Bréf frá hinu stjórnandi ráði
Kæru trúsystkini.
Það er ánægjulegt að fá að skrifa til allra trúfastra þjóna Jehóva sem nú eru yfir sjö miljónir. Þegar við hittum trúsystkini okkar hvaðanæva úr heiminum finnum við fyrir sérstökum kærleiksböndum okkar á milli. (Jóh. 13:34, 35) Hrífandi frásögur árbókarinnar um bræður okkar og systur um allan heim munu án efa styrkja þessi einstöku kærleiksbönd.
Frásögur víðs vegar úr heiminum gefa til kynna að þið takið biblíunámskvöld fjölskyldunnar alvarlega. Þið sem eigið ung börn hafið notað hugmyndaflugið til að ná og halda athygli barnanna. (Ef. 6:4) Samband hjóna hefur einnig styrkts þegar þau ræða saman um andleg mál. (Ef. 5:28-33) Fjölskyldur og einstaklingar njóta svo sannarlega góðs af því að kafa djúpt í orð Guðs. – Jós. 1:8, 9.
Við finnum til með ykkur sem hafið orðið fyrir missi vegna náttúruhamfara. Við viljum einnig nýta þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hikuðu ekki við að taka þátt í hjálparstarfi á þessum erfiðu tímum. (Post. 11:28-30; Gal. 6:9, 10) Þar að auki eru þeir sem koma auga á efnislegar þarfir annarra í söfnuðinum og hjálpa þeim án þess að mikið fari fyrir því. Þið eruð „góðgerðasöm og örlát við snauða“ eins og Dorkas forðum daga. (Post. 9:36) Þið getið verið viss um að Jehóva tekur eftir góðverkum ykkar og hann mun umbuna ykkur. – Matt. 6:3, 4.
Sums staðar í heiminum traðka þeir sem,misnota lögin‘ á rétti ykkar. (Sálm. 94:20-22) Þið þekkið spádóma Jesú um slíkar ofsóknir og leitið því hælis hjá Jehóva, þolgóð og hugrökk. (Jóh. 15:19, 20) Þið getið verið viss um að við minnumst reglulega á ykkur í bænum okkar er þið haldið áfram að „svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið“. – 1. Pét. 3:13-15.
Satan reynir linnulaust að spilla siðferði okkar með klókindum og klækjum. Þess vegna eigið þið sem hafið haldið ykkur siðferðilega hreinum ár eftir ár hrós skilið! Þið „styrkist í Drottni og krafti máttar hans“ á sama tíma og siðleysi heimsins nær nýjum hæðum. (Ef. 6:10) Þið „klæðist alvæpni Guðs“ og getið því „staðist vélabrögð djöfulsins“. (Ef. 6:11, 12) Þú getur verið viss um að Jehóva notar staðfestu þína til að svara ásökunum Satans. – Orðskv. 27:11.
Það var mjög ánægjulegt að heyra að 19.374.737 hafi sótt minningarhátíðina um dauða Krists árið 2011. Þessa frábæru aðsókn má að hluta þakka öllum þeim sem brugðust við kallinu að gerast aðstoðarbrautryðjendur í apríl síðastliðnum. Milljónir jarðarbúa heyrðu samhljóma lof trúfastra þjóna Jehóva. (Rómv. 10:18) Hvort sem þú varst einn þeirra 2.657.377 sem þjónuðu sem aðstoðarbrautryðjendur þennan mánuð eða lagðir þig fram um að auka við starf þitt á einhvern hátt, glödduð þið hjörtu okkar með fúsleika ykkar og eldmóði. – Sálm. 110:3; Kól. 3:23.
Á síðasta ári lét 263.131 skírast til tákns um að hafa vígt sig Jehóva. Við þökkum Jehóva fyrir það og við þökkum ykkur einnig fyrir að láta boðið ganga áfram: „,Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi:,Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinb. 22:17) Eftir að hafa skoðað ýmsa þætti ríkis Guðs á umdæmismótunum 2011 segjum við með meiri ákafa en nokkru sinni fyrr: „Til komi þitt ríki“! Jesús sagði: „Ég kem skjótt“ og við getum tekið undir orð Jóhannesar postula: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ – Opinb. 22:20.
Er þið haldið vöku ykkar og bíðið eftir því megið þið verið viss um að okkur er annt um ykkur, hvert og eitt, kæru bræður og systur sem sannið kærleika ykkar til Jehóva „í verki og sannleika“. – 1. Jóh. 3:18.
Bræður ykkar,
hið stjórnandi ráð Votta Jehóva