Er Biblían trúverðug?
„Það má fullyrða með öruggri vissu að hver sá sem segist ekki trúa þróunarkenningunni sé fáfróður, heimskur eða geðveikur.“ Hvað finnst þér um þessi orð líffræðingsins Richards Dawkins? Ef þú trúir Biblíunni trúir þú sjálfsagt sköpunarsögunni en ekki þróunarkenningunni. Ber þá að álykta að þú sért fáfróður, heimskur eða geðveikur fyrst þú trúir Biblíunni?
Íhugaðu einnig þessa fullyrðingu: „Sérfræðingar í Nýjatestamentisfræðum hafa sýnt fram á með óyggjandi rökum að sá Jesús, sem lýst er í elstu ritum kristinna manna, sé að einhverju marki hugarfóstur þeirra.“ Þessi orð birtust í tímaritinu The Weekend Australian og voru höfð eftir dr. Robert W. Funk sem er prófessor í guðfræði og hefur samið fjölmargar bækur um trúarlega túlkun.
Dr. Funk var hvatamaður verkefnis sem kallað var Jesú-málstofan. Það fólst í því að saman kom hópur yfir hundrað biblíufræðimanna sem skoðuðu saman gagnrýnu auga orð Jesú er Biblían greinir frá. Meðal annars komust þeir að þeirri niðurstöðu að fyrirmyndarbænin eða Faðirvorið væri ekki samin af Jesú; að Jesús hafi ekki sagt að hinir hógværu skyldu erfa jörðina eða að friðflytjendur yrðu kallaðir börn Guðs, og að hann hafi ekki sagt: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun . . . aldrei að eilífu deyja.“ — Jóhannes 11:25, 26; Matteus 5:5, 9; 6:9, 10.
Jafnvel þótt þér kunni að hnykkja við að heyra slíkt af munni lærðra manna í trúfræðum eru þetta engan veginn óvenjulegar yfirlýsingar. Slíkar niðurstöður eru afleiðing hinnar æðri biblíugagnrýni nútímans og hafa verið kenndar í prestaskólum um tíma. Við höfum vanist því smám saman að heyra náttúruvísindamenn andmæla Biblíunni. En þegar forystumenn á vettvangi trúmálanna taka að véfengja trúverðugleika Biblíunnar finnst mörgum ef til vill kominn tími til að endurskoða afstöðu sína. Er skynsamlegt að trúa Biblíunni þegar á það er litið hve margir menntamenn á sviði trúfræða eru greinilega hættir því?