Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.4. bls. 8-11
  • Óskeikulleiki og frumkristnir menn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Óskeikulleiki og frumkristnir menn
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hver er hinn dýrmæti hornsteinn?
  • Pétur — páfi eða aðeins postuli?
  • Hann var trúr í prófraunum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Höldum fast í dýrmæta trú okkar!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Hann lærði fyrirgefningu af meistaranum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Vaknið! – 1989
g89 8.4. bls. 8-11

Óskeikulleiki og frumkristnir menn

KENNINGIN um óskeikulleik páfa er nátengd kenningunni um að hann sé æðstur að völdum og virðingu. Enciclopedia Cattolica segir að „ritningargreinarnar, sem sýna fram á hátign páfa, beri einnig vitni um óskeikulleik hans.“ Máli sínu til stuðnings vitnar alfræðibókin í eftirfarandi vers þar sem Kristur talar til Péturs.

Matteus 16:18: „Þú ert Pétur og á þessum kletti mun ég byggja söfnuð minn.“ — Ísl. bi. 1912.

Lúkas 22:32: „Ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“

Jóhannes 21:15-17: „Gæt þú lamba minna.“ „Ver hirðir sauða minna.“ „Gæt þú sauða minna.“

Að sögn kaþólsku kirkjunnar eiga ofangreindir ritningarstaðir að sýna fram á eftirfarandi: Í fyrsta lagi að Pétur hafi verið „höfðingi postulanna,“ það er að segja talinn fremstur meðal þeirra; í öðru lagi að hann hafi verið óskeikull, og í þriðja lagi að hann myndi eiga sér „arftaka“ er nytu sömu forréttinda, það er væru fremstir og óskeikulir.

Giuseppe Alberigo, lektor í kirkjusögu, gefur þessar eftirtektarverðu athugasemdir: „Eins og kunnugt er kemur hvorki orðið ‚páfi‘ né ‚páfadómur‘ fyrir í Nýjatestamentinu. Eina persónan, sem mikið ber á, er Jesús frá Nasaret; meðal lærisveinanna, og þó einkum meðal postulanna, er afar erfitt að finna út frá textanum einn einstakling sem ber höfuð og herðar yfir alla hina. Pétur, Jóhannes, Jakob og Páll eru allir jafnáberandi og þýðingarmiklir, hver öðrum ólíkur, en til samans mynda þeir eina heild. Enginn vafi leikur á að Pétur er sá postulanna sem Kristur talaði oftast við, þótt hann sé ekki sá eini og ekki sá þýðingarmesti.“

Hverju trúðu frumkristnir menn? Alberigo svarar: „Á fyrstu öldunum var engin fastmótuð kenning eða söguleg orsakatengsl til varðandi stöðu eða starf páfans. . . . Möguleikinn á ‚episkopus episkoporum‘ [biskup biskupanna] var villukenning Kýpríanusar [ritara frá þriðju öld] eins og hann staðfesti á kirkjuþinginu í Karþagó.“

Hvenær festi kennisetningin um páfadæmið rætur? Prófessor Alberigo segir: „Undir lok fjórðu aldar verður kirkjan í Róm harðfylgnari í afstöðu sinni að hún gegni postullegu hlutverki, það er að segja því að samstilla vesturkirkjurnar.“ Það var „í biskupstíð Leós I [á fimmtu öld],“ bætir Alberigo við, að „hugmyndin um ‚höfðingdóm‘ Péturs meðal postulanna, byggð á Matteusi 16:18,“ kom fram. „Nýjatestamentið gefur enga vísbendingu frá Jesú um að Pétur eða einhver annar af postulunum hafi átt að eiga sér arftaka.“

En á kenningin um páfadæmið sér stuðning í Matteusi 16:18, versi sem kaþólskir guðfræðingar vísa hvað oftast til?

Hver er hinn dýrmæti hornsteinn?

„Þú ert Pétur [á grísku Petros] og á þessum kletti [á grísku petrai] mun ég byggja söfnuð minn.“ Eftir skilningi kaþólsku kirkjunnar má sjá að Pétur er kletturinn sem hin sanna kirkja eða kristni söfnuðurinn er byggður á, út frá því hve grísku orðin tvö eru lík. En Biblían hefur margt að segja um þennan táknræna stein eða klett og því er nauðsynlegt að skoða aðra ritningarstaði til að fá réttan skilning á málinu. — Matteus 16:18.

Mikilvægir spádómar í Hebresku ritningunum höfðu sagt fyrir að koma myndi táknrænn hornsteinn er gegna skyldi tvíþættu hlutverki. Hann átti að verða til frelsunar þeim sem iðkuðu trú: „Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.“ (Jesaja 28:16) Þótt þverstæðukennt sé átti það að vera steinn sem Ísraelsmenn, er ekki trúðu, myndu hnjóta um: „Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.“ (Sálmur 118:22) „Ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels.“ — Jesaja 8:14.

Gat venjulegur maður, til dæmis hinn fljóthuga Pétur, gegnt tvíþættu hlutverki þessa táknræna steins? (Matteus 26:33-35, 69-75; Markús 14:34-42) Hvern eigum við að trúa á til að hljóta hjálpræði, Pétur eða einhvern honum meiri? Hvor var það sem Ísraelsmennirnir hnutu um, Pétur eða Jesús? Ritningin gefur berlega til kynna að spádómarnir um hinn dýrlega stein hafi uppfyllst, ekki á Pétri, heldur á syni Guðs, Jesú Kristi. Það var Jesús sem heimfærði spádómana í Jesaja og Sálmi 118 á sjálfan sig, eins og lesa má í Matteusi 21:42-45.

Pétur leit sjálfur á Jesú, ekki sjálfan sig, sem hyrningarsteininn, eins og sjá má af 1. Pétursbréfi 2:4-8. Áður hafði Pétur staðfest, er hann talaði til trúarleiðtoga Gyðinga, að ‚Jesús Kristur frá Nasaret‘ væri „steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis,“ og bætti við: „Hann er orðinn hyrningarsteinn.“ — Postulasagan 4:10, 11.

Páll postuli var sama sinnis eins og sjá má til dæmis í Rómverjabréfinu 9:31-32, 1. Korintubréfi 10:4 og Efesusbréfinu 2:20. Síðastnefndi ritningarstaðurinn staðfestir að meðlimir kristna safnaðarins eru „bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.“ Hann er líka ‚höfuð safnaðarins‘ og leiðbeinir honum frá himnum. „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar,“ sagði Jesús. — Efesusbréfið 1:22; 5:23; Matteus 28:20; Kólossubréfið 1:18.

Pétur — páfi eða aðeins postuli?

Hvernig leiddi Jesús starf trúfastra fylgjenda sinna eftir að hann hafði stigið upp til himna? Tilnefndi hann einhvern þeirra sem „staðgengil“ sinn og gaf honum vald í líkingu við það sem páfinn hefur? Nei, hann kom ekki á eins konar einvaldsstjórn yfir söfnuðinum. Hann fól ráði eða hópi trúfastra þjóna gæslu hjarðarinnar. Í byrjun var kristna söfnuðinum stjórnað af postulunum tólf í heild, ásamt öldungunum í Jerúsalem.

Það voru postularnir tólf í heild sem ákváðu hvernig fullnægt skyldi efnislegum þörfum bágstaddra. (Postulasagan 6:1-6) Það voru líka postularnir tólf sem ákváðu hverjir skyldu sendir til Samverjanna eftir að þeir höfðu tekið við fagnaðarerindinu, og Pétur og Jóhannes urðu fyrir valinu. Við það tækifæri lítur engan veginn út fyrir að Pétur hafði tekið ákvarðanir á eigin spýtur — hann var einfaldlega einn þeirra sem postularnir „sendu.“ — Postulasagan 8:14.

Að síðustu var það á fundi í Jerúsalem nálægt árinu 49 að „postularnir og öldungarnir“ úrskurðuðu út frá Ritningunni að ekki væri nauðsynlegt að umskera menn af þjóðunum sem snúist hefðu til kristni. (Postulasagan 15:1-29) Af frásögunni var ljóst að það var ekki Pétur, heldur Jakob, hálfbróðir Jesú, sem stýrði fundi. Hann lauk meira að segja fundinum með þessum orðum: „Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs.“ (Postulasagan 15:19) Hefði Jakob getað talað um þetta sem ‚sína‘ afstöðu ef Pétur, sem var einnig viðstaddur, var fremstur að völdum og virðingu meðal postulanna?

Á þeim stöðum þar sem Páll postuli talar um hinar ýmsu þjónustugreinar er stuðluðu að uppbyggingu safnaðarins minntist hann hvergi á kennsluvald páfa en talar aftur á móti um sameinaða þjónustu allra postulanna. — 1. Korintubréf 12:28; Efesusbréfið 4:11, 12.

Vegna kostgæfni sinnar og frumkvæðis gegndi Pétur vafalaust „þýðingarmiklu“ hlutverki eins og Alberigo segir. Jesús fékk honum „lykla himnaríkis.“ (Matteus 16:19) Hann notaði þessa táknrænu lykla til að opna Gyðingum, Samverjum og heiðingjum tækifærið til að ganga inn í himnaríki. (Postulasagan 2:14-40; 8:14-17; 10:24-48) Honum var líka veitt sú ábyrgð að ‚binda‘ og ‚leysa‘ en það verk vann hann með hinum postulunum. (Matteus 16:19; 18:18, 19) Hann átti að verða hirðir kristna safnaðarins en það er skylda sérhvers kristins umsjónarmanns. — Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2.

En það voru fleiri en Pétur postuli sem skáru sig úr vegna kristinnar þjónustu sinnar. Páll talaði um þá „sem álitnir voru máttarstólparnir“ í söfnuðinum og átti þá við „Jakob, Kefas [Pétur] og Jóhannes.“ (Galatabréfið 2:2, 9) Jakob, hálfbróðir Jesú, gegndi sérlega þýðingarmiklu hlutverki. Eins og áður er getið stýrði hann postulafundinum í Jerúsalem, og aðrar frásagnir staðfesta að hann gegndi ýmsum þýðingarmiklum verkefnum. — Postulasagan 12:17; 21:18-25; Galatabréfið 2:12.

Guð fól trúföstum lærisveinum Jesú mikið vald í hendur, meðal annars vald til að vinna kraftaverk. En hvergi lesum við að hann hafi gert þá færa um að mæla fram óskeikul sannindi. Þótt Pétur væri trúfastur urðu honum á mistök. Jesús áminnti hann og einu sinni Páll postuli í annarra áheyrn. — Matteus 16:21-23; 26:31-34; Galatabréfið 2:11-14.

Aðeins Ritningin er óskeikul enda er hún orð Guðs. Pétur talaði um „hið spámannlega orð“ sem okkur ber að gefa gaum að eins og skínandi ljósi. (2. Pétursbréf 1:19-21) Ef við ætlum að þekkja vilja Guðs verðum við að bera fullt traust til „lifandi“ orðs hans. (Hebreabréfið 4:12) Aðeins orð Guðs, ekki tvíræðar eða óljósar skýringar trúarleiðtoga, veita mannkyninu þá fullvissu sem það þarfnast svo mjög. Nú á okkar dögum notar Kristur Jesús einnig hóp þjóna sinna sem eru að vísu skeikulir en hins vegar trúfastir, og þeir eru sem hópur nefndir hinn „trúi og hyggni þjónn.“ — Matteus 24:45-47.

Hverjir mynda þennan táknræna þjón á jörðinni núna? Rækilegt nám í Biblíunni getur hjálpað þér að bera kennsl á þá. Vottar Jehóva munu fúslega verða þér að liði við námið.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hvor var hornsteinninn? Kristur sem var trúfastur eða Pétur sem afneitaði honum þrisvar?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila