Fjöldi fólks bætist í hópinn
1 Vöxtur kristna safnaðarins á fyrstu öld var einstæður og sama gildir nú á dögum. (Post. 2:41; 4:4) Síðastliðið ár voru 366.579 nýir lærisveinar skírðir, að meðaltali meira en 1000 á hverjum degi! Rúm milljón manna var skírð síðastliðin þrjú ár. Jehóva hefur sannarlega haldið áfram að bæta fjölda karla og kvenna í hóp þeirra sem trúa. — Post. 5:14.
2 Þeir mörgu nýju, sem óreyndir eru í kristnu líferni, þurfa aðstoð og þjálfun af hendi þeirra sem sterkir eru í trúnni. (Rómv. 15:1) Meðal hinna frumkristnu voru nokkrir sem jafnvel mörgum árum eftir skírn sína höfðu ekki ‚sótt fram til fullkomleikans.‘ (Hebr. 5:12; 6:1) Af þessari ástæðu dró Páll skýrt fram í bréfi sínu til Hebreanna á hvaða sviðum kristnir menn þyrftu að vaxa andlega. Hver eru þau og hvernig má bjóða nauðsynlega hjálp?
3 Temjum okkur góðar námsvenjur: Ef við eigum að vera góðir nemendur þurfum við, í samræmi við leiðbeiningar Páls, að læra á virkan hátt, rifja upp og nota ‚föstu fæðuna‘ sem skipulag Jehóva lætur okkur í té. (Hebr. 5:13, 14; sjá Varðturninn, 1. febrúar 1994, blaðsíðu 19-24.) Með því að draga þá sem nýir eru í trúnni inn í andlegar samræður og deila með þeim dýrmætum sannleiksperlum sem þú hefur rekist á í einkanámi þínu, getur þú ef til vill hvatt þá til að temja sér góðar námsvenjur. Kannski getur þú af og til boðið einhverjum þeirra að vera með þér í einka- eða fjölskyldunámi þínu.
4 Sækjum samkomur að staðaldri: Ef þú sýnir trúfastur gott fordæmi og hvetur nýja meðlimi safnaðarins með kærleiksríkum orðum, hjálpar það þeim að forðast enn eitt sem Páll nefndi — þann ‚sið‘ sem sumir hafa að mæta illa á kristnar samkomur. (Hebr. 10:24, 25) Hjálpaðu þeim að gera sér ljóst að samkomurnar eru hin andlega líflína þeirra til safnaðarins. Taktu frumkvæðið í því að láta þá finna að þeir eru velkomnir sem meðlimir í bræðrafélagi okkar.
5 Leitum til Jehóva með trúartrausti: Til að sigrast á holdlegum veikleikum og persónuleikagöllum verðum við að leita til Jehóva í bæn, tjá honum dýpstu hugsanir okkar og persónulegustu áhyggjuefni. Hinir nýju verða að læra að þeir þurfi ekki að skjögra ef þeir biðja Jehóva auðmjúklega um hjálp, eins og Páll hvatti til. (Hebr. 4:15, 16; 10:22) Ef þú greinir þeim frá persónulegri reynslu þinni í þessu efni auðveldar það þeim að treysta því að Jehóva heyri einlægar bænir.
6 Tíma ráðstafað til boðunarstarfsins: Páll sýndi líka að þegar við „án afláts [berum] fram lofgjörðarfórn fyrir Guð“ styrkir það okkur andlega. (Heb 13:15) Getur þú boðið nýjum boðbera að fara með þér vikulega út í boðunarstarfið? Þið tveir gætuð ef til vill undirbúið saman kynningarorð ykkar eða athugað einhverja þá hlið boðunarstarfsins sem hinn nýi hefur ekki enn reynt.
7 Sá mikli fjöldi, sem bætist í hópinn, er okkur mikið fagnaðarefni. Ef við leggjum okkur í líma við að þjálfa og hvetja nýja meðlimi safnaðarins hjálpar það þeim að rækta hjá sér þá sterku trú sem þarf til að ‚frelsast.‘ — Heb 3:12, 13; 10:39.