Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.1. bls. 12-13
  • Klakaðferðir sem endurspegla visku

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Klakaðferðir sem endurspegla visku
  • Vaknið! – 1986
  • Svipað efni
  • Gjárnar miklu — getur þróun brúað þær?
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Hver varð fyrri til?
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Fuglseggið
    Vaknið! – 2011
Vaknið! – 1986
g86 8.1. bls. 12-13

Klakaðferðir sem endurspegla visku

„Það sem veldur hvað mestum vonbrigðum, þegar saga steingervinganna af ferli hryggdýra er skoðuð, er að hún segir svo lítið um þróun skriðdýra á frumskeiði þeirra þegar egg með skurn var að þróast.“ Þessar harmtölur er að finna í bókinni The Reptiles (Skriðdýrin) í bókaflokknum Life Nature Library (bls. 37). En að fá fram eggið er einungis upphafið; klakið er jafnmikil ráðgáta — þar bregðast steingervingar þróunarfræðingunum líka.

FLESTIR FUGLAR unga sjálfir út eggjum sínum við yl frá líkama sínum. En fjaðrirnar geta verið til vandræða því að þær einangra afbragðsvel svo að sáralítill ylur frá líkamanum kemst í gegnum þær til að halda eggjunum heitum. Skapari þeirra, Jehóva Guð, ekki hjálparvana þróun, leysti þetta vandamál fuglanna á nokkra mismunandi vegu. Hjá mörgum fuglum er lausnin innbyggð: varp- eða útungunarblettir. Nokkrum dögum áður en fyrsta egginu er orpið fellir fuglinn fjaðrirnar neðarlega á bringunni. Síðan þéttist og víkkar æðanetið í bringunni og húðin þykknar og þrútnar. Þegar fuglinn leggst í hreiðrið til að unga út eggjunum breiðir hann út bringufjaðrirnar og hagræðir sér þangað til hinn beri, heiti varpblettur liggur að eggjunum. Sumir fuglar hafa þrjá varpbletti. Þegar þessir heitu blettir liggja að eggjunum er útungun hafin.

EN EKKI FÁ ALLIR FUGLAR varpbletti sjálfkrafa. Skaparinn hefur lagt sumum þeirra í brjóst að búa þá til sjálfir. Til dæmis endur og gæsir reyta fjaðrir af bringunni til að koma húðinni í snertingu við eggin. Aðrir fuglar nota fæturna til að klekja út eggjum. Bláfætta súlan umlykur til dæmis sitt eina egg með fótunum, og stórar sundfitjarnar, þar sem blóðrásin er hröð, eru ekkert síðri en varpblettir annarra fugla.

VIÐ HEYRUM SVO MARGT um móðurást, en þegar við beinum athygli okkar að keisaramörgæsinni er það föðurástin sem hæst ber. Meðan vetur ríkir á Suðurskautslandinu verpir kvenfuglinn einu eggi og heldur síðan strax til sjávar í ætisleit. Karlinn er hins vegar skilinn eftir með eggið liggjandi ofan á sundfitjunum — sem eru velbúnar æðum og því heitar vel. Hann hefur stóra húðfellingu á kviðnum sem hann steypir yfir eggið svo að úr verður ágætis útungunarpoki. Svo vel er að egginu búið að það hvílir í sínu hlýja „hreiðri“ jafnvel þegar pabbi fær sér gönguferð. Frost getur farið allt niður í 60° C, og stórhríð geisað svo dögum skiptir, en pabbi heldur trúfastur á egginu á fótum sér. Þrír mánuðir líða án þess að hann fái nokkuð að éta! En mamma hefur ekki gleymt honum. Eftir að unginn er kominn úr egginu kemur hún aftur til að næra fjölskyldu sína á hálfmeltum fiski úr maga sér, og síðan tekur hún við að gæta ungans svo að pabbi geti farið til sjávar að næra sig.

SUMIR FUGLAR NOTA annars konar heita bletti til að unga út eggjum sínum. Hamarhænan á Sulawesi-eyju í Indónesíu verpir eggjum sínum utanvert í eldfjall þar sem jörðin er síheit af völdum eldvirkni. Önnur hamarhæsni á eynni nota sér svartan gossandinn við sjóinn. Þau grafa egg sín í sandinn sem drekkur í sig varma sólarinnar og klekur út eggjunum.

EN FUGLAR ERU EKKI einir um að nota sandinn til að klekja út eggjum. Sæskjaldbökur skríða upp í fjörur að næturlagi, grafa þar holur og verpa eggjum sínum, stundum allt að 400 eða 500 á varptímanum. Nílarkrókódíllinn grefur holu í sandinn og verpir í hann allt að 40 eggjum. Um þrem mánuðum síðar, þegar ungarnir koma úr eggjunum, láta þeir í sér heyra og móðirin grefur þá upp og heldur með þá til vatnsins.

JAFNVEL ENN MEIRI VISKA birtist í því hvernig sjávarkrókódíllinn og ameríski krókódíllinn (alligator) gera sér vandaðan klakhaug. Þeir hrúga saman í haug greinum, reyr, laufi og rotnandi jurtaleifum í nánd við á eða mýrarfen. Inni í þessum eins metra háu haugum koma þeir fyrir eggjum sínum, og af og til skvetta þeir vatni á þá með halanum. Það flýtir fyrir gerjun hinna rotnandi jurtaleifa sem aftur stuðlar að því jafna, háa hitastigi sem þarf til að klekja út eggjunum.

EN ÞÓTT VANDAÐIR SÉU skortir þessa klakhauga mikið til að jafnast á við þá sem haugfuglinn gerir sér. Fuglinn er einnig nefndur hitamælisfugl. Hann á heima í hinni þurru Mið-Ástralíu þar sem hitastigssveiflur eru miklar, bæði eftir árstíðum og yfir sólarhringinn. Byggingin hefst við fyrstu haustrigningar því að gróðurinn þarf að vera rakur til að gerjun geti hafist. Bæði karl- og kvenfuglinn vinna að framkvæmdinni þótt mestur hluti stritvinnunnar komi í hlut karlsins. Kvenfuglinn er oft eins og fremur smásmugulegur verkstjóri.

ÞEIR GRAFA HOLU, um eða yfir metra á dýpt, fylla hana kvistum og laufi, hrúga þar ofan á ýmsum öðrum gróðurleifum og hylja að lokum sandi. Gerjun hefst í safnhaugnum undir, en það tekur fjóra mánuði að ná kjörhitastigi sem er 34° C. Þá fyrst getur varpið hafist. Haninn grefur klakholu niður í hauginn, mælir hitann með opnu nefinu og víkur svo til hliðar til að hænan geti orpið. Nei, hún þarf að mæla hitann sjálf fyrst, og ef hún er ekki ánægð verður haninn að finna betri stað annars staðar í haugnum. Þegar hún er loksins ánægð og verpir egginu fyllir haninn holuna aftur. Þetta endurtekur sig á þriggja til fjögurra daga fresti þar til eggin eru orðin um 30.

Á MEÐAN GÆTA fuglarnir haugsins, grafa niður í hann þar sem eggin eru, mæla hitastigið og loka fyrir aftur. Eftir því hvað deginum líður eða hvernig viðrar ýmist bæta þeir sandi á hauginn eða minnka, eða þá grafa í hann loftræstigöng sem þeir síðar loka aftur á réttu augnabliki. Vinnutíminn er langur og stritið ómælt en það heldur hitastigssveiflum innan við eina gráðu. Hvert egg er 50 daga að klekjast út og þá grefur unginn sig út og tekur á sprett út í buskann án þess að foreldrarnir gefi honum minnstan gaum. Varp, klak og gæsla haugsins stendur óslitið í alls 6 til 7 mánuði. Ef með er talið það fjögurra mánaða tímabil, sem þarf til að haugurinn hitni, er hér um að ræða næstum 11 mánaða stanslaust strit. Og allt þetta til að koma í heiminn ungum sem hjónin skeyta svo alls ekkert um!

HVÍLÍK VISKA ENDURSPEGLAST í þeim margbreytilegu aðferðum sem notaðar eru við að klekja út eggjum! Ekki er það þó svo að dýrin séu vitur af sjálfum sér, heldur er viskan gefin þeim af skaparanum, Jehóva Guði. Eins og Orðskviðirnir 30:24 (NW) segja: „Þau eru vitur af eðlishvöt.“

[Myndir á blaðsíðu 12, 13]

Grágæs

Keisaramörgæs

Hamarhænsn

Sæskjaldbaka

Krókódíll

Haugfugl

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila