Sjónarmið Biblíunnar
Af hverju stafar hinn öri vöxtur hryðjuverka?
Jafnvel þótt þið verðið að srengja hálft meginlandið í loft upp og úthella hafsjó af blóði til að afmá grimmdarverk, skuluð þið ekkert samviskubit hafa út af því.“ — Karl Heinzen, þýskur byltingarmaður, 1809-80.
BÆKUR og aðrir muni þeytust skyndilega út um allt þegar sprengja sprakk í stórverslun í Dortmund í Þýskalandi. Átta viðskiptavinir særðust, sumir alvarlega. Enn eitt níðingsverk pólitískra öfgamanna? Nei. „Þetta var bara grín,“ sagði tvítugur maður sem hnepptur var í gæsluvarðhald skömmu síðar. En verknaður hans var ekkert síður hryðjuverk þótt pólitískar orsakir lægju ekki að baki.
Á aðeins níu dögum — frá 28. febrúar til 8. mars 1985 — höfðu Norður-Írland, Líbanon, Spánn og Sambands lyðveldið Þyskaland séð blóðuga hönd hryðjuverkanna leggja í valinn 72 einstaklinga og særa 245. Og hryðjuverkamenn hafa haldið voðaverkum sínum óslitið áfram síðan, með tilheyrandi ógn og skelfingu.
Hvers vegna grípur fólk í siðmenntuðum heimi til ofbeldis í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum? Verður nokkurn tíma hægt að binda enda á hryðjuverk? Biblían gefur trúverðug svör.
Hvers vegna hryðjuverk?
„Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, . . . Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.“ „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ — Sálmur 37:1, 8; Prédikarinn 7:7.
Þegar stjórnvöld láta æ ofan í æ hjá líða eða mistekst að ráða bug á vandamálum svo sem ófriði, ófullnægjandi ytri aðbúnaði eða félagslegu eða efnahagslegu ranglæti, þegar þau leyfa eða jafnvel hvetja til kúgunar og misréttis, er skiljanlegt að fólki geti hitna í hamsi. Það hugsar gjarnan með sér ‚Hver á að gera það ef ekki ég?‘
Stundum geta vonbrigði jafnvel gert „vitran mann að heimskingja.“ Sá sem tekur þátt í friðsamlegum mótmælaaðgerðum telur sig ef til vill vitran með því að ætla aðeins að andæfa með friðsamlegum hætti. En slíkt andóf getur á örskammri stundu magnast upp í ofbeldisverk! Lítum til dæmis á afríkuland þar sem mönnum er mjög mismunað eftir kynþáttum og efnahagur þeirra skiptist mjög í tvö horn. Það sem hófst með friðsamlegum mótmælagöngum er nú orðið að herskárri andstöðu. „Núna, eftir aldarfjórðungs baráttu, og þrátt fyrir loforð nýverið um umbætur,“ segir tímaritið Time, „ræður ofbeldið enn lögum og lofum í þessu sundraða landi.“
„Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.“ — Prédikarinn 8:11.
Ljóst er að það er erfitt að taka höndum þá sem brotlegir eru og láta þá svara til saka. Sums staðar sýna dómsstólar allt of mikla linkind þeim sem ákærðir eru fyrir lagabrot. Við það má bæta miklu vinnuálagi dómstólanna sem hindrar yfirvöld í að fullnægja „dómi fyir verkum illskunnar . . . þegar í stað“ og þar með eru komin upp skilyrði fyrir því að brotamönnum ‚svelli móður til þess að gjöra það sem illt er.‘ Þar eð stjórnvöld hafa ekki einu sinni fundið hentuga leið til að berjast gegn „venjulegum afbrotum“ — og þaðan af síður hryðjuverkum á alþjóðavettvangi — er hætt til að margir freistist til að reyna að komast upp með lögleysi.
En hvers vegna er svona ör vöxtur núna?
„Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, . . . vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, . . . taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“ — 1. Tímóteusarbréf 3:1-3.
Tímatal Biblíunnar og uppfylling spádóma hennar gefa til kynna að okkar kynslóð lifi hina ‚síðustu daga‘ sem einkennast af ‚örðugum tíðum.‘ Álítur þú ekki að þeir sem lýsingin hér að ofan á við séu líklegir til að gerast hryðjuverkamenn? Úr því að þeim hefur farið fjölgandi eftir því sem liðið hefur á hina ‚síðustu daga,‘ ætti ekki að koma okkur á óvart að ofbeldi skuli teygja sig inn í sérhvern kima mannfélagsins.
„Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.“ „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Manns sonarins.“ — 1. Mósebók 6:11, 13; Matteus 24:37.
Á dögum Nóá áttu andasynir Guðs, sem höfðu gert sig að illum öndum, verulegan þátt í að skapa heim fullan ofbeldi og glæpaverkum. (1. Mósebók 6:1-5) Þessar illu andaverur geta ekki lengur myndað sér líkama af holdi, til að hafa bein áhrif á mannkynið, eins og þær gerðu þá. En hinar óbeinu, ósynilegu árásir þeirra núna eru ekki síður bannvænar.
Núna er ‚koma hins dýrlega gerða Manns sonar,‘ Jesú Krists, orðin að veruleika og við getum búist við að heimurinn sé blóði litaður af völdum sams konar ofbeldis. Við sjáum með eigin augum „lögleysi magnast“ eins og Jesús spáði. (Matteus 24:12) Orsökin er sú að honum „sem heitir djöfull og Satan . . . [hefur verið] varpað niður á jörðina.“ Afleiðingarnar eru þessar: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stíginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:7-12) Er ekki hér fundin höfuðorsök þess að hryðjuverk færast meira í aukanna nú en nokkru sinni fyrr?
Fæðingarhríðir
Jesús spáði ýmsum atburðum sem verða myndu á umbreytingartímabilinu frá því að ríki hans hefði verið stofnsett þar til hann gereyddi þessu óguðlega heimskerfi. (Matteus 24; Markús 13; Lúkas 21) Hann sagði, eins og það er orðað í Markúsi 13:8, að þá myndu verða ‚fæðingarhríðir.‘ Eins og bókstaflegar fæðingarhríðir verða tíðari og öflugri eftir því sem nær dregur barnsfæðingu, eins myndu þær hríðir, sem Jesús hvað myndu vera tákn hinna ‚síðustu daga,‘ aukast að fjölda og afli eftir því sem nær dragi stjórn Krists.
Ekki er því undarlegt að ‚hríðir‘ hryðjuverkanna færist í aukanna. Það getur komið óupplýstu fólki til að „gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina,“ eins og Jesús spáði. Svo er þó ekki um þá sem skilja þýðingu eftirfarandi orða hans: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og liftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar [meðal annars frá hryðjuverkum] er í nánd.“ — Lúkas 21:26, 28.
[Innskot á blaðsíðu 28]
Þegar stjórnvöld taka ekki á vandamálum getur fólki hitnað í hamsi.
[Innskot á blaðsíðu 29]
Á dögum Nóa áttu illir andar verulegan þátt í að fylla heiminn ofbeldi.