Höfum við alla Biblíuna?
ÞAÐ var um vetur í Eygptalandi fyrir 40 árum að arabískur smábóndi var að grafa eftir frjósamri mold. Í stað þess að finna moldina gerði hann óvænta uppgötvun. Hakinn hans rakst í eitthvað hart — leirker. Í leirkerinu fann hann 13 bækur í skinnbandi frá annarri öld okkar tímatals. Það var þó ekki fyrr en árið 1955 að þessi fornleifafundur fór að vekja verulega athygli. Og enn grípur af og til um sig mikill áhugi fyrir þessum ritum meðal lesenda Biblíunnar, því að sumir halda fram að þau geymi áður óþekkt orð Jesú.
„Þetta eru þau leyndu orð sem hinn lifandi Jesús mælti og Didymos Júdas Tomas skráði.“ Þannig hefst „Tómasarguðspjall,“ eitt hinna 48 mismunandi trúarrita gnostíka sem fundust í þessari brekku í Egyptalandi. Helmut Koestr við Harvard Divinity School lét þau orð falla að Tomasarguðspjall geymdi þýðingarmikið, nýtt efni til að greina kenningar Jesú. En er það svo? Vantar í Biblíuna einhverja leynda visku sem er mikilvæg trú þinni? Eða er Biblían heil og alger? Hvernig myndir þú svara þessum spurningum?
Vottar Jehóva álíta að Biblían sé heil og alger. Síðara bréf Páls til Tímóteusar, 3. kafli, 16. og 17. vers lýsir vel sannfæringu þeirra. Þar lesum við: „Sérhver ritning [það er, öll Biblían] er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“
Reynslan hefur kennt vottum Jehóva að hvergi séu gloppur í Biblíunni að því er varðar tilgang Guðs eða nauðsynleg heilræði til hins daglega lífs. Hún segir þeim hvers vegna við erum til og hvert við förum. Í stuttu máli sagt — Biblían er heil og alger.
Helgiritasafn Biblíunnar — heilt og algert
Hvers vegna geta vottar Jehóva verið vissir um að enga mikilvæga bók vanti í Biblíuna? Vegna þess að til er afmörkuð bókaskrá, oft nefnd canona um hin innblásnu rit sem eru „nytsöm til fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Í upphafi var orðið „canona“ haft um reyrstaf sem notaður var fyrir mælistiku. Þegar orðið var notað um Biblíuna tók það að merkja það safn bóka sem var viðurkennt ósvikið, innblásið af Guði og þess vert að vera notað sem mælistika á trúaratriði, kenningar og breytni.
Hin opinbera skrá um rit hebresku ritninganna (oft nefndar Gamla testamentið) var orðin fast ákveðin undir lok fimmtu aldar fyrir okkar tímatal. Jesús Kristur og postular hans notuðu einungis bækur á þeirri skrá þegar þeir vitnuðu í Biblíuna. Vottar Jehóva fylgja því þessari sömu fyrirmynd að því er Hebresku ritningarnar varðar. En hvað um hið svonefnda Nýja testament, kristnu Grísku ritningarnar?
Á árabilinu 90-100 eftir okkar tímatali voru þegar byrjuð að safnast upp gögn fyrir opinberri skrá um rit kristnu Grísku ritninganna. Undir lok annarra aldar lék engin vafi á að helgiritasafn kristnu Grísku ritninganna var fullkomið. Til eru í það minnsta 16 afbragðsgóðar bókaskrár um kristnu Grísku ritningarnar, allt frá múratorí-slitunum frá árinu 170 fram til þriðja kirkjuþingsins í Karþagó árið 379. Þar að auki eru alls til yfir 5200 handrit af þessum hluta Biblíunnar á frummálinu, grísku. Ekkert annað fornrit á sér slíkan bakhjarl. Vottar Jehóva líta því á kristnu Grísku ritningarnar sem heilar og algerar.a En vottar Jehóva telja þó þörf á fleiri rökum.
Skrár gerðar af mönum eru ekki aðalástæðan fyrir því að vottar Jehóva telja bók tilheyra helgiritasafni Bibiunnar. Þeir leita innri sönnunargagna svo sem þessa:
◻ Innihalds sem ber vitni um innblástur heilags anda Guðs.
◻ Ráð gegn hjátrú, djöfladýrkun og tilbeiðslu á mönnum, skepnum eða hlutum.
◻ Algers samræmis við aðrar bækur Biblíunnar.
◻ Boðskapar sem beinir fólki til dýrkunar á Jehóva og örvar djúpa virðingu fyrir verkum hans og tilgangi.
◻ Hvatningar til að elska og þjóna Guði.
◻ Samræmi við „heilnæmu orðin“ og við kenningar Jesú Krists. — 2. Tímóteusarbréf 1:13.
Gnostísk rit stangast á við Biblíuna
Vottar Jehóva finna ekkert þessara merkja í ritum gnostíka. Gnostíkar voru dulhyggju menn sem blómguðust á fyrstu tveim öldum okkar tímatals og sögðust búa yfir þekkingu sem þeir hefðu aflað sér á dulrænan hátt. Þeir háðu harða keppni við sannkristna menn um það hvor hópurinn hefði hinar sönnu kenningar og rit um Jesú og lærisveina hans. Hafa bækur gnostíka að geyma viðeigandi upplýsingar sem styrkja trú kristins manns? Nei.
Alfræðibækur og flestir biblíufræðimenn flokka þessi gnostíkarit bæði sem apókríf (ekki viðurkennd sem hluti helgirita safnsins) og auk þess ranglega eignuð biblíuriturum. Í tímarit sínu Psychology Today var haft eftir Andrew M. Greeley, rómversk-kaþólskum presti og prófessor í þjóðfélagsfræði við University of Arizona, um þessar bækur. „Þær gætu ekki höfðað til venjulegs manns sem leitaði á náðir trúarinnar til að fá hjálp við að leysa vandamál lífsins en ekki til að afneita mikilvægi lífsins.“ Og þegar Greeley bar saman hin gnostísku guðspjöll við guðspjöll Biblíunnar sagði hann: „Jesús gnostíkanna er stundum ósamkvæmur sjálfum sér, stundum óskiljanlegur og stundum meira en lítið hrollvekjandi.“
Mikil gjá aðskilur kenningar hinna gnostísku guðspjalla og guðspjalla Biblíunnar. Þessi munur er sérlega áberandi þegar bornar eru saman kenningar gnostíka og Biblíunnar og Guð, upprisuna og hjálpræði. Aftur á móti má sjá margt líkt með gnostísisma og forngrískri heimspeki, búddatrú og hindúatrú.
Gnostískir rithöfundar lýsa Jesú harla ólíkur þeim sem ritarar Biblíunnar draga upp mynd af. Hið gnostíska Filippusarguðspjall lýsir Maríu Magdalenu sem nánasta félaga Jesú og segir að hann hafi „tamið sér að kyssa hana [oft] á [munninn].“ Ekki er að furða að Encyclopædia Britannica segir: „Siðfræði gnostíka spannaði allan tónstigan frá óviðráðanlegu lauslæti til öfgafulls meinlætalifnaðar.“
Engar gloppur í að lýsa tilgangi Guðs
Allt frá fyrsta kafla Biblíunnar til hins síðasta kemur smám saman skýrt í ljós tilgangur Guðs með jörðina og byggjendur hennar. Frásagan hefst á því að Guð blessar tvær mannverur sem búa í staðbundnum paradísargarði, og henni lýkur með því að hann blessar ótaldar milljónir manna búandi í paradís sem nær um allan hnöttinn. Og hinir 1187 kaflar þar á milli opinbera lið fyrir lið hvernig Guð muni blessa mannkynið og hvernig rúm sé fyrir okkur í tilgangi Guðs. Þetta gerir Biblían án þess að skilja eftir nokkra eyðu sem fylla þarf í með þýðingarmiklum upplýsingum úr öðrum heimildum.
‚Þetta er allt gott og blessað,‘ segir þú kannski, ‚en eru ráð og leiðbeiningar Biblíunnar heilsteypt og hagnýt fyrir lífið eins og það er núna?‘
Engar gloppur í nauðsynlegar leiðbeiningar
Vottar Jehóva líta á Biblíuna sem heilsteypta leiðarbók fyrir hið daglega líf. Frumþarfir manna eru hinar sömu nú og var á tímum Biblíunnar. Hvernig fullnægir Biblían þessum þörfum? Við skulum líta nánar á það:
FJÖLSKYLDAN — „Þið konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til. Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær. Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til. Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ — Kólossubréfið 3:18-21.
ÁKVARÐANIR — „Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann.“ „Mundu til [Guðs] á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína sletta. Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast [Jehóva] og forðast illt.“ — Orðskviðirnir 29:20; 3:6, 7.
ÁHYGGJUR — „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
NÆGJUSEMI — „Guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.
VINÁTTA — „Að vera allra vinur er til tjóns, en til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Orðskviðirnir 18:24; Efesusbréfið 4:32.
Getur þú, af þessari stuttu athugun, séð hvers vegna vottar Jehóva álíta Biblíuna sitja fullkomnar meginreglur til leiðsagnar í lífinu? Margir gera það. Sú var til dæmis niðurstaða manns að lokinni rannsókn á Biblíunni:
„Mér finnst Biblían og heilræði hennar miklu hagnýtari og langtum betri en nokkuð sem ég hef nokkurn tíma numið í háskóla. Enda þótt ég starfi sem ráðgjafi við menntaskóla og hafi bæði B.A. og Magistersgráðu og hafi lesið mikinn fjölda bóka um geðheilbrigði og sálfræði, uppgötvaði ég að heilræði Biblíunnar um atriði svo sem farsælt hjónaband, það að koma í veg fyrir unglingaafbrot og hvernig megi eignast og eiga vini, eru miklum mun betri en allt sem ég hef lesið eða numið í háskóla.“
Hvers vegna véfengja þá margir að Biblían sé heilsteypt og alger? Hjá sumum er orsökin sú að þeir hafa ekki kynnt sér staðreyndir nægilega vel. Hjá öðrum getur orsökin verið dulin löngun til að skjóta sér undan ábyrgð. Því er mikilvægt að hlýða ráði Páls til Tímóteusar: „Varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast . . . mótsagnir hinna rangnefndu þekkingar, sem nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21.
Menn munu halda áfram að gera fornleifauppgötvanir, og sumar kunna að auka við skilning okkar á biblíusögunni. Engin ein uppgötvun getur þó sannað eða afsannað sannsögli Biblíunnar. Biblían stendur á eigin verðleikum. Vitanlega verðum við sjálf að ákveða hvort við trúum því sem Páll skrifaði: „En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.“ (Galatabréfið 1:8) Vottar Jehóva hafa ákveðið sig. Í þeirra augum er Biblían heil og alger.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um áreiðanleika helgirita safns Hebresku ritninganna og kristnu grísku ritninganna er að finna í bókinni „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial,“ bls. 298-319, útgefin af Watch Tower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Innskot á blaðsíðu 25]
Hafa gnostíka guðspjöllin í raun að geyma leynd orð Jesú?
[Rammi á blaðsíðu 27]
Yfirlýstur tilgangur Guðs
Hvers vegna við erum hér
Til að sjá um paradís á jörð; hlýða og tilbiðja Jehóva Guð; elska náungann. — 1. Mósebók 1:28; Prédikarinn 12:13; Lúkas 10:27.
Hvert við förum
Lifum eilíflega við fullkomna heilsu í friðsælli paradís á jörð; látnir ástvinir sameinast okkur. — Opinberunarbókin 20:12, 13; 21:3, 4.
Hvernig Guð mun gera þetta
Réttlát stjórn í höndum Krists mun losa jörðina við alla illsku og reisa upp dauða. — Lúkas 1:32, 33; Jóhannes 11:25; Opinberunarbókin 11:17, 18.
[Tafla á blaðsíðu 26]
Samanburður á kenningum gnostíka og Biblíunnar
GNOSTÍKAR BIBLÍAN
Jehóva er óæðri vera. Jehóva er hinn eini sanni Guð sem
Ber að hafna. ber að dýrka. — Jóhannes 17:3;
Upprisan er ekki raunveruleg, Upprisan er raunveruleg, dauðir
aðeins táknræn fyrir stund munu vakna til lífs. — Jóhannes 5:28, 29; 11:11-45.
upplýsingar.
Hjálpræðið veitist aðeins Hjálpræði veitist aðeins vegna
vegna sjálfsþekkingar. vegna fórnar Krists. — Matteus 20:28;
Höggormurinn í Eden er Satan er fyrsti lygarinn og
frumregla guðlegrar visku. morðinginn — Jóhannes 8:44;
Eva var lífgjafinn, Jehóva er lífgjafinn og
fræðari Adams. fræðari Adams. — Matteus 19:4;
Satan er höfundur Jehóva er höfundur hjónabands
hjónabands og getnaðar. og blessaði fjölgun mannkyns.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 24]
Ljósmynd: Institute for Antiquity and Christianity í Claremont í Kaliforníu í Bandaríkjunum.