Síðustu Dauðahafshandritin birt
Í SEPTEMBER síðastliðnum var loksins leystur hnútur á vettvangi fræðimála sem verið hafði óleystur um áratuga skeið. Hatrömm deila milli fræðimanna um Dauðahafshandritin virtist á enda, þótt ný deila hafi kannski farið af stað.
Dauðahafshandritin fundust í hellum nálægt Dauðahafinu árið 1947 og á árunum eftir það. Þau voru mikils virði til að sýna fram á textanákvæmni Hebresku ritninganna og varpa ljósi á trúarlegar aðstæður í Palestínu á þeim tíma þegar Jesús var á jörðinni. (Jesaja 40:8) Sum handritanna voru birt þokkalega fljótt en þó voru næstum 400 handrit enn óbirt árið 1991 og fæstir fræðimenn höfðu aðgang að þeim. Mörgum var eins innanbrjósts og prófessor Ben Zion Wacholder sem var „gramt í geði vegna þess að miðað við núverandi birtingarhraða verðum við allir dauðir þegar meginhluti Dauðahafstextanna verður heiminum aðgengilegur.“
Þetta breyttist í september síðastliðnum. Fyrst tilkynntu prófessor Wacholder og samstarfsmaður hans, Martin Abegg, að þeir hefðu á hugvitsamlegan hátt notað tölvu til að gera eftirmyndir af hinum vandlega varðveittu textum. Þá tilkynnti Huntington-bókasafnið í San Marino í Kaliforníu að það hefði undir höndum ljósmyndir af hinum upprunalegu handritum og virtir fræðimenn skyldu hafa ótakmarkaðan aðgang að þeim. Ljóst er að tekinn hafði verið fjöldi ljósmynda af handritunum til að tryggja varðveislu þeirra. Myndasamstæður höfðu verið geymdar á ýmsum stöðum og loks endað í Huntingtonsafninu.
Einn fræðimaður kallaði þessi umskipti ‚jafngilda hruni Berlínarmúrsins á sviði fræðimennsku.‘ Hinir opinberu útgáfustjórar kölluðu bæði birtingu hins tölvugerða texta og ljósmyndanna ‚þjófnað.‘ Líklegt er að deilurnar um siðferði þessarar birtingar eigi eftir að geisa svo árum skiptir. Hvað sem þeim líður er ekki annað að sjá en að margir fleiri fræðimenn eigi þess nú loksins kost að rannsaka Dauðahafshandritin í heild sinni.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Mynd af skýringariti við Habakkuk sem er eitt af Dauðahafshandritunum.