Spurningar frá lesendum
Núna á tímum efnahagsörðugleika grípa æ fleiri einstaklingar og fyrirtæki til þess ráðs að lýsa sig gjaldþrota. Er það biblíulega tilhlýðilegt fyrir kristinn mann að óska eftir að vera tekinn til gjaldþrotaskipta?
Svarið við þessari spurningu er afbragðsdæmi um hvernig orð Guðs veitir okkur hagnýta leiðsögn í málum sem ef til vill hafa komið upp fyrst nú á tímum. Mörg lönd hafa löggjöf um gjaldþrot. Lögin eru breytileg frá einu landi til annars og það er ekki kristna safnaðarins að bjóða fram lögfræðilega ráðgjöf um þetta mál. En við skulum fá svolítið yfirlit yfir hvað lögin um gjaldþrot fela í sér.
Ein ástæða þess að stjórnvöld heimila einstaklingum og fyrirtækjum að lýsa yfir gjaldþroti er sú að það veitir þeim sem lána út fé eða veita greiðslufrest (skuldareigendum) vissa vernd gegn mönnum eða fyrirtækjum sem taka fé að láni eða stofna til skulda (skuldurum) en greiða ekki skuldir sínar. Það kann að virðast eina úrræðið fyrir skuldareigendurna að fara þess á leit við dómstóla að skuldarinn sé lýstur gjaldþrota til þess að síðan sé hægt að skipta eignum hans sem greiðslu upp í skuldina.
Gjaldþrot getur einnig verkað sem öryggisnet fyrir skuldara sem geta ekki með sanni gert upp við skuldareigendur sína. Skuldaranum kann að vera heimilt að óska eftir gjaldþrotaskiptum og að svo búnu geta skuldareigendur hans hirt eitthvað af eignum hans. Lögin kunna þó að heimila honum að halda eftir íbúðarhúsnæði sínu eða vissum lágmarkseignum og vera síðan laus við áframhaldandi hótanir um eignamissi eða aðför af hendi fyrrverandi skuldareigenda sinna.
Það er því augljóst að þessum lögum er ætlað að veita báðum aðilunum að viðskiptum vissa vernd. Við skulum þó taka eftir hvaða gagnlegar ráðleggingar Biblían hefur fram að færa.
Það væri erfitt fyrir mann að lesa Biblíuna spjaldanna á milli án þess að skynja að hún hvetur menn ekki til að stofna til skulda. Við rekumst á viðvaranir eins og þessa í Orðskviðunum 22:7: „Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans.“
Minnstu líka dæmisögu Jesú í Matteusi 18:23-34 þar sem kom við sögu þjónn sem skuldaði mjög mikið. „Bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti,“ en konungurinn, húsbóndi hans, vægði honum og sýndi miskunn. Þegar þjónninn síðar reyndist miskunnarlaus „afhenti [konungurinn] hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.“ Greinilega er besta stefnan sú að forðast að taka fé að láni, og með henni er mælt.
Þjónar Guðs í Ísrael til forna áttu í viðskiptum og stundum fengu menn peninga að láni eða lánuðu öðrum. Hvaða leiðbeiningar fengu þeir frá Jehóva? Ef einhver vildi taka fé að láni til að hefja rekstur eða auka hann var löglegt og eðlilegt fyrir Hebrea að taka vexti. Guð hvatti fólk sitt hins vegar til að vera ósíngjarnt þegar lánað var til þurfandi Ísraelsmanns; menn skyldu ekki hagnast á bágindum lánþegans með því að taka vexti. (2. Mósebók 22:25) Fimmta Mósebók 15:7, 8 segir: „Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum . . . skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.“
Sams konar gæska og tillitssemi endurspeglaðist í þeim ákvæðum sem sögðu að skuldareigendur skyldu ekki hirða lífsnauðsynjar af skuldara, eins og kvarnarstein fjölskyldunnar eða yfirhöfn sem einstaklingurinn þurfti til að halda á sér hita á nóttunni. — 5. Mósebók 24:6, 10-13; Esekíel 18:5-9.
Að sjálfsögðu viðurkenndu ekki allir Gyðingar og tóku til sín andann í þessum kærleiksríku lögum frá hinum mikla dómara sínum og löggjafa. (Jesaja 33:22) Sumir ágjarnir Gyðingar komu mjög harðneskjulega fram við bræður sína. Nú á tímum gætu einnig sumir skuldareigendur verið mjög harðir og ósanngjarnir í kröfum sínum, jafnvel gagnvart einlægum kristnum manni sem gat ekki reitt fram féð á gjalddaga vegna þess að eitthvað ófyrirséð kom upp. (Prédikarinn 9:11) Með ósveigjanlegum og krefjandi þrýstingi kynnu veraldlegu skuldareigendurnir að þröngva slíkum skuldara út í þá aðstöðu að honum fyndist hann neyddur til að verja sig. Hvernig? Í sumum tilvikum taka skuldareigendurnir ekkert annað gilt en löglegt gjaldþrot. Því kynni svo að fara að kristinn maður, sem var hvorki ágjarn né hirðulaus um skuldir sínar, gripi til þess ráðs að biðja um gjaldþrotaskipti.
Við ættum þó að vera okkur meðvitandi um hina hlið málsins. Kristinn maður kann að vera kominn í skuldir vegna þess að hann sýndi einfaldlega ekki sjálfstjórn í því hverju eða hve miklu hann eyddi eða vegna þess að hann sýndi ekki þá fyrirhyggju í viðskiptum sem með réttu má ætlast til. Ætti hann bara að vera kærulaus um skuldir sínar og vera fljótur til að leita lausnar með gjaldþrotaskiptum og valda þannig öðrum skaða með dómgreindarleysi sínu? Biblían fellst ekki á slíkt ábyrgðarleysi í fjármálum. Hún hvetur þjón Guðs til að láta já sitt þýða já. (Matteus 5:37) Mundu einnig eftir orðum Jesú þess efnis að reikna kostnaðinn áður en farið er að reisa turn. (Lúkas 14:28-30) Samkvæmt því ætti kristinn maður að hugleiða vandlega möguleg óæskileg málalok áður enn hann stofnar til skulda. Er hann eitt sinn hefur tekið á sig skuld ætti hann að gera sér ljóst að á honum hvílir sú ábyrgð að endurgreiða þeim einstaklingum eða fyrirtækjum sem hann skuldar. Ef margir aðrir finna að kristinn maður er óábyrgur eða óáreiðanlegur kynni hann að flekka hið ágæta orðspor sem hann hafði keppt að og hafa þar af leiðandi ekki lengur góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan. — 1. Tímóteusarbréf 3:2, 7.
Rifjaðu upp það sem Sálmur 15:4 segir okkur um þá manngerð sem Jehóva viðurkennir og býður velkomna. Við lesum: „[Það er] sá er sver sér í mein og bregður eigi af.“ Já, Guð ætlast til þess að kristnir menn komi fram við skuldareigendur sína eins og þeir vildu láta koma fram við sig sjálfa. — Matteus 7:12.
Í stuttu máli sagt þá útilokar Biblían ekki þann möguleika að kristinn maður geti í algerri neyð nýtt sér þá vernd sem lög keisarans um gjaldþrot bjóða upp á. Heiðarleiki og áreiðanleiki kristinna manna ætti hins vegar að skera sig úr. Þannig ættu þeir að vera til fyrirmyndar í því að þrá í fullri alvöru að standa við fjárskuldbindingar sínar.