EYÐNI — heimsdrepsótt
SUMIR sérfræðingar á sviði heilbrigðismála telja að eyðni sé við það að verða stórslys á heimsmælikvarða. „Eyðni er ef til vill mesta stórslys okkar tíma á sviði heilbrigðismála,“ var fullyrt í dagblaðinu The New York Times. Dr. William O’Connor, örverulíffræðingur, segir: „Við erum sennilega að fást við mestu plágu sem gengið hefur yfir heiminn.“
Dr. Halfdan Mahler við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina segir: „Við stöndum berskjölduð frammi fyrir mjög alvarlegum heimsfaraldri sem er jafnbanvænn og versti heimsfaraldur sem við þekkjum fram til þessa. . . . Allt sem viðkemur eyðni versnar og versnar.“
Með hverju ári sem líður deyja fleiri og fleiri af völdum eyðni. Innan tíðar mun tala þeirra sennilega margfaldast. Og þannig gæti framhaldið orðið, jafnvel þótt enginn smitaðist framar af eyðniveirunni. Hvers vegna? Vegna þess að geysilegur fjöldi manna er þegar smitaður og veiran fylgir til æviloka þeim sem hafa fengið hana.
Hve margir eru smitaðir nú þegar? Sumir hafa slegið á töluna tíu milljónir um allan heim. Í skýrslunni Aids and the Third World er áætlað að innan skamms „muni 50 til 100 milljónir manna verða smitaðar“ af eyðni.
Þetta mat er byggt á því sem gerst hefur í Afríku, Evrópu og Norður-Ameríku. En eyðni hefur líka náð til Rómönsku-Ameríku og Asíu. Í danska blaðinu Politiken segir: „Hvað mun gerast ef og þegar þessi faraldur nær að brjótast út í alvöru í Asíu og Rómönsku-Ameríku? Það er vægt áætlað að 50-100 milljónir muni smitast.“ Jafnvel þótt þessar tölur væru ýktar leikur enginn vafi á að milljónir manna eru nú þegar smitaðar. Margar milljónir í viðbót eiga eftir að smitast á allra næstu árum.
Þar við bætist að þorri þeirra, sem bera núna í sér eyðniveiruna, vita ekki af því. Þeir eru að sjá við góða heilsu en geta eigi að síður smitað aðra. Því er víst að tala smitaðra á eftir að verða langtum hærri en hún er núna.
Bandaríski landlæknirinn, C. E. Koop, segir: „Enginn fyrri sjúkdómur hefur samtímis verið jafndularfullur, jafnbanvænn og sýnt jafnmikinn viðnámsþrótt gegn meðferð og þróun bóluefnis.“ Hann bætir við: „Við kunnum enn enga lækningu og höfum ekki heldur bóluefni — og munum sennilega ekki hafa bóluefni til almennra nota fyrir aldamót. Það er engum blöðum um það að fletta að eyðni er banvæn og er að breiðast út.“ Dr. Koop sagði einnig: „Ég hef verið skurðlæknir í næstum 50 ár og ég hef aldrei séð slíka ógnun sem eyðni.“