Þess vegna gerði Jehóva bæði Kanverja og Ísraelsmenn landræka
MAÐUR sagði: „Ég hef unun af því að gagnrýna aðra — mér líður svo vel þegar ég geri það.“ Þeir sem hafa unun af því að gagnrýna Jehóva Guð hljóta þá að finna mjög til sín! Æðri biblíugagnrýnendur stimpla Jehóva oft sem blóðþyrstan stríðsguð Gyðinga. Klerkur einn fordæmdi hann sem lágkúrulegan yfirgangssegg. Þóttafullir gagnrýnendur réttlæta slíkar svívirðingar með því að vitna til þess er Jehóva gerði Kanverja ræka úr landi sínu til að gefa það Gyðingum.
Slík ásökun ber vott um stórkostlega fáfræði. Sem talsmaður Jehóva sagði Móse berum orðum hver ástæðan fyrir brottrekstri þeirra væri: „Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að [Jehóva] Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér.“ — 5. Mósebók 9:5.
Það var guðleysi Kanverja sem olli því að þeir voru gerðir landrækir. Biblíuhandbókin Halley’s Bible Handbook (endurskoðuð útgáfa) getur þess að Baal hafi verið aðalguð þeirra og Astarte, kona hans, aðalgyðja. Síðan segir: „Musteri Baals og Astarte stóðu venjulega hlið við hlið. Kvenprestar voru musterisvændiskonur. Kvenprestar og kynvilltir karlmenn stunduðu musterisvændi. Dýrkun Baals, Astarte og annarra guða Kanverja fólst í yfirgengilegu kynsvalli; musteri þeirra voru spillingabæli.“ — Bls. 166.
Í rústum einnar af þessum „fórnarhæðum“ frá tímum Kanverja fundu fornleifafræðingar „fjölda kerja sem innihéldu leifar barna er hafði verið fórnfært Baal. Allt svæðið reyndist vera grafreitur nýfæddra barna.“ Þar fannst einnig „gríðarlegt magn veggtaflna og líkneskja af Astarte með gróflega ýktum kynfærum, gerðar til að vekja upp fýsnir holdsins. Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum sem helgiathöfn; og síðan með því að myrða frumgetin börn sín að fórn handa þessum sömu guðum.“ — Bls. 166, 167.
Síðan spyr biblíuhandbókin: „Þurfum við að furða okkur á því lengur að Guð skyldi fyrirskipa Ísraelsmönnum að útrýma Kanverjum? Átti siðmenning er einkenndist af jafnviðurstyggilegum sora og grimmd sér nokkurn tilverurétt lengur? . . . Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“ — Bls. 167.
The Emphasised Bible, þýðing J. B. Rotherhams, segir á blaðsíðu 259: „Hver er þess umkominn að segja að Hinn hæsti hafi ekki rétt til að útrýma þeim sem menga jörðina og spilla mannkyninu svona?“
Jehóva sagði Ísraelsmönnum hvers vegna Kanverjum skyldi útrýmt: „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður. Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misjgörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.“ Síðan gaf hann Ísrael afdráttarlausa aðvörun: „Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.“ — 3. Mósebók 18:24-26; 20:22.
Boðskapurinn er skýr og greinilegur. Kanverjar voru reknir úr landi vegna þess að þeir menguðu það með grófu siðleysi sínu — hjúskaparbrotum, kynvillu og barnamorðum. Ef Ísraelsmenn hermdu eftir Baalsdýrkun Kanverja yrðu þeir einnig gerðir landrækir.
Og Ísraelsmenn hermdu eftir Kanverjum. Í jarðlögum frá þeim tíma er Ísraelsmenn byggðu landið fundu fornleifafræðingar rústir musteris Astarte, og „aðeins fáeinum skrefum frá musterinu var grafreitur þar sem fundust fjöldamargar krúsir með leifum ungbarna er fórnað hafði verið í þessu musteri . . . Spámenn Baals og Astarte voru opinberir ungbarnamorðingjar.“ — Halley’s Bible Handbook, bls. 198.
Lögmál Jehóva fyrir milligöngu Móse lagði blátt bann við slíkri siðspillingu. Þriðja Mósebók 20:13 sagði: „Leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða.“
Móselögmálið sagði enn fremur í 5. Mósebók 23:17, 18: „Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraelssona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði. Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald [New World Translation Reference Bible, neðanmáls: „Líklega átt við kynvilltan karlmann sem hefur mök, einkum við dreng.“] inn í hús [Jehóva] Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er [Jehóva] Guði þínum andstyggilegt.“
Jehóva sendi spámennina til að aðvara Ísrael: „Og [Jehóva] hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt.“ (Jeremía 25:4) Þess í stað gerðu Ísraelsmenn sér „fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré. Þeir menn voru og í landinu, er helguðu sig saurlifnaði. Þeir aðhöfðust alla þá sömu svívirðing, sem þær þjóðir frömdu, er [Jehóva] hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.“ — 1. Konungabók 14:23, 24.
Spámaðurinn Jesaja aðvaraði þá: „Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir. Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra [„þú einblíndir á völsa þeirra,“ [ímynd getnaðarlims],“ An American Translation].“ — Jesaja 57:7, 8.
Konur gerðu sér eftirmynd af getnaðarlim karlmanns og höfðu mök við eins og við lesum: „Þú . . . gjörðir þér karlmannslíkneski af og drýgðir hórdóm með þeim.“ (Esekíel 16:17) Eða, eins og An American Translation orðar það: „Sem þú lékst skækju með.“
Ísraelsmenn blönduðu saman sannri guðsdýrkun og falskri. Við rætur Sínaífjalls dýrkuðu þeir gullkálf og frömdu siðleysi, en um leið héldu þeir það sem kallað var „hátíð [Jehóva].“ (2. Mósebók 32:5, 6) Öldum síðar blönduðu þeir enn saman sannri guðsdýrkun og falskri. Spámaðurinn Elía fordæmdi þá fyrir það og sagði: „‚Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé [Jehóva] hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.‘ En lýðurinn svaraði honum engu orði.“ (1. Konungabók 18:21) Eftir að Manasse tók sinnaskiptum fjarlægði hann hin útlendu goð og færði Jehóva samfélags- og þakkarfórnir. En eins og 2. Kroníkubók 33:17 segir „færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins [Jehóva], Guði sínum.“
Um aldaraðir saurguðu Ísraelsmenn sanna tilbeiðslu á Jehóva með Baalsdýrkun og þverbrutu þær meginreglur sem Páll postuli varpaði síðar fram í spurnarformi: „Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð?“ (2. Korintubréf 6:16) Því fór svo að árið 740 f.o.t. fluttu Assýríumenn íbúa tíuættkvíslaríkisins Ísraels í útlegð, og árið 607 f.o.t. tóku Babýloníumenn Júdaríkið. Báðar þjóðir höfðu mengað landið eins og Kanverjar höfðu gert, og landið spjó báðum þjóðum eins og það hafði spúið Kanverjum.
En hvað um þjóðir nútímans? Eru kirkjur þeirra saurgaðar siðleysi? Menga þær landið? Verður þeim einnig spúið úr landinu?
[Innskot á blaðsíðu 6]
„Spámenn Baals og Astarte voru opinberir ungbarnamorðingjar.“
[Mynd á blaðsíðu 5]
Ungbarnaleifar grafnar í leirkerjum.
[Rétthafi]
Lawrence R. Steiger/Oriental Institute, University of Chicago.