GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Hvers vegna er mikilvægt fyrir börn að kunna að lesa? – 2. hluti: Skjárinn eða bókin?
Hvort kýs barnið þitt frekar að lesa í bók eða af skjánum?
Margt ungt fólk vill frekar lesa af skjá heldur en í bók. „Kynslóð sem hefur vanist á að smella á hlekki og skruna yfir á næstu blaðsíðu á svipstundu finnst bækur bara ekki nógu áhugaverðar,“ skrifar dr. Jean M. Twenge.a
Að lesa í snjalltæki hefur sína kosti. „Skólinn sem ég var í notaði rafbækur,“ segir John sem er tvítugur. „Í þeim var hægt að finna upplýsingar hratt og örugglega.“
Þeir sem lesa í snjalltækjum hafa aðgang að ýmsum öðrum handhægum verkfærum. Með einum smelli er til dæmis hægt að fá skilgreiningu á orði, spila hljóðskrá, horfa á myndband sem tengist efninu eða nálgast ítarefni. En er þar með sagt að það sé ekki eins gagnlegt að lesa efni á prenti?
Sumir kjósa að lesa útprentað efni þegar þeir vilja kafa dýpra. Ástæðurnar gætu verið:
Einbeiting. Nathan sem er unglingur segir: „Þegar ég les af skjánum birtast oft auglýsingar og tilkynningar sem trufla einbeitinguna.“
Karen sem er tvítug hefur svipaða sögu að segja. „Þegar ég les í símanum eða spjaldtölvu er mjög freistandi að skipta yfir í annað app eða fara að spila leik,“ segir hún.
Meginregla Biblíunnar: „Notið tímann sem best.“ – Kólossubréfið 4:5.
Til umhugsunar: Hefur barnið þitt sjálfstjórn til að láta snjalltækin ekki trufla sig þegar það notar þau til að lesa eða læra heima? Ef ekki, hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að læra að einbeita sér?
Tillaga: Útskýrðu fyrir barninu þínu að heimalærdómurinn taki lengri tíma ef það lætur snjalltækin trufla einbeitinguna og þá sé minni tími eftir til að gera eitthvað sem það langar til að gera.
Skilningur. „Fjölmargar rannsóknir sýna að fólk skilur betur það sem það les á prenti en af skjánum,“ segir í bókinni Be the Parent, Please.
Ein ástæðan er sú að þeir sem lesa af skjánum renna oft hratt yfir efnið í stað þess að hugleiða það. Rithöfundurinn Nicholas Carr segir: „Þegar við erum á netinu viljum við safna upplýsingum eins hratt og örugglega og við getum.“b
Hraðlestur er að sjálfsögðu stundum gagnlegur. Vandamálið er, eins og Carr bendir á, að þessi leið „er að verða aðallestraraðferðin sem við notum“. Og þá gæti farið svo að barnið þitt venji sig á að hraðlesa efni án þess að skilja innihaldið.
Meginregla Biblíunnar: „Hvað sem þú gerir skaltu afla þér skilnings.“ – Orðskviðirnir 4:7.
Til umhugsunar: Hvernig geturðu kennt barninu þínu að kafa dýpra í efni, hvort sem það er á skjánum eða á prenti?
Tillaga: Vertu sveigjanlegur. Málið snýst ekki um að nota bara aðra aðferðina og útiloka hina. Báðar hafa sína kosti. Snjalltæki bjóða upp á möguleika til að skilja efnið betur. Vertu þess vegna sveigjanlegur þegar þú ræðir við börnin þín um kosti og galla beggja þessara valkosta. Mundu líka að engin tvö börn eru eins.
Minnishjálp. Ferris Jabr skrifaði í grein sem kom út í tímaritinu Scientific American að „heilinn okkar þreytist meira við skjálestur en við lestur af pappír … og við eigum aðeins erfiðara með að muna það sem við lesum.“
Þegar maður les venjulega bók gerir sjónminnið manni kleift að muna hvar á blaðsíðu ákveðnar upplýsingar eru að finna. Það getur virkað eins og bókamerki.
Auk þess hafa vísindamenn fundið út að þeir sem lesa prentað efni nái innihaldinu oft betur. Þannig virðast þeir festa það betur í minni.
Meginregla Biblíunnar: „Varðveittu visku og skarpskyggni.“ – Orðskviðirnir 3:21.
Til umhugsunar: Er erfitt fyrir barnið þitt að skilja eða muna það sem það les eða er að læra? Ef svo er, hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að bæta námsvenjur sínar? Myndi hjálpa að nota efni á prenti?
Tillaga: Hugsaðu um hvor aðferðin kemur betur út fyrir barnið þitt frekar en að láta barnið þitt ráða því hvað verður fyrir valinu. Margir ofmeta hæfni sína til að lesa af skjá.