ekki lengur byggð á orði Guðs. (Matteus 15:1-9) Hjá öllum þjóðum er að finna einhvers konar trú, hvort sem þær kallast kristnar eða ekki. Það er mjög mikilvægt að menn hafi trú sem samræmist orði Guðs. Viðleitni vottanna til að hjálpa mönnum að gera það ber því vitni um náungakærleika.
Trúa vottar Jehóva því að þeirra trú sé sú eina rétta?
Hver sá sem tekur trú sína alvarlega ætti að álíta að hún sé sú rétta. Hvers vegna skyldi hann að öðrum kosti aðhyllast hana? Kristnir menn eru hvattir til að ,prófa allt og halda því sem gott er‘. (1. Þessaloníkubréf 5:21) Menn skyldu prófa trúarskoðanir sínar til að fullvissa sig um að Ritningin styðji þær, vegna þess að til er aðeins ein sönn trú. Efesusbréfið 4:5 staðfestir það með orðunum: „Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn.“ Jesús hafði ekki það viðhorf, sem fjöldi nútímamanna aðhyllist, að til séu margir vegir, mörg trúarbrögð, sem leiði hver og einn til hjálpræðis. Þess í stað sagði hann: „Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ Vottar Jehóva telja sig hafa fundið hann. Ef svo væri ekki leituðu þeir að annarri trú. — Matteus 7:14.
Trúa þeir því að þeir séu þeir einu sem frelsast?
Nei. Milljónir manna fyrr á öldum, sem voru ekki vottar Jehóva, verða reistir upp frá dauðum og gefst þá kostur á eilífu lífi. Margir núlifandi menn geta enn átt eftir að taka afstöðu með sannleikanum og réttlætinu áður en hin „mikla þrenging“ kemur, og þeir öðlast hjálpræði. Auk þess sagði Jesús að við ættum ekki að dæma hver annan. Við lítum á ytra útlit en Guð lítur á hjartað. Sjón hans er skörp og dómar hans miskunnsamir. Hann hefur lagt dómsvaldið í hendur Jesú, ekki okkar. — Matteus 7:1-5; 24:21; 25:31.
Hvaða fjárframlaga er vænst af þeim sem sækja samkomur Votta Jehóva?
Páll postuli sagði um fjárframlög: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Það fer aldrei fram nokkur fjársöfnun í ríkissölum Votta Jehóva eða á mótsstöðum þeirra. Baukar eru staðsettir þannig að þægilegt sé fyrir þá sem vilja leggja eitthvað af mörkum að gera það. Enginn veit hvað eða hvort aðrir gefa. Sumir geta gefið meira en aðrir og sumir geta kannski ekkert gefið. Hið rétta viðhorf kom fram hjá Jesú þegar hann fór nokkrum orðum um fjárhirsluna í musterinu í Jerúsalem og þá sem lögðu í hana. Það er ekki fjárupphæðin sem skiptir máli heldur löngun manna til að gefa og andinn sem býr þar að baki. — Lúkas 21:1-4.
Ef ég gerist vottur Jehóva er þá til þess ætlast að ég prédiki eins og þeir gera?
Þegar menn hafa öðlast góða þekkingu á fyrirheitinu um paradís hér á jörð undir stjórn Krists, langar þá til að deila henni með öðrum. Það sama mun gilda um þig. Þetta er fagnaðarerindi, gleðilegar fréttir. — Postulasagan 5:41, 42.
Að færa öðrum þessi gleðitíðindi er mikilvæg leið til að sýna að þú sért lærisveinn Jesú Krists. Jesús er í Biblíunni kallaður „votturinn trúi og sanni“. Á jörðinni prédikaði hann að ,himnaríki væri í nánd‘ og hann sendi lærisveina sína út til að gera það sama. (Opinberunarbókin 3:14; Matteus 4:17; 10:7) Seinna gaf Jesús lærisveinum sínum þessi fyrirmæli: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . kennið þeim.“ Hann spáði því líka að áður en endirinn kæmi ,yrði þetta fagnaðarerindi um ríkið prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar‘. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
Það er hægt að kunngera þetta fagnaðarerindi á margan hátt. Samræður við vini og kunningja opna oft leiðina til þess. Sumir gera það með bréfaskriftum eða nota símann. Aðrir senda kunningja sínum rit í pósti með efni sem þeir telja að hann hafi sérstakan áhuga á. Vottar Jehóva þrá að ná til allra með boðskapinn og bera hann þess vegna til manna hús úr húsi.
Í Biblíunni er þetta hlýlega boð að finna: „Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ,Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Þeir sem segja öðrum frá paradís á jörð og blessun hennar eiga að gera það fúslega, af einlægu hjarta og huga sem þráir heitt að aðrir fái líka að heyra þennan fagnaðarboðskap.
Við teljum víst að þú sért með fleiri spurningar um votta Jehóva og trúarskoðanir þeirra. Sum málefnin eru ef til vill þess eðlis að menn eru ekki á eitt sáttir um þau. Við viljum gjarnan svara spurningum þínum en það er takmarkað rými í þessum bæklingi. Við hvetjum þig því að spyrja vottana í heimabyggð þinni. Þú getur gert það annaðhvort þegar þú sækir samkomur í ríkissal þeirra eða þegar þeir heimsækja þig. Ef það hentar þér betur getur þú sent bréf með spurningum þínum til deildarskrifstofu Votta Jehóva og notað viðeigandi póstfang á listanum hér að neðan.