Er framtíðin skrifuð í stjörnurnar?
Það er októbermorgunn í Forn-Babýlon. Efst af háum stallapíramída kemur prestur auga á þýðingarmikið stjörnumerki við sjóndeildarhring í austri. Sporðdrekamerkið hefur sýnt sig skamma stund áður en það hverfur með vaxandi dagsbirtu.
FYRIR hina hjátrúarfullu Babýloníumenn var þetta mjög þýðingarmikið. Stjörnuskoðarar þeirra höfðu lengi veitt því eftirtekt að ákveðin stjörnusamstæða virtist líkjast sporðdreka með stóran, sveigðan hala. Hún var því nefnd girtab eða sporðdreki. Þeir ímynduðu sér að þessi stjörnusamstæða hefði raunverulega eiginleika sporðdrekans. Með því að sporðdrekinn er náttdýr virtist sporðdrekamerkið hæfandi tákn myrkursins. Að það skyldi sjást skamma stund við dögun í október ár hvert var merki þess að vetur væri í nánd.
Í bók sinni The Truth About Astrology (Sannleikurinn um stjörnuspekina) segir dr. Michael Gauquelin: „Þeir fluttu jarðneskan sporðdreka upp í himininn, og hann átti síðan að hafa áhrif á þá sem fæddir voru undir því stjörnumerki. Þess konar umhverfingu er beitt á sviði stjörnuspáfræðinnar enn þann dag í dag. Nútímalegar kennslubækur segja að þegar sólin gangi í sporðdrekamerki um svipað leyti og barn fæðist gefi hún þessu nýfædda barni suma af eiginleikum sporðdrekans sem er hættulegt, árásargjarnt og hugað skordýr [áttfætla] með ógnvekjandi eiturbrodd.“
Er þetta vísindalegt?
Sólin kemur ekki lengur upp í sporðdrekamerki í októbermánuði. Í aldanna rás hefur afstaða jarðar til stjörnumerkjanna smám saman breyst. Núna gengur sólin í vogarmerki (á latínu libra) sem er sagt hafa í för með sér eiginleika svo sem persónutöfra og frið. Býsna ólíkt þeim eiginleikum sem eiga að fylgja sporðdrekamerkinu!
Þótt stjörnuspekingar Austurlanda hafi tekið tillit til þessara breytinga hafa fæstir starfsbræðra þeirra á Vesturlöndum gert það. Þeir byggja spár sínar á afstöðu himintungla eins og hún var fyrir um það bil 2000 árum. Dr. H. J. Eysenck og dr. D. K. B. Nias segja: „Ef stjörnuspáfræðingar Vesturlanda fara með rétt mál í einhverju ákveðnu tilviki hafa stjörnuspáfræðingar Austurlanda á röngu að standa og öfugt. Samt sem áður er fullyrt af beggja hálfu að frábær árangur náist!“
Þetta atriði eitt sér dregur stórlega í efa að stjörnuspáfræðinni sé treystandi. En margt fleira kemur þar til. Sálfræðingur gerði athugun á stofnun og slitum hjúskapar sem náði til 3456 hjóna. Fann hann eitthvert samhengi milli þess hvort stjörnumerkin áttu saman eða ekki og hins hversu traust hjónabandið var? Tímaritið Science 84 skýrir svo frá: „Fólk fætt í stjörnumerkjum, sem áttu ekki saman, giftist — og skildi — jafnoft og fólk fætt í merkjum sem áttu saman.
Stjörnuspekingarnir koma fram með þau mótrök að merkið, sem sólin gengur í, hafi eitt sér litla þýðingu og verði að skoðast í samhengi við áhrif reikistjarnanna. En það hefur líka vandamál í för með sér því að Babýloníumenn trúðu aðeins á fimm reikistjörnuguði — Merkuríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Stjörnusjónaukinn sýndi mönnum svo að reikistjörnurnar voru þremur fleiri — Úranus, Neptúnus og Plútó. Þessi staðreynd hefur valdið nokkrum ruglingi meðal stjörnuspáfræðinga. „Sumir stjörnuspekingar,“ segir Louis MacNeice í bók sinni Astrology (Stjörnuspáfræði), „hafa notað þetta sem afsökun fyrir ónákvæmni forvera sinna; en aðrir . . . hafa haldið því fram að þessar nýju reikistjörnur gætu ekki haft áhrif á mennina því að þær væru ósýnilegar með berum augum.“ Flestir stjörnuspekingar Austurlanda láta sem þessar fjarlægu reikistjörnur séu ekki til, en starfsbræður þeirra á Vesturlöndum gera mikið úr þýðingu þeirra.
Sú stund sem stjörnuspákort einstaklings er miðuð við vekur líka ýmsar spurningar. Flestir stjörnuspáfræðingar miða við fæðingarstund. En lögmál erfðafræðinnar segja að erfðaeinkenni gangi frá foreldrum til afkvæmis við getnað, ekki fæðingu. Samkvæmt bókinni Astrology: Science or Superstition? (Stjörnuspáfræði — vísindi eða hjátrú?) segir að hinn forni stjörnuspekingur Ptolomeus hafi „sneitt lipurlega fram hjá þessu með því að fullyrða, að fæðing ætti sér stað undir sama stjörnumerki og ráðið hafi ríkjum við getnað, þótt ekki sé nokkur minnsta ástæða til að ætla að svo sé.“
Vísindamenn láta í sér heyra
Hinn vaxandi áhugi manna á stjörnuspeki hefur verið fjölmörgum vísindamönnum áhyggjuefni. Árið 1975 gaf fjöldi vísindamanna, þeirra á meðal 19 Nóbelsverðlaunahafar, frá sér yfirlýsingu sem bar titilinn „Andmæli gegn stjörnuspeki — yfirlýsing 192 kunnra vísindamanna.“ Þar sagði meðal annars:
„Til forna litu menn . . . á himintunglin sem bústaði guðanna eða fyrirboða frá þeim, og töldu því náið samhengi milli þeirra og atburða hér á jörðinni. Þeir gerðu sér enga grein fyrir hinni miklu fjarlægð reikistjarna og fastastjarna frá jörðu. Nú er bæði unnt og búið að reikna þessar fjarlægðir, og er því ljóst hve óendanlega lítið aðdráttarafl og önnur áhrif hinna fjarlægu reikistjarna og enn fjarlægari fastastjarna eru. Það er hreinn misskilningur að ímynda sér að áhrif stjarna og reikistjarna á fæðingarstund geti á nokkurn hátt mótað framtíð okkar.“
Athyglisvert er þó að einn hópur manna til forna þurfti ekki á vísindum okkar tíma að halda til að gera sér grein fyrir að ekkert mark væri takandi á stjörnuspám. Fyrir meira en 2500 árum sagði Jehóva Guð Ísraelsþjóðinni: „Lærið ekki háttu þjóðanna og hræðist ekki himintáknin af því að þjóðirnar eru hræddar við þau; því að siðir þjóðanna eru hjátrú.“ (Jeremía 10:2, 3, Byington.) Íslenska biblían frá 1981 orðar það þannig: „Himintáknin . . . eru hégómi.“ Tákn stjörnuspáfræðinnar eru jafn-léttvæg og hégómi eða ryk sem við blásum fyrirhafnarlítið burt.
‚En hvaða máli skiptir það þótt stjörnuspár eigi sér ekki stoð í vísindum?‘ andmæla sumir. ‚Má ekki bara líta á þær sem skaðlausa skemmtun?‘
[Innskot á blaðsíðu 5]
„Nútímalegar kennslubækur segja að þegar sólin gangi í sporðdrekamerki um svipað leyti og barn fæðist gefi hún þessu nýfædda barni suma af eiginleikum sporðdrekans sem er hættulegt, árásargjarnt og hugað skordýr með ógnvekjandi eiturbrodd.“
[Rammagrein á blaðsíðu 5]
Hve fjarlægar eru stjörnurnar?
Stjörnuskoðarar fortíðar héldu að stjörnurnar hlytu að vera mjög nálægar jörð — í mesta lagi í nokkurra kílómetra fjarlægð — og gætu því haft mjög sterk áhrif á líf manna. Með tilurð stjörnusjónaukans varð ljóst að svo gat tæpast verið, því að í öflugum sjónauka voru stjörnurnar eftir sem áður litlir ljósdeplar.
Á fjórða tug nítjándu aldar tókst þýska stjörnufræðingnum Friedrich Bessel að finna upp aðferð til að reikna út hve fjarlægar sumar þessara stjarna væru. Með einfaldri hornafræði tókst honum að reikna út að stjarna, sem nefnd er 61 cygni, væri í meira en tíu ljósára fjarlægð! (Ljóshraðinn nemur um 300.000 kílómetrum á sekúndu.) 61 cygni er þó ein af hinum nálægari fastastjörnum!
Þótt stjörnurnar í ákveðnu stjörnumerki virðist nálægar hver annarri getur fjarlægðin milli þeirra numið hundruðum ljósára! „Það er hrein tilviljun,“ segir í bókinni Astrology: Science or Superstition?, „að frá jörðinni séð virðast þær vera í þyrpingu.“ Þykir þér líklegt, með þetta í huga, að stjörnumerki svo sem sporðdrekamerkið geti haft áhrif á líf þitt?
[Mynd á blaðsíðu 4]
Babýlonskur steinn með lágmyndum, geymdur í franska þjóðminjasafninu. Á honum má sjá mynd sporðdrekamerkisins.