Hraðar hendur á norðurslóð
Eftir fréttaritara „Vaknið!“ í Noregi
„BARA stórkostlegt. Það er eina orðið sem við finnum til að lýsa því sem vottar Jehóva gerðu um helgina.“
Þannig hóf norska dagblaðið Finnmarken grein um atburð sem átti sér stað síðastliðið sumar í smábænum Kirkenes í Norður-Noregi. Sá atburður var bygging Ríkissalar eða samkomusalar fyrir söfnuð votta Jehóva þar í bæ. Hvað var svona stórkostlegt við þann atburð?
Ríkissalurinn, sem er 210 fermetrar að grunnfleti og tekur um hundrað manns í sæti, var reistur á þrem dögum. Yfir 200 sjálfboðaliðar frá fimm löndum unnu verkið. Þessa byggingu þurfti að vanda vel og einangra rækilega því að Kirkenes liggur á köldum stað um 350 kílómetra norður af heimskautsbaug, þar sem mætast landamæri Noregs, Finnlands og Sovétríkjanna. En hver voru tildrög þessarar framkvæmdar?
Það hófst með því að lítill söfnuður, um 30 manns, spurðist fyrir um það hjá yfirvöldum hvort hægt væri að fá lóð. Í fyrstu fékk söfnuðurinn það svar að engin lóð væri fáanleg til slíks, en þar eð yfirvöld voru hlynnt þessari framkvæmd breyttu þau skipulagi heils bæjarhverfis þannig að hægt væri að byggja þar samkomuhús og annað slíkt. Ákveðið var að hin þriggja daga framkvæmd skyldi eiga sé stað frá föstudeginum 27. júní til sunnudagsins 29. júní 1986.
Alþjóðlegt samstarf
Búið var að steypa sökklana fyrirfram og kvöldið áður en verkið skyldi hefjast lá allt byggingarefnið tilbúið á staðnum. En hvað um verkamennina? Auk safnaðarins í Kirkenes komu vottar víða að til að hjálpa. Heilar fjölskyldur komu akandi á eigin bifreiðum með hjólhýsi í eftirdragi. Fullur langferðabíll sjálfboðaliða kom alla leiðina frá Osló. Í honum voru vottar frá Danmörku, Bandaríkjunum og Kanada. Frá Finnlandi kom langferðabíll með 44 sjálfboðaliða. Alls voru yfir 200 manns saman komnir þar.
Á fimmtudagskvöld var öllum sjálfboðaliðunum safnað saman í íþróttahús þar í grenndinni, sem söfnuðurinn hafði leigt meðan framkvæmdin skyldi fara fram, þar sem veittar voru upplýsingar um bygginguna. Þær voru þýddar jafnhraðan á finnsku og ensku. Menn fundu þegar til hins kærleiksríka samstarfsanda sem átti eftir að einkenna allt verkið.
Á föstudagsmorgun klukka sjö var rætt um biblíutexta dagsins bæði á norsku og finnsku. Að lokinni bæn og morgunverði settu allir sig í stellingar til að hefja vinnuna. Á slaginu átta heyrðust fyrstu hamarshöggin. Klukkan 9:45 var búið að slá upp grind fimm veggja af sex. Þá var farið að reisa vinnupalla. Klukkustund síðar var fyrsta þaksperran komin á sinn stað.
Um morgunin hafði nágranni veitt athygli nokkru fjölmenni fyrir utan gluggann hjá sér. Hann gekk fram í eldhús, lagaði sér kaffibolla og fékk sér brauðsneið, gekk aftur út að glugganum og nánast missti bollann úr höndum sér þegar hann sá að byrjuð var að rísa bygging þar.
Verkinu miðaði hratt undir stjórn iðnaðarmanna sem hver hafði umsjón með ákveðnu verki. Sumir unnu fram til klukkan eitt um nóttina til að ljúka við að leggja þakplöturnar. Svona norðarlega sest sólin ekki á þessum tíma árs þannig að vel bjart var til vinnu. Búið var að klæða veggi og loft að innan með gifsplötum.
Með táknmáli var hægt að leysa flesta tungumálaerfiðleika. Sjálfboðaliðarnir uppgötvuðu að hægt var að segja ótrúlega margt með þeim hætti. Þegar táknmálið hrökk ekki til túlkuðu finnsku bræðurnir sem kunnu ensku eða sænsku. Það styrkti einingu þessara samverkamanna að þeir skyldu geta yfirstigið tungumálamúrinn með þessum hætti.
Hjálpsamir bæjarbúar
Hjálpsamir bæjarbúar gerðu sitt til að greiða gang verksins. Þegar vottarnir spurðust fyrir hjá timburverslun og raflagnaefnisverslun hvort hægt væri að fá opnað fyrir sig yfir helgina, ef þá vanhagaði um eitthvað, voru þeim hreinlega afhentir lyklar og sagt að skrifa niður allt sem þeir tækju og skila því sem þeir ekki notuðu.
Á laugardagskvöld var garðyrkjustjóri bæjarins spurður hvort hægt væri að kaupa blóm fyrir blómabeðin. Þótt hann væri með gesti í heimsókn brá hann sér á byggingarstað — í jakkafötum og með bindi — og gróðursetti blómin sjálfur. „Þetta er gjöf bæjarfélagsins til hússins,“ sagði hann.
Rafmagnseftirlitsmaðurinn kom á laugardag. Hann gerði verkamennina forviða með því að spyrja hvort hann mætti koma daginn eftir til að tengja inntakið. Venjulega tekur það nokkrar vikur að fá slíkt gert, og fram til þessa hafði það aldrei verið gert á laugardegi. Eftir að straumur var kominn á og vottarnir höfðu þakkað starfsmönnum rafmagnsveitunnar fyrir að koma sagði eftirlitsmaðurinnn: „Ég hefði komið klukkan fimm í morgun ef þurft hefði. Sá maður er ekki með öllum mjalla sem vill ekki hjálpa við verk eins og þetta. Svona löguðu kynnist maður aðeins einu sinni á ævinni.“
Verkinu lokið
Þegar sunnudagur rann upp var húsinu nánast lokið að utan og búið að gróðursetja trén. Klukkan níu að morgni var sáð í grasflötina. Innanhúss var málað, veggfóðrað, lagðir gólfdúkar og teppi og unnið að ýmsum öðrum frágangi. Dagblað sagði þetta um það hversu snyrtilegt var á byggingarstaðnum: „Við vitum öll hvernig byggingarstaðir líta út — þar liggur plast, viðarbútar og rusl á víð og dreif. En þegar vottar Jehóva voru að reisa Ríkissalinn sinn sást ekki einn einasti viðarbútur eða plast liggjandi í reiðileysi.“
Klukkan sex að kvöldi var Ríkissalurinn tilbúinn, að undanskildum smáfrágangi við pípulagnir og raflagnir. Auk samkomusalar eru í húsinu herbergi til ýmissa nota, bókasafn, geymsla, anddyri og snyrtiherbergi. Klukkan sjö að kvöldi var fyrsta samkoman haldin að viðstöddum 250 gestum. Fram fór biblíunám byggt á grein í Varðturninum og sýnt myndband af gangi verksins. Allir létu í ljós ánægju sína yfir að hafa mátt leggja hönd á plóginn við að hjálpa kristnum bræðrum sínum að byggja tilbeiðslustað á svona skömmum tíma á norðurslóð.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Unnið að byggingu hússins á föstudag og laugardag.