SAGA 3
Adam og Eva voru óhlýðin Guði
Dag einn þegar Eva var ein talaði slanga við hana. Slangan spurði: ‚Sagði Guð í alvöru að þið mættuð ekki borða af öllum trjánum?‘ Eva svaraði: ‚Við megum borða af öllum trjánum nema einu. Ef við borðum ávöxt af því tré deyjum við.‘ Slangan sagði: ‚Þið munuð ekki deyja. Reyndar verðið þið eins og Guð ef þið borðið af því.‘ Var það rétt? Nei, þetta var lygi. En Eva trúði þessu. Eftir því sem hún horfði meira á ávöxtinn langaði hana meira til að borða hann. Hún borðaði ávöxtinn og gaf Adam með sér. Hann vissi að þau myndu deyja ef þau óhlýðnuðust Guði. En hann borðaði samt ávöxtinn.
Seinna þennan dag talaði Jehóva við Adam og Evu. Hann spurði þau af hverju þau hefðu verið óhlýðin. Eva kenndi slöngunni um og Adam kenndi Evu um. Jehóva rak Adam og Evu út úr garðinum af því að þau höfðu verið óhlýðin. Hann setti engla og logandi sverð við innganginn svo að þau myndu aldrei komast aftur inn.
Jehóva sagði að hann myndi líka refsa þeim sem laug að Evu. Það var í rauninni ekki slangan sem talaði við Evu. Jehóva skapaði ekki talandi slöngur. Það var vondur engill sem lét slönguna tala. Hann gerði það til að plata Evu. Þessi engill er kallaður Satan Djöfullinn. Seinna ætlar Jehóva að eyða Satan svo að hann geti ekki haldið áfram að plata fólk til að gera það sem er slæmt.
„Djöfullinn ... var morðingi frá upphafi og var ekki staðfastur í sannleikanum því að sannleikurinn býr ekki í honum.“ – Jóhannes 8:44, neðanmáls.