Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.4. bls. 18-22
  • Fíkniefni — lífshættuleg efni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fíkniefni — lífshættuleg efni
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Glæpur án fórnarlamba?
  • Fíkniefni og glæpir
  • Hætta neytandans
  • Börnin þjást líka
  • Fíkniefni — er einhver von?
    Vaknið! – 1989
  • Fíkniefni — vandamálið vex
    Vaknið! – 1989
  • Af hverju neytir fólk fíkniefna?
    Vaknið! – 2001
  • Fíkniefni — hverjir neyta þeirra?
    Vaknið! – 2001
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.4. bls. 18-22

Fíkniefni — lífshættuleg efni

FÍKNIEFNI — efni sem hafa áhrif á skynjunina — hafa fylgt mannkyninu lengst af. Menn uppgötvuðu fljótt ýmis náttúrleg efni sem höfðu áhrif á taugakerfið: áfengi sem hjálpar þreyttum huga að slaka á, ópíumefni sem draga úr sársauka og eru svæfandi, kókalauf sem slævir skilningarvitin og eykur þol.

Áfengi hefur verið þekkt mjög lengi. Okkur er sagt í Biblíunni í 1. Mósebók 9:20, 21: „Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. Og hann drakk af víninu og varð drukkinn.“ Ópíum virðist hafa verið þekkt í Forn-Mesópótamíu og var, eftir heimildum að dæma, mikið notað í Forn-Grikklandi. Meskalín, tóbak, kókalauf og sóma hefur hvert gegnt sínu hlutverki í mannkynssögunni.

Fíkniefni hafa meira að segja átt sér sinn sess í bókmenntunum. Hómer segir frá undarlegri gleymsku sem kom yfir hluta af áhöfn Ódysseifs í landi lótusætanna. Hin kunna skáldsagnapersóna Sherlock Holmes sprautaði sig með 7 prósent kókaínlausn sem honum fannst „óviðjafnanlega örvandi fyrir hugann og gera hann skýrari“ — og það sjónarmið aðhylltist sálkönnuðurinn Sigmund Freud sem uppi var á Viktoríutímanum og var alls engin skáldsagnapersóna.

Menn komu fljótlega auga á læknisfræðilegt gildi fíkniefna en notkun þeirra takmarkaðist hvergi nærri við lækningar. Þau voru mikið notuð í sambandi við trúarathafnir og menn neyttu þeirra af því að þeim þóttu þau skerpa vitundina, magna tilfinningar og breyta hugarástandi. En þau gátu líka verið gífurlega skaðleg og valdið stórkostlegum þjóðfélagsvandamálum.

Athyglisvert er að fíkniefni, sem nú eru bönnuð með lögum, hafa ekki alltaf verið talin skaðleg heilsu manna og velferð. Á síðari helmingi 19. aldar var til dæmis sáraauðvelt að verða sér úti um kókaín, ópíum og heróín í Bandaríkjunum — og fullkomlega löglegt. Hver sem var gat keypt þau án lyfseðils í næstu lyfjaverslun. Sum voru mikið notuð í ýmsum sérlyfjum. Coca-cola innihélt kókaín í 17 ár þar til farið var að nota koffein í staðinn árið 1903.

Þjóðir, sem nú á dögum reyna að koma í veg fyrir verslun með fíkniefni, börðust einu sinni fyrir því að auka hana. Ópíumstríðin svonefndu — tvö verslunarstríð sem háð voru um miðbik 19. aldar þegar Kínverjar reyndu að stöðva ólöglega ópíumverslun þar í landi — enduðu með ósigri Kínverja sem voru þvingaðir til að lögleiða ópíuminnflutning.

Glæpur án fórnarlamba?

Þeir eru einnig til nú sem aðhyllast það að fíkniefni séu lögleidd. Þeir telja að með þeim hætti væri hægt að leysa mörg vandamál í tengslum við hina ólöglegu fíkniefnaverslun. Aðrir telja það einkamál hvers og eins hvort hann vilji neyta fíkniefna — þeir líta á það sem skaðlausa skemmtun. En er notkun fíkniefna „glæpur án fórnarlamba“ eins og sumir halda fram? Hugleiddu eftirfarandi frásögur:

● Natasha Ashley, 26 ára, stendur á gangstétt og er að tala við vinkonu sína í borgarhluta New Yorkborgar sem kallaður er Little Italy. Hún ber barn undir belti og er komin átta og hálfan mánuð á leið. Skyndilega hendist bifreið yfir kantsteinana, lendir á konunum, klemmir vinstri fótlegg Ashleyar upp að ljósastaur og margbrýtur hann frá kné og niður eftir. Vinkonan fótbrotnar einnig. Lögreglan finnur ökumanninn sljóan af fíkniefnaneyslu í bifreiðinni. Hann heldur á sprautu í hendinni. „Það lítur út eins og hann hafi tekið of stóran skammt við akstur,“ sagði læknir úr áhöfn sjúkrabílsins sem sinnti fórnarlömbunum.

● Michel Perkins varð aðeins tólf ára gamall. Hann lést í eldsvoða sem eyðilagði fjölbýlishúsið þar sem hann bjó. Lögreglan segir að fíkniefnasalar hafi kveikt í húsinu eftir að faðir Michaels kvartaði undan starfsemi þeirra í húsinu.

● Rosa Urena hafði ætlað sér að hefja háskólanám og gifta sig árið eftir. En það verður ekkert af því vegna þess að hún var særð til ólífis þar sem hún svaf í rúmi sínu. Byssukúla kom inn um gluggann hjá henni, fór í gegnum höfuðgaflinn á rúminu og í höfuð hennar. Fíkniefnasalar höfðu skotið á húsið, þar sem hún bjó, í bardaga um yfirráðasvæði.

● Sautján ára krakk-neytandi („krakk“ er sterkt kókaín) fer í ránsferð til að fjármagna fíkniefnakaup. Þegar hann er handtekinn átta dögum síðar er hann búinn að drepa fimm manns og særa sex til viðbótar. „Öll fórnarlömbin voru saklaust, útivinnandi fólk,“ segir yfirmaður rannsóknarlögreglunnar.

Hér hafa verið nefnd aðeins fáein dæmi af mörgum sem áttu sér stað í einni borg á síðasta ári. Atvikum af þessu tagi fjölgar ört.

Hve óhultan myndir þú telja þig úti í umferðinni ef þú vissir að ákveðinn hundraðshluti annarra ökumanna væri undir áhrifum fíkniefna sem skerti dómgreind þeirra og viðbragðshraða? Myndir þú varðveita hugarró þína er þú stigir upp í strætisvagn, flugvél eða járnbrautarlest, ef þú vissir að þeir sem bæru ábyrgð á öryggi þínu kynnu að vera undir áhrifum fíkniefna? „Þess eru nú þegar dæmi að flugmenn, lestarstjórar og flutningabifreiðarstjórar, framkvæmdastjórar, læknar, kennarar og aðrir í ábyrgðarstöðum hafi valdið hættu með því að vera í vímu við störf sín,“ segir í blaðinu Manchester Guardian Weekly.

Við rannsókn á alvarlegu lestarslysi í Mount Vernon í New Yorkríki ekki alls fyrir löngu kom í ljós að allir fimm stjórnendur lestarinnar voru undir áhrifum fíkniefna. Einn af stjórnendum ríkisjárnbrautanna, John H. Riley, sagði: „Síðastliðna 16 mánuði hefur að meðaltali verið eitt alvarlegt lestarslys á tíu daga fresti sem rekja má til áfengis eða fíkniefna, og 375 manns hafa farist eða slasast í þessum slysum. Í fimmta hverju járnbrautarslysi síðastliðinna tveggja ára hafa mælingar sýnt að starfsmenn hafa verið undir áhrifum fíkniefna, og 65 af hundraði dauðaslysa áttu sér stað er einn eða fleiri starfsmaður reyndist vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.“

Fíkniefni og glæpir

En fólk þarf ekki að vera farþegar almennra flutningatækja til að láta lífið vegna fíkniefna með einum eða öðrum hætti. Margir týna lífi á heimilum sínum eða götum úti. Fíkniefnaneytendur grípa gjarnan til afbrota til að fjármagna kostnaðarsaman ávana sinn — rána, líkamsárása og innbrota. „Í rannsókn á vegum dómsmálaráðuneytisins nýverið kom í ljós að heil 79 af hundraði ákærðra í sumum borgum eru fíkniefnaneytendur,“ segir U.S. News & World Report.

Þá eru skotbardagar tíðir milli hópa fíkniefnasala sem eiga í samkeppni og oft er gripið til hefndaraðgerða gegn þeim sem ekki standa í skilum með greiðslur. Saklaust fólk verður oft fyrir skotum. „Ef svo vill til að skotmarkið er í hópi með fjórum til fimm öðrum,“ segir embættismaður, „þá er það bara miður fyrir þessa fjóra til fimm aðra.“

Í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, D.C., voru framin 228 morð árið 1987 — þar af 57 af hundraði tengd fíkniefnum. Í New Yorkborg var framið 1691 morð, að meðaltali fjögur á dag. Yfir 38 af hundraði tengdust fíkniefnum. „Slökkviliðið í Oakland [í Kaliforníu] telur yfir 180 íkveikjur í borginni á síðasta ári [1987] stafa af stríði milli óaldarflokka fíkniefnasala og hefndaraðgerðum gegn viðskiptavinum, sem ekki standa í skilum, eða borgurum sem kvörtuðu opinberlega undan því að krakk, sem er sterkt afbrigði kókaíns, skuli selt fyrir opnum tjöldum,“ segir í frétt New York Times.

Þjóðfélagið í heild finnur fyrir áhrifum fíkniefnaneyslunnar — auknum glæpum og ofbeldi, minnkandi framleiðni, sorglegum slysum og spillingu — að ekki sé talað um kostnaðinn sem er þeim samfara. En það eru fíkniefnaneytendurnir sjálfir sem greiða hæsta gjaldið. Hvernig þá?

Hætta neytandans

„Fíkniefnaneysla er skaðleg. Hún getur eyðilagt hugann og drepið líkamann. Í einu orði sagt er hún heimskuleg,“ segir Malcolm Lawrence, fyrrum ráðgjafi utanríkisráðherra Bandaríkjanna í baráttunni gegn alþjóðaverslun með fíkniefni. En sumir stæra sig af því að þeir séu ekki háðir fíkniefnum og geti hætt hvenær sem þeir vilji. „Ég þekki fólk sem hefur tekið krakk nokkrum sinnum og síðan steinhætt því,“ segir framhaldsskólanemi.

„Að sjálfsögðu mun ekki hver einasti krakki sem tottar hassvindling eða drekkur sig fullan enda eins og ég,“ segir fyrrum fíkniefnaneytandi að nafni Ken Barun, en hann byrjaði á maríúana sextán ára gamall og fór síðan út í pillur, skynvillulyf, heróín og kókaín. Hann bjóst aldrei við að lifa fram til 25 ára aldurs. En margir verða háðir fíkniefnum og enginn veit hver það verður fyrr en um seinan.

Eitt af vandamálunum er það að fíkniefnin virðast ekki svo hættuleg í byrjun. Kókaín, sem er algengasta fíkniefnið þessa stundina, gefur mönnum í fyrstu þá tilfinningu að þeir séu sterkari og vökulli, eykur þeim sjálfstraust og gefur þá tilfinningu að þeir hafi betri stjórn á lífi sínu. Mönnum líður svo vel að þá langar til að reyna aftur og aftur. En smám saman fer mönnum að líða illa án kókaíns — þeir verða uppstökkir, ringlaðir, taugaóstyrkir og þunglyndir. Þeir þurfa meira. En tíðari notkun fylgir ánauð og ókjör annarra vandamála svo sem ofsóknarkennd, skynvillur og geðveiki.

Vísindamenn hafa uppgötvað að kókaín getur valdið varanlegum hjartaskaða og jafnvel hjartaáfalli. Len Bias, 22-ára bandarísk körfuboltastjarna sem dó úr hjartaslagi af völdum kókaíns árið 1986, er sagður hafa neytt þess aðeins einu sinni.

Krakk, sem er unnið úr kókaíni, er enn verra. „Krakk er sérlega hættulegt vegna þess að það er gífurlega vanabindandi og getur valdið alvarlegu heilsutjóni, andlega sem líkamlega,“ segir í tímaritinu Medical Aspects of Human Sexuality. Í sumum löndum er það auk þess ódýrt og auðfáanlegt og höfðar því sérstaklega til unglinga. Þess eru dæmi að neytendur hafi myrt foreldra sína og síðan svipt sig lífi.

Dauðsföllum af völdum kókaíns og skyndiinnlögnum á spítala fjölgaði verulega milli 1983 og 1986,“ segir í sérstakri skýrslu ríkisendurskoðunar Bandaríkjanna. Talnaskýslur frá DAWN (Drug Abuse Warning Network), teknar saman eftir upplýsingum frá spítölum og læknum er taka þátt í starfi samtakanna, sýna að skyndiinnlögnum á spítala af völdum þessa fíkniefnis fjölgaði um 167 prósent á þessu tímabili og dauðsföllum um 124 prósent.

Börnin þjást líka

Einhverjar sorglegustu afleiðingar fíkniefnaneyslu er það tjón sem börn verða fyrir. „Saga vanrækslu og illrar meðferðar á börnum í New Yorkborg árið 1987 helst í hendur við stóraukna fíkniefnaneyslu,“ segir í skýrslu nefndar undir stjórn Human Resources Administration. Skráð voru 46.713 tilfelli þar sem börn höfðu verið vanrækt eða þeim misþyrmt, og 103 barnanna dóu. Auk þess fæddust yfir 2500 börn árið 1987 með fráhvarfseinkenni vegna fíkniefna. Kókaínnotkun hefur í för með sér að fjöldamörg börn fæðast fyrir tímann og eru óeðlilega létt, því að kókaínið dregur úr blóðstreymi til legkökunnar og takmarkar súrefnis- og næringarefnaflutning til fóstursins.

Þá fæðast börn smituð af hinni hræðilegu eyðniveiru. Veiran getur borist með óhreinni sprautunál sem móðirin sprautar sig með og borist síðan frá móður til fósturs. Um síðustu áramót höfðu fæðst um 1000 eyðnismituð börn — aðeins í New York. „Við erum rétt byrjuð að sjá hörmungarnar,“ segir dr. Leonard Glass, forstöðumaður ungbarnadeildar Kings County Hospital Center. Þrjú til fjögur börn deyja úr eyðni á spítalanum í mánuði hverjum.

Í ljós þess hve hrikalegar afleiðingar fíkniefnanotkun hefur mætti ætla að heimurinn skæri upp herör gegn fíkniefnaversluninni og gerði út af við hana. En hvers vegna er hún í vexti? Er einhver von í sjónmáli?

[Rammi á blaðsíðu 20]

Nokkur algeng fíkniefni

Fíkniefni Hugsanleg áhrif Hætta við ofnotkun

Ópíum Sælukennd, sljóleiki, Öndunarerfiðleikar, Heróín sinnuleysi, ógleði krampi, dá, dauði

Barbitúröt Drafandi tal, áttavilla, Veikur og hraður

Svefnlyf stórar geðsveiflur, púls, öndunarerfiðleikar,

Valíum skert viðbragðshæfni. dá, dauði.

Kókaín Aukin árvekni og sjálfstraust, Tortryggni, afkáraleg

Krakk vellíðan, minnkuð matarlyst, hegðun, ofskynjanir,

Amfetamín áhyggjur. krampi, dauði.

LSD Ímyndanir, skynvillur, breytt Lengri og öflugri áhrif,

PCB skynjun tíma og rúms. afkáraleg og hættuleg

hegðun, geðveiki, dauði.

Hass Vellíðan, skert hömlun Þreyta, ruglingur,

Maríúana tilfinninga og hneigða, ofsóknarkennd, ef til

aukin matarlyst. vill geðveiki.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Hinir ófæddu — hjálparvana fórnarlömb fíkniefnaneyslu móðurinnar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila