Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.4. bls. 12-16
  • Undursamlega úr garði gerð til að lifa

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Undursamlega úr garði gerð til að lifa
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hringrás blóðsins
  • Neyðarviðbrögð við blóðmissi
  • Ónæmiskerfið
  • Dýrmætasti vökvi í heimi
    Vaknið! – 1991
  • Rauðu blóðkornin eru mikil undrasmíð
    Vaknið! – 2006
  • Raunverulegt gildi blóðs
    Vaknið! – 2007
  • Hver er verðmætasti vökvi veraldar?
    Vaknið! – 2007
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.4. bls. 12-16

Undursamlega úr garði gerð til að lifa

LÍKAMI okkar er búinn furðulegu og sjálfvirku gangvirki til að halda okkur heilbrigðum og lifandi. Við skulum kynna okkur það örlítið á næstu blaðsíðum.

Byrjum á því að skoða varnarkerfi lungnanna. Fyrsti framvörðurinn er barkalokið en það er lítið speldi sem lokar barkanum þegar við kyngjum. Hóstaviðbrögðin er næsta varnarvopn lungnanna og því næst tekur við slímlag á innra byrði barkans. Ryk og önnur aðskotaefni festast í slímlaginu og ótal, smágerð bifhár flytja þau síðan eins og á færibandi burt frá lungunum.

Síðust í varnarkerfi lungnanna eru hvítkorn blóðsins, svonefndar átfrumur. Þær eru eins konar sorphreinsunarmenn sem gleypa skaðlegar, smásæjar agnir sem komast inn í lungun. Svo er þessu varnarkerfi fyrir að þakka að lungun geta haldið áfram að starfa.

Um leið og þú lest þessar línur dregst þindin saman og slaknar á henni til skiptis. Með hverjum samdrætti sogast loft inn í lungun og þegar slaknar á þindinni þrýstist það út. Þessi hreyfing á sér stað um 15 sinnum á mínútu og er stýrt með taktföstum boðum frá stjórnstöð í heilanum.

Athyglisvert er að í fyrstu bók Biblíunnar, sem skrifuð var fyrir 3500 árum, er notað hebreska orðið nefesh um bæði menn og dýr. Orðið merkir bókstaflega „sá sem andar.“a Biblían talar þannig með læknisfræðilegri nákvæmni þegar hún sýnir að andardrátturinn viðheldur lífinu og að bæði menn og dýr myndu deyja skjótlega ef þeir hefðu ekki ‚lífsanda í nösum sér.‘ — 1. Mósebók 1:20, 21, 24, 30; 2:7; 7:22.

Í öðrum fornritum er að finna staðlausar vangaveltur um tilgang öndunarinnar. Grískir og rómverskir heimspekingar héldu til dæmis fram þeirri undarlegu kenningu að öndunin viðhéldi loga er brynni í hjartanu og að þessi innri logi hitaði upp líkamann.

Þessi kenning átti fylgi að fagna allt fram á 16. öld, og það var ekki fyrr en á 20. öldinni að mönnum varð fyllilega ljós tilgangur öndunarinnar. Blóðið drekkur í sig súrefni úr loftinu og flytur það út til þeirra þúsunda milljarða frumna sem líkaminn er samsettur úr. Hver einasta fruma notar súrefni til orkumyndunar. Alls staðar á jörðinni er hið dýrmæta súrefni í loftinu til að þjóna þessum lífsnauðsynlega tilgangi. Það er eins og kennari til forna sagði hópi grískra heimspekinga er á hann hlýddu: „Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, . . . gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ — Postulasagan 17:24, 25.

Öndunin gegnir einnig mikilvægu hlutverki í því að halda líkamanum hreinum. Um leið og blóðið fer um lungun skilar það fyrst frá sér koldíoxíði áður en það tekur við nýjum súrefnisskammti. Eftir því sem við hreyfum okkur meira eykst koldíoxíðið í líkamanum. Líkaminn gætir þess þó að frumurnar kafni ekki í sínum eigin úrgangi. Þegar blóðið streymir um heilann nemur hann strax sérhverja aukningu koldíoxíðhlutfallsins. Stjórnstöðin bregst þá samstundis við með því að hraða og dýpka öndunina.

Þótt stjórn öndunarinnar sé sjálfvirk er hægt að stýra henni meðvitað að vissu marki — ekki ósvipað og hægt er að stýra gírskiptingu handvirkt að nokkru leyti á sjálfskiptri bifreið. Þar af leiðandi getum við haldið niðri í okkur andanum þegar við köfum eða erum að reyna að komast út úr herbergi fullu af reyk. Við getum þó ekki haldið niðri í okkur andanum endalaust því að hin sjálfvirka stýring öndunarinnar tekur ráðin af hinni í sömu mund og við missum meðvitund. Þess vegna heldur öndun og súrefnisnám áfram í svefni.

Hringrás blóðsins

Varlega áætlað eru frumur mannslíkamans 75 þúsund milljarðar talsins — tala sem er nánast ofvaxin skilningi okkar; 15 þúsund sinnum hærri en íbúatala jarðar. Til að flytja hverri einustu frumu það súrefni, sem hún þarf á að halda, þarf langtum flóknara og afkastameira flutningakerfi en þekkist í nokkurri nútímastórborg.

Blóðrásarkerfi líkamans gegnir því hlutverki. Blóðið streymir um hjartað, slagæðarnar, bláæðarnar og þéttriðið háræðanet. Þetta er „lokuð hringrás sem er samanlagt um 160.000 kílómetrar,“ segir í bókinni The Human Body. Samkvæmt þeim útreikningi myndu æðar líkamans ná fjórum sinnum í kringum jörðina ef þær væru lagðar enda við enda.

Þetta víðáttumikla æðanet flytur einnig næringarefni sem berast inn í blóðrásina gegnum þarmaveggina. Þannig er öllum líkamanum séð fyrir næringarefnum og súrefni, meira að segja líkamshlutum sem virðast ekki sérlega mikilvægir. Það vaxa um 5 milljónir hára út úr húðinni og fíngerðar æðar tengjast rót hvers einasta. Þessi umhyggja sem sýnd er hverju einasta hári er umhugsunarverð. „Hræðist ekki,“ sagði Jesús við lærisveinana. „Á yður eru jafnvel höfuðhárin talin.“ — Matteus 10:28, 30.

Ætlað er að byggingarefnin, sem berast með blóðrásinni, geri líkamanum kleift að mynda þrjá milljarða nýrra frumna á hverri mínútu. Hárvöxtur er afleiðing af því að vissar frumur í hársekknum margfaldast. Um leið og gömul húð flagnar af líkamanum eru nýjar húðfrumur að myndast rétt undir yfirborðinu. Um leið og frumur skrapast innan úr þarmaveggjunum myndast nýjar frumur í þeirra stað. Á hverri sekúndu myndast milljónir rauðkorna í beinmergnum!

Að sjálfsögðu verða til ókjör af úrgangsefnum við alla þessa starfsemi. Enn kemur blóðrásin til hjálpar með því að skola burt koldíoxíði og öðrum uppleysanlegum úrgangsefnum. Hvítkorn, sem þrengja sér inn í vefina, gleypa stærri úrgangsagnir svo sem dauðar frumur. Ef sýking verður einhvers staðar í líkamanum safnast þessar sorphreinsunarsveitir þangað í stórum stíl til að vinna verk sitt. Löngu áður en læknavísindin uppgötvuðu þetta lýsti Biblían því í einföldu máli: „Líf líkamans er í blóðinu.“ — 3. Mósebók 17:11, 14.

Neyðarviðbrögð við blóðmissi

Hefur þú nokkurn tíma orðið fyrir meiðslum sem ollu alvarlegum blóðmissi? Verulegur blóðmissir getur verið banvænn. Oftast er honum þó afstýrt með neyðarviðbrögðum sem vísindin kunna enn ekki full skil á.

Þegar æð skaddast dregst hún saman þannig að blóðstreymið um hana minnkar. Næsta stig er það að blóðflögur í nánd við sárið verða límkenndar og byrja að límast saman í kökk. Því næst fara að myndast fíbríntrefjar í sárinu. Ásamt blóðflögunum mynda þær tappa sem lokar sárinu og stemmir bæðinguna.

En hvað gerist ef þessar neyðaraðgerðir duga ekki til? Við stórfellda blæðingu grípur líkaminn til annarra ráða. Agnarsmá skynfæri í slagæðunum nema á augabragði minnstu lækkun blóðþrýstings og senda boð til heilans sem bregst við með því að láta æðarnar dragast saman. Samtímis fyrirskipar heilinn hjartanu að slá hraðar. Ef blæðingin heldur áfram með þeim afleiðingum að heilinn fer sjálfur að finna fyrir blóðskorti eykur hann enn þessi taugaviðbrögð. Hjartslátturinn getur aukist úr 72 slögum á mínútu, sem er venjuleg tíðni, upp í um það bil 200. En hversu árangursrík eru þessi viðbrögð?

Þegar æðarnar dragast saman dregur um leið úr blóðstreymi til flestra líkamshluta. Þegar hjartslátturinn eykst samtímis er haldið uppi nægum blóðþrýstingi. „En slagæðarnar til heilans eru undanþegnar þessum allsherjarsamdrætti,“ segir dr. A. Rendle Short í bók sinni Wonderfully Made. Hið sama er að segja um slagæðarnar sem næra hjartavöðvann. Þannig helst blóðstreymi eðlilegt til þessara mikilvægu líffæra. Að sögn Textbook of Medical Physiology eftir prófessor Arthur Guyton hafa þessi viðbrögð í för með sér „að við þolum um það bil tvöfalt meiri blóðmissi en við þyldum ef þeim væri ekki til að dreifa.“

Meðan þessu fer fram hefst líkaminn handa við að auka rúmmál blóðsins. Dr. Miller segir í bók sinni The Body in Question: „Mikilvægasta forgangsverkefnið er það að bæta upp vökvatapið. Ef blóðmissirinn er nægilega hægfara getur líkaminn gert það sjálfur með því að þynna blóðið. Það gerist á þann hátt að sóttur er vökvi í vefina og sjálfkrafa dregur úr þvagmyndun og kallað er á aukna vatnsdrykkju um munninn.“

Enda þótt dr. Miller aðhyllist blóðgjafir við blóðmissi viðurkennir hann: „Alvarlegasta og skyndilegasta lífshættan er ekki blóðskortur heldur ófullnægjandi vökvamagn. . . . Inngjöf . . . blóðvökvalíkis er viðunandi bráðabirgðalausn á fyrsta stigi meðferðar til að ná upp blóðrúmmálinu með því að þynna það.“ Prófessor Guyton segir: „Ýmiss konar blóðvökvalíki hafa verið fundin upp sem gegna næstum nákvæmlega sama hlutverki í blóðrásinni og blóðvökvinn.“

Líkaminn er líka undir það búinn að bæta úr skorti rauðkorna sem bera súrefni. Í heimildarmyndaflokki í sjónvarpi, sem ber heitið The Living Body, sagði í þætti sem fjallaði um slys: „Til jafnaðar framleiðir beinmergurinn rauðkorn á um það bil 20 prósent afköstum. Það merkir að við getum tuttugfaldað afköstin ef rauðkornaþörfin eykst skyndilega.“

Ef við verðum fyrir slysi megum við vera þakklát fyrir þennan innbyggða neyðarbúnað líkamans. En líkaminn er einnig búinn varnarkerfi sem ver okkur fyrir örverum sem gætu gengið af okkur dauðum.

Ónæmiskerfið

Stundum tekst hættulegum bakteríum eða veirum að komast inn í líkamann og byrja að fjölga sér. Til allrar hamingju er líkaminn búinn öflugu heimavarnarliði — hvítkornum blóðsins — sem ráðast á og eyða innrásarliðinu. En með einhverjum stórkostlegum hætti, sem vísindin hafa enn ekki getað varpað ljósi á, ráðast hvítkornin ekki á heilbrigðar líkamsfrumur.

Ef til vill hefur þú með hjálp sjónvarps séð þessa hæfileikaríku hermenn að verki. Það er stórkostlegt að sjá hvíta blóðfrumu svelgja í sig úrgangsefni en enn þá stórkostlegra að sjá hana rannsaka aðra líkamsfrumu, sem veira hefur náð að sýkja og drepa hana síðan með hjálp starfsbróður síns. Þannig er sýkingin stöðvuð.

Ef hættuleg veira eða önnur örvera er að ráðast inn í líkamann í fyrsta sinn getur það tekið ónæmiskerfið fáeina daga að gera út af við hana. Fyrst þarf að finna réttu eitilfrumuna, en það er sérstök tegund hvítkorna. Líkaminn ræður yfir milljónum eitilfrumna sem hver um sig er fær um að sérsmíða vopn gegn ákveðinni veirutegund.

Þegar rétta eitilfruman er fundin tekur hún að fjölga sér æðislega. Á fáeinum dögum verður blóðrásin morandi af þessum hermönnum sem annaðhvort grípa óvininn traustataki og tortíma honum eða framleiða mótefni sem gerir hann máttvana og merkir hann til tortímingar. Bókin The Body Machine segir: „Mótefnið festir sig við yfirborð veirunnar ekki ósvipað og lykill passar í skrá.“

Ónæmiskerfið hefur annan athyglisverðan eiginleika. Þegar rétta vopnið er fundið leggur ónæmiskerfið það á minnið. Það hefur í för með sér að hægt er að mynda mótefni í skyndingu ef sams konar örvera skyldi gera innrás einhvern tíma síðar. „Sá sem hefur náð sér eftir barnasjúkdóma svo sem mislinga, hettusótt eða hlaupabólu, er venjulega ónæmur fyrir þeim það sem eftir er ævinnar,“ segir í kennslubóinni Elements of Microbiology.

Læknavísindin hafa áorkað miklu eftir að þau lærðu að notfæra sér þessa minnisgáfu ónæmiskerfisins. Með bólusetningum er hægt að láta ónæmiskerfið framleiða mótefni gegn sjúkdómum sem einstaklingurinn hefur aldrei haft áður. Börn eru yfirleitt látin gangast undir vissar ónæmisaðgerðir til að forða þeim frá ýmsum sjúkdómum. Ekki hefur mönnum þó tekist að ráða við alla sjúkdóma enn.

„Aukinn skilningur á starfsemi mótefna kann að leiða til þess að auðveldara verði að ráða við ýmsa sjúkdóma svo sem krabbamein og heymæði,“ segir í bókinni Elements of Microbiology. Bókin bætir við: „Framtíðarrannsóknir ættu að veita okkur betri innsýn í það hvernig hægt sé að viðhalda þrótti ónæmiskerfisins allt fram á elliár og bæta þar með heilsu og lengja líf allra manna.“ En árið 1981, sama ár og þessi kennslubók var gefin út, uppgötvaðist nýr sjúkdómur — eyðni. Sjúkdómurinn ræðst á ónæmiskerfi líkamans og gerir hann varnarlausan gegn ýmsum sjúkdómum.

Mannslíkaminn er greinilega gerður til þess að halda sér lifandi. Á stórkostlegan hátt ver hann, gerir við og endurnýjar sjálfan sig. En þó vantar eitthvað á. Að vísu er mögulegt að fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma, svo sem eyðni, með því að fylgja meginreglum frá Biblíunni. (Postulasagan 15:28, 29; 2. Korintubréf 7:1) En hvernig stendur á því að aðrir sjúkdómar, svo sem krabbamein, skuli ráðast á jafnvel fólk sem gætir heilsu sinnar svo sem best má verða? Var maðurinn skapaður til að lifa eða til að deyja? Þessari spurningu verður svarað í næsta tölublaði Vaknið!

[Neðanmáls]

a Hebreska orðið nefesh er þýtt með ýmsum hætti í mismunandi biblíuþýðingum; stundum sem „sál,“ stundum sem „skepna,“ stundum sem „líf“ o.s.frv. Í New World Translation er það alls staðar þýtt „sál.“

[Skýringamynd á blaðsíðu 12]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Barkalokið er hluti af hinum margþætta búnaði líkamans sem verndar lungun.

Barkalok opið

Barkalok lokað

Barki

Vélinda

[Skýringamynd á blaðsíðu 13]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Þéttriðið æðanet er tengt rót hvers einasta hárs sem vex á líkamanum.

Hársekkur

Æð

[Mynd á blaðsíðu 14]

Líkaminn endurnýjar sjálfan sig með því að framleiða þrjá milljarða frumna á mínútu að því er ætlað er.

Þverskurðarmynd af frumu

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við erum fædd með ónæmiskerfi sem berst gegn sjúkdómum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila