‚Mjög ánægjulegt afrek‘
TÚVALÚ er fagurt eyríki á Suður-Kyrrahafi. Íbúatala eyjanna 9 er um 10.500 manns. Vottum Jehóva á eyjunum hefur alla tíð verið mikið í mun að fá útgefin biblíutengd rit á heimamálinu, enda vita þeir að það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) En þeim var vandi á höndum því að engin orðabók var til á túvalúeysku. Árið 1979 ákvað trúboði votta Jehóva á Túvalú að ráðast í það erfiða verk að taka saman orðaskrá. Þau hjónin bjuggu hjá þarlendri fjölskyldu, lærðu tungumálið og söfnuðu orðum smám saman í skrá. Árið 1984 gaf Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn í New York út bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð á túvalúeysku.
Dr. T. Puapua, fyrrverandi forsætisráðherra Túvalú, lýsti ánægju sinni með bókina og sagði í bréfi: „Þessi bók er ný og mikilvæg viðbót við ‚arfleifð‘ Túvalú, og þið megið vera ánægðir með hið stóra hlutverk sem þið hafið gegnt í andlegri uppbyggingu fólksins. Ég tel að ykkar verði getið í sögu Túvalú fyrir hlutdeild ykkar í útgáfu kennslubóka. . . . Þetta er mjög ánægjulegt [afrek].“
Orðaskrá þýðandans varð til þess að gefin var út túvalúeysk-ensk orðabók árið 1993. Þetta var fyrsta orðabókin sem gefin var út á túvalúeysku handa almenningi. Fyrir skömmu fór túvalúeyska málnefndin þess á leit að mega nota orðabókina sem grunn að fyrstu túvalúeysku einmálsorðabókinni.
Tímaritið Varðturninn hefur komið út mánaðarlega á túvalúeysku frá 1. janúar 1989. Ef íslenska er ekki móðurmál þitt gætirðu skoðað listann á bls. 2 og kannað hvort tímaritið kemur út á móðurmáli þínu. Þú hefur eflaust enn meira gagn af því að lesa blaðið á móðurmálinu.