Guðfræðingur fjallar um þrenningarkenninguna
Í kveri því, er íslenska þjóðkirkjan notaði sem kennslubók við fermingarundirbúning fyrr á öldinni, segir meðal annars: „Guðs orð kennir oss að hinn eini sanni guð sje faðir, sonur og heilagur andi. Vjer segjum því að guð sje bæði einn og þrennur eða þríeinn, og nefnum þrjár persónur guðdómsins, en köllum þær til samans heilaga þrenning (§ 25). Sonurinn er jafn föðurnum og heilagur andi jafn föður og syni; en á hvern hátt þeir eru undir eins einn og þrír fáum vjer eigi skilið í þessu lífi.“ (§ 26).
Ásgeir Ásgeirsson, fyrrum forseti Íslands sem var guðfræðingur að mennt, gerði árið 1925 harða hríð að þessari þrenningarkennslu í bók sinni Kver og kirkja. Eftir að hafa vitnað í orðin hér að ofan segir hann: „Þó leitað sje með logandi ljósi í allri biblíunni, þá er þar hvergi sagt, að hinn eini sanni guð sé faðir, sonur og heilagur andi. Faðir, sonur og andi eru að vísu nefndir í sömu andránni, en það stendur hvergi, að þessir þrír séu ‚einn sannur guð‘, og ber kverið þó ‚guðs orð‘ fyrir þeirri kenningu. Í biblíunni er hvergi sagt að sonurinn sé jafn föðurnum. Þar er aftur á móti sagt frá því að Jesús hafi í bæn til guðs mælt þessi orð: ‚Þó ekki sem jeg vil, heldur sem þú vilt‘. Og þegar Jesús er ávarpaður með orðunum: góði meistari, segir hann: ‚Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður, nema einn, það er guð‘. Í biblíunni kemur hvergi fyrir orðið ‚þríeinn,‘ ‚þrenning‘ er ekki nefnd á nafn og hvergi nokkursstaðar getið um þrjár persónur guðdómsins. Það þarf ekki fleira að telja til að sýna, að þrenningarlærdómurinn á ekki rót sína að rekja til biblíunnar, og segir þó kverið, að ‚guðs orð‘ kenni hann.
Þrenningarlærdómurinn er yngri en nýja testamentið. Hans verður ekki vart fyr en löngu eftir Kristsburð. Á hinu fyrsta almenna kirkjuþingi sem haldið var í Nikea árið 325 e. Kr., var samþykt sú kenning, að Kristur væri ‚getinn af föðurnum frá eilífð og sama eðlis og faðirinn‘. Vakti fundarsamþyktin miklar deilur, sem lauk þannig, að annað alþjóða kirkjuþing var haldið í Konstantínópel árið 381, og var þar staðfest samþykt Nikeaþingsins, að viðbættri kenningunni um guðdóm heilags anda. Þá var fullmyndaður lærdómurinn um þrenninguna. Hann er ekki bygður á biblíunni, og ekki heldur upp kominn í frumkristninni, heldur myndast hann á þeim öldum, þegar kristileg trúfræði og heiðingleg heimspeki er mjög farið að renna saman. Fyrstu aldirnar þótti hann fullgóð trúspeki, en þegar frá leið, og sú heimspeki, sem hann studdist við, féll í valinn, varð hann æ torskildari. Upp frá því hefir saga hans verið fólgin í sífeldum tilraunum til að skýra hann og skilja, en misjafnlega tekist. Hafa skýringarnar sveiflast á milli ákveðinnar eingyðistrúar og augljósrar þrígyðistrúar. Múhameðstrúarmenn hafa löngum haft það fyrir satt, að kristnir menn tryðu á þrjá guði, og ekki getað skilið þennan lærdóm á annan veg. En sumir hafa gefist upp við skýringarnar og haldið því fram, að vjer fáum eigi skilið lærdóminn í þessu lífi. Þann kost tekur kverið. Jeg hygg, að það megi hiklaust bæta því við, að mjög vonlítið sé að vér fáum skilið hann í öðru lífi heldur.“