Af hverju að sýna trúmálum áhuga?
Í ÖLLUM löndum jarðar má finna trúaráhuga. Hins vegar segja einnig margir í fullri hreinskilni að þeir hafi engan áhuga á trú. En hafa þeir alltaf hugsað þannig?
Hið mannlega eðli gerir það að verkum að menn eru í rauninni ekki ánægðir með efnislega hluti eingöngu. Menn þurfa andlegan þátt í tilveru sína. Daglegt líf, sem byggist á því að afla sér einungis líkamlegra nauðsynja og tíma fyrir afþreyingu endrum og eins, fullnægir ekki að öllu leyti innstu þörfum manna. Ólíkt dýrum vilja menn vita hver sé tilgangur lífsins og hvort þetta stutta líf, sem býður upp á margt fallegt en einnig margt ljótt, sé allt og sumt. Hefur þú ekki velt slíkum spurningum fyrir þér?
En milljónir núlifandi manna hafa samt alist upp í umhverfi sem gerðu menn afhuga trúmálum. Þessi áhrif kunna að hafa komið frá foreldrum þeirra, kennurum, jafnöldrum eða jafnvel frá ríkisstjórninni.
Skalabrino, ungur maður frá Albaníu, sagði að undir stjórn kommúnista hafi fólkinu verið kennt að enginn Guð væri til. Þar að auki var hættulegt fyrir menn að tala um trú; það gat kostað þá fangelsisvist. Þó fékk hann tækifæri árið 1991 til að nema Biblíuna þegar hann dvaldist í Sviss sem flóttamaður. Hann greip tækifærið. Hvers vegna?
Í Albaníu hafði hann heyrt að til væri slík bók sem Biblían en hann vissi í rauninni ekkert um hana. Það var því kannski ekki fyrst og fremst löngun til að skilja Biblíuna sem upphaflega kveikti áhugann hjá honum. Þó að honum væri sagt að hann myndi læra um tilgang Guðs með mannkynið og jörðina, leit hann einnig á þetta sem tækifæri til að bæta kunnáttu sína í heimamálinu. Þó fann hann fljótt að það sem hann var að læra fullnægði djúpstæðri andlegri þrá hjá honum. Honum hlýnaði um hjartaræturnar við að heyra um loforð Guðs um nýjan heim þar sem friður myndi ríkja, um heim þar sem fólk gæti lifað að eilífu og haft allsnægtir. Áhugi hans jókst við að heyra að hann og fjölskylda hans gætu átt hlutdeild í þessum nýja heimi. Hann gat ómögulega þagað yfir þessum fagnaðartíðindum og hringdi því í fjölskyldu sína í Albaníu til að segja henni frá þessu.
Aleksei, sem býr í Rússlandi, furðaði sig einnig á hve mikil áhrif nákvæm þekking á Biblíunni gat haft á líf fólks. Vandamálin í lífi hans voru yfirþyrmandi og þar sem hann var ófær um að finna fullnægjandi útskýringar á tilgangi lífsins hugðist hann fremja sjálfsmorð. Hann fór þó fyrst til Finnlands að heimsækja vin. Á leiðinni í lestinni talaði hann um vandamál sín við suma af farþegunum. Einn af þeim var vottur Jehóva sem hvatti hann til að nema Biblíuna vegna þess að hún hefði lausn á slíkum vandamálum. Hann hafði ekki mikla trú á því. Á leiðinni til baka gerðist svipað atvik. Í þetta skiptið var það annar vottur, kona, sem lét álit sitt í ljós og sagðist hafa haft sams konar vandamál en Biblían hefði hjálpað sér að yfirstíga þau. Hún hvatti hann einnig til að nema Biblíuna. Þegar hann kom heim hringdi síminn. Það var vinkona sem var að nema með vottunum og var mjög ánægð. Það fór að renna upp fyrir manninum að kannski gæti Biblían veitt honum það sem hann þurfti en hann vissi að án hjálpar gæti hann ekki skilið hana. Hann féllst á að hafa reglulegt heimabiblíunám með vottum Jehóva og byrjaði að sækja samkomur hjá þeim. Það tók hann ekki langan tíma að skilja hvers vegna þeir sem móta líf sitt eftir því sem Biblían kennir eru svona hamingjusamir, jafnvel þótt þeir þurfi líka að takast á við þau vandamál sem eru algeng meðal manna.
Jesús Kristur sýndi næman skilning á mannlegu eðli þegar hann sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ (Matteus 4:4) Hann sagði einnig: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína.“ Matteus 5:3 NW) Hamingja þeirra stafar af því að þeir finna sterklega fyrir þörf sinni, gera viðeigandi ráðstafanir til að fullnægja henni og finna fyrir blessun Guðs. En andlegri þörf okkar er ekki fullnægt einfaldlega með því að ganga í trúarsöfnuð eða sækja einhverjar guðsþjónustur. Trú, sem er að mestu leyti byggð á helgiathöfnum, er kannski tilfinningalega aðlaðandi, en veitir hún raunhæfar lausnir á vandamálum lífsins? Jafnvel þótt trú hvetji til vissra grundvallarlífsreglna sem eru góðar og gildar, fullnægir hún þá andlegri þörf þinni ef henni mistekst að veita sannan skilning á hinum raunverulega tilgangi lífsins? Og það sem skiptir enn meira máli, munt þú eignast gott samband við Guð með því að iðka slíka trú? Án þessa mun þig skorta sanna lífsfyllingu.
Því eru margir að leita einhvers sem þeir enn ekki hafa fundið.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Fullnægir það andlegri þörf þinni að tilheyra einhverri kirkju?
[Mynd á blaðsíðu 4]
Margir hafa komist að raun um að lífið öðlast nýtt gildi þegar þeir skilja Biblíuna.