Frá lesendum
Þunglyndi
Ég las með nokkurri athygli greinar ykkar „Þunglyndi — þú getur sigrað í baráttunni!“ (Janúar-mars 1988) Meðferð ykkar á efninu er vandvirknisleg og tilvitnanir nákvæmar og nytsamar. En þrátt fyrir afbragðsgóða lýsingu ykkar á þeim sjúkdómseinkennum og tilfinningum, sem þunglyndur maður þekkir, fannst mér megináhersla efnisins vera hvatning til þunglyndra um að „taka sér tak.“ Þeir sem þannig eru settir geta einfaldlega ekki „tekið sér tak,“ óháð því hve mjög þeir reyna . . . Sú hvatning að fólk skuli „berjast“ gegn þunglyndi getur aðeins stuðlað að því að auka óþarfa sektar- og vanmáttarkennd, . . . Ykkur ber ekki að skilja orð mín sem beina gagnrýni heldur sem atriði er ég tel nauðsyn á að undirstrika í viðleitni okkar að skapa andrúmsloft skilnings og viðeigandi umönnunar þunglyndra og fjölskyldna þeirra. Blaðið ykkar gerir mikið gagn í því að koma efninu á framfæri með þeim hætti að það geti hjálpað mörgum að skilja betur eðli og orsakir þunglyndis.
Dr. L., Félagi þunglyndra, Englandi
Við aðhyllumst vissulega ekki þá hugmynd að geðsjúkir skuli einfaldlega „taka sér tak.“ Greinar okkar sýndu fram á að þunglyndi er til á mismunandi stigum og af fjölbreyttum orsökum. Þunglyndi stafar ekki alltaf af hugsunarhætti manna og í alvarlegum tilvikum er læknishjálpar þörf. Rannsóknir hafa þó greinilega sýnt að breyting á hugsunarhætti er oft nauðsynleg til að sigrast fyllilega á þunglyndi. Þótt rétt sé að þunglyndur einstaklingur kunni að þurfa hjálp til að breyta hugsunarhætti sínum getur fólk á vissum stigum þunglyndis gert margt til að koma í veg fyrir að ástandið versni, með því að gera þær breytingar sem stungið er upp á. Tugir fólks, sem „Vaknið!“ hafði samband við meðan gerð greinanna stóð yfir, gat þess að það hefði fengið varanlega bót með því að breyta um hugsunarhátt. Greinarnar vöktu einfaldlega athygli lesenda okkar á því hvers konar hugsunarháttur gæti annaðhvort stuðlað að vandanum eða hjálpað í baráttunni gegn honum. — Útg.
Greinarnar ykkar um þunglyndi koma alveg á réttu augnabliki. Mér þótti umhugsunarvert að sjá lýsingu á sjálfum mér í sumu sem þar var sagt. Svo árum skiptir hef ég átt í baráttu við minnimáttarkennd og stundum hefur sjálfsvirðing mín hrapað alveg niður í núll. Mestur hluti efnisins lýsti tilfinningum mínum fullkomlega. Mér er ljóst að á sumum sviðum þarf ég að læra að breyta um hugsunarhátt.
S. G., Vestur-Þýskalandi.
Kærar þakkir fyrir greinarnar um þunglyndi. Ég þjáðist af alvarlegu þunglyndi allt frá barnæsku og háði stöðuga baráttu við mannskemmandi hugsanir. Ég var kominn yfir þrítugt þegar í ljós kom við ofnæmisprófun að leysa mætti vandann að verulegu leyti með réttu mataræði. En greinarnar ykkar ollu því að mér varð ljóst í hve miklum mæli neikvæðar hugsanir sóttu enn á mig, rændu mig gleði og komu mér jafnvel til að stuðla að þunglyndi í fari barna minna sökum þess hvernig ég kom fram við þau. Greinin „Sigrað í baráttunni við þunglyndi“ gaf mér von um að hægt sé að takast á við vandann. Ég get þegar séð mjög jákvæðan árangur í fari sjálfs míns og barna minna af því að fara eftir þeim góðu tillögum sem þið gáfuð.
R. G., Bandaríkjunum.