Bréf frá hinu stjórnandi ráði
Kæru trúsystkini.
Okkur er sýndur mikill heiður að fá að bera nafn Jehóva, Drottins alheimsins. Nafnið er eilíft, ævarandi og óviðjafnanlegt. Jehóva gaf okkur nafn sitt til þess að bera það, og sérstaklega frá árinu 1931 höfum við verið þekkt undir þessu aðgreinandi nafni. (Jes. 43:10) Það er ólýsanlegur heiður að mega aðgreina okkur sem vottar Jehóva.
Satan djöfullinn reynir linnulaust að þurrka út nafn Guðs. Þjóðir heims, sem eru undir stjórn hans, hafna nafni Jehóva. Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, hatar nafn Guðs og hefur fjarlægt það úr mörgum biblíuþýðingum. Aftur á móti hafði Jesús nafn föður síns í hávegum og lét það skipa fyrsta sæti í bæninni sem hann kenndi fylgjendum sínum. Hann sagði: „Þannig skuluð þér biðja. Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matt. 6:9) Hann sagði seinna í einlægri bæn til föður síns: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum sem þú gafst mér úr heiminum.“ (Jóh. 17:6) Þar sem við viljum fylgja fordæmi Jesú erum við ákveðnari en nokkru sinni fyrr að kunngera af fullum krafti nafn Jehóva út um allan heim.
Árstextinn fyrir árið 2009, „Berum fagnaðarerindinu rækilega vitni“, var okkur hvatning til að gera boðunarstarfinu sem best skil. (Post. 20:24) Það leikur enginn vafi á því að Jehóva hefur ríkulega blessað viðleitni okkar síðastliðið þjónustuár. Gríðarlega mikill vitnisburður var gefinn um allan heim nafni Jehóva til lofs og dýrðar. Nýtt hámark var slegið þegar 7.313.173 boðberar boðuðu í samstilltu átaki fagnaðarerindið og kenndu einlægu fólki sem er að leita lausna á hinum mörgu daglegu vandamálum sínum. Alls voru 18.168.323 viðstaddir minningarhátíðina um dauða Jesú Krists. Það gefur fyrirheit um að margar milljónir til viðbótar muni ákalla nafn Jehóva áður en kemur að endalokum þessa illa heimskerfis.
Við höldum áfram að prédika fagnaðarerindið af kappi eins lengi og Jehóva leyfir og notum allar mögulegar leiðir til að ná til fólks á svæðunum. (Matt. 24:14; Mark. 13:10) Við reynum að kunngera nafn Jehóva, vilja hans og fyrirætlun með því að bera vitni fyrir eins mörgum og við getum, hvort sem starfað er hús úr húsi, á götum úti, með óformlegum vitnisburði eða þá með bréfaskriftum og símtölum.
Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að Jehóva muni bráðlega helga nafn sitt. (Esek. 36:23) Tíminn nálgast óðfluga þegar þaggað verður niður í öllum þeim sem hafa vanhelgað það. Þegar það gerist rennur upp dýrlegur dagur fyrir alla dygga þjóna Jehóva sem hafa kunngert nafn hans og upphafið alheimsdrottinvald hans.
Kærleiksrík umhyggja Jehóva fyrir þjónum sínum varð augljós á svæðis- og alþjóðamótunum „Höldum vöku okkar!“ sem voru haldin víðast hvar í heiminum á síðasta ári. Þessi mót reyndust marka tímamót í sögu safnaðar okkar með því að hvetja okkur til að vera meðvitaðri um þörfina á að halda vöku okkar. — Mark. 13:37; 1. Þess. 5:1, 2, 4.
Jehóva er okkur sannarlega góður. Hann fyllir hjörtu okkar gleði. Hann lætur okkur hvílast á grænum grundum og leiðir okkur að vötnum þar sem við getum notið næðis. — Sálm. 23:1, 2; 100:2, 5.
Þið megið treysta því að Jehóva heldur áfram að blessa starf ykkar á komandi mánuðum.
Með innilegum kveðjum til bræðrafélagins alls staðar í heiminum.
Bræður ykkar,
Stjórnandi ráð Votta Jehóva