Á ég að bæla niður hnerrann?
VIÐ höfum öll gert örvæntingarfullar tilraunir til að bæla niður hnerra. Kannski var það við brúðkaupsathöfnina þegar við vorum rétt í þann mund að gefa hjúskaparheitið. Kannski var það við annað alvarlegt tækifæri, jafnvel við jarðarför.
Að sjálfsögðu er hraustlegur hnerri stundum hinn ánægjulegasti og honum fylgir þægileg tilfinning. Oft eigum við þó í vandræðum með að fara rétt með hnerra á óþægilegum augnablikum.
Hnerrar eru af mörgum gerðum og stærðum. Sumir hnerra svo hátt að það heyrist í þeim langar leiðir, aðrir hnerra lágt og hógværlega. Stundum koma hnerrarnir margir í röð: þrír, fjórir, fimm eða fleiri. Í afar sjaldgæfum tilvikum hafa menn hnerrað á nokkurra sekúndna eða mínútna millibili í nokkrar klukkustundir, eða þá allar vökustundir svo dögum, vikum eða jafnvel mánuðum skiptir.
Hvers vegna hnerrum við? Er nokkur örugg leið til að bæla niður hnerra? Getur það verið skaðlegt að kæfa hnerra þegar keðjuverkunin er hafin? Er hægt að koma með öllu í veg fyrir hnerra?
Hvers vegna hnerrum við?
Allir virðast hnerra af og til — jafnt ungir sem gamlir, börn sem fullorðnir. Jafnvel dýr hnerra stundum. Í flestum tilvikum stafar hnerrinn af utanaðkomandi ertingu (svo sem ryki eða frjókorni) í slímhimnu nefgangnanna. En hnerrakast getur líka brotist út af tilfinningalegum orsökum. Sumir hnerra jafnvel af björtu sólarljósi. Það stafar af því að augntaugarnar eru nátengdar taugaendum í nefinu.
Er næmir taugaendar nema ertingu í nefgöngunum eru send boð um það til heilans sem skipar nefinu að mynda þunnfljótandi vökva til að fjarlægja þennan aðskotahlut. Þá sendir heilinn lungunum boð um að fyllast lofti, síðan raddböndunum um að loka fyrir loftstreymið þannig að loftið sleppi ekki út. Brjóstkassa- og kviðvöðvum er sagt að herpast og þjappa saman loftinu í lungunum. Loks er raddböndunum skipað að slakna og hið samanþjappaða loft brýst út og hrífur oftast með sér aðskotahlutinn ásamt vökvanum í nefgöngunum. Allt gerist þetta ósjálfrátt og miklum mun fljótar en það tekur að lesa lýsinguna.
Í flestum tilvikum er stöðugur hnerri merki um frjókornaofnæmi, stundum nefnt heymæði. Þetta er mjög algengt ofnæmi sem stafar af ertingu er frjókorn jurta valda. Ofnæmið stafar alls ekki alltaf af heyi eða nýslegnu grasi eins og ætla mætti af nafninu heymæði. Menn geta haft ofnæmi fyrir frjókornum fjölmarga jurtategunda eða jafnvel aðeins einnar. Það er því skiljanlegt hvers vegna sumir óttast eins og pestina þurra vinda sem blása dögum saman um þroskatíma plantnanna. Þegar slímhimna nefgangnanna er orðin þrútin og hnerrinn byrjaður getur smæsta rykögn, sem myndi ekki valda neinni ertingu undir eðlilegum kringumstæðum, hleypt af stað nýju hnerrakasti.
Taktu tillit til annarra
Þegar nefgöngin eru stífluð af kvefi getur það verið nokkur léttir að hnerra. Öndunin verður auðveldari þegar slími er blásið úr nefgöngunum með þessum hætti. En hvaða áhrif hefur það á annað fólk í grenndinni ef ekki er haldið fyrir nef og munn þegar hnerrað er?
Læknar telja sig ekki enn skilja til fullnustu allar smitunarleiðir kvefs. Margt bendir þó til að hægt sé að smitast af kvefi með því að anda að sér sýklum sem borist hafa út í andrúmsloftið við það að einhver hnerraði, ekki síst í hlýju, lokuðu herbergi eða yfirfullri lest eða strætisvagni þar sem ferskt loft er af skornum skammti. Talið er að aðrir sjúkdómar, svo sem inflúensa, mislingar, hettusótt, lungnabólga, berklar og kíghósti, geti borist með hnerra.
Sumar rannsóknir á útblásturshraða lofts við hnerra gefa til kynna að vökvadropum með sýklum í sé blásið út um nef og munn á meira en 150 kílómetra hraða miðað við klukkustund og geti loðað við fleti í allt að fjögurra metra fjarlægð. Aðrir smádropar liggja í loftinu um stund og grunlausir vegfarendur geta andað þeim að sér.
Er hægt að kæfa hnerra?
Margar aðferðir hafa verið reyndar með misjöfnum árangri. Sumir fullyrða að þeir hafi getað stöðvað eða stytt „sprenginguna“ með því að þrýsta fingri fast á efri vörina, rétt fyrir neðan nefið. Sagt er að með þeim hætti sé hægt að loka fyrir sumar af taugunum sem eiga hlut að hnerraviðbrögðunum. Aðrir telja það gott ráð að snýta sér um leið og þeir finna að hnerrinn er á leiðinni.
Ef um er að ræða langvarandi hnerraköst eða óstöðvandi hnerra geta innöndunarlyf stundum verið til hjálpar, eða jafnvel heit vatnsgufa. Það kann að vera skýringin á hvers vegna mörgum frjókornaofnæmissjúklingum líður betur um stund meðan þeir fara í heitt steypibað eða kerlaug í rakamettuðu herbergi.
Ýmsum hugmyndum hefur verið slegið fram gegnum árin, sumum skynsamlegum, öðrum fáránlegum. Deyfandi krem, sem borin eru í innanverð nefgöngin, hafa verið reynd með nokkrum árangri. Þá hafa verið reynd róandi lyf, sprautur, dropar, töflur, heilsulyf, sállækningar, að brenna slímhimnu nefsins, og lykta af hvítlauk eða piparrót. Af hinum fáránlegri hugmyndum má nefna það að setja tauklemmu á nefið, standa á höfði, þylja stafrófið aftur á bak eða nudda andlitið með svínafeiti.
Örlítil varnaðarorð: Það er ekki alltaf góð hugmynd að bæla niður eða kæfa hnerra. Vitað er að það getur valdið blóðnösum að kæfa kröftugan hnerra, og eins getur það sent skaðlegar bakteríur upp í afholurnar sem gæti valdið útbreiddari sýkingu. Í sjaldgæfum tilvikum hafa beinin í og umhverfis nefið brotnað og bein í miðeyranu færst úr stað.
„Guð hjálpi þér!“
Í mörgum löndum er siður að nærstaddir segi: „Guð hjálpi þér!“ eða eitthvað hliðstætt við þann sem hnerrar. Hvaðan er sá siður kominn?
Að sögn bókarinnar How Did It Begin? eftir R. Brasch trúðu sumir fornmenn að maður stæði við dauðans dyr ef hann hnerraði. Brasch bætir við: „Þessi ótti byggðist á útbreiddri ranghugmynd. Líf mannsins var talið fólgið í sálinni. Dauðir menn önduðu aldrei og því drógu menn þá röngu ályktun að sálin hlyti að anda. . . . Það vekur því ekki furðu að menn hafi frá fornu fari haft nokkurn beyg af hnerra og beðið Guð ákaft að hjálpa þeim sem hnerraði og varðveita hann lífs. Einhvern tíma á miðöldum hlýtur þessi uppruni siðvenjunnar að hafa gleymst, því að Gregoríusi páfa mikla var eignaður heiðurinn að því að hafa fundið upp á að biðja Guð að blessa hvern þann er hnerraði.“
Mundu eftir vasaklútnum
Það kemur þér kannski á óvart að hnerri hefur verið notaður í glæpsamlegum tilgangi. Já, enskir þjófar fundu upp á því fyrir um það bil einni öld að sitja fyrir mönnum og kasta neftóbaki framan í þá. Fórnarlambið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og fékk ákaft hnerrakast. Þjófarnir notfærðu sér það og rændu manninn á meðan.
Fá okkar eiga yfir höfði sér að fá neftóbaksgusu í andlitið og vera gripin hnerrakasti af þeim sökum. En hvort heldur um er að ræða einn hnerra eða langvinnt hnerrakast mun tillitssamur maður alltaf bera vasaklút eða sterka andlitsþurrku fyrir vit sér. Bæði er það merki góðra mannasiða og skynsamleg varúðarráðstöfun. Það kemur í veg fyrir að hinn hnerrandi maður úði í kringum sig smádropum með sýklum í sem liggja svo í loftinu og bíða grunlausra fórnalamba. Náungakærleikur fær okkur til að reyna að vernda aðra fyrir sjúkdómum með því að gera hvaðeina sem við getum til að hefta útbreiðslu sýkla.
Það er kannski ekkert viturlegt, og ef til vill ekki einu sinni gerlegt að bæla niður hnerra, en aðrir munu meta mikils tillitssemi þína ef þú bregður vasaklút fyrir vit þér — og hnerrar í hann!