Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 3.11 bls. 3
  • Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bréf frá hinu stjórnandi ráði
  • Ríkisþjónusta okkar – 2011
Ríkisþjónusta okkar – 2011
km 3.11 bls. 3

Bréf frá hinu stjórnandi ráði

Kæru bræður og systur,

Við lifum á spennandi tímum og höfum góðar ástæður til að fagna. Það er okkur sönn ánægja að vinna „einhuga“ með ykkur að mestu boðun allra tíma, himneskum föður okkar, Jehóva, til dýrðar. — Sef. 3:9; Jóh. 14:12.

Þjónustan við Jehóva færir okkur mikla gleði en erfiðleikar og vandamál dynja samt yfir okkur líka. Á síðastliðnu þjónustuári hafa sum ykkar þurft að glíma við afleiðingar jarðskjálfta, flóða, fellibylja og annarra náttúruhamfara. (Matt. 24:7) Margir eiga í daglegri baráttu við alvarleg veikindi og kvilla tengdum ellinni. Allir þurfa að takast á við heimsástandið sem versnar stöðugt eins og,fæðingarhríðir‘. (Matt. 24:8) Í sumum löndum eins og Armeníu, Erítreu og Suður-Kóreu sitja margir bræður í fangelsi vegna trúar sinnar. — Matt. 24:9.

Hvað reyndist okkur vel til að geta verið jákvæð þrátt fyrir alla þessa erfiðleika? Í árstextanum 2010 vorum við minnt á eitt mikilvægt atriði:,Kærleikurinn umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‘ (1. Kor. 13:7, 8) Kærleikurinn sem við sýnum hvert öðru og kærleikur okkar til Jehóva styrkir okkur svo að við getum haldið út.

Margir sem segjast vera kristnir eru undrandi á því hve umfangsmikið boðunarstarf okkar er og hve þrautseig við erum í því starfi. Jafnvel þó að þeir séu ekki sammála trúarkenningum okkar hafa þeir samt sagt: „Þið gerið það starf sem við ættum að vera að gera.“ En hvað er það sem gerir vottum Jehóva kleift að halda áfram að boða trúna dag út og dag inn? Ein sterkasta hvötin er kærleikur. Eins og faðir okkar á himnum viljum við ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar. (2. Pét. 3:9) Það sést glöggt á því að á síðasta þjónustuári náðist nýtt hámark boðberafjölda, alls 7.508.050. Í hvaða öðrum trúflokkum sinna jafn margir þessu kærleiksríka verki, að bjóða sig fúslega fram til að aðstoða fólk við biblíunám?

Við erum hvött til að fylgjast grannt með uppfyllingu spádómsins sem Jesaja skráði: „Það skal verða á komandi dögum að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki, það ber yfir hæstu fjallstinda og gnæfir yfir allar hæðir. Þangað munu allar þjóðir streyma.“ (Jes. 2:2-4) Fjöldi fólks streymir nú að húsi Jehóva og meðal þeirra voru 294.368 sem létu skírast á síðastliðnu þjónustuári. Við bjóðum þau innilega velkomin í söfnuðinn. Látum kærleikann vera okkur hvöt til að hjálpa þeim að standast árásir óvinarins Satans. — 1. Pét. 5:8, 9.

Nýtt met var slegið þegar alls 18.706.895 sóttu minningarhátíðina þriðjudaginn 30. mars 2010. Það gefur til kynna að enn gætu milljónir manna bæst í hóp þeirra sem þjóna Jehóva. Við getum verið ánægð yfir því að Jehóva skuli enn ekki hafa bundið enda á þetta illa heimskerfi. Þar til að því kemur látum við kærleikann hjálpa okkur að vera þolgóð. — 2. Þess. 3:5.

Umdæmismótin „Varðveitum náið samband við Jehóva“ voru flest haldin á árinu 2010 víða um lönd. Þar vorum við hvött til að styrkja samband okkar við Jehóva, himneskan föður okkar. Orð sálmaritarans eiga vel við en hann segir: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ (Sálm. 144:15) Ef við höldum okkur nálægt Jehóva erum við örugg þannig að við höfum enga ástæðu til að óttast, sama hvað framtíðin ber í skauti sér. (Sálm. 23:4) Bráðum mun Jehóva, fyrir milligöngu sonar síns, „brjóta niður verk djöfulsins“. (1. Jóh. 3:8) Við hlökkum svo sannarlega til þess dags. En þangað til höfum við mikið verk að vinna. — 1. Kor. 15:58.

Þið megið vera viss um að við minnumst ykkar sífellt í bænum okkar. (Rómv. 1:9) Það er ósk okkar að þið „látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf“. (Júd. 21)

Okkur er mjög annt um ykkur og sendum ykkur kærar kveðjur.

Bræður ykkar,

hið stjórnandi ráð votta Jehóva

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila