Bréf frá hinu stjórnandi ráði
Kæru samstarfshjú:
Það er okkur mikil ánægja að skrifa ykkur bréf á þessu merkisári 2014. Í haust verður liðin heil öld frá því að ástkær konungur okkar, Jesús Kristur, tók að ríkja á meðal óvina sinna. – Sálm. 110:1, 2.
Á ársfundi Varðturnsfélagsins í byrjun þjónustuársins gaf þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar út endurskoðaða útgáfu af Nýheimsþýðingunni á ensku. En Nýheimsþýðingin er besta biblíuþýðing sem mannkynið hefur aðgang að í dag. Jehóva fékk andasmurða syni sína til að gera fyrstu útgáfu Nýheimsþýðingarinnar og það eitt gerir hana alveg einstaka. – Rómv. 8:15, 16.
Um áraraðir hefur ritnefnd hins stjórnandi ráðs lagt aðaláherslu á þýðingu Biblíunnar og í dag er Nýheimsþýðingin til í heild eða að hluta á 121 tungumáli. Við hvetjum þig til að sýna Jehóva þakklæti fyrir þá biblíu sem þú hefur. Lestu í henni á hverjum degi og hugleiddu það sem þú lest. Þá munt þú nálægja þig Jehóva Guði, höfundi hennar. – Jak. 4:8.
Það snertir okkur djúpt að heyra um þær raunir sem ástkær trúsystkini okkar þurfa að ganga í gegnum. Skiljanlega gæti þeim stundum þótt erfitt að samgleðjast trúbræðrum sínum. Fyrir stuttu varð til dæmis ein fjölskylda í Asíu fyrir því óláni að allt líf hennar fór úr skorðum. Móðirin á heimilinu varð skyndilega lömuð. Færir læknar skildu ekki hvað hafði komið fyrir og gátu ekki fundið lækningu. Þetta er virkilega sorgleg staða. Eiginmaður hennar sér nú um hana allan sólarhringinn og sonur þeirra og tvær dætur veita foreldrum sínum ástríkan stuðning og setja okkur öllum gott fordæmi með því. Bæði þessi fjölskylda og mörg ykkar hafa með góðum árangri tekist á við ýmsar raunir en um leið fundið fyrir þeirri ánægju sem fylgir því að standast erfiðar prófraunir. (Jak. 1:2-4) Við eigum eftir að finna til mikillar gleði eftir að hafa staðist slíkar raunir, hvort sem við erum andasmurð eða af múginum mikla, vegna þess að við munum hljóta eilíft líf að launum. (Jak. 1:12) Jehóva fullvissar okkur um það.
Á síðasta ári voru 19.241.252 viðstaddir minningarhátíðina. Það er trústyrkjandi fyrir þjóna Guðs að sjá svona marga heiðra Jehóva og Jesú Krist með því að koma á þessa mikilvægustu samkomu ársins. Það er líka mjög hvetjandi að í kringum minningarhátíðina tóku milljónir þátt í aðstoðarbrautryðjendastarfinu. Í mars og apríl fékk Jehóva mikið lof. Og fannst þér ekki gaman að frétta af því að þeir sem eru aðstoðarbrautryðjendur þegar farandhirðirinn heimsækir söfnuðinn geta setið allan fundinn sem hann heldur með brautryðjendunum? Það á líka við þótt heimsókn hans sé ekki í mars eða apríl. Andlegir menn átta sig á hversu mikilvægt það er að vera virkur í boðunarstarfinu og öðru starfi safnaðarins. Það er auðveldara fyrir okkur að vera staðföst og óbifanleg ef við höldum okkur uppteknum. Það gerir okkur líka kleift að gera að engu tilraunir Satans til að grafa undan trú okkar og leiða okkur afvega. – 1. Kor. 15:58.
Það endurnærir okkur að vita að á síðasta þjónustuári sýndu 277.344 vígslu sína með niðurdýfingarskírn og eru nú komnir á veginn til lífsins ásamt trúsystkinum sínum um allan heim. (Matt. 7:13, 14) Þessi nýju trúsystkini þurfa á stuðningi okkar að halda svo að þau verði „staðföst í trúnni“. (Kól. 2:7) Haldið áfram að hvetja hvert annað til að halda út allt til enda. (Matt. 24:13) „Hughreystið ístöðulitla, takið að ykkur óstyrka, verið þolinmóð við alla.“ (1. Þess. 5:14) Að lokum viljum við hvetja ykkur öll til að biðja „án afláts“ og segja: ,Komi ríki þitt.‘ – 1. Þess. 5:17; Matt. 6:10.
Verið fullviss um að okkur er annt um hvert og eitt ykkar sem elskið Jehóva.
Bræður ykkar,
Stjórnandi ráð Votta Jehóva