Láttu ljós þitt lýsa!
LOKSINS kom að því að gamli maðurinn fengi að sjá hinn fyrirheitna Messías! Guð hafði opinberað Símeon að „hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins [Jehóva].“ (Lúkas 2:26) Hann hlýtur að hafa verið gagntekinn af gleði þegar hann gekk inn í musterið og María og Jósef lögðu barnið Jesú í fang hans! Hann lofaði Guð og sagði: „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara . . . því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, . . . ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“ — Lúkas 2:27-32; samanber Jesaja 42:1-6.
Jesús reyndist vera „ljós“ heimsins frá því hann skírðist þrítugur að aldri uns hann dó. Á hvaða vegu? Hann geislaði frá sér andlegu ljósi með prédikun sinni um ríki Guðs og tilgang. Hann afhjúpaði líka falskar trúarkenningar og fletti ofan af verkum myrkursins. (Matteus 15:3-9; Galatabréfið 5:19-21) Jesús gat því réttilega sagt: „Ég er ljós heimsins.“ — Jóhannes 8:12.
Jesús dó árið 33. Slokknaði þá ljósið? Alls ekki! Jesús sagði lærisveinum sínum meðan hann var enn á jörðinni: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna.“ (Matteus 5:16) Fylgjendur Jesú viðhéldu ljósinu eftir dauða hans.
Kristnir menn nú á dögum líkja eftir Jesú og endurspegla ljós Jehóva með prédikun sinni. Þeir ‚hegða sér eins og börn ljóssins‘ og sýna sig skínandi fordæmi í kristilegu líferni. — Efesusbréfið 5:8.