Hughreysting fyrir þá sem hrópa á hjálp
ÞÓTT BIBLÍAN sé ekki sálfræðihandbók hughreystir hún okkur og hjálpar að meta lífið þrátt fyrir þá erfiðleika sem við eigum við að etja. Biblían er raunsæ og segir: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.“ (Jobsbók 14:1) Suma erfiðleika má rekja til okkar eigin ófullkomleika. En hver ber fyrst og fremst ábyrgð á þjáningum manna?
Biblían bendir á að það sé ill andavera sem heitir Satan djöfullinn. Hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“ og veldur mörgum af þeim erfiðleikum sem hrjá mannkynið. En Biblían segir líka að hann hafi nauman tíma. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Brátt mun Guð taka í taumana og binda enda á allar þjáningarnar sem Satan hefur valdið mannkyninu. Biblían lofar því að réttlátur nýr heimur Guðs muni útrýma vonleysi og örvæntingu. — 2. Pétursbréf 3:13.
Það er einkar hughreystandi að vita til þess að þjáningar manna eru aðeins tímabundnar. Þegar himneskt ríki Guðs, undir stjórn Jesú Krists, tekur stjórnina í sínar hendur munu óréttlæti og þjáningar heyra sögunni til. Biblían segir um útnefndan konung Guðsríkis: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ — Sálmur 72:12-14.
Þessi spádómsorð rætast mjög bráðlega. Við getum notið þess að lifa að eilífu við yndislegar aðstæður í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Jóhannes 17:3) Þekking á þessum uppörvandi loforðum Biblíunnar hughreystir þá sem hrópa á hjálp og veitir þeim von.
[Mynd credit line á blaðsíðu 32]
Þunglynd stúlka: Mynd ILO/J. Maillard.