Er lýsing Biblíunnar á útlegð Gyðinga í Babýlon nákvæm?
Fyrir um 2.600 árum voru Gyðingar fluttir með valdi til Babýlonar þar sem þeir voru í útlegð í 70 ár. Samkvæmt Biblíunni sagði Guð fyrir um sum lífsskilyrði Gyðinga meðan þeir væru í Babýlon: „Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra. Takið yður konur og getið syni og dætur ... Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til.“ (Jeremía 29:1, 4–7) Bjuggu Gyðingar við þannig aðstæður?
Rannsóknarmenn hafa skoðað rúmlega 100 steintöflur sem koma líklega frá Babýlon eða nágrenni. Af töflunum má sjá að margir Gyðingar héldu trú sinni og siðum meðan þeir bjuggu friðsamlega undir stjórn Babýlonar. Á steintöflunum, sem eru frá árunum 572 til 477 f.Kr., er meðal annars að finna leigusamkomulag, viðskiptaáform, skuldaviðurkenningar og aðrar fjárhagslegar skrár. „Þessar skrár,“ segir í einu heimildariti, „gefa smá innsýn í líf venjulegs fólks í landsbyggð: Það ræktar landið og byggir hús, borgar skatta og vinnur í þjónustu konungsins.“
Fleygrúnatafla sem fannst í Júdabæ.
Þetta mikilvæga safn heimilda sýnir líka fram á að til var stórt samfélag Gyðinga á stað sem nefnist Al Yahudu, eða Júdabær. Nöfn fjögurra kynslóða Gyðinga eru grafin í steintöflurnar og sum nafnanna eru rituð með fornhebreskum bókstöfum. Áður en steintöflurnar fundust vissu fræðimenn mjög lítið um líf Gyðinga í útlegðinni í Babýlon. Dr. Filip Vukosavović, sem situr í nefnd Þjóðminjastofnunar Ísraels, segir: „Með hjálp taflanna fáum við loksins að hitta þetta fólk. Við fáum að vita nöfn þess, hvar það bjó og hvað það gerði og hvenær.“
Gyðingar í útlegðinni höfðu visst frelsi í Babýlon.
Gyðingar í útlegðinni höfðu visst frelsi. Þeir bjuggu „ekki aðeins í Al-Yahudu heldur líka í mörgum öðrum borgum,“ segir Vukosavović. Sumir urðu færir í hinum ýmsu iðngreinum, sem nýttist síðar meir við endurbyggingu Jerúsalem. (Nehemíabók 3:8, 31, 32) Steintöflurnar í Al-Yahudu staðfesta líka að margir Gyðingar völdu að vera áfram í Babýlon þótt útlegðinni væri lokið. Það gefur til kynna að þeir hafi lifað við frekar friðsamlegar aðstæður í Babýlon, rétt eins og segir í orði Guðs.