Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.10. bls. 17-20
  • Þegar staðreynd er ekki staðreynd

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þegar staðreynd er ekki staðreynd
  • Vaknið! – 1987
  • Svipað efni
  • Stökkbreytingar – undirstaða þróunar?
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Þróunarkenningin — ranghugmyndir og staðreyndir
    Var lífið skapað?
  • Er þróun staðreynd?
    Vaknið! – 2006
  • Ágreiningur um þróunarkenninguna – hvers vegna?
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
Sjá meira
Vaknið! – 1987
g87 8.10. bls. 17-20

Þegar staðreynd er ekki staðreynd

Staðreynd er það sem hafið er yfir allan vafa, eitthvað raunverulegt, eitthvað sem er og er sannreynt.

Kenning er skoðun eða fullyrðing, túlkun veruleikans sem gengið er út frá í röksemdafærslu, án þess þó að endanleg sönnun liggi fyrir henni. Þó kemur fyrir að kenning sé haldið fram sem staðreynd.

Kenningin um þróun lífsins heyrir til síðasttalda hópnum.

ÞANN 30. september 1986 birti dagblaðið The New York Times grein eftir Irving Kristol, prófessor við New York-háskóla. Þar hélt hann því fram að væri þróunarkenningin kennd í skólum sem kenning, eins og hún er, í stað þess að vera kennd sem staðreynd, sem hún er ekki, væri ekki í gangi sú deila sem nú stendur milli stuðningsmanna þróunarkenningarinnar og sköpunarhyggjunnar. Kristol sagði: „Lítill vafi leikur á að það er þessi skoðanahroki í nafni vísinda sem hefur valdið hinum harkalegu viðbrögðum frá trúarlegu hliðinni.“

„Þótt þessari kenningu sé yfirleitt haldið fram sem rótgrónum sannleika vísindanna er hún ekkert slíkt. Til þess er hún allt of götótt,“ sagði Kristol. „Jarðfræðin hefur ekki getað fært okkur sem sönnunargagn þá samfelldu röð millitegunda sem búast mætti við. Tilraunir á rannsóknastofum sýna auk þess að það er nánast ómögulegt að ein tegund þróist yfir í aðra, jafnvel þótt við hjálpum til með því að stjórna æxlun og valda einhverjum stökkbreytingum. . . . Hægfara breyting einnar tegundar í aðra er líffræðitilgáta, ekki líffræðistaðreynd.“

Greinin snart viðkvæman blett hjá Stephen Jay Gould, prófessor við Harvard-háskóla, sem er ákafur talsmaður þróunarkenningarinnar, ekki sem kenningar heldur sem staðreyndar. Svar hans við grein Kristols birtist í útbreiddu vísindatímariti, Discover, í janúar 1987. Þar birtist ljóslifandi sá skoðanahroki sem Kristol harmaði.

Í ritgerð sinni endurtók Gould margsinnis þá fullyrðingu sína að þróun lífsins sé staðreynd. Hér fylgja fáein dæmi: Darwin sýndi fram á að „þróun lífsins sé staðreynd.“ „Sú staðreynd að lífið hafi þróast er jafnrækilega sönnuð og allt annað í vísindum (jafnörugg og að jörðin gengur um sól).“ Um þær mundir sem Darwin lést höfðu „nánast allir hugsandi menn viðurkennt þróunarkenninguna sem sannleika.“ „Þróun lífsins er jafnrækilega sönnuð og sérhver önnur vísindaleg staðreynd (ég mun færa rök fyrir því rétt bráðum).“ „Sú staðreynd að lífið hafi þróast er byggð á ríkulegum gögnum sem í grófum dráttum skiptast í þrjá meginflokka.“

Fyrstur þessara ‚þriggja meginflokka ríkulegra gagna,‘ sem Gould nefnir, er „bein sönnun“ fyrir þróun sem sjá má í smábreytingum á náttfiðrildum, bananaflugum og gerlum. En slík frávik innan tegundar eiga ekkert skylt við þróunarferli sem á að geta breytt einni tegund í aðra. Gould dásamar Theodosius Dobzhansky sem „mesta þróunarfræðing okkar aldar,“ en það er nú reyndar Dobzhansky sem vísar áðurnefndum rökum Goulds á bug.

Varðandi bananaflugurnar í röksemdafærslu Goulds segir Dobzhansky að stökkbreytingar valdi „venjulega því að líffærum fari aftur, þau gefi sig eða hverfi. . . . Margar stökkbreytingar eru reyndar banvænar. Stökkbrigði [stökkbreyttir einstaklingar] með sama lífsþrótt og venjuleg fluga eru í minnihluta, og stökkbreytingar, sem eru til verulegra bóta í eðlilegu umhverfi, eru óþekktar.“

Tímaritið Science, opinbert málgagn hins ameríska félags til eflingar vísindum, rak einnig flein í röksemdafærslu Goulds: „Tegundirnar geta að vísu tekið lítilsháttar breytingum á líkamseinkennum eða öðrum séreinkennum, en þær eru takmarkaðar og til langs tíma litið sveiflur um meðalgildi.“ Þessum frávikum innan tegundar, bæði hjá jurtum og dýrum, má líkja við það að hrist sé krukka með baunum í — frávikin haldast innan þröngra marka alveg eins og baunirnar haldast í krukkunni. Eins og sköpunarsaga Biblíunnar segir geta orðið smávægileg frávik innan tegundanna hjá jurtum og dýrum, en þeim eru þó sett þau mörk að tímgast „hvert eftir sinni tegund.“ — 1. Mósebók 1:12, 21, 24, 25.

Annar meginflokkur ‚sönnunargagna‘ af þeim þrem, sem Gould nefnir, eru stórar stökkbreytingar: „Við höfum beina sönnun fyrir stórum breytingum, byggða á samfelldum röðum í steingervingasögunni.“ Með því að halda fram að breytingarnar frá einni tegund til annarrar hafi farið fram í fáeinum stórum stökkum kemst Gould hjá því að skýra hvers vegna millitegundirnar vantar í steingervingasöguna. En með því að fara úr smáum breytingum yfir í stór stökk fer hann úr öskunni í eldinn.

Kristol segir um þetta: „Við þekkjum engin slík ‚risastökk‘ sem skapa nýjar tegundir, því að flestar stökkbreytingar arfberanna draga úr líkunum á því að einstaklingurinn lifi af.“ Og „mesti þróunarfræðingur okkar aldar“ að mati Goulds, Theodosius Dobzhansky, tekur í sama streng og Kristol. Orð hans þess efnis að margar stökkbreytingar séu banvænar eiga ekki síst við um umfangsmiklar risastökkbreytingar. Þau ummæli eru einnig eftirtektarverð að ‚stökkbreytingar, sem eru til verulegra bóta, séu óþekktar.‘ Með því að sönnunargögn skortir fyrir því að slík risastökk hafi átt sér stað grípur Gould til hinna gömlu og gatslitnu undanbragða þróunarsinnanna: „Steingervingasagan er of ófullkomin.“

Gould slær samt sem áður fram því sem hann kallar „beina sönnun fyrir stórfelldum breytingum.“ Á hann þar við „þróun mannsins í Afríku“ sem hann nefnir eitt „stórkostlegasta dæmið.“ En þróunarfræðingar eru almennt sammála um að það rannsóknasvið sé allt annað en stórkostlegt. Harðar deilur eru háðar um ágæti þeirra gagna, sem þar liggja fyrir, og barist er af hörku um tennur og beinabrot sem þróunarsinnar með auðugt ímyndunarafl breyta í loðna, lotna og brúnamikla apamenn. Enn er Dobzhansky á annarri skoðun en Gould: „Jafnvel þetta tiltölulega nýliðna sögubrot [frá apa til manns] er allt í óvissu; sérfræðinga greinir oft á, bæði um aðalatriði og aukaatriði.“

Síðastur hinna ‚þriggja meginflokka‘ gagna, sem Gould segir vera sönnun fyrir þróun lífsins, eru lík einkenni tegundanna. (Nú er reyndar tilhneiging meðal þróunarfræðinga til að skoða lík einkenni tegundanna ekki sem sönnun fyrir skyldleika þeirra, heldur er í tísku að skoða erfðafræðilega samsvörun sem sönnun fyrir skyldleika, jafnvel í þeim tilfellum þegar líkamseinkenni eru mjög ólík.) Gould nefnir tvö dæmi um skyldleika sem ráða megi af líkum einkennum. Hið fyrra er þetta: „Ef við erum ekki afkomendur ferfætlinga, hvers vegna ber þá líkamsbygging okkar, allt frá hryggjarliðunum til vöðvaskipanar kviðarins, þess menjar að henta betur ferfætlingum?“

Þetta er kynleg staðhæfing. Við getum gengið og hlaupið upprétt á tveim fótum langar vegalengdir og liðið ágætlega bæði í hrygg og kviðvöðvum — nema, auðvitað, við eyðum mestum hluta dags húkandi í stól og reynum aldrei á bak- og kviðvöðva. Þeir sem eru í góðri æfingu geta aftur á móti hlaupið uppi ferfætt dýr, haldið út lengur en þau og í langflestum tilvikum lifað lengur en þau. Við döfnum á tveim fótum; ferfætlingum líður greinilega best á fjórum.

Síðara dæmi Goulds hljóðar svo: „Hvers vegna eru jurtir og dýr á Galapagos svo lík en þó ögn frábrugðin öðrum lífverum í Ekvador, næsta þurrlendi þúsund kílómetrum austar? . . . Hin sameiginlegu einkenni geta einungis þýtt að jurtir og dýr frá Ekvador hafi numið land á Galapagos og síðan breyst vegna eðlilegrar þróunar.“ En hið eina sem ráða má af sameiginlegum einkennum er fjölbreytni innan tegundanna. Finkurnar á Galapagos eru enn sem fyrr finkur.

Gould gerir gys að þeim sem aðhyllast sköpun og segja að „Guð leyfi takmarkaða aðlögun innan hverrar skapaðrar tegundar, en að aldrei sé hægt að breyta ketti í hund.“ Síðan spyr hann: „Hver hefur nokkurn tíma sagt að það væri hægt eða að náttúran gerði það?“ En sjálfur trúir hann á miklu stórkostlegri breytingu. Ef hundur þróaðist af ketti væri einungis eitt spendýr að þróast af öðru spendýri, en Gould segir að „fuglar þróist af risaeðlum.“

Irving Kristol lýkur grein sinni í The New York Times með þessum orðum: „Það hvernig þróunarkenningin er kennd í skólum einkennist mjög af hleypidómum gagnvart guðstrú — því er haldið fram sem ‚sannleika‘ sem er einungis tilgáta. . . . Ef trúaðir kristnir menn fá tryggingu fyrir því að börnin þeirra fái ekki andtrúarlega kennslu, má kannski vona að þeir geti aftur unað sáttir við þessa amerísku hefð [aðskilnað ríkis og kirkju].“

Kristol undirstrikar hve hyggilegur þessi aðskilnaður sé þegar hann segir: „Guðfræðiatriði geta mjög auðveldlega orðið deiluatriði.“ Það er einmitt það sem „vísindaleg sköpunarhyggja,“ sem sumir sköpunarsinnar aðhyllast, myndi verða væri hún kennd í skólastofunni. Ýmsar kenningar þeirrar stefnu stangast á við Biblíuna, svo sem sú að sköpunardagarnir í 1. Mósebók séu venjulegir sólarhringar, 24 stundir. Hægt er að nota hebreska orðið, sem þýtt er „dagur,“ í merkingunni 12 stundir, 24 stundir, árstíð, ár, þúsund ár eða nokkur þúsund ár, allt eftir sjónarhorni og samhengi. Þannig er það notað í Biblíunni.

Skólastofan er ekki réttur vettvangur til að viðra trúarleg ágreiningsatriði. Og eins og Kristol segir réttilega er hún ekki heldur réttur vettvangur til að kenna þróunartilgátuna sem sé hún sannleikur, úr því að hún er í raun orðin trúaratriði sem styðst einungis við kreddugirni og skoðanahroka.

Gould segir réttilega að „goðsagnir breytist í trúaratriði þegar þær eru endurteknar nógu oft án viðeigandi sannanna.“ Það var þannig sem til urðu þær trúarkreddur sem segja ranglega að Biblían kenni að sálin sé ódauðleg, að óguðlegir kveljist í eilífum vítiseldi eftir dauðann, að Guð sé þrenning, þrjár persónur í einni, og að dagarnir í sköpunarsögu 1. Mósebókar 1. kafla séu 24 stunda langir — og engin þessara hugmynda á sé skjalfesta heimild í Biblíunni.

Og þannig verður líka sá víxlsöngur að ‚þróun lífsins sé staðreynd‘ að trúarsetningu: ‚með því að endurtaka hann nógu oft án viðeigandi sannanna‘ af hálfu vísindanna.

[Innskot á blaðsíðu 18]

„Við þekkjum engin slík ‚risastökk.‘“

[Innskot á blaðsíðu 19]

„Þetta tiltölulega nýliðna sögubrot er allt í óvissu.“

[Innskot á blaðsíðu 20]

Þróunarkenningin er trúaratriði sem styðst einungis við kreddugirni og skoðanahroka.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 19]

‚Fuglar þróast af risaeðlum‘?

Hugleiddu eftirfarandi: Fuglar eru með jafnheitt blóð, skriðdýr ekki; fuglar unga út eggjum sínum, skriðdýr ekki; fuglar hafa fjaðrir, skriðdýr hreisturplötur; fuglar hafa hol bein, skriðdýr gagnheil; fuglar hafa loftkælda vöðva, skriðdýr ekki; fuglar eru með fjórhólfa hjörtu, skriðdýr þríhólfa; fuglar hafa raddfæri til söngs, skriðdýr ekki. Og margt, margt fleira. Gould þykir það hlægilegt að hundur þróist af ketti sem er þó aðeins hænufet miðað við það risastökk að fugl þróist af skriðdýri. En það er Gould sáttur við!

[Myndir á blaðsíðu 17]

Stökkbreyttar bananaflugur eru eftir sem áður bananaflugur þótt vanskapaðar séu.

Eðlileg bananafluga

Stökkbreyttar bananaflugur

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila