Hver heldur um stjórnvölinn?
„HVER stjórnar heiminum?“ Hvernig myndirðu svara þessari spurningu? Flest trúhneigt fólk myndi svara: „Guð“ eða „Jesús.“ Í grein í dagblaðinu The Freeport News, sem gefið er út á Bahamaeyjum, kom svar sem fæstir myndu búast við.
„Ég fann smárit við þröskuldinn heima hjá mér,“ sagði greinarhöfundur. „Yfirleitt les ég ekki svoleiðis rit, en í þetta sinn ákvað ég að gera það. Í fyrirsögninni var spurt: ‚Hver er höfðingi heimsins?‘“ Með því að lesa þetta biblíutengda smárit uppgötvaði konan, sem skrifaði greinina, að stjórnandi þessa heims er hvorki Guð né Jesús heldur Satan djöfullinn. — Jóhannes 12:31; 14:30; 16:11; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
„Líttu á þau ódæðisverk sem menn hafa framið með köldu blóði og af óheyrilegri harðneskju,“ segir í smáritinu. „Þeir hafa notað gasklefa, útrýmingarbúðir, eldvörpur, napalmsprengjur og aðrar viðbjóðslegar aðferðir til að kvelja og slátra hver öðrum miskunnarlaust. . . . Hvaða afl knýr menn til svo svívirðilegra verka eða ýtir þeim út í þá aðstöðu að þeim finnst þeir knúnir til að fremja slík voðaverk? Hefur þú nokkurn tíma velt fyrir þér hvort eitthvert illt og ósýnilegt afl fái fólk til að fremja slík ofbeldisverk?“ Er það nokkur furða að Biblían skuli kalla Satan „guð þessarar aldar“? — 2. Korintubréf 4:4.
Sem betur fer er sá tími í nánd að Satan og illir andar hans verði teknir úr umferð. „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Já, Biblían lofar að þeir sem geri vilja Guðs hafi von um að lifa að eilífu í réttlátum, nýjum heimi. (Sálmur 37:9-11; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4) Hvílíkur léttir verður það ekki að losna algerlega við skaðleg áhrif Satans og illra anda hans!
Eftir að höfundur greinarinnar í The Freeport News hafði tekið saman úrdrátt úr efni smáritsins sagði hún: „Ég er virkilega ánægð að ég skyldi lesa þetta smárit . . . því að ég hef líka haft áhyggjur af ástandinu í heiminum og velt fyrir mér hver haldi um stjórnvölinn.“