Þakklæti fyrir miskunn Guðs
1 Páll postuli barðist heiftarlega gegn útbreiðslu kristninnar áður en hann sjálfur gerðist kristinn. En honum var sýnd miskunn af því að það sem hann gerði var vegna vanþekkingar. Jehóva sýndi óverðskuldaða góðvild og fékk Páli það verkefni að prédika. Páll mat þetta verkefni mjög mikils. (Post. 26:9-18; 1. Tím. 1:12-14) Hann var þakklátur fyrir miskunn Jehóva og það fékk hann til að leggja sig allan fram um að gera þjónustunni góð skil. — 2. Kor. 12:15.
2 Okkur hefur líka verið fengin þjónusta fyrir miskunn Guðs. (2. Kor. 4:1) Líkt og Páll getum við látið í ljós þakklæti fyrir þá miskunn, sem okkur er sýnd, með því að leggja okkur öll fram við að hjálpa öðrum að taka andlegum framförum. Ein leið til þess er að hefja biblíunámskeið og halda þeim áfram.
3 Að hefja biblíunámskeið: Hægt er að hefja biblíunámskeið með því að koma af stað blaðaleið. Við kynnumst áhyggjum þeirra sem eru á blaðaleið okkar betur þegar við heimsækjum þá reglulega. Með tímanum getum við notað grein í einu af blöðum okkar til að kynna biblíunámskeið í Kröfubæklingnum. Og þegar við förum með blöð til húsráðandans í næstu heimsóknum þar á eftir getum við jafnvel haldið áfram að ræða um efni Kröfubæklingsins.
4 Leggðu þig fram í bænarhug: Boðunarstarfið verður árangursríkara ef við biðjum til Jehóva og leggjum okkur kostgæfilega fram. Brautryðjandasystir nokkur, sem var með eitt biblíunámskeið, bað Jehóva um að gefa sér fleiri. Hún breytti í samræmi við bænir sínar með því að skoða þjónustu sína vel. Þá veitti hún því athygli að hún bauð ekki biblíunámskeið þegar hún fór í endurheimsóknir. Hún byrjaði þess vegna á því og var fljótlega komin með tvö námskeið til viðbótar.
5 Það eru mikil sérréttindi að fá að taka þátt í því að bera ‚vitni fagnaðarerindinu um náð Guðs‘. (Post. 20:24) Sýnum þakklæti fyrir miskunn Guðs með því að vera iðin við að hjálpa öðrum að njóta góðs af óverðskuldaðri góðvild Jehóva.